Fyrsti vitinn á Íslandi – Kristján Sveinsson

Reykjanesviti

Í Morgunblaðið 2003 ritaði Kristján Sveinsson, sagnfræðingur, um „Fyrsta vitann á Íslandi„:

Reykjanesviti

Reykjanesviti og vitavarðahúsið 1908.

„Um þessar mundir [2003] eru liðin 125 ár frá því að fyrst var tendrað vitaljós á Valahnúk á Reykjanesi. Kristján Sveinsson segir frá tildrögum vitabyggingarinnar, fyrsta vitanum og fólki sem við þessa sögu kom.

Næturmyrkrið lagðist yfir Reykjanesið og Valahnúkinn um nónbilið 1. desember 1878. Eins og um aldir og árþúsundir rökkvaði og kennileiti landsins máðust smám saman út í samfelldan sorta. En þetta var tímamótadagur á Reykjanesinu og þótt það væri ekkert um veisluhöld eða tilhald á Valahnúknum, svo langt sem hann nú var frá öllum byggðum bólum, hefur áreiðanlega verið hátíðarsvipur á Arnbirni Ólafssyni vitaverði einni klukkustund eftir sólarlag þegar hann stóð í ljóshúsi hins nýbyggða Reykjanesvita og kveikti á olíulömpunum 15 í ljóstæki hans, hverjum á eftir öðrum, því þetta var vígsludagur vitans og formlegt upphaf vitaþjónustu á Íslandi.

Íslensk síðþróun í vitamálum

Reykjanes

Reykjanes.

Vitar höfðu logað árhundruðum saman á ströndum Evrópulanda þegar Reykjanesvitinn var byggður og hvernig stóð á þessu seinlæti í vitamálum hinnar norðlægu eyjar?
Jú, landið var afskekkt, strjálbýlt og fámennt, efnahagur íbúanna oftast ekki ýkja beysinn og atvinnuhættir fábreyttir og frumstæðir. Þessar skýringar hafa oft heyrst og sést áður í mati á fortíðinni, jafnvel svo oft að þær hljóma gjarnan sem klisja, en hvað vitana áhrærir eru ekki aðrar nærtækari.

Reykjanesviti

Brunnur undir Bæjarfelli.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hversvegna stjórnvöld í Danmörku höfðu ekki frumkvæði að vitabyggingum á Íslandi því Danir voru meðal fremstu vitaþjóða í Evrópu. En áhrif og atbeini danskra stjórnvalda hér á landi voru í raun ætíð takmörkuð og það átti við á þessu sviði einnig. Og auk þess hafði stjórn danska ríkisins um langt skeið þá stefnu að byggja ekki vita fyrir almannafé annars staðar en þar sem þeir þjónuðu almennri skipaumferð og leit þá einkum til hinna fjölförnu skipaleiða um sund og belti við Danmörku.

Reykjanesviti

Upplýsingaskilti við Valahnúk.

Sveitarfélög í Danaveldi urðu að standa straum af innsiglingar- og hafnarvitum og vitum sem einkum komu fiskimönnum að notum. Það sem skýrir byggingu elsta Reykjanesvitans árið 1878 eru kröfur Íslendinga um siglingar millilandaskipa að vetrarlagi. Þær áttu sér rætur í því að efnahagur landsmanna fór batnandi á síðari hluta 19. aldar eftir því sem sjávarútvegur efldist og þróaðist og verslun jókst.

Þéttbýlisstaðir fóru að myndast og vaxa við ströndina þar sem þorskurinn í sjónum og krambúðir kaupmanna löðuðu til sín vaðmálsklætt sveitafólkið sem brá sér í skinnklæði sjómanna og sótti golþorska á fiskimiðin sem urðu að gullþorskum og síðan að kaffi, hveiti, silki, sirsi, tóbaki og tölum í krambúðum kaupmannanna. Eitt af meginöflum nútímans komst á kreik – tískan. Það var annað lag á dönsku skónum í ár en í fyrra. Gaberdínið með öðru móti í vor en síðasta haust svo ekki væri nú minnst á slifsin og hattana. Það var alveg orðið ólíðandi að þurfa að þrauka allan veturinn án þess að það kæmi nýr varningur í verslanirnar.

Reykjanesviti

Gata vitavarðar á milli bústaðar og gamla vitans á Valahnúk.

