Ferð til Krýsuvíkur – Þórður Jónsson
Eftirfarandi frásögn Þórðar Jónssonar frá Eyrarbakka um „Ferð til Krýsuvíkur“ birtist í Heimilisblaðinu árið 1945:
„Ég hafði margheitið því að fara til Krýsuvíkur undir eins og þangað væri komin bílfær vegur.
Hinn nýi Krýsuvíkurvegur er einhver fallegasti og bezt gerði vegur, sem ég hef séð. Að þeirri vegabyggingu hafa áreiðanlega unnið þeir menn, sem verkinu voru vaxnir. Vegkantar og uppfylling á jafn ósléttu landi eru snilldarverk. Það er ekki sök þeirra, sem hlaðið hafa þennan fallega veg, þótt hann sé með sama miðaldalaginu og aðrir vegir sem lagðir hafa verið á landi hér síðustu áratugina, að engin leið er nútíma flutningatækjum að mætast á þeim nema á vissum stöðum — útskotunum svonefndum — þar sem hve verður að bíða eftir öðrum. Sjá allir, hvers ramgallað slíkt fyrirkomulag er. Það er skiljanlegt, að allt á þetta að vera til sparnaðar. En það vita þeir, sem við veglagningar hafa unnið, að vegkantarnir eru víðast hvar langdýrasti hluti vegarins, en minnstu munar, ef efni til uppfyllingar til staðarins, hvort vegurinn er nokkrum sentimetrum breiðari.
Þetta fyrirkomulag á hinum nýju vegum sem hér er drepið á, er áreiðanlega vafasöm búhyggindi. Næstu kynslóðir munu ekki sætta sig við svona vegi með sífellt stækkandi flutningatæki, og endirinn verður að óhjákvæmilegt verður að endurbyggja alla þessa vegi, og það jafnvel áður en langt um líður.
Það er ekkert undarlegt, þótt mönnum verði tíðrætt um Krýsuvík. Mönnum er ljóst að Krýsuvík á sína sögu engu síður en aðrir landshlutar þessa lands. Þar sem bæirnir hafa staðið, sjást tóftarbrot hálf- og alfallin, og eru nú grasi vaxin. Aðeins kirkjan er eftir og sætir furðu, að hún skuli hafa staðið af sér alla storma eyðileggingarinnar. Að kirkjunni vík ég síðar.
Eins og kunnugt er, hefur einn maður af síðustu kynslóð Krýsuvíkurbyggðar aldrei yfirgefið þetta byggðarlag. Hann virðist hafa verið bundinn þessu byggðarlagi órjúfandi böndum tryggðar og vináttu. Þessi aldraði merkismaður heitir Magnús Ólafsson. Hann er nú — að mig minnir — 73 ára að aldri og hefur átt heima í Krýsuvík óslitið í 55 ár að undanteknum nokkrum vikum úr sumum þessum árum. Eftir að öll hús byggðarinnar voru fallin og rifin flutti hann sig í gömlu kirkjuna og hefur búið þar síðan, og má vel vera að sú sé orsökin, að kirkjan hefur ekki hlotið sömu örlög og önnur hús á þessum stað.
Þarna vorum við félagar þá komnir heim á hið forna höfðingjasetur Krýsuvík eftir röskan klukkustundar akstur frá Reykjavík, það sem áður var margra klukkustunda ferð. Nei, það var engin lygi, að það væri búið að færa þessa sveit nær menningunni.
Úti fyrir kirkjudyrum sat hinn aldraði húsbóndi og tók,mjög vingjarnlega kveðju okkar ferðalanganna. Ég fór að telja á fingrum mér hve mörg ár væru nú liðin síðan ég kom þarna síðast, síðan í febrúar 1896 (ég var þá á sextánda ári). Vildi þá útkoman verða nálægt fjörutíu og níu og hálft ár. Jú, það skeður nú margt á skemmri tíma. Mér varð hugsað til þessarar fyrri komu minnar samanborið við þessa komu mína á þennan stað. Nú var sólbjartur sumardagur, en þá hörku norðanbylur og snjór í hné eða meir. Ég strákhnokki með allan minn veraldarauð í strigapoka á bakinu og að auki rúma krónu í buddunni sem farareyri og gat naumast staðið uppréttur undir þeim ofurþunga. En hvernig voru nú ástæðurnar? Bezt að koma öllum þessum reikningum á hreint. Nú var ég þó létt klæddur með hendur í vösum, en annað setzt á bak mér engu léttara en pokinn í fyrri daga. Gamla konan Elli var nú farin að gerast áleitin en frábitin öllum ástaratlotum og lagaskilnaði, og þó ekki um annað að gera en lúta valdi hennar — gömlu konunnar. Þegar öllu var á botninn hvolft var þá líklega pokinn með tilheyrandi öllu viðkunnanlegri en slíkt konuríki. Að öllu þessu fljótlega athuguðu settist ég hjá gamla manninum við kirkjudyrnar og tók að spyrja hann spjörunum úr. Mér varð fljótt ljóst, að þarna var maður, sem vert var að kynnast og tala við, bráðgreindur maður og alúðlegur, sem þekkti sögu þessarar sveitar langt aftur í tímann eins og fingur sína. Það hefði vissulega verið gaman og gagnlegt að mega tala við Magnús í ró og næði og jafnvel ferðast með honum þarna um nágrennið.
