Fiskbyrgi við Ísólfsskála
Í skýrslu Minjastofnunar um „Eldsumbrot á Reykjanesskaga. Minjar í hættur og viðbrögð Minjastofnunar við náttúruvá„, má lesa eftirfarandi um fiskbyrgi og -garða við Nótarhól suðaustan Ísólfsskála:
Sjóbúðin er nú horfin undir malarfyllingu í heimreiðinni að sögn eins eigenda jarðarinnar. Vert er að taka fram að ekki er fjallað um verminjar á Ísólfsskála í riti Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenzkir sjávarhættir II, sem tekur sérstaklega fyrir verstöðvar. Þar er Grindavík merkt á korti sem blönduð verstöð og austur með suðurströndinni er næsta stöð Selatangar og er hún skráð sem útstöð.
Var ákveðið að grafa í tvö fiskbyrgi á Ísólfsskála í þeim tilgangi að aldursgreina byrgin og með von um að skilgreina betur hlutverk þeirra.
Fiskbyrgi og – garðar við Nótarhól.
Grjóthrun var fjarlægt úr fiskbyrgjunum tveimur. Í öðru þeirra komu í ljós flatar steinhellur sem hafa sennilega verið hluti af gólfinu í byrginu. Þegar grjóthrunið og steinhellurnar höfðu verið fjarlægðar var komið niður á sendið jarðlag sem innihélt dökka og grófa gjósku sem má ætla að sé frá Reykjaneseldum 1211-1240.
Sýni voru tekin úr meintu gjóskulagi. Örfá fiski- og fuglabein fundust en því miður fundust engir gripir sem geta sagt til um aldur byrgjanna. Að öðru leyti var á litlu að byggja í fiskbyrgjunum. Mögulegt væri að senda beinin sem fundust í C14 greiningu til að fá upplýsingar um aldur þeirra en slík greining telst varhugaverð þar sem sjávaráhrifa gætir á þessum beinum sem gætu gefið ónákvæma aldursgreiningu.“
Heimild:
-Eldsumbrot á Reykjanesskaga. Minjar í hættur og viðbrögð Minjastofnunar við náttúruvá – stöðuskýrsla, bls. 17-18.
Nótarhóll – fiskbyrgi og þurrkgarðar.