Flensborgarskólinn í Hafnarfirði
Eftirfarandi ávarp Ingvars Gíslasonar, menntamálaráðherra, er hann flutti á afmælishátíð Flensborgarskóla, gat að lesa í Lesborg Morgunblaðsins árið 1982 undir fyrirsögninni „Fyrsti kennaraskóli landsins„:
„Í dag er mikill hátíðisdagur í Flensborgarskóla. Liðin eru á þessu ári 100 ár frá stofnun hans, og þess er nú minnst á veglegan hátt við skólaslit. Flensborgarskóli er því með allra elstu skólum í landinu og á sér hina merkustu sögu.
Ég vil leyfa mér að benda áheyrendum á að kynna sér sögu Flensborgarskóla í 100 ár og persónusögu þeirra mikilhæfu manna, sem mestu hafa ráðið um störf skólans þetta tímabil. Það er menntandi út af fyrir sig að kynnast mönnum og málefnum tengdum Flensborgarskóla. Í ljós mun koma að áhrif skólans á þróun almennra skólamála í landinu og þjóðlífið að sínu leyti, eru mikil og eftirtektarverð.
Flensborgarskóli skipar virðulegan sess í skólasögu Íslendinga og það svo, að sumt í starfi hans hefur skipt sköpum í sögu íslenskra skólamála. 100 ár eru að vísu langur tími, og margt hlýtur að gerast á heilli öld í þjóðarævi. En síðustu 100 ár skera sig úr öðrum öldum Íslandssögunnar vegna hinna miklu og öru breytinga sem orðið hafa á þjóðarhögum. Þetta á ekki síst við um skólamál.
Varla er hægt að segja að verulegar umræður um stofnun almennra skóla komi til fyrr en um og eftir miðja 19. öld, eða jafnvel síðar, og framkvæmdir í þeim efnum voru býsna hægfara lengi framan af. Eiginlegur vöxtur skólakerfisins gerist reyndar ekki fyrr en á þessari öld og þá á nokkrum síðustu áratugum öðrum fremur. Svo stutt er saga almennra skóla á Íslandi.
Flensborgarskólinn ruddi nýjar brautir í skólamálum á sinni tíð ásamt Möðruvallaskóla, sem stofnaður var um svipað leyti á Norðurlandi. Þessir tveir skólar eru fyrstu gagnfræðaskólar landsins þar sem unglingum voru kenndar almennar námsgreinar eftir að barnafræðslu var lokið. Miðað við skólamenntunaraðstöðu í landinu á þeirri tíð var það ekkert lítilræði fyrir menn að stunda nám í Flensborg eða á Möðruvöllum, enda voru gagnfræðingar frá þessum skólum taldir til menntamanna og voru eftirsóttir til vandasamra starfa og félagsmálaforystu. Því var það að á fyrri hluta þessarar aldar mátti finna í hópi forystumanna í landinu fjölmarga Flensborgara. Þannig síuðust áhrifin frá skólanum víða um þjóðlífið. Og reyndin er sú að Flensborgarskólinn var lengst af kunnur sem merkur gagnfræðaskóli á gamla vísu, sem skólinn var að meginstefnu allt frá stofnun 1882 fram til þess að honum var breytt í fjölbrautaskóla árið 1975, samkvæmt sérstökum samningi við menntamálaráðuneytið. Reyndar hafði skólinn nokkru áður stofnað framhaldsdeildir og stefnt að því að búa nemendur undir stúdentspróf.
Fyrsti kennaraskóli landsins
En vafalaust er þó sá þáttur Flensborgarsögu merkastur og minnisstæðastur, að Flensborgarskólinn er fyrsti kennaraskóli á Íslandi. Á þessu vori eru 90 ár síðan Flensborgarskóli brautskráði fyrstu sérþjálfuðu kennarana á Íslandi samkvæmt sérstakri reglugerð um kennaranámskeið, sem skólanum hafði verið sett. Frá 1896—1908 starfaði föst kennaradeild við Flensborgarskóla, og hún var ekki lögð niður fyrr en Kennaraskóli íslands tók til starfa 1908. Eftir það gegndi Flensborgarskóli áfram aðalhlutverki sínu sem gagnfræðaskóli í Hafnarfirði, sem þó var sóttur af nemendum víða að af landinu og hafði algera sérstöðu áratugum saman ásamt Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem nú er menntaskóli.