En tími okkar félaga var naumur og nokkuð áliðið dags. Ég labbaði um kirkjugarðinn með Magnúsi. Hann benti mér á leiði, sem hann sagði, að síðast hefði verið jarðað í. Austan undir kirkjugaflinum varð mér starsýnt á eitt leiði sökum þess að það var eina leiðið í kirkjugarðinum, sem á var lítilsháttar minnismerki. Er það þó ekki annað en trégirðing komin að falli. Magnús sagði mér, að þarna væri jarðaður Árni sýslumaður Gíslason, en hann bjó í Krýsuvík um nokkurra ára skeið, sem kunnugt er, og var hann þar húsbóndi, er mig bar að garði, sem fyrr segir.
Og nutum við, ég og félagar mínir, hinnar mestu gestrisni og höfðingsskapar, sem Árni sýslumaður var kunnur fyrir á sinni tíð. Svona eru örlögin. Nú var ég allt í einu staddur við legstað míns forna gestgjafa og ég hörfaði skref aftur á bak. Þarna mátti ég ekki stíga með skó á fótum á jafn helgan stað og bæla græna grasið umhverfis leiðið hans, ef til vill raskaði ég með því grafarró hins mæta manns.
Ég bað Magnús að lofa okkur að sjá kirkjuna, sem nú er íbúðarhús hans, og var það auðsótt. Þarna var þá rúm hans við austurgafl framan verðan. Það var þá ekki annað en húsgaflinn, sem aðskildi höfðalagið og leiði hans forna húsbónda, Árna sýslumanns. Það er ekkert ýkja langt frá veruleikanum, að þar hvíli húsbóndinn og þjónninn við sama höfðalagið, þótt annar sé lífs en hinn liðinn. Sjaldgæft er þetta, en Magnús hefur tekið ástfóstri við kirkju og kirkjugarðinn og allt annað í Krýsuvík.
Mér er í barnsminni, að ég heyrði talað um hinn stórbrotna búferlaflutning Árna sýslumanns austan frá Kirkjubæjarklaustri og til Krýsuvíkur. Hann var sýslumaður Skaftfellinga og bjó stórbúi á Kirkjubæjarklaustri.
Það má nærri geta að slíkir búferlaflutningur á þeirri tíð var engum heiglum hent öll þessi vegalengd og allar þær stórár, og allt varð að flytja á hestum (á klökkum) sundleggja hestana og ferja á smábát allan farangur yfir stórvötnin. Hvernig mundi nú tímakynslóðinni geðjast að slíkum vinnubrögðum?
Ég heyrði talað um, að sauðfé Árna sýslumanns hefði verið um 1200 talsins, er hann fluttist að Krýsuvík. Ef það væri satt, hafa eflaust ekki margir bændur á Íslandi verið fjárfleiri en hann á þeirri tíð.
Mér er sagt, að nú sé Hafnarjarðarbær eigandi Krýsuvíkur. Er það vel farið, að það land lenti hjá því bæjarfélagi, úr því að íslenzka ríkið var ekki svo framtakssamt að eignast það. Það er sagt að Hafnfirðingar hafi í huga stór áform í Krýsuvík, enda eru þar margbrotnir ræktunarmöguleikar. Hafnfirðingar eru líka allra mannna líklegastir til þess að bæta þessum eyðijörðum í Krýsuvík upp giftuleysi liðinna ára.
Ég get ekki lokið svo við þessar hugleiðingar mínar um Krýsuvík, að ég minnist ekki ofurlítið frekar á kirkjuna og kirkjugarðinn þar. Kirkjan þar og kirkjugarðurinn eru í mínum augum helgir dómar, og þessa helgu dóma má með engu móti eyðileggja. Kirkjugarðinn verður að girða og breyta í trjá- og skrúðgarð og vanda þar allt til sem bezt. Kirkjuna verður að byggja að nýju í sama formi og hún er, og á sama stað.
Kirkjan á „sjálf víst ekki grænan eyri til endurbyggingar, en hvað munar menn og ríkið um slíka smámuni? Það er verið reisa úr rústum gamlar kofarústir inn um alla afrétti og við skömmum liðnar kynslóðir fyrir trassaskap og vanrækslu í meðferð verðmæta – sem við köllum svo — hví skilum við þá á þessari mennta- og menningaröld fara að eyðileggja allar menjar um forna frægð Krýsuvíkur? Ég á vont með að trúa því, að nokkur Íslendingur nú á tímum væri svo auðvirðilega nískur að telja eftir nokkrar krónur til endurbyggingar á kirkjunni í Krýsuvík, þótt sú kirkja yrði aldrei notuð til messugjörða. Það er heldur vissulega ekki meining mín.
Að endingu þetta: Það verður líka að byggja sómasamlegt hús í Krýsuvík handa hinum aldraða Magnúsi Ólafssyni, ef hann æskir þess að fá að vera þar það sem eftir er lífdaganna, gamla manninum, sem sýnt hefur þessu plássi hina frábæru tryggð.
Ég þakka svo Magnúsi Ólafssyni fyrir vinarþel og kurteisi og ef til vill á ég eftir að hitta hann aftur í Krýsuvík, mér til ánægju og fróðleiks.“
Heimild:
-Heimilisblaðið 34. árg., 9.-10. tbl. 1945, bls. 172-174 og 193.