Fiskaklettur

Fiskaklettur

Fiskaklettur hefu skipað mikilvægan sess í sögu Hafnarfjarðar frá upphafi byggðar. Áður var hann útvörður hraunsins í Hafnarfirði, skagaði út í sjó, en nú er hann upp úr landfyllingu og því á þurru landi.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022.

Fiskaklettur var lengi eins konar útvörður Hafnarfjarðar, á meðan bærinn var lítill kaupmannsbær. Mjög aðdjúpt var við klettinn og fiskigöngur áttu það til að lóna við hann og því var hann kjörinn veiðistaður. Þaðan er nafnið dregið.
Fiskaklettur er merktur inn í uppdrátt, sem gerður var eftir mælingum sjóliðsforningjans H.E. Minor frá árunum 1776-78. Á uppdrættinum eru merkt inn þau fáu hús, sem stóðu við Hafnarfjörð ásamt þeim kennileitum, sem markverðust þóttu. Fiskaklettur er þar sýndur rétt vestan við verslunarhúsin í Akurgerði.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2024.

Þegar stjórnvöld ákváðu að reisa tvo vita í Hafnarfirði árið 1900 var annar þeirra byggður hátt uppi á hraunbrúninni, þar sem Vitastígur er nú, en hinn vitinn var settur niður vestur með sjó. Síðar, þegar Fríkirkjan var risin, skyggði hún á vitann á hraunbrúninni. Þess vegna var ákveðið að stækka efri vitann og færa þann neðri innar í fjörðinn. Var vitinn endurreistur á Fiskakletti eftir 1913, en þar stóð hann til ársins 1931 þegar hann var rifinn.
Á árunum eftir 1960 var gamla hafskipsbryggjan, sem var sú fyrsta á landinu (tekin í notkun árið 1913), endurbætt og stækkuð. Hún var rétt innan við Fiskaklett. Gerð var landfylling í áttina að Norðurgarði og komst þá Fiskklettur smám saman á þurrt. En þrátt fyrir hafnargerð og byggingu fiskverkunarhúsa var Fiskakletti jafnan hlíft, enda talinn náttúrulegur minnisvarði, sem bæri að vernda.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess – samsett mynd.

Í rauninni var Fiskaklettur friðaður óvart. Hafnfirðingar báru virðingu fyrir klettinum. Fyrir einhverjum árum fór Fiskaklettur svo inn á deiliskipulag sem friðaður staður og því líklegt að hann fái að standa enn um sinn. Hann mun verða inni á milli húsa í nýju íbúðarhverfi, sem þarna á að rísa.
Fegrunarnefnd Hafnarfjarðar merkti Fiskaklett árið 1981 og lét setja á hann koparskjöld, sem á stendur: „Þetta er Fiskaklettur, einn af framvörðum hafnfirska hraunsins, sem mikil fiskimið voru við hér fyrr á árum“.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2005.