Garðakirkja á Álftanesi – Árni Óla
Í Jarðabókinni 1703 eru Garðar á Álftanesi sagðir eiga selstöðu við Kaldá, væntanlega í Kaldárseli. Nú er að mestu búið að eyðileggja minjar hennar, en líklegt má telja að selstaðan geti verið allt frá því á 16. eða 17. öld. Minjar annarrar selstöðu í Garðalandi eru í Helgadal. Þar hefur verið kúasel af tóftunum að dæma, líklega frá miðöldum. Leifar þriðju selstöðuna, og þá elstu, sennilega allt frá landnámi, er að finna á Garðaflötum. Þar má einng sjá, að því er virðist fjós, skála og eldhús.
Í Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst. Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar. Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum.
Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka „at boði j Görðvm“ og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: „var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr“. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn „í kirkjugarðinum þar í Görðum“.
Í Morgunblaðinu árið 1955 fjallar Árni Óla um sögu Garða: „Garðar á Álftanesi eru ekki taldir með landnámsjörðum, en þó mun hafa verið sett byggð þar þegar á landnámsöld.
Jörðin er í landnámi Ásbjarnar Özzurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og eftir því sem næst verður komizt, hét sá Þjóstarr, er þar bjó fyrstur. Hann var kvæntur Iðunni dóttur Molda-Gnúps, landnámsmanns í Grindavík, og er talið að þau hafi átt þrjá sonu. Einn þeirra var Þorkell, er fór einhver fyrstur manna hér á landi alla leið suður til Miklagarðs, dvaldist þar nokkur ár og var „handgenginn Garðskonunginum.“
Annar sonur Þjóstars var Þormóður, er bjó að Görðum eftir föður sinn. Hann var kvæntur Þuríði dóttur Avangurs ins írska, er fyrstur byggði að Botni í Hvalfirði, og smíðaði sér haffært skip úr skógi þeim er þar var þá. Getið er tveggja barna þeirra Þormóðar, Barkar er átti Hallvöru dóttur Odda Ýrarsonar, og Jórunnar. —
Landnáma segir frá því, að þeir Illugi rauði og Hólm-Starri hafi haft skifti á jörðum, konum og lausafé. Sigríður kona Illuga hengdi sig þá í hofinu á Hofstöðum í Reykholtsdal, „því að hún vildi ekki mannakaupið“. Ekki er getið um konu Starra, en líklega hefur hann tekið hana aftur þegar þannig fór um Sigríði, því að upp úr þessu fekk Illugi Jórunnar frá Görðum.
Um þessar mundir bjó í Vælugerði í Flóa sá maður er Öra hét. Svo er sagt að eftir ráðum Marðar gígju hafi hann orðið sekur þannig að hann skyldi falla óheilagur fyrir sonum Önundar bílds, nema í Vælugerði og örskotshelgi við landeign sína. Einu sinni rak Örn naut úr landi sínu og var þá veginn, og heldu allir að hann hefði fallið óheilagur. En ÞorJeifur neisti bróðir hans, keypti að Þormóði Þjóstarssyni í Görðum, er þá var nýkominn út á Eyrarbakka, að hann helgaði Örn. „Þormóður skaut þá skot svo langt af handboga, að fall Arnar varð í örskotshelgi hans“. Má á þessu sjá. að Þormóður hefur verið íþróttamaður og nafnkunnur bogmaður. Synir Þjóstars hafa því þegar gert garðinn frægan, þótt ekki fari af þeim neinar sögur. Og allt frá þeim tíma hafa Garðar verið merkur staður.
Kirkja hefur sennilega verið reist þar skömmu eftir kristnitöku. Var hún helguð Pétri postula og er til skrá um presta þar síðan 1284. Þar var í gamla kirkjugarðinum svonefndur „vökumaður“. Var það trú hér á landi um eitt skeið, að sá, sem fyrstur væri grafinn í kirkjugarði, rotnaði ekki, heldur heldi stöðugt vörð um garðinn. Segir sagan, að eitt sinn er verið var að taka gröf í útnorðurhorni kirkjugarðsins, áður en hann væri færður inn“, þá var komið niður á rauðklæddan mann, órotinn, og skipaði prestur að byrgja gröfina þegar. Þetta hefur átt að vera einhver fornmaður í litklæðum, og hann vakir enn yfir kirkjunni, sem nú er líka utangarðs.
