Grindavík; byggðin að mestu á hrauntaumi frá Sundhnúkagígaröð
Eftirfarandi birtist í Bæjarbót þeirra Grindvíkinga árið 1990 undir fyrirsögninni „Byggðin að mestu á hrauntaumi frá Sundhnúkagígaröð„. Efnið er úr ritinu Náttúrufar á sunnanverðum Reykjanesskaga, sem Náttúrufræðistofnun Íslands vann fyrir Samvinnunefnd um skipulagsmál á Suðurnesjum.
„Á könnunarsvæðinu er Grindavík eini þéttbýlisstaðurinn og því er vert að fara fáum orðum sérstaklega um það svæði. Á meðfylgjandi mynd er einfaldað jarðfræðikort af Grindavík og næsta nágrenni.
Elstu jarðlögin eru móberg og bólstraberg í Þorbjarnarfelli, Sýlingarfelli (Svartsengisfelli), Hagafelli og Húsafelli. Grágrýtishettur eru á Lágafelli sunnan Þorbjarnarfells og á Húsafelli.
Nútímahraununum má sem áður skipta í tvennt, annars vegar dyngjur frá því snemma á nútíma og hins vegar yngri sprunguhraun. Dyngjuhraunin eru annars vegar hraun frá Sandfellshæð í vestri og hins vegar hraun frá Vatnsheiði norðan Húsafells.
Sprunguhraunin eru ýmist aðrunnin eða eiga upptök sín nærri byggðinni. Byggðin í Grindavík er að mestu á hrauntaum frá Sundhnúksgígaröð.
Sundhnúkshraun hefir runnið til sjávar í fjórum kvíslum. Vestasta kvíslin er sú sem megin hluti byggðarinnar er á, önnur mjórri hefir runnið ofan í mitt Hóp, þriðja myndar Þórkötlustaðarnes (Hópsnes) og sú fjórða og austasta fellur til sjávar við Hraun. Sundhnúksgígaröðin er um 8,5 km að lengd og mun hafa gosið fyrir um 2400 árum.
Skammt vestur af byggðinni í Grindavík er stutt gígaröð sem nefnist Eldvörp og frá henni hefir runnið lítið hraun til suðausturs og liggur það innundir Sundhnúkshraun og er því eldra. Vestan við Grindavík eru tvö nokkuð stór sprunguhraun og nær það eldra allt til sjávar milli Stóru- og Litlubótar og austan til í Arfadalsvík. Þessi tvö hraun eiga upptök sín í gígaröðum við Eldvörp austan undir Sandfellshæð. Vestan við Þorbjarnarfell er Illahraun, sem er yngsta hraunið á þessu svæði og mun það hafa brunnið árið 1226 eða skömmu síðar.
Sprungur eru margar en flestar þeirra eru í elstu hraununum (dyngjuhraununum) og í móbergsmyndununum.
Sprungurnar stefna flestar norðaustur/suðvestur en nokkrar N-S sprungur eru í Sýlingarfelli og ein NV-SA sprunga er í Sandfellshæðarhrauni norður af Húsatóftum. Engar sprungur eru í yngri sprunguhraununum, Illahrauni og hraununum sem koma vestan úr Eldvörpum. Ein sprunga er í Sundhnúkshrauni sunnan undir Hagafelli. Tvær sprungur eru aftur á móti í litla Eldvarpahrauni vestan við Grindavík. Nokkrar NA-SV sprungur stefna á byggðina í
Grindavík úr suðvestri en þær hverfa inn undir Sundhnúkshraun og hafa því ekki hreyfst í a.m.k. 2400 ár.“
Heimild:
-Bæjarbót, 7. tbl. 01.07.1990, „Byggðin að mestu á hrauntaumi frá Sundhnúkagígaröð“, bls. 5.