Grindavík – þyrnar – Sjólyst

Járngerðarstaðir

Skoðað var þyrnasvæðið (þistilssvæðið) við Sjólyst í Grindavík. Sagan segir að (blóð-)þyrnir hafi vaxið þar sem blóð heiðinna (Tyrkja) og kristinna (Grindvíkinga) blandaðist en alkunna er að heiðingjarnir réðust á þorpið friðsæla anno 1627.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær. (Því miður hafa Grindvíkingar vanrækt þetta svæði á síðari tímum).

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. um Tyrkina í Grindavík “En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”
Því hefur löngum verið haldið fram að þessi þyrnir vaxi einungis að tveimur stöðum á landinu, þ.e. í Grindavík og á Djúpavogi,þar sem Tyrkirnir stigu einnig á land og rændu fólki. Raunin er hins vegar sú að þyrnir þessi vex núorðið víðar, t.d. í Elliðaárdal.
Lítið er eftir af þyrnasvæðinu í Grindavík. Það er nú einungis á litlu svæði við gatnamótin neðan við Sjólyst, skammt ofan við gömlu Einarsbúðina.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.

Hestum hefur verið beitt á svæðið, en þótt þeir reyni ekki að leggja sér þyrnana til kjafts þá hafa þeir náð að traðka þá niður innan girðingarinnar. Svo er að sjá sem Grindvíkingar séu svo naumir með bitbletti að þörf sé að nýta þennan eina bleðil, sem sagnfræðilega merkilegan og frómum áhugaverðan má telja á þessu svæði. Það hefur reyndar lengi loðað við heimamenn hversu notadrjúgir þeir þyki um nýtingu gróðurbletta, jafnvel þótt þeir tilheyri öðrum en þeim sjálfum.

Blóðþyrnir

Blóðþyrnir.

Nokkrir þyrnar eru enn næst veginum og í jöðrum girðingarinnar á þessu annars litla svæði. Mikilvægt er að huga vel að þessu svæði, ekki einungis sögunnar vegna, heldur og jurtarinnar.

Gengið var með gömlu húsunum ofan við bryggjuna og rifjuð upp saga sjósóknar og sjóslysa fyrri tíma, bæði á Járngerðarstaðarsundi og Þórkötlustaðasundi. Þá var haldið í rólegheitum yfir á Hópsnes og gengið með ströndinni, skoðaðir gamlir þurrkgarðar og staldrað við hjá Hópsvita, sem reyndar er innan landamerkja Þórkötlustaða, og síðan haldið að gömlu bryggjunni á sunnanverðu nesinu.

Blóðþyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík.

Bryggjan var steypt um 1930, en velar voru fyrst settar í árabáta Grindvíkinga um 1927. Mikil umsvif voru þarna fyrir ofan og utan með, s.s. lifrabræðsla og íshús, auk ískofa, fiskibyrgja og þurrkgarða er liggja þvers og kurs á grónu hrauninu ofan við bryggjuna. Pétur Guðjónsson, skipstjóri, sem fæddur var í Nesinu, lýsir ágætlega mannlífinu þar á þessum árum í Sjómannablaði Grindavíkur árið 2003. Notkun bryggjunnar og aðstöðunnar í Nesi lagðist fljótlega af eftir að opnað var inn í Hópið í Járngerðarstaðarhverfi og bryggja reist í lóninu, á núverandi hafnarsvæði.
Fornminjarnar á Þórkötlustaðanesi hafa naumt verið skráðar. Þarna eru t.d. fiskbyrgi og þurrkgarðar frá fyrri öldum í Strýthólahrauni og auk þess manngerður hóll eða haugur, sem lítt eða ekkert hefur verið rannsakaður.
Loks var gengið um Herdísarvík og yfir Kónga áður en haldið var vestur yfir nesið á ný.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.