Gjár – bústaður (Skátaskáli?)

Gjár

Þann 3. apríl 2009 var birt „AUGLÝSING um náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar„. Hvorki í auglýsingunni né í sérstakri, væntanlega rándýrri, nánast óþarfa skýrslu, um friðlýsingarsvæðið, er hvergi, af einhverri ástæðu, getið um fyrrum skógrækt og bústað og athafnir fólks í Gjánum á síðari árum. Sagan sú virðist ekki heldur hafa verið skráð í opinberar bækur bæjarins, þrátt fyrir fyrirliggjandi heimildir þar um. Sagan sú virðist því með öllu huld þeim er hingað til hafa viljað um þær fjalla.

Gjár

Gjár – loftmynd.

FERLIR lék forvitni á að vita nánar um framangreindar mannvistir í árþúsunda gamalli hrauntjörninni frá Búrfelli vestast í Gjánum. Þar má í dag m.a. sjá hlaðna garða, hleðslu við grunn flaggstangar, húsgrunn og leifar af bústað, auk myndarlegra trjáa, sem þar hafa verið gróðursett, vonandi til langrar framtíðar.

Helgi G. Þórðarson átti bústaðinn síðastur manna uns hann varð skemmdarvörgum að bráð um og í kringum 1980. Uppaflega mun Þórir Grani Baldursson, arkitekt, hafa byggt bústaðinn þarna í skjóli innan friðsældar Gjárinnar á árunum í kringum 1949 með samþykki bæjarráðs og staðfestingu bæjarstjórnar, líkt og gekk og gerðist með frumkvöðla skógræktarmanna í Sléttuhlíð á árunum 1925 og síðar.

Gjár

Gjár – garður.

Baldvin Jónsson? eignaðist bústaðinn um tíma uns Helgi og eiginkona hans, Thorgerd Elísa Mortensen, festu kaup á honum um 1974. Þau hjónin stunduðu m.a. skógrækt í nágrenninu, eða allt þangað til bústaðurinn var gereyðilagður í kringum 1980. Áður hafði hann nokkrum sinnum orðið fyrir barðinu á veiklynduðum skemmdarvörgum.
Bústaðasvæðið hafði verið afgirt, en skömmu fyrir friðlýsinguna 2009 höfðu bæjaryfirvöld fyrirskipað að girðingin skyldi fjarlægð. Eftir standa í dag girðingastaurarnir sem og hliðsstólparnir. Starfsfólki Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hafði verið fyriskipað að fjarlægja netgirðinguna á stólpunum.

Gjár

Gjár – aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2024. Skástrikaði hlutinn er friðuð svæði. 

Að sögn afkomenda Helga hefur þeim verið fyrirmunað að endurreisa bústaðinn þrátt fyrir gildandi lóðasamning sem þeim er á hverju ári gert að greiða af lögbundin fasteignagjöld.
Þórir Grani (1901-1986) var þekkur arkitekt. Hann starfaði t.d. sem forstöðumaður hjá Teiknistofu landbúnaðarins 1938-1969, teiknaði fjölmargar opinberar byggingar; héraðsskóla, kaupfélagshús, samkomuhús og verksmiðjuhús víða um landið. Hann var frumkvöðull í gerð húsa með stíl fúnksjónalisma. Hins vegar er hvergi getið um hið lítillátlega athvarf hans í Gjánum.

Helgi G. Þórðarson

Helgi G. Þórðarson (1929-2003).

Nefnds Baldvins virðist hvergi vera getið í tengslum við þennan tiltekna bústað.
Á kortum danska herforingaráðsins frá 1903 til 1974 er á tímabilinu skráð örnefnið „Skátaskáli“ í Gjánum. Hingað til hefur ekki verið hægt að rekja uppruna þessa „örnefnisins“.
Helgi G. Þórðarson var í Skátafélaginu á Ísafirði, þá 18 ára. Á aðalfundi þess árið 1948 mátti t.d. lesa eftirfarandi: „Aðalfundur félagsins var haldinn í Alþýðuhúsinu 7. okt. Ritari var kosinn Magnús Baldvinsson, gjaldkeri Helgi G. Þórðarson og skálavörður Kristján Arngrímsson. Á fundinum var samþykkt, að félagið segði sig úr íþróttasambandi Íslands. Var þetta gert með hliðsjón af ályktun, sem gerð var á aðalfundi B.I.S. 1944, þar sem þess er óskað, að skátafélögin taki ekki þátt i opinberum kappmótum.
1. október hyrjaði félagið á að halda regluleg varðeldakvöld eða skemmtifundi með Valkyrjum, og var fyrsti varðeldurinn haldinn í Alþýðuhúsinu 14. október. Tókst þessi varðeldur mjög vel, og hafa slíkir varðeldar verið haldnir mánaðarlega síðan. Þá byrjaði félagið einnig að gefa út fjölritað innanfélagsblað, sem nefnt var Varðeldar, og var Helgi G. Þórðarson ritstjóri þess.“

Gjár

Gjár – skógrækt.