Það voru bæði kaupmenn og viðskiptavinir sammála um. Og það var ekki nóg að endurnýjast hið ytra með skæðum og klæðum. Sálartetrið þurfti líka sína hressingu og endurlífgun. Já, einmitt, fréttir. Umræðuefni. Það gat ekki náð nokkurri átt að það skyldu geta liðið þrír eða fjórir mánuðir án þess að tíðindi bærust utan úr þeim heimi handan úthafsins sem sífellt fleiri Íslendingar höfðu áhuga á. Það lá við að heilu stríðin færu fram hjá fólki og kóngar og keisarar gátu legið dauðir vikum og mánuðum saman áður en hægt var að segja svo mikið sem „jahá“ eða „jamm“ yfir því á Íslandi, hvað þá biðja vesalingnum fararheilla í eilífðina. Nei, það var ekki hægt að þola það lengur í þorpi og bæ að póstskipið sigldi ekki yfir veturinn.

En var þá ekki bara hægt að láta kaupskipin og póstskipið sigla á veturna? Nei. Norður í þetta órofa heimskautamyrkur stefndi enginn heilvita maður skipi.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn.

Jafnvel ekki þótt rausnarlegt endurgjald væri í boði því hvern fýsir að verða skipreika við úfna, illviðrasama, mannauða og koldimma strönd, en á því voru mestar líkur ef lagt var í svona háska töldu skipstjórar og forráðamenn skipafélaga. Þarna norðurfrá var hvergi ljósglætu að sjá og vindgnauðið oftast svo mikið að það heyrðist ekki í brimgarðinum fyrr en rétt áður en komið var í hann. Hvernig á að varast svo fláa strönd? Hvað ef það væri viti, spyrja kaupmenn og póststjórn. Jú, það myndi breyta málinu svara skipstjórar og útgerðarmenn. Þó að það væri ekki nema einn svo það sé í það minnsta hægt að finna þennan Faxaflóa sem flestir fara til þarna uppi.

Vitamál hefjast á Alþingi

Reykjanesviti

Merki Friðriks VIII, á Reykjanesvita.

Með setningu stöðulaganna árið 1871 og stjórnarskránni sem Kristján IX Danakóngur hafði með sér til Íslands í sumarheimsókn sinni árið 1874 fékk Alþingi fjárveitingarvald og gat farið að taka sjálfstæðar ákvarðanir um framkvæmdir í landinu. Fyrsta þingið sem þetta vald hafði kom saman í húsakynnum Lærða skólans í Reykjavík sumarið 1875 og þar hófust íslensk vitamál.
Þetta upphaf fólst á rökréttan hátt í því að tveir þingmenn, þeir Snorri Pálsson þingmaður Eyfirðinga og Halldór Kristján Friðriksson þingmaður Reykjavíkur, fluttu frumvarp til laga um vitagjald þótt enginn væri vitinn. Hinir varfærnu þingmenn vildu með þessu tryggja fjárhagslegan grundvöll vitabyggingar og vitareksturs áður en þeir legðu til að tekist væri á við þau verkefni. Frumvarp þeirra datt raunar upp fyrir á þessu þingi, en varð til þess að farið var að undirbúa byggingu á vita á Reykjanesi.
Vert er að veita þingmönnunum tveimur og bakgrunni þeirra nokkra athygli, en báðir komu þeir af þéttbýlustu svæðum landsins þar sem uppgangur var í sjávarútvegi og verslun.

Reykjanesviti

Hús fyrsta vitavarðarins.

Snorri Pálsson (1840–1883) hafði bæði fengist við verslunarrekstur og útgerð fiskiskipa við Eyjafjörð auk þess sem hann hafði verið forstöðumaður fyrir Siglufjarðardeild „Hins eyfirzka ábyrgðarfélags“ sem var tryggingarfélag fyrir fiskiskip við Eyjafjörð. Snorri var því vel kunnugur því hversu torvelt það var að fá skip til að sigla til Íslands að vetrarlagi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Hann var einnig vel kunnugur hættunum sem fylgdu því að sækja sjóinn við Ísland. Í lok maí 1875, aðeins nokkrum vikum áður en Snorri tók sæti á Alþingi í fyrsta skipti, fórst eitt af hákarlaskipum hans í aftakaveðri sem þá gerði við Norðurland og með því 11 menn. Alls fórust 25 manns úr nágrenni Snorra í þessu veðri, þar á meðal bróðir hans.