Það er varla hægt að segja sögu Flensborgarskóla í færri orðum en ég hef gert, og mannanöfn hef ég ekki nefnt í þessari frásögn. Því má þó ekki gleyma að þessi skóli var stofnaður af merkum mönnum, og honum hafa ætíð stjórnað mikilhæfir skólamenn, og hér hafa starfað ágætir kennarar mann fram af manni. Ég vil leyfa mér að þakka öllum — lifandi og látnum — sem unnið hafa Flensborgarskóla, og innt af hendi ágæt störf á þessu aldarskeiði. Nöfn þeirra eru geymd en ekki gleymd.
Ekki má þó láta ógetið stofnenda skólans, sr. Þórarins Böðvarssonar í Görðum og konu hans, Þórunnar Jónsdóttur. Þau voru að vísu stórefnafólk, en við skulum minnast þess að þau létu stofna Flensborgarskóla sem einkaskóla og sjálfseignarstofnun og gáfu skólahús og allstóra bújörð með öllum húsum til skólahaldsins. Það er vandasamt nú að meta þessa gjöf til fjár þannig að nútímamenn skilji hvers virði hún var peningum, en engin smágjöf var þetta, heldur stórgjöf til menningarmála, sem varla á sinn líka. Einnig vil ég minnast fyrsta skólastjórans, Jóns Þórarinssonar, sem reyndar var sonur stofnenda, en Jón Þórarinsson var fyrir margra hluta sakir tímamótamaður í sögu íslenskra fræðslumála. Barátta hans á Alþingi og virk forganga hans fyrir kennaramenntun mun lengi halda minningu hans lifandi. Auk þess varð hann síðar æðsti embættismaður yfir almennum fræðslumálum í landinu og mikill áhrifamaður í þeim efnum.
Í fararbroddi enn í dag
Þannig getum við rakið sögu Flensborgarskóla og þeirra sem við hann hafa starfað og hljótum að sannfærast um að skólinn hefur verið farsæl stofnun og gegnt hlutverki sínum með ágætum alla tíð. Það er vissulega gott að eiga góða fortíð. Það hlýtur að vera skólanum styrkur og hvatning. En ég vil þó umfram allt minnast skólans eins og hann er í dag og þakka núverandi skólameistara og kennurum og nemendum fyrir það sem Flensborgarskóli er á líðandi stund. Skóli á að vera lifandi stofnun handa lifandi fólki. Og það veit ég að Flensborgarskólinn er.
Skólinn gerist e.t.v. gamall að stofni til, orðinn 100 ára, en hann er ekki rykfallinn og enginn safngripur. Flensborgarskólinn tekur þátt í framsæknu skólastarfi af lífi og sál og hefur tekið að sér ný hlutverk af áhuga og einurð. Miklar breytingar hafa verið að gerast í skólanum síðustu 10 ár, og það hefur einmitt komið í hlut núverandi skólameistara að fylgja þeim eftir. Flyt ég honum og samstarfsmönnum hans þakkir og árnaóaróskir.
Ég óska Flensborgarskóla innilega til hamingju með 100 ára afmælið.“
Stefán Júlíusson skrifaði um sögu Flensborgarskólans í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1962:
„Þegar ég var að alast upp í Hafnarfirði, vitnuðu mörg örnefni í bænum um starfsemi erlendra manna á liðnum öldum. Þar var Hellyersstöð, Brydehús, Hansensbúð, Haddensbryggja, Linnetsstígur, Proppélóð. Sum þessara örnefna voru ný, önnur aldagömul, enda mátti svo heita, að Hafnarfjörður væri vettvangur erlendra kaupsýslu- og útgerðarmanna frá því um aldamótin 1400 og fram á þriðja tug þessarar aldar.
Flest þessi nöfn eru nú horfin, eða að hverfa. Enn hef ég þó ekki nefnt það útlenda heitið, sem einna oftast var á vörum fólks, og raunar var landskunnugt, en það er Flensborg. Og þetta heiti mun ekki hverfa úr sögunni, þótt önnur erlend nöfn týni nú óðum tölunni, því að gagnfræðaskólinn í bænum hefur nú borið þetta nafn í átta áratugi, og engar líkur eru fyrir því, að þar verði breyting á gerð. Enda er svo ráð fyrir gert í ráðuneytisbréfi frá árinu 1932, að skólinn skuli framvegis heita Flensborgarskóli, eins og hann hafði þá verið kallaður í hálfa öld.