Torfkirkja var í Görðum öld fram af öld. En um miðja fyrri öld er komin þar timburkirkia. Hún entist illa og var orðin óhæf til messugerðar 1878. Þá var Þórarinn Böðvarsson prestur að Görðum. Hann vildi að söfnuðurinn tæki að sér kirkjuna og flytti hana til Hafnarfjarðar, en þar var þá meginhluti safnaðarins. Sóknarnefndin mun ekki hafa treyst sér til þessa, og varð það því úr, að ný kirkja var reist að Görðum og var hún hlaðin úr steini. Þvkir mér líklegt að notað hafi verið kalk úr Esjunni til þess að líma griótið saman. Var kalkbrennslan í Reykjavík þá í fullum gangi, og þeir munu hafa verið vel kunnugir Egill Egilsen forstjóri kalkbrennslunnar og séra Þórarinn Böðvarsson. Kirkja þessi var reist árið 1879. Þótti hún merkilegt hús.
Þegar kom fram yfir aldamótin var farið að tala um það í fullri alvöru að reisa nýa kirkju í Hafnarfirði, og var séra Jens Pálsson því mjög fylgjandi. Hann átti þá 2500 kr hjá kirkjunni, en bauðst til þess að láta þá skuld falla niður, ef söfnuðurinn vildi taka kirkjuna að sér og reisa nýtt guðshús í Hafnarfirði. Varð það svo úr, að með samningi gerðum 6. marz 1910, afhenti hann sóknarnefnd Garðakirkju til umsjónar og fjárhalds, og með þessum samningi gaf hann eftir skuld kirkjunnar við sig. Eigi varð þó úr því þá þegar að farið væri að reisa kirkju í Hafnarfirði. En það sem reið baggamuninn í því efni var stofnun fríkirkiusafnaðar í Hafnarfirði veturinn 1913, og að hafin var bygging fríkirkju bar þegar á sama ári. Þá vildi þjóðkirkjusöfnuðurinn ekki láta sitt eftir liggja og reisti þar kirkju árið eftir. Var þá ákveðið að leggia Garðakirkju niður og flytja gripi hennar í nýu kirkjuna.
Seinasta guðsþjónusta var haldin í Garðakirkju 23. sunnudag eftir trinitatis 1914 (15. nóvember), en þjóðkirkjuna nýju í Hafnarfirði vígði Þórhallur Bjarnarson biskup 20. desember sama ár.
Kom nú til orða að selja Garðakirkju til þess að afla fjár vegna kirkjubyggingarinnar, en það fórst þó fyrir. Stóð nú Garðakirkja auð og hrörnaði óðum, svo að blöskraði öllum þeim, sem báru hlýjan hug til hennar. Og árið 1916 bundust 10 menn samtökum um að bjarga kirkjunni. Það voru þeir: Ágúst Flygenring kaupmaður, Carl Proopé kaupmaður, Chr. Zimsen umboðsmaður, Einar Þorgilsson kaupmaður, Gunnar Egilsson skipamiðlari, Jes Zimsen kaupmaður, Jón Einarsson verkstjóri, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason verkstjóri og Þórarinn Egilsson útgerðarmaður. Eru þeir nú allir látnir, nema inn síðast nefndi. Einhver viðgerð fór nú fram á gömlu kirkjunni, en dugði lítt. Tímans tönn nagaði viði kirkjunnar jafnt og þétt, þótt lítið bæri á.
