Fornasel – Auðnasel – Rauðhólssel – Flekkuvíkusel

Rauðhólssel

Gengið var upp í Fornasel á Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar, í Auðnasel og áfram upp í Rauðhólssel. Þaðan var gengið til baka niður heiðina með viðkomu í Flekkuvíkurseli.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – stekkur.

Fornasel er austan við svofnefnda Strokka. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og verið frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessm slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni. Selið sést vel frá Strokkum og er stutt að ganga að því, hvort sem er frá Reykjanesbrautinni eða línuveginum. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár eða fjórar tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt ofan við hólinn að austanverðu er lítið vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á lengd, um 2 m á breidd og er grjóthleðsla í kring.

Fornasel

Fornasel.

Auðnasel er norðaustur af Knarrarnesseli. Þangað var um 15 mín. gangur. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýholt. Margar tóftir er þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestan af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Fornusel

Fornusel í Fornuselshæðum (Sýrholti).

Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræðslu.
Í landamerkjalýsingu Auðna og Landakots frá árinu 1886 er Stórhæð nefnd og sagnir eru til um að setið hafi verið yfir sauðum í Stórhæð.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ofarlega í heiðinni eru nokkir grónir rauðamelshólar. Rauðhólar standa við vesturjarðar Afstapahrauns, en í kring um þá að hluta hefur hraunið runnið. Þetta eru fjórir hólar eða hæðir og tveir sem standa fjærst hrauninu heita Stóri-Rauðhóll eða Rauðhóll og Litli-Rauðhóll, sem stendur neðan hans. Undir þessum hólum að norðaustanverðu er Rauðhólssel, en þar var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsbvól. Aðalbláberjalyng er mjög skaldgæf jurt í hreppslandinu, en við hólana má sjá það teygja sig upp úr þröngum gjám.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Á leiðinni til baka niður heiðina var komið við í Kolhól og Kolgrafarhólum í leiðinni niður að Flekkuvíkurseli. Það er suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásunum norðan kofatóftanna og fáeinir steinar við það. Kálfatjarnarbræður sögu Herdísi Jónsdóttur, f: 1858, hafa komið í selið sem barn. Þar voru þá eingöngu hafðar kindur.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft. Norðan Flekkuvíkursel, mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður er standa mjög þétt saman. Þær heita Bræður.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.
-Örnefni og göngileiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.