Þess er og getið í heimildum að Helgi hafi verið ötull skógræktarmaður í upplandi Hafnarfjarðar.
Í Morgunblaðinu 2003 er minningargrein um Helga. Þar segir m.a.: „Helgi kvæntist Thorgerd Elísu Mortensen frá Frodby á Suðurey í Færeyjum, hjúkrunarfræðingi 1929. Hún er dóttir Daniel Mohr Mortensen kóngsbónda þar.
Börn Helga og Thorgerdar eru Þórður, Daníel og Hallur, allt fyrrum skátar með þeim formerkjum „skáti – ávallt skáti“).

Gjár

Gjár – herforingjaráðskortið 1967. „Skátabústaður“ var ekki til á eldri kortum ráðsins.

Helgi ólst upp hjá foreldrum sínum í Ögurvík við alla almenna vinnu útvegsmanna eins og hún gerðist á fjórða og fimmta tug síðustu aldar. Þar gekk hann í barnaskóla og síðar í Héraðsskólann í Reykjanesi við Djúp. Hús foreldra hans brann 1943 og fluttist fjölskyldan ári seinna út á Ísafjörð og þremur árum seinna til Reykjavíkur. Helgi lauk gagnfræðaprófi frá gagnfræðaskólanum á Ísafirði 1945 og landsprófi 1946, stúdentsprófi frá MR 1950, fyrrihlutaprófi í verkfræði frá HÍ 1954 og M.Sc.prófi í verkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1958.

Gjár

Gjár – leifar bústaðar Helga.

Í dag (2025) mæta aðkomufólki á vettvangi annars vegar sorglegar leifar sögu bústaðarins og hins vegar blómstrandi afurð skógræktarinnar.
Skv. framangreindu má sjá að yfrið hefur verið nóg að gera hjá Helga og Elísu samfara slitdróttri dvölinni í Gjánum, enda tala vanrækt verksummerkin þar í dag sínu máli. Hafnarfjarðarskátarnir höfðu sóst eftir að kaupa (aðrir segja að yfirtaka) bústaðinn undir það síðasta, en úr varð  því skiljnlega ekki eftir eyðilegginguna. Skátarnir höfðu þá um þann mund þann draum að byggja skála í Helgadal. Bæjaryfirvöld komu í veg fyrir slíkar hugmyndir, líkt og svo margar aðrar annars góðar, en enn í dag má þó þar sjá þar fyrrum undirstöðurnar undir „draumabústað“ þeirra.

Gjár

Gjár.

Skv. upplýsingum afkomenda Helga er þeim enn gert að greiða fasteignagjöld af „bústaðnum“ í Gjánum, þrátt fyrir að hafa verið meinað af hálfu bæjaryfirvalda að endurbyggja hann og nýta svæðið á upphaflegan hátt. Girt hafði t.d. verið umhverfis bústaðastæðið, en bæjaryfirvöld fengu starfsfólk Skógrækarfélags Hafnarfjarðar til að fjarlægja girðinguna, en girðingarstaurarnir standa þó enn. Svo virðist sem bæjaryfirvöld viti ekkert hvernig þau eigi að bregðast við þessu máli, hvorki laga- né skynsamlega.

Kaldársel

Gjár – herforingjaráðskort frá 1927 – hvergi minnst á „Skátaskála“.

Hið skondna er og að á umræddu athafnasvæðinu hafa í skrám Byggðasafns Hafnarfjarðar opinberlega verið skráðar sjö „fornleifar“ þrátt fyrir að slíkar minjar skv. gildandi Minjalögum verða að teljast a.m.k. eitt hundrað ára eða eldri til að geta talist til slíkra skráninga. Engar þessara tilteknu minja í fornleifaskráningunni uppfylla þau skilyrði!

Allir sem og öll er geta gefið nánari upplýsingar um mannvistirnar í Gjánum er velkomið að hafa samband við ferlir@ferlir.is

Sjá nánar um „Friðlýsingu Kaldárhrauns og GjárnaHÉR.

Gjár

Á þessu opinberlega auglýstu korti virðist bústaðasvæðið „Skátaskáli“, efst fyrir miðju (h.m. við O7), vera undanþegið friðlýsingunni!!??

Heimildir:
-Einhverjar 20 ára, 1. tbl. 29.02.1948.
-Morgunblaðið, 308 tbl. 13.11.2003, bls. 40.
-ust.is/library/sida/Nattura/Kald%c3%a1rhraun%20og%20Gj%c3%a1rnar
-ferlir.is/kaldarhraun-og-gjarnar-fridlysing/
Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005 – 2024