Garðakirkja endurreist – Sigríður Thorlavius

Garðakirkja

Sigríður Torlavius skrifar í Tímann árið 1965 um endurreisn Garðakirkju:
„Í meira en sex hundruð ár hafði staðið kirkja að Görðum á Álftanesi. Frá kirkjudyrum höfðu menn sýn yfir strönd og nes horfðu vestur um flóa, í sólsetursglóð eða kólgubakka. Þaðan mátti sjá fólk starfa að landbúnaði og við sjófang, báta róa til fiskjar, snúa í höfn — eða hverfa að fullu og öllu. Þar höfðu þjónað 43 klerkar, aðstoðarprestar meðtaldir, þegar ákveðið var árið 1914, að sóknarkirkjan skyldi flutt frá Görðum til Hafnarfjarðar í sjávarþorpið við hraunjaðarinn í botni víkurinnar.
gardakirkja-29Mismargt er ritað um þá klerka, sem staðinn hafa setið frá því þar var séra Ólafur Magnússon, sem árið 1284 gerði för sína til Noregs og andaðist þar ári síðar. Árni biskup Þorláksson sem Biskupa sögurnar segja, að hafi „farið fram sem ljón“ í stríði sínu við veraldlega valdið um eignir þær, sem kirkjunum höfðu verið lagðar, setti á staðinn frænda sinn séra Bjarna Helgason, árið 1285. Ekki undi Rafn lögmaður Oddson því, heldur tók staðinn af Bjarna og fékk í hendur Sturlu Sæmundssyni frá Odda. Fleiri urðu átök um yfirráð staðarins á þeim óróatímum.
Árið 1531 fékk séra Einar Helgason staðinn. Ekki var kært nábýlið með honum og Diðriki af Mynden, fógeta á Bessastöðum. Kvaðst klerkur albúinn að lesa ævisögu fógetans upp á Alþingi og væri honum það mátulegt, því bæði stæli hann og kæmi öðrum til að stela. Eftir að Diðrik var dauður óhreinan sveim, lagði þó ári sá aldrei til við séra Einar. En annan mann átti séra Einar að vini. Það var hinn blindi biskup Ögmundur Pálsson, sem svo hart var leikinn af Gissuri eftirmanni sínum. Hann bað séra Einar að skrifa bréfið til Ásdísar systur sinnar á Hjalla, um afhendingu Slifursins, sem duga átti honum til lausnar. Ekki treystu þeir Hvítfeld og Gissur bréfagerð séra Einars, heldur skrifaði Gissur sjálfur annað bréf og sendi séra Einar með það austur.
Árin 1569—1618 sat Jón Kráksson staðinn. Hann var hálfbróðir Guðbrands biskups Þorláksaonar og var með honum erlendis þegar Guðbrandur tók vígslu. Samtímis fengu þeir staðfesta dóma um endurheimt jarða, sem dæmdar höfðu verið af Jóni afa þeirra Sigmundssyni.
gardar-229Árið 1658 fluttist að Görðum Þorkell prestur Arngrímsson og þar fæddist honum sonur árið 1666, er kunnur varð samtíð og síðari öldum Jón biskup Vídalín. Jón Vídalín var að vísu prestur í Görðum um tveggja ára skeið, 1695—97, en virðist alltaf hafa verið með annan fótinn austur í Skálholti hjá Þórði biskupi Þorlákssyni Þó hafði hann bú á Görðum með móður sinni, en naumast hafa efnin verið mikil. Er að því vikið í Biskupasögunum, að eftir andlát Þórðar biskups, hafi Guðríður ekkja hans veitt Jóni fjárstyrk til að sigla, svo hann næði biskupsembætti og vígsju. Ári eftir að Jón tók vígslu, hélt hann brúðkaup sitt, en ekki sat velgerðarkona hans, biskupsekkjan, þá veizlu. Er sveigt að því, að þá hafi verið tekin að kólna vinátta þeirra. Ó-já, það er svo sem sitt hvað, sagnfræði og slúður!

Garðakirkja

Garðakirkja 1960.

Fleiri Garðaklerkum samdi illa við höfðingjana á Bessastöðum. Björn Jónsson Thorlacius, sem var þar prestur frá 1720—46, átti í miklum brösum við amtmanninn. Dætur átti séra Björn tvær og giftist önnur Halldóri biskupi Brynjólfssyni, en hin, sem var launbarn, varð eiginkona Skúla fógeta.
Á síðari öldum sátu á Görðum margir lærdómsmenn og menningarfrömuðir, eins og Árni biskup Helgason. Helgi lektor Hálfdánarson og Þórarinn prófastur Böðvarsson. Lét séra Þórarinn hlaða steinkirkju að Görðum árið 1879 og stóð hún ofar í brekkunni en hinar fyrri kirkjur höfðu staðið og utan við kirkjugarðinn. Lét hann Jón son sinn, sem þá var við nám erlendis, kaupa marga góða gripi til kirkjunnar.
Síðasti presturinn sem staðinn sat, var Árni prófastur Björnsson. Bjó hann áfram á Görðum til ársins 1928 þó að búið væri að flytja kirkjuna. En eftir að hann fluttist burtu, gerðist Guðmundur Björnsson ábúandi á jörðinni og situr hana enn.
Sem að líkum lætur voru kirkjugripir úr Garðakirkju fluttir í hina nýju sóknarkirkju. Altaristaflan var tekin að mást og fölna og þótti nauðsynlegt að skýra hana upp og hreinsa og var það gert í Reykjavík. Ólafur þingvörður Þorvaldsson hefur sagt mér, að eitt sinn, er hann var á heimleið frá Reykjavík, hafi hann mætt hóp manna, sem kom berandi með altaristöfluna frá Hafnarfirði.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