Halldór Kristján Friðriksson (1819–1902) var kennari og yfirkennari við Lærða skólann en auk þess bæjarstjórnarmaður í Reykjavík og alþingismaður um langt skeið. Áhugamál hans voru fjölþætt og hann lét víða að sér kveða í félagsmálum, meðal annars var hann lengi forseti „Húss- og bústjórnarfélags suðuramtsins“, en ef að líkum lætur voru það einkum afskipti hans af bæjarmálefnum í Reykjavík sem ollu því að hann gerðist talsmaður vitabygginga því siglingaleysið yfir veturinn stóð orðið atvinnulífi í bænum fyrir þrifum.

Reykjanesvitinn 1878

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Vitagjaldsfrumvarp þeirra Snorra Pálssonar og Halldórs Kr. Friðrikssonar varð til þess að farið var að huga að byggingu vita á Íslandi fyrir alvöru. Ekki er að sjá að komið hafi til álita að reisa fyrsta vita landsins annars staðar en á Reykjanesi, enda komu langflest skip úr hafi upp að suðvesturhorni landsins. Málið var borið undir C.F. Grove, vitamálastjóra Dana, sem lýsti þeirri skoðun sinni að einmitt af fyrrgreindum ástæðum væri mikilvægt að hefja vitavæðingu Íslands á Reykjanesinu.
Alþingismenn reyndust áhugasamir um að byggja vita á Reykjanesi með hliðsjón af hugmyndum danska vitamálastjórans en sameiginlegir sjóðir landsmanna voru rýrir að vöxtum og þekking á vitatækni var engin í landinu. Því var leitað til Dana um aðstoð og það féll í hlut skáldsins Gríms Thomsens, sem var formaður fyrstu fjárlaganefndar Alþingis, að greiða úr álitamálum í samskiptum Dana og Íslendinga á þessu sviði. Vitamál heyrðu undir danska flotamálaráðuneytið (Marineministeriet) þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að danska ríkissjóðnum bæri engin skylda til að standa straum af kostnaði við vitabyggingu á Íslandi en þar sem áformaður viti myndi gagnast dönskum kaupskipum væri flotamálaráðuneytið tilbúið til að styrkja Íslendinga í þessari fyrirætlan. Varð sú niðurstaðan að hæfilegt framlag fælist í ljóshúsi úr eir og vitatæki, en vitabygginguna sjálfa yrðu Íslendingar að sjá um.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúkum.

Sumarið 1876 var notað til að kanna væntanlegt vitastæði á Reykjanesi og aðstæður til byggingar þar. Tveir undirforingjar af varðskipinu Fyllu fóru þangað í könnunarferð í lok maí og leist best á að byggja vitann á Valahnúk, yst á Reykjanesinu. Nóg var þar af hraungrjóti til byggingarinnar, skrifuðu undirforingjarnir í greinargerð sinni, og rekaviður í fjörum sem bæði mætti nota við vitasmíðina og til eldsneytis.
Vorið 1877 tilnefndi flotamálaráðuneytið danskan verkfræðing, Alexander Rothe, til að undirbúa vitabygginguna á Reykjanesi og fór hann þá um sumarið til Íslands og tvær rannsóknarferðir á Reykjanesið áður en hann afhenti tillögu sína að vita og vitavarðarbústað á Reykjanesi. Bæði Alþingi og danska þingið samþykktu fjárframlög til verksins og 10. apríl skrifaði Nellemann Íslandsmálaráðherra Hilmari Finsen landshöfðingja og tilkynnti honum að samið hefði verið við Alexander Rothe um byggingu steinhlaðins vita og vitavarðarbústaðar á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1908.

Rothe og vinnuflokkur hans tóku til starfa 6. júní 1878. Með verkfræðingnum kom danskur múrarameistari, Lüders að nafni, sem hafði annast byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg árið 1872, en aðrir starfsmenn voru Íslendingar. Vitastæðið hafði verið ákveðið á Valahnúk og Rothe gerði ráð fyrir að nota hraungrjótið sem þarna er gnótt af. En þegar Lüders múrarameistari tók að láta hamra og meitla gnauða á grjótinu molnaði það og reyndist alveg ónýtt byggingarefni.

Reykjanesviti

Gata niður að grjótnámu við Reykjanesvita.

