Grindavík – breytingar á 80 árum

Sexæringur

Í grein í ritinu ÆGIR árið 1929, eða fyrir nákvæmlega 80 árum, má sjá hvernig útgerð báta var og hafði verið háttað í Grindavík allt til þess tíma. Síðan eru ekki liðin svo mörg ár, en þrátt fyrir það muna fáir núlifandi Grindvíkingar tímann fyrir hafnargerð (um 1930). Segja má að skrásetjari hafi verið að setja á blað tímamótasögu í grindvískum sjávarútvegi þá og þegar verið var að hverfa frá vinnubrögðum fornra útgerðarhátta til nútímavæðingar. Og enn eiga eftir að verða umtalsverðar breytingar á útvegssögu Grindvíkinga.

Áttæringur

„Það er ekki meining mín að rekja menningarsögu Grindavíkur með línum þessum, heldur í stórum dráttum benda á helstu breytingarnar, sem orðið hafa á síðari tímum. En til þess er þó óhjákvæmilegt, að fara nokkuð aftur í tímann til samanburðar.

Staðhættir
DregiðGrindavík er ysta bygð sunnan á Reykjanesi. Það eru í raun og veru þrjár víkur og sitt hverfi hjá hverri vík, auk þess nokkrar einstakar jarðir milli  hverfa. Alls voru 26 grasbýli og 6 eða 7 þurrabúðir í sveitinni um 1890. Bygðin öll nær yfir ca. 14 km langa strandlengju; frá ystu bygð eru ca. 10 km út á Reykjanestá. Landrými sveitarinnar er allmikið en víðast mjög hrjóstrugt, hraun og blásin og ber eldfjöll. – Aðdýpi er all mikið, þó eru nokkur sker og boðar á öllum víkunum, þess vegna er brimasamt, þó aldrei landbrim í leningum, nema flóðhátt sé.

Atvinnuvegir
GangspilFrá landnámstíð hafa fiskiveiðar og landbúnaður verið aðal atvinnuvegir hér, eins og alstaðar annarsstaðar á landinu, þar sem svipað er í sveit komið.
Frá því Grindavík bygðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, nfl. handfæri. Á vetrarvertíð munu mest hafa verið notuð 8 og 10 róin skip, en tveggja og fjögra mannaför voru aðallega notuð þar fyrir utan. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Þar sem veiðistöðvar liggja fyrir opnu hafi, er eðlilega brimasamt í hafáttum og því aðallega gæftir þegar aflandsvindur er, það er því eðlilegt að menn hættu sér ekki langt frá landi, síst meðan eingöngu var treyst á árarnar, til að komast um sjóinn, en ekki í annað hús að venda, ef ekki náðist lending. Í fiskigöngum gengur fiskur hér venjulega inn í boða, það var því sjaldan þörf að sækja langt á vetrum.

Aðstoð

Það kemur oft fyrir á vetrum, að sjór verður albrima á mjög skömmum tíma, jafnvel þó logn eða hægviðri sé og útsjór vel fær, mun það m. fl. hafa valdið því að hvert hverfi sótti sín mið öldum saman, jafnvel þó betra fiskirí væri í öðrum hverfum. Á sumrin og síðari hluta vorvertíðar var stundum róið langt á ýms mið, frá Krýsuvíkurbjargi og vestur í Reykjanesröst. Lengst af var allur fiskur hertur hvort heldur vera skyldi verslunarvara eða til heimilisnota. Aflinn var vel hirtur, hausar hertir til matar, sundmagi, kútmagi og svo sömuleiðis, alt var þetta góð og gild verslunarvara innanlands, hryggir voru þurkaðir til eldsneytis og annar úrgangur hirtur til áburðar. Fiskur og hausar voru hertir á þar til gerðum grjótgörðum, sömu garðar fylgdu sömu jörðum eins og sömu tún eða sömu uppsátur.

