Fiskbyrgi við Ísólfsskála

Nótarhóll

Í skýrslu Minjastofnunar um „Eldsumbrot á Reykjanesskaga. Minjar í hættur og viðbrögð Minjastofnunar við náttúruvá„, má lesa eftirfarandi um fiskbyrgi og -garða við Nótarhól suðaustan Ísólfsskála:

Skýrsla Minjastofnunar„Í landi Ísólfsskála er að finna fjölmörg fiskbyrgi og herslugarða suðaustur af núverandi bæjarstæði, í Skollahrauni. Hraunið er talið vera allt að 1900-2400 ára gamalt11 og eru byrgin og garðarnir hlaðnir upp með hraungrýti. Lítið er til af rituðum heimildum um þessar minjar, en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur þó fram að heimræði hafi verið á jörðinni og að landeigandinn, Skálholtsstóll, hafi gert þaðan út eitt skip (áttæring) og að sjóbúð í eigu stólsins hafi verið á „lóð jarðarinnar“ sem nýtt hafi verið af áhöfn skipsins á vertíðum. Þar kemur einnig fram að sjóbúðin, eða „sjómannabúðin“, hafi verið byggð í tíð Brynjólfs Sveinssonar biskups (1639–1674) en fyrr hafi ekki verið útgerð á vegum stólsins á Ísólfsskála. Einnig er nefnt að ábúandinn hafi sjálfur gert út eitt skip, en stærð þess kemur þó ekki fram.
NótarhóllSjóbúðin er nú horfin undir malarfyllingu í heimreiðinni að sögn eins eigenda jarðarinnar. Vert er að taka fram að ekki er fjallað um verminjar á Ísólfsskála í riti Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenzkir sjávarhættir II, sem tekur sérstaklega fyrir verstöðvar. Þar er Grindavík merkt á korti sem blönduð verstöð og austur með suðurströndinni er næsta stöð Selatangar og er hún skráð sem útstöð.
Var ákveðið að grafa í tvö fiskbyrgi á Ísólfsskála í þeim tilgangi að aldursgreina byrgin og með von um að skilgreina betur hlutverk þeirra.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi og – garðar við Nótarhól.

Grjóthrun var fjarlægt úr fiskbyrgjunum tveimur. Í öðru þeirra komu í ljós flatar steinhellur sem hafa sennilega verið hluti af gólfinu í byrginu. Þegar grjóthrunið og steinhellurnar höfðu verið fjarlægðar var komið niður á sendið jarðlag sem innihélt dökka og grófa gjósku sem má ætla að sé frá Reykjaneseldum 1211-1240.
Sýni voru tekin úr meintu gjóskulagi. Örfá fiski- og fuglabein fundust en því miður fundust engir gripir sem geta sagt til um aldur byrgjanna. Að öðru leyti var á litlu að byggja í fiskbyrgjunum. Mögulegt væri að senda beinin sem fundust í C14 greiningu til að fá upplýsingar um aldur þeirra en slík greining telst varhugaverð þar sem sjávaráhrifa gætir á þessum beinum sem gætu gefið ónákvæma aldursgreiningu.“

Heimild:
-Eldsumbrot á Reykjanesskaga. Minjar í hættur og viðbrögð Minjastofnunar við náttúruvá – stöðuskýrsla, bls. 17-18.

Ísólfsskáli

Nótarhóll – fiskbyrgi og þurrkgarðar.