Fornleifaskráning; Upphafið og lögin – Bjarni F. Einarsson

Fornleifar

Bjarni F. Einarsson skrifaði tvær greinar um fornleifaskráningu í Sveitarstjórnarmál árið 1996. Sú fyrri bar yfirskriftina „Upphafið og lögin„:

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson – starfsmaður Þjóðminjasafnsins.

„Í Þjóðminjalögum stendur m.a. eftirfarandi: „Þjóðminjasafn lœtur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Skylt er að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess og skal Þjóðminjasafn eiga samvinnu við skipulagsyfirvöld um það. “
Í I. grein laga um mat á umhverfisáhrifum stendur: „Markmið laga þessara er að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvœmdir, sem kunna, vegna staðarvals, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrifá umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur liður í gerð skipidagsáœtlana.“ Í 10. grein sömu laga stendur: „Í mati á umhverfisáhrifum skal tilgreina á viðeigandi hátt áhrif sem framkvœmdir og fyrirhuguð starfsemi kunna að hafa á menn, samfélag og menningu, dýr, plöntur og aðra þœtti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkan þessara þátta. “

Fornleifaskráning

Fornleifaskráning.

Því er ljóst að samkvæmt lögum ber okkur að skrá fornleifar og aðrar greinar þjóðminjalaga sýna að ekki skiptir máli hvort um þekktar eða óþekktar fornleifar er að ræða, allar njóta þær friðunarákvæða þjóðminjalaganna.

Þjóðminjaráð og Þjóðminjasafn Íslands hafa nú ákveðið að hefja undirbúning að fornleifaskráningu á öllu landinu. Fyrsta skrefið er að finna þá aðferð sem hentar og Þjóðminjasafn mælist til að notað verði um landið allt. Næsta skref er að hrinda tilraunaskráningu af stað og reyna kerfið til fulls.
En okkur ber ekki að skrá fornleifar einungis vegna þess að lög kveða á um það, heldur höfum við siðferðislegar, fræðilegar og sögulegar skyldur í þessum efnum. Í þessari grein verður lítillega fjallað um upphaf þessara mála hér á landi og hugtökin fornleifaskráning og fornleifar skilgreind. Í næstu grein mun ég fjalla um þessi mál út frá siðferðislegum, heimspekilegum og fræðilegum sjónarhóli.

Fornleifaskráning

Álfakirkja

Álfakirkja í Almenningi, sem er jafnframt fjárskjól.

Hugtakið fornleifaskráning felur í sér skráningu á fornleifum og er þá átt við svokallaðar fastar fornleifar, svo sem mannvirki, varir, kuml o.s.frv. (ekki lausar fornleifar sem við köllum forngripi. Hugtökin fornleifar og forngripi köllum við fornminjar). Einnig er hægt að tala um fastar fornleifar sem ekki eru mannvirki í orðsins fyllstu merkingu, svo sem uppsprettur, álfasteina og álagabletti, og fornleifar sem eru afleiðing óskyldra athafna, svo sem reiðgötur, vöð og stöðlar.

Bekkjarskúti

Bekkjaskúti, fjárskjól, í Almenningum.

Hugtakið greinir ekki í sundur þekktar fornleifar frá óþekktum, heldur felur það í sér skráningu á öllum fornleifum og til að hún geti gengið eftir þarf að leita skipulega að þeim í landslaginu. Stundum getur jafnvel borgað sig að leita að þeim í heimildum. Til eru skráningar sem ekki fela í sér skráningu allra fornleifa, svo sem skráning á sérstökum tegundum fornleifa, eins og kumlum, þjóðleiðum, álfasteinum o.s.frv. Eins má ímynda sér staðbundnar skráningar á sögulegum minjum, hellum, vörðum, stríðsminjum, minjum tengdum hvalveiðum Norðmanna o.s.frv.

Hernám

Skotbyrgi, stríðsminjar, á Garðaholti.

Slíkar skráningar uppfylla tæplega ákvæði þjóðminjalaga um fornleifaskráningu, hversu góðar eða merkilegar þær kunna að vera.
Við fornleifaskráningu er fylgt aðferðafræði, sem ákveðin er áður en sjálf skráningarvinnan hefst. Má segja að lykilatriði í þeirri vinnu sem nú fer fram varðandi aðferðafræðina sé skipulag og einfaldleiki, hvernig svo sem það verður ákveðið þegar yfir lýkur. Þessi atriði fela í sér að aðferðin verður fljótvirk og ódýr.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól. Eyðilagt vegna vanskráningar.