Það er naumast nema von, að ég velti því fyrir sér, hvers vegna Hafnfirðingar telja það sjálfsagt og eðlilegt, að framhaldsskóli þeirra ber þetta gamla, danska nafn. Eins mætti líka spyrja: Hvernig stendur á þessu nafni í bænum, og hvers vegna hefur það unnið sér slíkan þegnrétt í hugum bæjarbúa og landsmanna allra? Skólar á Íslandi bera yfirleitt ekki erlend nöfn, og fremur hefur verið hamlað gegn því á undanförnum áratugum, að opinberar stofnanir beri útlend heiti. Flensborgarar settu ávallt allmikinn svip á bæinn , þegar ég var að alast upp, og í fyrstu þótti mér þetta auðkennisheiti skólafólksins þar dálítið furðulegt. En þegar ég var sjálfur orðinn nemandi í skólanum, hefði ég ekki annað viljað kallast en Flensborgari, þótt við skólafélagarnir værum stundum kallaðir Flensarar í háðungarskyni, ef einhver þóttist eiga okkur grátt að gjalda.
Flensborg í Hafnarfirði dregur nafn sitt af jósku borginni Flensborg, en hún stendur sunnarlega á Jótlandi, í Slésvíkurhéraði, sem ásamt Holtsetalandi var löngum þrætuepli Dana og Þjóðverja. Nú eru landamærin rétt norðan við borgina, og mun hún vera nokkru stærri en Reykjavík. Frá þessari suðurjózku borg komu kaupmenn til Hafnarfjarðar fyrir um það bil eitt hundrað og áttatíu árum og reistu sér síðar verslunarhús fyrir botni fjarðarins, þar sem hann gengur lengst inn í landið að sunnanverðu.
Ekki verður fyllilega séð af gögnum, hvaða ár þetta var, en líkur mæla með því, að þeir hafi byggt árið 1794. Tóku þeir lóðina á leigu af konungi. Var hinn nýi verslunarstaður kallaður eftir heimaborg þeirra, og festist nafnið fljótt við staðinn. Var þetta allmikið landsvæði, enda þurfti töluvert olnbogarými fyrir verslun á þeirri tíð. Seinna keypti verslunin svo landareignina.
í Flensborg var verslað til ársins 1875, og voru margir verslunarstjórar á þeim átta til níu áratugum, sem þar var verslað, ýmist danskir eða íslenskir. Afkomendur þeirra sumra urðu merkir menn í íslensku þjóðlífi. Má meðal þeirra nefna Thorgrímsen verslunarstjóra á Eyrarbakka og Morten Nansen skólastjóra í Reykjavík, sem báðir voru fæddir í Flensborg í Hafnarfirði. Gísli J. Johnsen stórkaupmaður mun vera afkomandi Flensborgarkaupmanna.
En árið 1876 urðu mikil þáttaskil í sögu Flensborgar. Það voru þessi þáttaskil, sem urðu því valdandi, að nafnið lifir til þessa dags og mun halda áfram að lifa um ókomin ár. Þá keypti íslenskur maður Flensborgareignina, ekki í því augnamiði að reka þar áfram verslun, heldur til þess að setja þar á stofn barnaskóla fyrir Garðaprestakall á Álftanesi. Þetta var harla merkilegt tiltæki af kaupandanum, í rauninni einstakt framtak, því að á þeirri tíð var enn næsta lítið hugsað fyrir alþýðumenntun og barnafræðslu með föstu sniði.
