Grindavíkurkirkja – altaristafla

Grindavíkurkirkja

Altaristafla úr Staðarkirkju, sem áætlað hafði verið að setja í nýju kirkjuna, var flutt á “fornminjasafnið”. Á því, nú Þjóðminjasafni Íslands, eru nú 16 gripir úr Staðarkirkju, s.s. textílar (höklar, altarisklæði og patínudúkur), altaristafla, predikunarstóll, ljóshjálmur, stjakar, söngtafla og skarbakki.
Staðarkirkja
Ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi var reist 1909. Einar Jónsson í Garðhúsum gaf t.a.m. 200 krónur til kaupa á nýrri altaristöflu. Fyrir valinu varð málverk eftir Ásgrím Jónsson. Hún var sett upp í kirkjunni árið 1910. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðshúsum, hét því og að gefa kirkjunni orgel. Hann stóð við orð sín og eignaðist hún orgelið, M. Hörügel, árið 1912. Sjá

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja – altaristafla krikjunnar frá 1909.

Einar segir frá því einhvers staðar að hann hafi viljað að Ásgrímur hefði líf sjómanna í huga við gerð töflunnar, enda var Einar þá formaður á árabát og hugur hans snerist fyrst og fremst um róðra, fisk og útgerð, minnugur þess að þegar á reyndi og líf sjómannanna lá við gat sú stund runnið upp að fátt var á annað að treysta en Guð almáttugan þeim til bjargar. Altaristaflan sýnir Krist stilla vind og sjó. Kunnuglegt kennileiti er í bakgrunni, Krýsuvíkurberg (Krýsuvíkurbjarg heitir bergið austan Eystri-lækjar að Eystri Bergsenda). Grindavík var lengstum útvegsbændasamfélag með aðaláherslu á útveginn. Margir sjómenn höfðu í gegnum aldirnar lent í sjávarháska undir berginu og sumir þeirra farist. Þeim stóð stuggur af berginu.
Listfræðingar hafa skrifa um það hvers vegna t.d. Ásgrímur, Kjarval, Jón Hallgrímsson, Þórarinn B. Þorláksson, Finnur Jónsson og Halldór Pétursson, sem málaði m.a. altaristöfluna í Garðakirkju með Keili í bakgrunni, hafi ekki þorað að stíga skrefið til fulls og málað annað fólk á myndum sínum í íslenskum fötum, í þessu tilviki sjómennina í sjóklæðum. Altaristafla Ásgríms Jónssonar, sem hann málaði fyrir Stóra-Núpskirkju í Árnessýslu 1912 má glöggt þekkja landslag úr Þjórsárdalnum og andlit sumra þeirra sem hlýða á fjallræðuna. Þetta eru að sögn Steinþórs Gestssonar á Hæli þekkt andlit úr sveitinni. Jón Ófeigsson menntaskólakennari mun vera fyrirmyndin að Kristsmyndinni. Meðal áheyrenda er fremstur í flokki prófasturinn, séra Valdimar Briem, og einnig má þekkja þarna fræðimanninn Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi og vísast fleiri. Í hverju einstöku tilviki hlýtur þó söfnuðurinn að hafa þurft að gera það upp við sig, hvort hann telji verkið eiga heima í kirkjunni, en þá reyndi vissulega á dómgreind hans. Á 20. öldinni virðist ríkari þjóðernisvitund gera auknar kröfur um íslenskt myndefni í samspili við hið trúarlega.

Sjá meira um Grindavíkurkirkju HÉR og HÉR.

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja frá 1909.