Þá var tekið til bragðs að flytja stuðlaberg neðan úr fjörunni um alllangan veg sem ásamt ýmsum öðrum töfum varð til þess að vitabyggingin gekk nokkuð hægar en Rothe hafði gert ráð fyrir. Honum þótti til dæmis vinnukrafturinn helst til óáreiðanlegur því karlarnir áttu það til að þjóta fyrirvaralaust úr steinhögginu í fiskiróður eða heyskap, og svo var veðurfarið á þessum útkjálka með eindæmum örðugt og óhagstætt fannst honum.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Kannski var eitthvað til í því. Frásögn Gríms Thomsens bendir til þess, en fjárlaganefndarformaðurinn skáldmælti gerði sér ferð á Reykjanesið um sumarið að líta á vegsummerki og ritaði síðan í blaðið Ísafold sem hann ritstýrði um þessar mundir: Það er engin hægðarleikur að draga grjót að sjer upp á Valahnjúkinn og það steina sem 6–10 manns þarf til að hnosa þar upp; ekki er heldur ládeyðan þar dagslega, þegar lenda þarf með eitthvað, sem til vitans þarf, svo sem kalk og steinlím, vistir og áhöld. Þá gekk langur tími til að ná í vatn, gjöra brautir, höggva grjót niðri í fjöru, ef fjöru skyldi kalla, þar sem brimið beljar ár og síð, og verst af öllu hefur það reynzt, að margir dagar hafa fallið út, af því að ekki gat orðið úr verki uppi við vitaturninn fyrir stormi og óveðri. Það viðrar öðruvísi upp á Valahnúknum en niðri á Austurvelli.

Reykjanesviti

Persónur er komu við sögu fyrsta vitans.

Þótt Rothe yrði ýmislegt mótdrægt við byggingarframkvæmdirnar tókst að ljúka þeim um haustið og var þá risinn á Valahnúknum steinhlaðinn viti, límdur með steinlími sem í var Esjukalk, en á þessum tíma var kalknám í Esjunni og brennsluofn í Reykjavík sem Kalkofnsvegur dregur nafn sitt af. Einnig hafði verið byggður á Reykjanesinu bær fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Reykjanesvitinn frá 1878 var áttstrendur, um 4,5 m í þvermál og 6,2 m á hæð. Turninn skiptist í tvær hæðir, jarðhæð og efri hæð þar sem vaktherbergi vitavarðarins var.
Ljóshúsið var úr steypujárni og umhverfis það svalagólf sem girt var með járnhandriði. Ljóstæki vitans var upphaflega samansett úr 15 olíulömpum og að baki hverjum þeirra var holspegill úr messing sem magnaði ljósið. Þremur lömpum með speglum var bætt í ljóstækið árið eftir að vitinn var tekinn í notkun til að bæta lýsingu hans. Þetta ljóstæki var í vitanum fram til ársins 1897, en þá var sett í hann 500 mm snúningslinsa, sem enn er til, og steinolíulampi með tveimur hringlaga kveikjum. Vitinn stóð fram til ársins 1908.
Eins og kunnugt er þá er Reykjanesið jarðskjálftasvæði og urðu jarðskjálftar og ágangur sjávar á Valahnúkinn til þess að laska svo vitann og undirstöðu hans að talin var hætta á að hann félli í hafið og vitavörður neitaði að standa þar vaktir.
Nýr viti, sá sem enn stendur, var reistur veturinn 1907–1908 og þann 16. apríl 1908 var gamli vitinn felldur með sprengingu.

Reykjanesviti

Arinbjörn Ólafsson, vitavörður.

Vitavörðurinn

Bygging og starfræksla fyrsta vitans í óbyggðum Reykjanessins hafði það í för með sér að til varð ný starfsgrein á Íslandi – vitaverðirnir. Starf þeirra var bindandi því ekki varð hjá því komist að halda stöðugan vörð um vitaljósið á logtíma vitans meðan notaðir voru olíulampar. Þess utan þurfti vitavörður að fægja og þrífa, fylla olíu á lampa og gæta vitans í hvívetna. Stundum var gestkvæmt og þá var ekki annað en sjálfsagt að leyfa „mönnum er skýra frá nöfnum sínum og heimilum, og sem ekki er ástæða til að gruna um neina ósiðsemi, að skoða vitabygginguna“. Það sagði erindisbréf vitavarðarins, en ölvaðir menn, óuppdregnir dónar sem hræktu á gólfin og hundspott þeirra máttu ekki stíga fæti í vitann.

Reykjanesviti

Arinbjörn og Þórunn.