Sá, sem keypti Flensborgareignina í þessum tilgangi fyrir áttatíu og sex árum, var prófasturinn í Görðum, sr. Þórarinn Böðvarsson. Seljendur voru Knudtzonfeðgar, sem lengi höfðu verið athafnasamir kaupmenn í Hafnarfirði, enda var ætt þeirra kunn kaupsýsluætt í Danmörku. Ári síðar en kaupin voru gerð, stofnuðu þau prófastshjónin í Görðum skólasetur í Flensborg og gáfu til þess miklar eignir, svo skólinn gæti orðið sjálfseignarstofnun, er stæði sem mest á eigin fótum. Skólann stofnuðu þau til minningar um son sinn, Böðvar, er andaðist árið 1869, 19 ára gamall, þá nemandi í lærða skólanum í Reykjavík. Var Böðvar bráðefnilegur piltur, góður námsmaður og hvers manns hugljúfi. Gjafabréf þeirra prófastshjóna er á þessa leið:
„
Síðan forsjóninni fyrir 8 árum síðan þóknaðist að svipta okkur hjónin okkar elskaða syni Böðvari, hefur það verið ósk okkar að heiðra minningu þessa okkar ógleymanlega sonar með því að gefa nokkurn hluta af eignum okkar til einhvers þess fyrirtækis, sem eflt gæti menntun og góða siði meðal almennings í föðurlandi okkar, og höfum við í þessum tilgangi afsalað og gefið til stofnunar alþýðuskóla þær fasteignir, er nú skal greina:
1. Húseign okkar í Flensborg í Hafnarfirði með þar tilheyrandi túni og annarri lóð, eins og hún er afsöluð með afsalsbréfi hins fyrra eiganda, stórkaupmanns P. C. Knudtzons, dags. 17. júlímán. f.á.
2. Eignarjörð okkar, heimajörðina Hvaleyri í Álftaneshreppi í Gullbringusýslu, 18.3 hndr. að dýrleika eftir nýju mati, með tilheyrandi húsum.
Um þessa gjöf lýsum við yfir þeim vilja okkar, að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla, að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.
-að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla,
-að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.
-að hann þar næst, eftir því sem efni og kringumstæður leyfa, jafnframt verði almennur menntunarskóli, þar sem kostur sé á að afla sér þeirrar þekkingar, sem álíta má nauðsynleg hverjum alþýðumanni, er á að geta kallast vel að sér.
Enn fremur er það vilji okkar, að skólinn og skólaeignirnar séu undir stjórn þriggja manna nefndar, er stiftsyfirvöldin yfir Íslandi skipi, en að stiftsyfirvöldin hafi yfirumsjón með skólanum og gæti þess, að efnum hans sé varið samkvæmt tilgangi gjafarinnar, svo og, að stiftsyfirvöldin eftir tillögum skólanefndarinnar setji reglugerð fyrir skólann um allt fyrirkomulag hans og stjórn. Fyrir því afsölum við hér með frá okkur og okkar erfingjum í hinu umrædda augnamiði ofannefnda húseign og jörð, og eru eignir þessar upp frá þessu fullkomlega heimilar til allra umráða og afnota handa slíkri skólastofnun, sem að ofan er um getið, en verða undir okkar umsjón þangað til skólanefnd hefur verið skipuð og hún getur tekið við umráðum yfir þeim; Görðum, 10. ágúst 1877 – Þórarinn Böðvarsson / Þórunn Jónsdóttir.“
Verslunarhúsið í Flensborg, sem nú varð skóli, var mikil bygging og traustlega byggt. Það var reist upp úr 1812, en þá brann fyrsta verslunarhúsið í Flensborg. Byggingin var næstum 20 m löng og 9 m breið, með háu risi, sem sneitt var við báðar burstir. Byggingarlistin var dönsk, og má enn sjá mikil hús af þessari gerð frá valdadögum Dana á ýmsum stöðum hér á landi. Ekki þurfti að nota allt húsið til kennslu, enda hafði það bæði verið íbúð verslunarstjórans, skrifstofur og búð. Varð Flensborg nú um skeið sýslumannssetur, eða fram undir áratug, til ársins 1887. Barnaskólinn var til húsa í norðaustur-endanum, sýsluskrifstofan í hinum endanum, en sýslumaður bjó uppi.
Vísir að fastri barnakennslu hafði komist á fót í Hafnarfirði nokkru áður, þótt mjór væri, svo að telja má, að í bænum hafi verið föst barnakennsla í um það bil 90 ár. Þorsteinn Egilsson cand. theol., sonur Sveinbjarnar Egilsson rektors og tengdasonur sr. Þórarins í Görðum, byrjaði að kenna börnum tveim árum áður en skólinn í Flensborg tók til starfa. Hann var einnig fyrsti kennari þar.