Að Görðum stóð steinkirkjan eftir, rúin og auð. Veðraðist hún og hrörnaði smám saman og þar kom, að eftir stóð tóftin ein og starði holum gluggaskotum yfir hverfið, en þak féll inn. En þegar liðin voru tæp fjörutíu ár frá því, að guðsþjónustur lögðust af á staðnum, var svarað kalli hins hrunda guðshúss.
Árið 1953 stofnuðu 36 konur Kvenfélag Garðahrepps. Formaður var kosin Úlfhildur Kristjánsdóttir, húsfreyja á Dysjum og gegnir hún nú á ný formennsku í félaginu. Úlfhildur þótti alltaf ömurlegt að líta til kirkjurústanna, frá því fyrst hún fluttist í Garðahverfið. Því taldi hún, sem og aðrir stofnendur kvenfélagsins, að það væri í senn veglegt og verðugt hlutverk að gangast fyrir endurreisn kirkjunnar. Þær fengu Björn heitinn Rögnvaldsson byggingameistara til að athuga kirkjurústina og leggja á ráðin um framkvæmdir. Hann taldi, að steypa þyrfti 15 cm. þykkt styrktarlag innan á veggina og tóku konurnar strax til óspilltra mála. Þær söfnuðu sjálfboðaliðum og voru ósmeykar að leggja sjálfar hönd á þau verkfæri, sem beita varð hverju sinni. Þær grófu fyrir undirstöðum, unnu við múrverk og þaklagningu. Bætt var turni á kirkjuna, svo hún er enn reisulegri en áður var.

Garðakirkja

Garðakirkja 2022.

Við næst síðustu alþingiskosningar var leitað álits sóknarmanna á því, hvort þeir vildu að kirkja yrði á Görðum á ný. Var almennur vilji fyrir því og sóknarnefnd kosin. Er kvenfélagið hafði komið kirkjunni undir þak, afhenti það hana sóknarnefndinni og hafði það þá lagt fram 111 þúsund krónur í reiðufé, auk sjálfboðavinnunnar, sem var afar mikil. Ekki var þó stuðningi félagsins við kirkjuna lokið með þessu. Það heldur áfram að safna til hennar fé með ýmsu móti, hefur árlega kaffisölu og skemmtanir, veitir viðtöku gjöfum og áheitum. Það hefur stofnað minningarsjóð um látna félagskonu og skal verja minningargjöfunum til kirkjunnar. Auk hinna sérstöku fjársafnana leggur félagið árlega fimm þúsund krónur í kirkjubyggingarsjóðinn.
Nú er búið að ganga frá öllu múrverki í kirkjunni, utan sem innan, og lagt hefur verið í hana hellugólf úr íslenzkum steini. Eftir er að smíða bekki, prédikunarstól og altari og tefur það nokkuð framkvæmdir, að panta varð sérstaklega við í þá gripi, því ekki var til nægilega góður viður í landinu. Daginn sem ég kom að Dysjum var verið að ljósmynda kirkjuna að innan, svo að senda mætti myndirnar til útlanda, áður en ráðin væri kaup á ljósaútbúnaði. Allur verður búnaður hinnar endurreistu kirkju nýr, því engum dettur í hug að vilja krefjast aftur þeirra gripa, sem á löglegan hátt voru fluttir í nýja sóknarkirkju. Vonir standa til, að hægt verði að vígja kirkjuna fyrir næstu jól, rösklega hálfri öld eftir að lagðar voru niður guðsþjónustur að Görðum. Þá verður vonandi einnig búið að hlúa að gamla kirkjugarðinum og umhverfi kirkjunnar, en það verk er í höndum fegrunarnefndar sóknarinnar.
Það er full ástæða til að minna á að þakka það merkilega starf, sem Kvenfélag Garðahrepps hefur af hendi leyst við endurreisn kirkjunnar, sem fyrr en varir verður miðdepill þétthýlis, er koma mun í staðinn fyrir smábýlin, sem enn mynda byggðina milli hrauns og hafs. – Sigríður Thorlavius.

Heimild:
-Tíminn 15 apríl 1965, bls. 17 og 31.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.