Fótspor fyrri alda– Stiklað á stóru yfir sögu Laugarnesjarðarinnar

Laugarnes

Sigrún Pétursdóttir stiklar á stóru yfir sögu Laugarnesjarðarinnar í Bændablaðinu 2025 undir fyrirsögninni „Fótspor fyrri alda„.

Laugarnes

Laugarnes 1947.

„Í kringum aldamótin síðustu stóð gult einlyft bárujárnshús á bæjarhól í Reykjavík, svolítill reitur af sólskini á jörð menningararfs okkar þjóðar. Þaðan sást yfir til eyjanna Viðeyjar og Engeyjar og stutt var að fjörunni Norðurkotsvör, í dag einu ósnortnu fjöru á norðurströnd Reykjavíkur.

Þessi sólskinsreitur ber nafnið Laugarnes og saga hans snertir á heilmörgum flötum byggða-, sjúkrahúss- og kirkjusögu landsins, hernáminu eða uppbyggingu Reykjavíkur í heild.

Laugarnes

Laugarnes um 1950.

Eitt fyrstu stórbýla höfuðborgarsvæðisins, heimili Hallgerðar langbrókar, var reist á þessum stað, þar sem síðar stóð biskupssetur og í framhaldinu holdsveikispítali hundrað árum seinna.
Braggahverfið Laugarneskampur (Laugarnes-Camp) var reist þar á stríðsárunum og hýsti að stórum hluta sjúkradeildir hersins en nýtti sem íbúðarhúsnæði í stríðslok. Í dag er á Laugarnesinu nokkur byggð auk Listasafns Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara.

Holdsveikispítali á grunni biskupsseturs

Laugarnes

Laugarnes – Holdveikraspítalinn.

Laugarness var fyrst getið í Njálu og á Hallgerður langbrók að hafa haft þar búsetu. Telja margir gröf hennar vera þar sem nú eru gatnamót Laugarnesvegar og Kleppsvegar, áður þúst sem kölluð var Hallgerðarleiði – en aðrir segja hana jarðsetta í kirkjugarði Laugarness.
Fram kemur í Greinargerð Bjarna F. Einarssonar um fornleifar á Laugarnesi í Reykjavík að kirkju í Laugarnesi sé fyrst getið árið 1235. Rúmum fimm hundruð árum síðar, árið 1794, var kirkjan lögð niður þegar sóknin sameinaðist dómkirkjusókn Reykjavíkur, og má nærri geta að ýmsar lagfæringar kirkjugarðinum.

Laugarnes

Laugarnes – Biskupsstofa.

Á þessum tíma var jörðin þó í eigu biskupa og segir einnig í greinargerð Bjarna að á árunum 1830–33 hafi Jón Sigurðsson, sem seinna varð forseti, haft búsetu í Laugarnesi, en hann var skrifari Steingríms Jónssonar, þáverandi biskups. Þótti þetta biskupssetur léleg smíð og ótætilegt enda fór það svo að bæjarstjórn Reykjavíkur keypti jörðina árið 1885 og nokkru síðar var reistur þar holdveikispítali á grunni setursins. Hann var þá stærsta hús sem reist hafði verið á Íslandi og átti að geta hýst 60 sjúklinga þó lauslega áætlað væri tala sjúklinga að minnsta kosti sá fjöldi þrefaldur. Spítalinn var þó starfræktur með sóma fram að seinni heimsstyrjöld þegar herinn tók hann yfir og brenndi óvart til grunna árið 1943.

Laugarnes-Camp

Laugarnes

Laugarnes-Camp 1950-1952.

Eftir stríðsárin stóð heilmikið braggahverfi. Er áætlað að á þessum árum hafi um 300 manns verið búsettir í Laugarneskampi en síðasti bragginn var rifinn árið 1980.
Barnmargar fjölskyldur nutu þó góðs af á meðan braggarnir stóðu ef marka má auglýsingu Morgunblaðsins árið 1955, „Góðir íbúðarbraggar – Til sölu í Laugarnescamp, 4 herbergi og eldhús, útigeymslu og þvottahús“.
Myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson heitinn fékk til umráða bragga þarna árið 1945, gamlan herskála sem vinnustofu, en í dag stendur á Laugarnesi safn í hans nafni sem hýsir höggmyndir og teikningar ásamt heimildum um listamanninn. Ekkja hans, Birgitta Spur, stofnaði safnið sem í dag er rekið undir forystu aðstandenda Sigurjóns.

Dugnaður og röggsemi

Laugarnes

Þorgrímur Jónsson (1873-1943).