Áður en lengra er haldið, er rétt að gera hér grein fyrir því, hversu mikil sú gjöf var, sem prófastshjónin í Görðum gáfu til skólahaldsins. Húsið sjálft var metið á 10.000 kr., geymsluhús á 450 kr., þriggja dagslátta tún og kálgarðar á 750 kr. Heimajörðin á Hvaleyri, sem skyldi renna stoðunum undir skólahaldið, var metin á 2.200 kr. Nokkrum árum seinna bætti svo sr. Þórarinn við strandlengjunni með fram Flensborgarlóðinni, sem hann keypti í þeim tilgangi og metin var á 1000 kr. Auk þess gaf hann þá skólanum ágóða af óseldum eintökum af Lestrarbók handa alþýðu, sem hann hafði gefið út þjóðhátíðarárið 1874. Alþýðubókin var hið merkasta rit og vitnar mætavel um hug sr. Þórarins til alþýðumenntunar, áður en hann stofnaði skólann í Flensborg. Til marks um það, hve Alþýðubókin var mikill aufúsugestur á heimilum víða um land, má geta þess, að þegar skáldið Örn Arnarson var beðið að yrkja vígsluljóð, er nýja Flensborgarskólahúsið á Hamrinum var tekið í notkun haustið 1937, lét hann svo ummælt, er hann varð við þessum tilmælum, að sér væri ljúft að minnast útgefanda Alþýðubókarinnar. Ekki er nú vitað, hve mikið hefur runnið til skólans fyrir bókina, en gjöf þeirra prófastshjóna hefur alltaf numið allt að 15 þús. kr. Varla munu tök á því að umreikna þessa fjárhæð nákvæmlega í núgildandi peninga, en víst er, að gjöfin hefði skipt milljónum í dag, þótt ekki væri að öllu leyti reiknað með breyttum aðstæðum.
Barnaskóli var í Flensborg í átján ár, eða til ársins 1895. En þremur árum eftir að skólinn tók til starfa, kom hinn nýstofnaði Bessastaðahreppur á fót hjá sér skóla þar úti á nesinu. Grímur skáld Thomsen á Bessastöðum mun hafa átt frumkvæðið að þessari skólastofnun. Var því fleygt, að hann hefði að öðrum þræði gert það til að skaprauna nágranna sínum, sr. Þórarni í Görðum, og draga frá skólanum í Flensborg. Hann hafði frá upphafi fengið nokkurn opinberan styrk, en nú hlaut skólinn úti á nesinu að fá hluta af honum. Þótt grunnt væri á því góða með þeim prófastinum í Görðum og skáldinu á Bessastöðum, og þeir eltu stundum grátt silfur saman, þarf þessi skólastofnun úti á nesinu ekki að hafa verið af þeim toga spunnin, því að óneitanlega var erfitt fyrir börn framan af nesi að sækja skóla inn í Hafnarfjörð. En hvort sem þessir úfar með þeim stórmennunum hafa valdið eða ekki, varð þessi skólastofnun úti á nesinu meðal annars til þess, að sr. Þórarinn tók að hyggja að skólanum í Flensborg á nýjan leik. Og þessi athugun leiddi til þess, að þau prófastshjónin í Görðum breyttu gjafabréfi sínu árið 1882 og stofnuðu gagnfræðaskólann í Flensborg. Þá bættu þau líka við gjöfina, eins og áður var rakið. Og nú gátu þau hjónin lagt skólanum til meira en hús, land og fé: Nú varð sonur þeirra, Jón, skólastjóri hins nýja gagnfræðaskóla. Hafði hann með námi erlendis beinlínis búið sig undir skólastjórnina. Það var einstætt á þeirri tíð.
Sr. Þórarinn Böðvarsson var mikill umsýslu- og búmaður og kunni vel að sjá fótum sínum forráð á veraldlega vísu. Með því að láta Jón son sinn búa sig undir skólastjórn í Flensborg, sló hann tvær flugur í einu höggi: Hann sá syni sínum fyrir framtíðaratvinnu, og hann tryggði óskabarni sínu, skólanum í Flensborg, trausta og farsæla stjórn gegnum brim og boða í upphafi siglingar. Ekki þarf að fara í grafgötur um það, að hagsýni sr. Þórarins hefur ekki síður miðað að því, að skólastofnun þeirra hjóna færi ekki forgörðum, þótt þeirra missti við. Ekki hefur hann lagt sig minna fram um þetta, eftir að hann fann andann frá skáldinu á Bessastöðum og öðrum öfundarmönnum. Hann hefur treyst syni sínum vel til starfans, og þar reyndist hann sannspár og giftudrjúgur, því að Jón Þórarinsson hafði erft traustleika og raunhyggju föður síns í ríkum mæli. Auk þess var hann mikill skólamaður og frumkvöðull í þeim efnum, svo að engin ráð voru ráðin í skólamálum um hans daga nema hann kæmi þar til, enda varð hann fyrsti fræðslumálastjórinn árið 1908. Þeir feðgar mótuðu þannig í sameiningu starfsemi skólans í Flensborg á byrjunarskeiði hans, en sr. Þórarinn sat að sjálfsögðu í skólanefndinni til dauðadags árið 1895.