Fyrsti íslenski vitavörðurinn hét Arnbjörn Ólafsson, trésmiður að iðn og hafði unnið við byggingu vitans sumarið 1878. Hann var fæddur 24. maí 1849 og var því rétt að verða þrítugur þegar hann flutti búferlum á Reykjanesið ásamt Sesselju systur sinni, en hún hafði einnig starfað við vitabygginguna þar sem hún var ráðskona. Áður en Rothe verkfræðingur hvarf af landi brott hafði hann veitt Arnbirni einhverja tilsögn í umhirðu vitans og meðferð vitatækjanna, en það er af varðveittum bréfum vitavarðarins að sjá að þessi kennsla hafi verið hálfgert í skötulíki og hann taldi sig vanbúinn til starfans af þeim sökum. Alþingi brást við beiðnum Arnbjörns um frekari vitamenntun og lét honum í té fjárupphæð til Danmerkurfarar. Þangað hélt hann vorið 1879 og nam vitavörslu fram eftir sumri.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesið var sannarlega afskekkt á þessum tímum og orðið nokkuð langt síðan þar var búið þegar vitavörðurinn settist þar að. Varla að það væri reiðvegur þangað út eftir og hægur vandinn að villast í hraunbreiðunni ef skyggni brást eitthvað. Jón Jónsson landritari og vitaeftirlitsmaður lét þetta þó ekki aftra sér frá því að takast á hendur heimsókn til vitavarðarins á jólunum árið 1880. Þessi ötuli embættismaður lagði upp frá Reykjavík á Þorláksmessu, gisti í Höfnunum og var kominn að vitanum síðdegis á jóladag. Þangað hafði hann fikrað sig í stjörnubjörtu veðri og skemmt sér við að telja vörðurnar á leiðinni. Þær voru alls 61 og á heimleiðinni kom sér vel að vita þetta því þá var snjóbylur og ágætt að geta talið vörður til að vita hvar maður var staddur. En það myndi ekki veita af einum 50 vörðum til viðbótar, taldi hann, ef menn ættu að geta verið vissir um að rata í hvaða veðri sem væri.

Reykjanes

Reykjanes – uppdráttur ÓSÁ.

Jón landritari sá vitaljósið við níundu vörðu frá Höfnum talið og var harla ánægður með hvað það var skært. Það var öryggi og staðfesta í þessu ljósi sem róaði landritarahugann, en aðkoman, þegar í vitavarðarbústaðinn kom um kvöldmatarleytið, kom heldur betur róti á embættismanninn. Það kom nefnilega í ljós að þar sat hvert mannsbarn á bænum og át sinn jólamat, hver sem betur gat, líka vitavörðurinn og aðstoðarmaður hans.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Arnbjörn vitavörður reyndi að afsaka sig með jólahátíðinni en landritari lagði ekki eyru við slíku hjali heldur benti honum á að „úr því eptirlitið ljeti ekki jólahátíðina aptra sjer að gæta skyldu sinnar væri vitaverðinum engin vorkunn að gera slíkt hið sama“. Hann fékk skriflega nótu og varð svo að skunda á vitavaktina.

Það var alla tíð gerð rík krafa um árvekni og samviskusemi vitavarða og flestir stóðu þeir vel undir því, einnig Arnbjörn Ólafsson þrátt fyrir jólamálsverðinn. Hins vegar hentaði ekki öllum sú mikla einangrun sem fylgdi búsetunni á vitavarðarstöðunum og það átti við um hann og fjölskyldu hans. „Það er annað vorhugi en vetrar,“ skrifaði Arnbjörn Jóni landritara haustið 1879 og vetrarkvíðinn er greinilegur í þessu bréfi hins unga vitavarðar sem hafði kvænst jafnöldru sinni, Þórunni Bjarnadóttur úr Skagafirðinum, um sumarið. Hvernig myndi ástinni reiða af í vetrarríki Reykjanessins?Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk

Það gekk bara vel því þau Arnbjörn og Þórunn héldu saman meðan bæði lifðu. En árið 1884 höfðu þau fengið nóg eftir sex ára dvöl á Reykjanesinu og Arnbjörn sagði upp vitavörslunni. Hann fluttist þá til Reykjavíkur en nokkrum árum síðar til Keflavíkur þar sem hann stundaði verslunarstörf og rak bakarí.
Um aldamótin 1900 átti Arnbjörn mikil viðskipti við enska togara og varð frumkvöðull í íslenskri togaraútgerð þegar hann fór fyrir hópi Íslendinga sem keypti fyrsta togarann, Coot að nafni, til Íslands árið 1905. Vegna viðskipta Arnbjörns áttu þau Þórunn heimili sitt erlendis um skeið, bæði í Danmörku og Englandi. Þórunn féll frá árið 1912 og Arnbjörn tveimur árum síðar.“ -KS

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Morgunblaðið 30. nóv. 2003, Kristján Sveinsson – Fyrsti vitinn á Íslandi, bls. 20-21.

Reykjanesviti

Reykjanesvitar – fyrr og nú.