Fyrsta almenningsrafveitan á Íslandi – skilti
Á upplýsingaskilti Byggðasafns Hafnarfjarðar við Austurgötu nálægt Læknum er eftirfarandi texti og myndir um fyrstu almenningsrafveituna á Íslandi:
„Árið 1901 flutti ungur trésmiður til Hafnarfjarðar, Jóhannes J. Reykdal, en hann hafði þá nýlokið námi í iðn sinni í Danmörku. Til Hafnarfjarðar kom hann í þeim erindagjörðum að stofna hér trésmíðaverksmiðju en hann taldi að Hamarskotslækurinn væri ákjósanlegur aflgjafi fyrir vélar verksmiðjunnar. Í verksmiðju þessari, sem tók til starfa árið 1903, voru átta trésmíðavélar sem allar voru knúnar áfram af fallorku lækjarins.
Það var þannig gert að 94 metra langur tréstokkur var reistur og í honum var vatninu veitt í vatnskassa sem áfastur var við húsið. Fallhæð vatnsins í kassanum var tæpir fjórir metrar og í honum var 11 kílóvatta hverfill. Frá hverflinum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu og þaðan lágu svo reimar upp í gegnum gólfið í tvær hreyfivélar sem aftur knúðu trésmíðavélarnar.
Í frétt Heimskringlu af stofnun verksmiðjunnar sagði meðal annars: “Lækurinn í Hafnarfirði er um aldir og áratugi búinn að renna út í fjarðarbotninn án þess að miðla nokkru af afli sínu mönnum til nytsemdar. Nú er mannshöfnin búin að beizla hann, og er það allrar virðingarvert. Vonandi, að ekki líði langar stundir þangað til hann vinnur fleiri þarfaverkin Hafnfirðingum til þarfa og sóma t.d. að lýsa upp hús og götur þar í bænum.” Það var einmitt raunin, því árið 1904 keypti Jóhannes níu kílóvatta rafal frá Noregi og tengdi hann við ás nýs hverfils.
Í kjölfarið réð hann Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðing, sem þá var nýkominn heim úr námi í Þýzkalandi, til að annast lagningu raflagnanna til húsa í nágrenninu og Árna Sigurðsson, sem síðar varð fyrsti rafvirki landsins, til að sjá um tengingu raflagnanna innanhúss. Í desember 1904 voru svo fyrstu rafljósin kveikt en þá var búið að leggja rafmagn í 16 hús auk fjögurra ljóskera í bænum. Á þessum tíma bjuggu 1.079 manns í Hafnarfirði.
Meðal húsanna sem tengd voru má nefna Góðtemplarahúsið, barnaskólann, trésmíðaverkstæðið og íbúðarhús Jóhannesar Reykdals við Brekkugötu.
Fljótlega kom upp sú staða að rafstöð þessi náði ekki að sinna þeirri eftirspurn sem myndaðist og var ráðist í að reisa aðra, mun stærri, rafstöð við Hörðuvelli sem tekin var í notkun árið 1906. Trésmíðaverkstæðið seldi Jóhannes tólf Hafnfirðingum árið 19111 en þeir mynduðu sameignarfélag um reksturinn undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverzlun Hafnarfjarðar, Flygenring & Co. og starfaði hún um áratugaskeið í bænum.“