Eyrarkotsbakki – skilti
Í Vogum, skammt norðan við Stóru-Voga, er fróðleiksskilti á Eyrarkotsbakka. Á því er eftirfarandi texti:
Útgerðarfélag Vatnsleysustrandar
Í fjörunni má sjá leifar af Gömlubryggju sem reist var að tilstuðlan Útgerðarfélags Vatnsleysustrandar sem stofnað var 1930. Ástæðan fyrir stofnun félagsins var breytt atvinnuástand í hreppnum í kjölfar þjóðfélagsbreytinga. Ungir menn réðu sig frekar á togara úr öðrum héruðum en opin skip heimamanna.
Markmið Útgerðarfélagsins var aðs tulða að atvinnuppbyggingu. Allt varð að byggja frá grunni, báta, bryggju og fiskverkunarhús (Braggann). Samið var um smíði tveggja 22 tonna báta í Danmörki sem fengu nöfnin Huginn og Muninn. Því næst var ráðist í smíði bryggju og fiskverkunarhúss. Bryggjan var 84 m löng og 3 m breið timburbryggja sem fór að mestu á þurrt um stórstraumsfjöru. Fiskverkunarhúsið var ein hæð með risi. Niðri var aðstða fyrir bátana, gert að fiski, saltað og beitt. Í risinu var verbúð og mötuneyti fyrir þá sem á þurftu að halda.
Mikið var lagt í kostnað við uppbygginguna. Heimskreppa skall á 1931, fiskverð hrundi á mörkuðum auk þess sem áföll dundu yfir. Útgerðarfélagið komst í greiðsluþrot árið 1935 og var leyst upp. Sigurjón J. Waage frá Stóru-Vogum keypti bryggjuna, húsið og annan vélbátinn, Huginn. Hann lét setja nýja vél í bátinn og gaf honum annað nafn, Jón Dan, eftir langafa sínu, Jóni Daníelssyni sem miklar hreystisögur fóru af. Sigurjón rak útgerðina til dánardægurs árið 1944.
Þrátt fyrir stutta starfsemi félagsins er það talið hafa verið gæfuspor fyrir byggðina. Það veitti mörgum atvinnu og stöðvaði með því flóttann úr hreppnum.