Miklar breytingar urðu í Flensborg, eftir að gagnfræðaskólinn var stofnaður þar árið 1882 og Jón Þórarinsson tekinn við skólastjórn. Húsið var stækkað með því að setja tvo kvisti þvert yfir það, og var það íbúð skólastjóra æ síðan, meðan húsið stóð. Þegar sýslumannssetrið var flutt þaðan árið 1887, var sett þar á stofn heimavist. Nokkru síðar var allmikill tómstundaskáli byggður norðan við húsið, þar sem skólapiltar iðkuðu leika og smíði, en seinna var bókasafn skólans, Skinfaxi, þar til húsa. Um skeið störfuðu þrír skólar í Flensborg, barnaskóli, gagnfræðaskóli og kennaraskóli. Kennaradeildin var sett á stofn tíu árum eftir að gagnfræðaskólinn tók til starfa. Var hún fyrst 6 vikna vornámskeið að gagnfræðaprófi loknu, en gagnfræðaskólinn var þá tveggja vetra skóli. En árið 1896 varð hún eins konar 3. bekkur og starfaði í 7 1/2 mánuð árlega. Þetta var fyrsti kennaraskóli á Íslandi, og eru því á þessu ári 70 ár liðin frá því að reglubundin kennsla undir kennarastarf hófst hér á landi. Þessi fyrsti kennaraskóli komst á fót fyrir áhuga, dugnað og framsýni Jóns Þórarinssonar skólastjóra. En ekki væri sanngjarnt að geta þar að engu samverkamanns hans, Jóhannesar Sigfússonar kennara í Flensborg, sem studdi hann með ráðum og dáð í þessum framkvæmdum, enda var hann hinn merkasti skólamaður.
Árið 1906 var byggt sérstakt skólahús á Flensborgarlóðinni, snertispöl norðan við gamla húsið. Þetta nýja skólahús var einlyft, 18 m langt og 9 m breitt; í því voru 3 kennslustofur, góður gangur og kennaraherbergi. Þetta hús entist skólanum í rúm 30 ár. Við þessa byggingu rýmkaðist mjög um heimavistina í gamla húsinu, svo að nú rúmaði hún 28 pilta, en áður komust þar fyrir helmingi færri. Eins og alkunnugt er, voru fyrstu almennu fræðslulögin sett hér á landi árið 1907. Ekkert sýnir betur gengi Flensborgarskólans um þessar mundir en það, að þegar kom til að framkvæma þessi lög (árið eftir), urðu kennarar frá Flensborg til að hafa þar á hendi forustuna. Skólastjórinn, Jón Þórarinsson, gekk inn í hið nýja embætti fræðslumálastjóra, og annar kennari þaðan, sr. Magnús Helgason, varð skólastjóri nýstofnaðs kennaraskóla í Reykjavík. Hann hafði komið að skólanum árið 1904, þegar Jóhannes Sigfússon varð yfirkennari við menntaskólann, en raunar hafði hann verið kennari þar fyrsta vetur gagnfræðaskólans, áður en hann gerðist prestur.
Þriðji kennarinn í Flensborg, Ögmundur Sigurðsson, hefði vel mátt fá stöðu við kennaraskólann nýja, enda sótti hann um stöðu þar. Hann hafði gerst kennari í Flensborg árið 1896 og hafði jafnan á hendi æfingakennslu í kennaradeildinni, enda var hann óumdeilanlega í fremstu röð skólamanna landsins. En Ögmundur fékk ekki stöðu við kennaraskólann, hann varð skólastjóri í Flensborg. Vafalaust hefur það þótt of mikil blóðtaka fyrir Flensborg að missa alla þrjá aðalkennarana í einu, og má fara nærri um það, að Jóni Þórarinssyni hefur ekki getist að því. Ögmundur Sigurðsson var svo skólastjóri í Flensborg í 23 ár við mikinn og góðan orðstír. Í hans tíð, eða árið 1912, varð skólinn þriggja vetra skóli, og það var hann fram á síðasta áratug. Nú er hann fjögurra vetra skóli, eins og aðrir gagnfræðaskólar í kaupstöðum.
