Eyrarhraunsbrunnur – Kaldadý

Vatn

Farið var með heimildarmanni, Jóni Péturssyni frá Eyrarhrauni, að Kaldadý, sem vera átti upp af og til hliðar við hús nr. 53a við Suðurgötu.

Kaldadý

Kaldadý – steypt brunnlok.

Kaldadý er merkileg fyrir það að hafa verið fyrsta neysluvatnsveita Hafnfirðinga. Hún var „virkjuð“ um 1904 og þá af einkaaðilum undir heitinu Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið lét grafa brunninn og lögðu frá honum pípur vestur eftir bænum. Hér mun hafa verið um að ræða ein fyrstu vatnsveitu á landinu, sem í ár verður aldargömul. Vatnsveita Hafnarfjarðar keypti síðan holuna er byrjað var að reyna að leiða vatn úr Kaldárbotnum og sækja vatnið í Lækjarbotna.

Kaldadý

Kaldadý árið 2022.

Til langs tíma mátti sjá leifar Kaldadýjar. Steypt var ferningslaga þró umhverfis hana og bárujárnsplata sett yfir. Loks var holan fyllt upp til að minnka líkur á að einhver færi sér að voða í holunni. Nú stendur bílskúrinn að Suðurgötu 53a yfir Kaldadý. Tekinn var GPS-punktur.
Fólk sótti vatn í brunnholur og jafnvel í Lækinn. Það þótti hins vegar ekki gott vatn – mórautt. Einn góður brunnur var skammt frá Selvogsgötu, sem kallaður var Góðhola. Nú er búið að steypa hús á henni.
Haldið var út að Eyrarhrauni á Mölum. Hafnarfjarðarbær er nýbúinn að kaupa húsið, sem var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, og verður það rifið næstu daga. Umhverfis eru miklir grjótgarðar.

Eyrarhraunsbrunnur

Eyrarhraunsbrunnur. Jón Pétursson.

Framan við húsið er Eyrarhraunsvarðan. Á hana er markaður bókstafurinn E til minningar um Engeljón Sigurjónsson er byggði húsið upphaflega. Varðan, sem stendur á hraunhól, var hlaðin af Engeljóni, en hefur nú verið klædd steinsteypu.

Genginn var brunnstígurinn að brunninum í hraunhvilft norðan við bæinn. Hann var fallega hlaðinn – um þriggja metra djúpur. Fyllt var upp í hann með grjóti svo enginn færi sér þar að voða. Mosagróið er yfir grjótið. Auðvelt væri að fjarlægja það og opinbera brunninn. Tekinn var GPS-punktur og mynd af brunnstæðinu.

Allians

Allians-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Í kringum Eyrarhraun eru fallega hlaðnir garðar. Þar er og nafnlaus skúti, sem reyndist ungum uppalingum notadrjúgur fyrrum.
Nefndir voru nálægir fiskreitir, s.s. Allians reiturinn þar sem nú er nýbygging Hrafnistu (var mokað burt á einum degi fyrir skömmu). Á bakkanum voru hlaðnir garðar og eftir þeim gengu vagnar á teinum. Hefur líklega verið fögur sjón á þeim tíma.

Kaldadý

Kaldadý var aftan við þennan skúr við Suðurgötu.