Áður en að þetta varð, árið 1915, tóku við Laugarnesjörðinni síðustu ábúendur hennar sem sáu um rekstur og leigu á hagabeit fyrir bæjarbúa.
Þetta voru hjónin Þorgrímur Jónsson, söðlasmiður og veggfóðrari, og Ingibjörg Kristjánsdóttir ásamt börnum sínum. Þau hjónin höfðu gott orð á sér, voru bæði vinnusöm og dugleg auk þess sem barnahópurinn var stór en þar höfðu allir sitt hlutverk. Til viðbótar við að sjá um leigu á haga fyrir bæjarbúa hóf fjölskyldan búskapinn með 30 kindur, sex kýr og nokkur hænsn, auk þess að hafa afnot af tveimur matjurtagörðum og því ærinn starfi hjá fjölskyldunni. Af börnunum voru þeir elstir drengirnir Jón Kristján f. 1899 og Ólafur f. 1902, þá næstir Pétur f. 1906, Ragnar 1908, stúlkurnar Guðrún Sigríður 1911 og Þorbjörg 1915 og loks Gestur litli fæddur 1920, rétt rúmum tuttugu árum á eftir elsta bróður sínum.
LaugarnesFengu bræðurnir gjarnan lánaðan bát og veiddu rauðmaga og grásleppu auk hrognkelsa og sáu hag í að selja nokkurn hluta aflans. Ólafur, í kringum fermingaraldur, fékk vinnu sem mjólkurekill og ferjaði mjólkina frá Köllunarkletti og niður Laugaveginn auk þess sem bræðurnir stóðu sína vakt sem hestasmalar hestanna sem voru á beit í leigutúninu.
Þetta voru röggsamir og duglegir piltar sem áttu þó nokkurn hlut í menningu Reykjavíkur þegar fram leið. Þeir stóðu meðal annars að stofnun Strætisvagna Reykjavíkur árið 1931. Ólafur þá um þrítugt og orðinn hæstaréttarlögmaður, kosinn fyrsti formaður stjórnar, en Pétur, 25 ára, var ráðinn forstjóri.
LaugarnesÍ bók Þorgríms Gestssonar, Mannlíf við Sund, sem var útgefin fyrst árið 1998, segir á skemmtilegan og fróðlegan hátt frá lífinu á Laugarnesi sem var, svo og mannlífinu í nærliggjandi hverfum. Þorgrímur er sonur Gests, yngsta barns þeirra Ingibjargar og Þorgríms á Laugarnesinu og bókin því að nokkru byggð á munnlegum heimildum þeirra sem fjallað er um. Til að mynda er í bókinni sagt frá minnisstæðum persónum á borð við föður skáldsins Steins Steinars. Það var Kristmundur Guðmundsson, sem kynnti sig gjarnan á þessa leið: „„Þetta er hann Kristmundur gamli, steinblindur á öðru auganu og sér andskotann ekkert með hinu!“ Þó var hann ekki nema í kringum fertugt og manna fljótastur að finna glataðar nálar saumakvenna ef svo bar undir – því stundum vildi blindan gleymast.

„Apa og slöngu leikhús“
Önnur skemmtileg frásögn frá árinu 1926 segir frá danskri fjölskyldu sem fluttist til landsins um tíma og höfðu m.a. með sér apa, slöngurog bjarndýr.
LaugarnesÞau ferðuðust um með þennan dýragarð í vagni sem festur var við bíl og á síðum Morgunblaðsins birtust auglýsingar með fyrirsagnir á borð við „Apa og slöngu leikhús“ og „Kona glímir við björn“ sem má ætla að hafi látið blóðið renna í lesendum. Þessi skrautlega fjölskylda sá fyrir sér að setjast að á Íslandi en fór svo að fjölskyldufaðirinn lést og þær mæðgur sem eftir sátu hröktust til Kaupmannahafnar fjórum árum eftir að hafa stigið hér á land.
Heimsókn fjölskyldunnar til litla Íslands hefur þó án efa kveikt elda og ævintýraþrá í hjörtum einhverra heimamanna. Þó geta ævintýrin allt eins verið í garðinum heima, ekki síst á söguslóðum Íslands í ósnortinni náttúru þar sem sér út á haf.“

Heimild:
-Bændablaðið, 10. apríl 2025, Sigrún Pétursdóttir, Fótspor fyrri alda – Stiklað á stóru yfir sögu Laugarnesjarðarinnar, bls. 72.

Laugarnes

Laugarnes – skýringar.