Lengi var það áhugamál skólastjóra og kennara í Flensborg, að nemendur með góðu gagnfræðaprófi þaðan hefðu rétt til að setjast í lærdómsdeild menntaskólans. Það varð þó aldrei. Til þess þurftu þeir viðbótarnám og að heyja inntökupróf í 4. bekk menntaskólans. Ýmsir nemendur úr Flensborg fóru þó þessa leið sama vor og þeir tóku gagnfræðapróf þaðan. Nú hefur landsprófið leyst þennan vanda.
Ég var í Flensborg á árunum 1929—32. Þessi ár voru mikil breytinga- og umbrotaár í sögu skólans. Eftir fyrsta vetur minn í skólanum skemmdist gamla Flensborgarhúsið svo 1 eldi, að ekki þóttu tiltök að gera við það. Var þá rifið það, sem eftir stóð. Þá stóð eftir á sjávarbakkanum gamla skólahúsið frá 1906, lág bygging og hnípin, gisin og úr sér gengin á margan hátt, svo að gjörla mátti sjá endalokin. Samt varð hún að endast í sjö ár enn. Eftir brunann hætti Ögmundur Sigurðsson skólastjórn, sjötugur að aldri, og heimavistin lagðist að sjálfsögðu niður. Fullur hugur var í forráðamönnum skólans að fá ungan og ötulan skólastjóra til að taka við starfi hins kunna skólamanns. Það tókst líka. Sr. Sveinbjörn Högnason varð skólastjóri haustið 1930, þá rúmlega þrítugur. En hann var aðeins einn vetur. Sóknarbörn hans austur í Rangárþingi vildu ekki missa hann, og hvarf hann þá austur aftur. Hef ég varla séð meira eftir öðrum manni úr starfi. Þá tók Lárus Bjarnason við skólastjórn, en hann hafði komið að skólanum með sr. Sveinbirni. Stýrði hann skólanum í tíu ár.
Við gagnfræðingarnir, sem brautskráðumst frá Flensborg á hálfrar aldar afmæli skólans, árið 1932, höfðum því þrjá skólastjóra, og önnur kennaraskipti voru einnig mikil. Hellubjargið í kennaraliðinu á þessum umbrotaárum var sr. Þorvaldur Jakobsson, sem kenndi íslensku og stærðfræði, merkur ágætiskennari. Á þessum árum sagði heimskreppan til sín í skólahaldi sem öðru. Við vorum tuttugu og fjögur, sem hófum nám í 1. bekk, en aðeins tíu runnu skeiðið til enda, hin höfðu helst úr lestinni. Samt brautskráðumst við þrettán gagnfræðingar þetta vor; þrír höfðu bæst í hópinn á leiðinni. En aðalbreytingin var þó sú, að á þessum árum komu til framkvæmda ný lög um gagnfræðaskóla í landinu. Skyldu þeir kostaðir af opinberu fé í öllum kaupstöðum landsins.
Á þessum árum breyttist Flensborgarskólinn því úr sjálfseignarstofnun í ríkisskóla. Reglugerð fyrir ríkisskólann var einmitt sett árið 1932, á hálfrar aldar afmæli skólans, og setti ráðuneytið þá ný ákvæði um gjöf prófastshjónanna í Görðum, sem ekki þurfti lengur að standa undir skólanum í Flensborg.
Þegar héraðs- og gagnfræðaskólar tóku að rísa upp víðs vegar um landið, varð Flensborgarskólinn að sjálfsögðu í æ ríkari mæli skóli fyrir Hafnarfjörð, en áður höfðu löngum sótt hann nemendur víðs vegar að, enda voru gagnfræðaskólar lengi aðeins tveir á landinu. Forráðamenn skólans vildu þó gera sitt til að halda við gamalli skipan, og þegar nýtt skólahús var reist á Hamrinum, var höfð í því heimavist. En tímarnir voru óumdeilanlega breyttir; heimavistin lagðist fljótlega niður. Bæjarbúum fjölgaði líka ört á þessum árum. Ekki kom til greina að byggja aftur upp á gamla staðnum niðri í fjörunni fyrir botni fjarðarins. Aukið athafnalíf og nýtt skipulag kaupstaðarins hlaut að krefjast Flensborgarlóðarinnar gömlu til annarra hluta. Nú stendur íshús Hafnarfjarðar þar, sem skólahúsið stóð, og Strandgata og Hvaleyrarbraut greinast þar, sem Flensborgartúnið var áður.