Ef fornleifaskráin á að gagnast öllum sem hana þurfa að nota, svo sem opinberum framkvæmdaraðilum, einkaaðilum, skipulagsyfirvöldum og áhuga- og fræðimönnum, er mikilvægt að skráð sé samkvæmt sama kerfi hvar sem er á landinu. Þess ber að geta að ekki er til nein galdralausn í þessu sambandi, mikilvægast er að hefjast sem fyrst handa með það kerfi sem við getum sem best búið til miðað við allar forsendur sem við höfum.

Fornleifar

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi. Áþreifanlegar fornleifar.

Fornleifar eru allar þær leifar sem mannaverk eru á og eldri eru en hundrað ára. Þjóðminjalögin orða það á svohljóðandi hátt í grein nr. 16, III. kafla: „Fornleifar teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðhundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru. Að auki njóta staðir sem tengjast þjóðtrú, siðum, venjum og þjóðsagnahefð, eins og hörgar, álfasteinar og uppsprettur, vemdar laganna, enda séu þeir mikilvægur menningararfur rétt eins og mannvirkin.

Grindavík

Álfhóll við Þorbjörn h/f í Grindavík. Efnislegar fornleifar.

Skipta má fornleifum í tvo staði, annars vegar efnislegar fornleifar og hins vegar andlegar eða huglægar fornleifar. Hinar efnislegu fornleifar eru það sem við í daglegu tali köllum rústir eða tóttir. Þær eru áþreifanlegar og greinilega orðnar til af mannavöldum. Hinar andlegu fomleifar eru aftur á móti staðir sem tengjast hugarfari þjóðarinnar, eins og álfasteinar o.fl.

Þórkötlusdys

Þórkötludys í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Slíkir staðir eru oft algerlega án allra beinna verksummerkja mannlegra athafna, þó að vitundin um þá hafi stundum leitt af sér óbein verksummerki, svo sem á álagablettum þar sem gras er aldrei slegið eða þar sem annað afskiptaleysi hefur beinlínis orðið til þess að staðurinn varðveittist óbreyttur og óhreyfður í aldir.
Þegar fram líða stundir bætast sífellt fleiri rústir og önnur mannvirki í hóp fornleifa einfaldlega vegna hundrað ára reglunnar. Að auki mun okkur lærast meir og meir að lesa í landið og jafnvel nýjar tegundir fornleifa skjóta upp kollinum. Þannig lýkur í raun aldrei fornleifaskráningu, nokkuð sem við verðum að sætta okkur við, verra er ef hún byrjar aldrei!

Upphafið

Finnur magnússon

Finnur Magnússon (1781-1847).

Hugmyndir um að skrá allar íslenskar fornleifar eiga sér alllanga sögu og má rekja hana tæp 200 ár aftur í tímann. Þá voru reyndar fornleifar skilgreindar á allt annan hátt en gert er nú, eins og mun koma fram hér á eftir.
Árið 1807 var komið á fót í Danmörku nefnd er kallaðist „Commissionen for Oldsagers Opbevaring“ eða á íslensku „Nefndin til verndunar fornleifa“. Hlutverk nefndarinnar var að afla upplýsinga um fornleifar í öllu ríkinu, þ.e.a.s. hinu danska konungsríki, svo hægt væri að marka einhverja stefnu um varðveislu þeirra og verndun. Spurningalisti frá nefndinni var sendur út þegar árið eftir til allra sóknarpresta sem náðist til í ríkinu. Til Íslands bárust hins vegar listarnir ekki að ráði m.a. vegna styrjalda í álfunni.
Tæpum tíu árum síðar, eða árið 1816, vann prófessor Finnur Magnússon að eigin skráningu á íslenskum fornleifum og ýmsurn sögnum og virðist hann hafa gert þetta til að koma upplýsingunum á framfæri við „Commissionen“. Stuttu síðar var Finnur gerður að nefndarmanni og var hlutverk hans að sjá um tengsl „Commissionen“ við Ísland. Finnur þýddi og staðfærði spurningalista nefndarinnar og sá til þess að þeir yrðu sendir til Íslands strax um vorið 1817.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1877-1961).

