Fuglstapaþúfa – Arnarklettar

Arnarklettur

Nýjar götur eru gjarnan látnar heita eftir nálægum örnefnum. Hér verða nefnd til sögunnar tvö slík í Hafnarfirði; Þúfubarð og Arnarhraun.
FuglstapaþúfaFyrrnefnda gatan er í hverfi er nefnist „Börðin“. Þar er Fuglstapaþúfa. Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að bygjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka. Síðarnefnda gatan er í „Hraununum“. Þar á millum eru óraskaðir hraunblettir og er svæðið umleikis Arnarkletta þess stærst.
Fuglstapaþúfa er á Hvaleyrarholti. Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar. Fuglstapaþúfa voru landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda. Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir: Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. 

Arnarklettar

Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: „Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.
Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Á svæðiunu eru einnig h
verfisverndarákvæði: „Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað“.
Ólafur Þorvaldsson skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1957 er bar yfirskriftina „Íslenski Örninn“. Fjallar hann þar t.d. um afleiðingar fyrir stofninn vegna eitrunar fyrir refi o.fl. Auk þess segir hann m.a.: „Árið 1913, þegar örninn var alfriðaður, voru aðeins fern arnarpör í landinu. Árið, sem þetta er skrifað eru pörin tíu talsins.
FuglstapaþúfaÁ síðustu tugum síðustu aldar voru í Gullbringusýslu þrír varpstaðir arnarins, sem mér eru kunnir. Þessir staðir voru: Arnarklettar við Hvaleyrarvatn, Helgafell í Garðakirkjulandi or Arnarnýpa í Krýsuvíkurlandi. Vel má vera, að víðar hafi varpstaðir arna verið í nefndri sýslu, þótt fram hjá mér hafi farið vitneskja um það.
Á eitrunartímabili síðustu aldar fór brátt að sjá á arnarstofninum, sem þar hafðist við, og svo illa var komið á síðasta tug aldarinnar, að allir umgetnir varpstaðir voru af lagðir, auðir og yfirgefnir. Þráttf yrir sýnilega fækkun arnarins á umgetnu tímabili var þó fram á síðasta tug aldarinnar svo til dagleg sjón t.d. þar sem ég er fæddur og uppalinn, að Ási skammt suðaustan frá Hafnarfirði, að sjá, þegar fram á sumarið kom, erni frá fjórum til sjö raða sér eftir brún Ásfjalls upp af bænum.

Arnarklettar

Þar sátu þessir tignarlegu fuglar, stundum mikinn hluta dags og biðu þess, að endur kæmu með unga sína, sem þá voru að verða fullvaxnir, út úr starar- og hófrótarbreiðum á autt vatnið. Þá tóku sig upp einn eða fleiri ernir, svifu ofan af brún lágt með jörð út yfir tjörnina og reyndu að klófesta eitthvað úr andarhónum. Þessar veiðiaðferðir báru stundum árangur, oft engan. Á þessum ári leið varla sá dagur, hvort heldur var sumar eða vetur, að ekki sæist örn, einn eða fleiri.
Á næstu árum eftir síðstu aldamót urðu mjög skörp umskipti hvað örninn snertir á svæðinu við sunnanverðan Faxaflóa. Þeir hættu sem sé að sjást, enda allmjög hert á eitrun á þessu tímabili, þar eð refum virtist fjölga þá allmikið.
Í þau fjörutíu ár, sem ég stundaði fugla- og refaveiðar, bæði með sjó fram og upp til fjalla, og hafði mikið samneyti við fjölda manna, sem stunduðu þetta verk, vissi ég aldrei til, að örn væri skotinn, og kom þó fyrir, að það hefði verið hægt.“
Arnarklettur-21Til eru gamlir Hafnfirðingar, sem muna sérstaklega eftir einum kletti umfram aðra í hrauninu við Arnarhraun er nefndur var Arnarklettur. Í deildiskipulagi fyrir Hafnarfjörð árið 2005 segir m.a. um hann og nágrennið (einkum af tilfinningarástæðum): „Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Arnarklettur og grænt svæði umhverfis hann, á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs, njóti hverfisverndar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Í umsögn Byggðasafns Hafnarfjarðar segir m.a. að engar ritaðar heimildir hafi fundist um fornminjar á svæðinu en vettvangsferð hafi leitt í ljós bæði hleðslur og garða. Heimildarmenn safnsins fullyrða að um sé að ræða leifar garðlanda en svæðið var m.a. nýtt fyrir kartöflurækt í kring um seinna stríð. Byggðasafnið telur æskilegt að þessar minjar njóti hverfisverndar sem búsetuminjar og ágætt dæmi um hvernig Hafnfirðingar nýttu sér skjólgott hraunið til ræktunar.“

Heimildir:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar til 2016.
-Deildiskipulag Hafnarfjarðar, Miðbær – Hraun, árið 2005.
-Ólafur Þorvaldsson – Lesbók mbl 19. apríl 1957.
Fuglstapaþúfa