Seinast var svo komið, að menn óttuðust að turninn mundi hrynja. Þá var hann rifinn, þakið tekið af og allt rifið úr kirkjunni innan veggja. Síðan hefur steintóttin staðið þarna gnapandi um langa hríð, en hún hefur látið furðu lítið á siá. Vindar hafa gnauðað á henni, regnið hefur lamið hana, frost og snjór hafa kreist hana köldum greipum, en hún stóðst allt þetta. Má á því sjá hve vel hefur verið gengið frá veggjunum. Eru þeir og snilldar vel hlaðnir, og skyldi steinninn hafa verið límd ur með kalki úr Esjunni, þá þarf engan að undra þótt kirkjurústin hafi staðið af sér öll veðraáhlaup um mörg ár, því að það kalk hefur reynzt óbilandi. Sama sumarið og Garðakirkja var reist, var reist steinhús í Reykjavík og límt með Esjukalki. Það stendur enn í Lækjargötu og sér ekki nein ellimörk á því, enda þótt það sé 75 ára gamalt. Eins hefði kirkjan getað staðið enn hnarreist og tíguleg, ef henni hefði verið sómi sýndur.
Þótt marga tæki það sárt hvernig fór um Garðakirkju, þá var eins og örlög hennar væri orpin þögn og hyldist í einhverri móðu. Það var engu líkara en að Hverfisdraugarnir sem séra Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum, setti niður í Stíflishólum á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Garða fyrir tvö hundruð árum, hefði losnað og villtu nú mönnum sýn hálfu meir en þeir höfðu áður gert. Það var eins og aðalsöfnuðurinn, sem nú átti heima í Hafnarfirði, gæti ekki séð út að Görðum. En öldruðu fólki úr Garðahverfinu, sem fór til kirkju inn í Hafnarfjörð, vöknaði jafnan um augu er það gekk fram hjá rústum Garðakirkju. Nú er niðurlægingar tímabil gömlu Garðakirkjunnar senn á enda. Hún verður bráðum færð í sinn fyrra búning. Árið 1053 var Kvenfélag Garðahrepps stofnað, og á stofnfundi þess var þegar rætt um, að eitt af því sem félagið ætti að beitast fyrir, væri að reisa Garðakirkju úr rústum.
Síðan hafa 60 samhuga konur unnið að þessu í kyrrþey. Og þar sem konurnar leggjast á sveif, á við gamla vísan: Fram skal ganga haukur núna hvort hann vill eður ei. Hér mun og svo fara. Það er eins og sérstök blessun hafi fylgt þessu máli. Fjöldi manna, sem ber hlýjan hug til Garðakirkju, en hafði gleymt henni, hefur nú vaknað við, er konurnar voru komnar á stað, og ýmist lagt fram fé, eða lofað fé til viðreisnar kirkjunni. Aðrir munu á eftir koma. Og sóknarnefndin hefur þegar afhent félaginu kirkjurústina til eignar. Konurnar hafa fengið sérfróða menn til þess að athuga veggina til þess að ganga úr skugga um, að þeir sé enn svo sterkir að forsvaranlegt sé að byggja ofan á þá. Og veggirnir hafa staðizt prófið. Verður nú brátt hafizt handa um að gera við veggina og koma þaki á kirkjuna. Er það ætlan Kvenfélagsins að gera kirkjuna aftur sem allra líkasta því er hún var áður, meðan hún var ein af snotrustu og merkilegustu kirkjum landsins. En þegar því er lokið er það annarra en Kvenfélagsins að ákveða hvort hún skuli gerð að sóknarkirkju aftur.
Margar minningar eru bundnar við Garða, og sú ekki sízt, að þar fæddist Jón biskup Vídalín árið 1666. Finnst mönnum ekki eðlilegt að kirkja ætti að vera einmitt á þeim stað, þar sem áhrifamesti kennimaður íslands fæddist? Garðakirkja var upphaflega helguð Pétri postula, þeim mikla kennimanni frumkristninnar. Nú þegar hún rís af grunni aftur, þá mætti hún vel heita Vídalínskirkja. – Á. Ó.“
Heimild:
-Ísl. fornr. XI: 112.
-Ísl. fornr. I: 58-9, 78, 332.
-Ísl. fbrs. XII: 9.
-Ísl. fbrs. I: 498.
-Ísl. Fbrs. I:41-2, 313.
-Lesbók Morgunblaðsins 25. sept. 1955, bls. 519-521.