Þessi skrá Finns var höfð til hliðsjónar þegar fyrsta friðlýsing á fornleifum hér á landi átti sér stað þann 19. apríl 1817, en þá voru 10 fornleifar friðaðar eða öllu heldur friðlýstar hér á landi.
Fornleifar voru ekki friðlýstar á ný fyrr en 90 árum síðar, eða með tilkomu nýrra fornminjalaga árið 1907. Á árunum 1926-1930 var svo gert gríðarlegt átak í friðlýsingarmálum og hafa aldrei jafn margar fornleifar verið friðlýstar hér á landi og einmitt þá, eða um 84% allra friðlýstra fomleifa í dag. Aðalhvatamaður að þeim friðlýsingum var þáverandi þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, en hann mun þó ekki hafa farið á staðina sjálfur, heldur notað eldri gögn og ritaðar heimildir við sína friðlýsingu.
Aldrei fór eiginleg fomleifaskráning fram vegna þessara friðlýsinga. Slík vinna hófst ekki fyrr en um 1980, u.þ.b. 160 árum eftir að „Commissionen “ hóf starf sitt hér á landi. Sú skráning var ekki yfirgripsmikil og voru margir að skrá næstu árin, hver með sína aðferð og sínar lausnir á þeim vandamálum sem upp komu við skráninguna.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi. Talinn með elstu fornleifum landsins.

Árið 1990 var í fyrsta sinni birt á prenti skrá yfir friðlýstar fornleifar skv. nýjum þjóðminjalögum nr. 88/1989. Þar kemur í ljós að fjölda friðlýstra fornleifa er mjög misskipt eftir sýslurn. Þannig eru aðeins 3 fornleifar, eða staðir með fornleifum, friðlýstar í Gullbringusýslu. Ekki er hægt að halda því fram að úrval friðlýstra fornleifa sé dæmigert fyrir fornleifar landsins, þvert á móti. Varla liggur mismunurinn í stærð sýslnanna eða þýðingu fomleifanna sjálfra. Aðrir þættir, svo sem áhugi einstakra fræðimanna á vissum stöðum og vissum fornleifum ásamt fjölda fornra heimilda um viðkomandi svæði og fornleifar, eru trúlega mikilvægir í þessu sambandi. Þetta mun breytast í náinni framtíð, enda mun væntanleg fomleifaskráning á Íslandi ekki taka mið af slíkum þáttum.

„Commissionen og Reykjavík“

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

Þegar „Commissionen“ hóf starfsemi sína í byrjun 19. aldar töldust fornleifar vera eitthvað annað en við teljum í dag. Töldust t.d. venjulegar rústir af beitarhúsum og öðrum rústum varla til fornleifa.
Í landi Reykjavíkur eru í dag ca 160 staðir með fornleifum á fornleifaskrá. Fjöldi einstakra fornleifa er u.þ.b. 300 í svari til „Commissionen“ frá Árna Helgasyni, dómkirkjupresti í Reykjavík um tíma, segir að í sókninni hafi aðeins verið þrennar fornleifar og allt voru það lausir gripir frá kaþólskum tíma. Þeir voru biskupakápa, skímarfontur og kaleikur einn vel gylltur. Aðrar fornleifar þekkti Árni prestur ekki í Reykjavík (Vík) og þótti honum það allundarlegt í sjálfu landnámi Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns Íslands að margra áliti.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Í fornleifaskrá prófessors Finns Magnússonar frá 1816 er einnig getið um þrennar fornleifar (nemar þó) í landi Reykjavíkur (Víkur). Þær voru biskupakápan og skírnarfonturinn áðurnefndu og fallbyssur tvær, sem verið höfðu á Bessastöðum í fyrstu, en var síðar komið fyrir í virkinu Fort Phelp af sjálfum Jörundi hundadagakonungi. Sagði Finnur að til fallbyssnanna hefði sést í flæðarmálinu á fjöru, en þar munu þær hafa lent að lokum eins og aðrar þekktar fallbyssur hér við land (á Grundarfirði og Flatey!). Aðrar fornleifar þekkti Finnur ekki í landi Reykjavíkur.
Það verður að teljast nokkuð athyglisvert að hvorugum hafi borist til eyrna nein munnmæli um neitt það sem þeim þótti ástæða til að telja upp í bréfum eða skrám sínum. Hvergi er t.d. minnst á meintan haug Ingólfs Arnarsonar þar sem sumir töldu hann vera við Breiðagerðisskólann, eða hof” hans sem sumir töldu vera þar skammt frá. Munnmæli um þessa staði voru talsvert áberandi á fjórða áratug þessarar aldar og var hinn meinti haugur Ingólfs til og með rannsakaður lítillega og um hann sagt að hann væri athyglisverður og nánari rannsóknar þörf. Nánari rannsókn fór þó aldrei fram.

Í næstu grein mun ég fjalla um hina siðferðislegu og fræðilegu skyldu okkar að standa vörð um fornleifar landsins. Það er okkur beinlínis lífsnauðsynlegt sem þjóð á meðal þjóða og er jafnvel þjóðarvitundin sjálf að veði.“

Heimild:
-Sveitarsjórnarmál, 56. árg. 01.03.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi – upphaf og ástæður – fyrri grein; Upphafið og lögin, Bjarni Einarsson, bls. 34-38.

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Stöðvarfirði.