Lárus Bjarnason var skólastjóri, þegar skólinn flutti í hina veglegu byggingu uppi á Hamrinum árið 1937. Hann var skólastjóri til ársins 1941 en þá tók Benedikt Tómasson skólayfirlæknir við skólastjórn. Var hann til ársins 1955, að núverandi skólastjóri, Ólafur Þ. Kristjánsson, tók við. Þannig hafa aðeins sex skólastjórar verið í Flensborg þau áttatíu ár, sem gagnfræðaskólinn hefur starfað; þar með talinn sr. Sveinbjörn Högnason, sem aðeins var eitt ár.
Nú kynni einhver að spyrja: Hvað varð þá um gjöf þeirra prófastshjóna í Görðum, þegar ekki var lengur grundvöllur fyrir sjálfseignarskólann Flensborg. Því er til að svara, að gjafasjóður sr. Þórarins og frú Þórunnar er enn til, og enn er hann í tengslum við skólann. En í reglugerðinni frá 1932, sem ég gat um fyrr, er þetta ákvæði: „Aldrei má verja fé sjóðsins til útgjalda, sem greiða skal lögum samkvæmt af opinberu fé.“ Þótt ákvæðið sé að sjálfsögðu réttmætt, er hlutverki sjóðsins þannig óneitanlega þröngur stakkur skorinn. Þó hafa nemendur skólans oft notið fjárframlaga úr sjóðnum á undanförnum árum, bæði til gagns og ánægju. Bæjarfógeti og bæjarstjóri í Hafnarfirði hafa á hendi stjórn sjóðsins, ásamt einum stjórnskipuðum fulltrúa, sem nú er skólastjórinn í Flensborg. Árið 1956 keypti Hafnarfjarðarbær eignarlendir sjóðsins með mjög hagstæðum kjörum. Og alla tíð hefur bærinn notið ríkulega gjafar þeirra prófastshjóna, og stendur Hafnarfjarðarkaupstaður því í ævarandi þakkar- og fjárhagsskuld við Flensborgarskólann. Gjafasjóðurinn er nú rúmar 2 milljónir króna.
Af því, sem ég hef nú rakið, má það ljóst vera, að Flensborgarnafnið á gagnfræðaskólanum í Hafnarfirði er eins konar minnistákn um höfðingslund prófastshjónanna í Görðum og þann merka skóla, sem þau stofnuðu til minningar um son sinn. En jafnframt er í nafninu bundin minning um hinn soninn, sem svo farsællega stýrði skólanum fyrsta aldarfjórðunginn og gerði garðinn frægan. Þótt nafnið hljómi allútlenskulega, er það samt norrænt að uppruna.
Borgin á Jótlandi hét upprunalega Fleinsárborg, virkið við Fleinsá. Mannsnafnið Fleinn mun hafa verið til á Norðurlöndum í fornöld, í líkingu við nafnið Geir. En vel gat áin líka dregið nafn sitt af vopni, sem þar hefur týnst eða fundist. Fleinsárborg hefur síðan breyst í Flensborg, og Fleinsborg í Flensborg.
Ég get þessa hér í lokin til gamans fyrir þá, sem áhuga hafa á nafngiftum og nafnbreytingum. Mestu máli skiptir þó hitt, að í átta áratugi hefur í skjóli Flensborgarnafnsins gerst í Hafnarfirði hin merkasta saga, sem er snar þáttur af þjóðarsögunni sjálfri. Vonandi verður svo áfram um alla framtíð.
(Grein þessi er útvarpserindi, flutt s. l. sumar. Heimildir: Saga Hafnarfjarðar, Minningarrit Flensborgarskóla, skólaskýrslur o. fl. S.J.)“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 23. tölublað (03.07.1982), Ingvar Gíslason, menntamálaráðherra; „Fyrsti kennaraskóli landsins“, bls. 2.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – Jólablað 1962 (15.12.1962), Stefán Júlíusson, Flensborg í Hafnarfirði, bls.8-10.