Grindavík – Ljós vonar

Grindavík

Sunnudagskvöldið 10. nóvember voru ljósin tendruð á „Ljósi vonar“, ljósaverki sem sett verður upp neðan við Kvikuna, menningarhús Grindvíkinga. Verkið sýnir geithafurinn sem sjá má í bæjarmerki Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – bæjarmerki.

Hugmyndin að baki „Ljósi vonar“ er að endurspegla þá bjartsýni og seiglu sem Grindvíkingar hafa ávallt sýnt, jafnvel á erfiðum tímum. Verkið er því tákn samfélagsins í Grindavík í fortíð, nútíð og framtíð.

Það er táknrænt að verkinu hafi verið gefið nafnið „Ljós vonar“, þar sem vonin hefur lengi lýst Grindvíkingum í lífsins ólgusjó. Vonin hefur veitt okkur hugrekki til að horfast í augu við mótlæti og trú á að nýr dagur rísi, þótt skýin séu dökk. Í krafti vonarinnar hafa Grindvíkingar sótt mátt og jafnvel nýjan tilgang til að halda áfram. „Ljós vonar“ verður þannig táknmynd þess að ávallt er hægt að finna leið í myrkrinu og sigrast á hindrunum með bjartsýni.

Geithafurinn í bæjarmerki Grindavíkurbæjar

Grindavík

Grindavík – ljós vonar.

Geitur í Grindavík eiga sér sína sögu. Í Landnámu segir frá þvi að Molda-Gnúpur hafi numið land í Grindavík. Birni, einum sona hans, dreymdi eitt sinn að til hans kæmi bergbúi og bauð honum samning sem hann samþykkti. Eftir það birtist geithafur í hjörð hans og auðgaðist þá skjótt hans fé. Varð hann í kjölfarið vellauðugur og í kjölfarið nefndur Hafur-Björn. Menn þóttust sjá að landvættir allir fylgdu Hafur-Birni til þings. Á sama tíma fylgdu vættir bræðrum hans, þeim Þorsteini og Þórði, til fiskjar.

Síðar táknaði geithafurinn velmegun Hafur-Bjarnar og varð að tákni Grindavíkurbæjar en bæjarmerki Grindavíkurbæjar er frá 1986 og er hannað af Kristínu Þorkelsdóttur.

Um fjögurra metra hátt með 2.200 LED ljósum

Grindavík

Grindavík – Ljós vonar.

Ljósaverkið mun fyrst um sinn standa við Kvikuna, menningarhús Grindvíkinga, en áætlað er að finna verkinu varanlegan stað í framtíðinni. Verkið er um fjögurra metra hátt og lýst upp með um 2.200 LED-ljósum.
Verkið var hannað var í samstarfi Grindavíkurbæjar, MK-illuminatium og Garðlistar.

Sjá myndasafn sex eldgosa ofan Grindavíkur HÉR.

Heimild:
-https://www.grindavik.is/v/27400

Grindavík

Frá Grindavík 10. nóv. 2024.