Seilað

Um miðja 19. öld var fyrst komi með lóð (línu) hingað. Sá sem fyrstur varð til þess hjet Jón Guðmundsson, hann bjó lengi í þurrabúð, sem heitir Akrakot (fyrsta þurrabúðin í Járngerðarstaða-hverfi), en í daglegu tali kallað kofinn. Eftir að Jón fluttist þangað var hann alltaf kallaður Jón í Kofanum. Hann fjekk 2 strengi af línu (200 af lóð) inn á Vatnsleysuströnd og kom með þá um vor, þá var tregur fiskur á færi, en hann mokfiskaði á línuna. Það hefði mátt ætla að honum hefði verið þökkuð framtakssemin, en það varð öfugt. Þegar á land kom mættu honum ónot, hrakyrði og jafnvel haft í hótunum við hann, ef hann legði ekki þessa skaðlegu veiðiaðferð niður. Þó fór svo, að skömmu seinna fer það að tíðkast að nota lóðir á vorin, en stuttar voru þær, en það bætt upp með því að beita á sjó.

Lagt úr vör

Á vetrarvertíð mun lína hafa verið lítið notað fyrir 1880, en þá einkum notuð framan af vertíð og þegar útá leið. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári, einkum hjá yngri fornmönnunum. En þá var altaf beitt á sjó ef veður leyfði. Hér er ávalt byrjað að leggja línu á grunnmiðunum og lagt til djúps. Þegar búið var að leggja var róið á milli og farið að draga og beita grynnri helming línunnar, hann síðan lagður aftur á sama stað, síðan farið í hinn endann og honum gerð sömu skil, þannig koll af kolli þar til annað hvort var hlaðið, beita þrotin eða dagur kominn að kvöldi, ef veður leyfði. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. –

Norðurvör

Það má segja að með 20. öldinni breyttist hér veiðiaðferðirnar. Þá er byrjað að nota net. Sá sem fyrstur lagði þau mun hafa verið Gísli s.al. Hermannsson á Hrauni. Hann lagði 3 net, en tapaði þeim, að mig minnir áður en hægt var að vitja um þau. Næstu vertíð fóru fleiri að reyna og heppnaðist betur. Upp frá því fara allir að koma sér upp netum, en lítill var netútvegurinn til að byrja með; margir byrjað með 6 netum með áttæringum, en þeim smá fjölgaði ár frá ári. Um líkt leyti, eða aðeins seinna, er hætt að beita á sjó, en línan lengd að sama skapi og hefur haldist áfram að lengjast til þessa.
GrindavíkÁrið 1925 var fyrst gerður út mótorbátur hér. Það var Gísli silfursmiður Gíslason í Reykjavík, sem kom með hann og gerði út í Staðarhverfinu. Það var dekkbátur þó lítill væri og gerði Gísli hann út í tvær vertíðir. Árið eftir voru settar vélar í tvö róðraskip í Járngerðarstaðahverfi. Árið eftir bættist eitt vélskip við, en í fyrra (1928) voru settar vjelar í níu róðraskip og þrjú voru ný smíðuð með sérstöku tilliti til þess að þau yrðu knúin vjelum, en ekki árum, en alt eru það opin skip (dekklaus). Á næstkomandi veertíð er gert ráð fyrir að alt verði vélskip. Það mun meiga telja sögulegan viðburð í Grindavík, að þar gangi ekkert róðararskip á vetrarvertíð.
Einhverjir kunna nú að spyrja: Hvernig stendur á að öll skip í Grindavík eru lítil og opin? Það er af því að skipin verður að setja á land eftir hvern róður, hvergi hægt að leggja þeim nema í Staðarhverfi, þar geta fáir bátar legið, en þar er útgerð minst. Skipin eru dregin á land með gangspili, en sett niður með handafli.
Um 80 lóðarstrengir munu fylgja hverju skipi og um 80 þorskanet.“

Heimild:
-Ægir 1929, bls. 43-44 – höfundur óþekktur.
Árabátur nútímans