Hafnarfjörður – framtíð Drafnarsvæðisins
Hafnarsvæðið neðan við trémiðjuna Dröfn við Mýrargötu/Strandgötu í Hafnarfirði, þar sem Slippurinn var fyrrum, má muna fífil sinn fegurri, jafnvel fyrir tíma slippsins. Áður voru þarna uppsátur smábátakarlanna í bænum og muna margir eldri Hafnfirðinga enn eftir ferðum sínum þangað til að heimsækja trillukarlana undir sunnanverðum Vesturhamrinum.
Í framhaldi mikilla breytinga á sjávarsvæðinu á liðinni öld er mikilvægt að staldra við og gaumgæfa nánar staðinn að teknu tilliti til hinnar stórmerkilegur bæjarmyndar Hafnarfjarðar fyrrum.
Fyrirhuguð er „Breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025; Hafnarsvæði – Þétting byggðar„. Í umsögn um tllögur að breytingum á Suðurhöfn, Flensborgarhöfn og Hamarshöfn segir m.a. í greinargerð aðalskipulagsbreytinganna frá 07. febrúar 2022:
„Með greinargerð þessari er gerð grein fyrir breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Breytingin nær til suður og austur hluta Suðurhafnar, Flensborgarhafnar og strandlengju meðfram Strandgötu í átt að miðbæ Hafnarfjarðar. Í tillögunni felst að mörkuð er stefna um þéttingu byggðar á svæðinu og breytt landnotkun í samræmi við stefnuna.
Fyrir liggur Rammaskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis, sem haft er til viðmiðunar við meginhluta aðalskipulagsbreytingarinnar. Reiturinn sem breytingin nær til er merktur sem H1 (Suðurhöfn) og H2 (Flensborgarhöfn) í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Landnotkun reitsins er hafnarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Utan H1 og H2 nær breytingin til svæðis er liggur með strönd fjarðarbotnsins í átt að Miðbæ Hafnarfjarðar.
Fyrirhuguð breyting er sett fram í greinargerð þessari með almennum texta og sérskilmálum svæðisins og einnig á breytingarblaði, þar sem gerð er grein fyrir breyttri landnotkun á aðalskipulagsuppdrætti.
Skipulagssvæði Suðurhafnar og Flensborgarhafnar byggðist upp sem hafnarsvæði en í tímans rás hafa áherslur, forsendur og eðli starfseminnar á svæðinu breyst. Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 er svæðið skilgreint sem hafnarsvæði, þ.e. H1 (Suðurhöfn) og H2 (Flensborgarhöfn) og miðsvæði (M). Jafnframt er í aðalskipulaginu sett fram stefna um þéttingu byggðar og uppbyggingu á vannýttum svæðum sem eru í göngufjarlægð frá miðbænum.“
Í MS ritgerð Guðrúnar Guðmundsdóttur um „Endurnýtingu hafnarsvæða – Mótun aðferðarfræðii fyrir skipulagsstefnu Flensborgarhafnar og annarra vannýttra hafnarsvæða“ fá Landbúnaðarháskólanum árið 2014 segir m.a. þar sem lykilorðin eru „Endurbyggð hafnarsvæði, sjávarbyggð, Flensborgarhöfn, miðbær, mannlíf, athafnalíf, útivist, afþreying, menningararfleifð“.
„Í ritgerðinni er gerð grein fyrir hagnýtri úttekt á vannýttu hafnarsvæði við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði, sem var rannsakað í þeim tilgangi að undirbyggja skipulagsstefnu fyrir svæðið.
Rannsóknin byggðist á viðtölum, vettvangsferðum og greiningum byggðar, umhverfis og samfélags. Þannig fengust upplýsingar um áhrifaþætti sem varða framtíðaruppbyggingu svæðisins, einnig viðhorf sérfræðinga, embættismanna og notenda.
Niðurstöður verkefnisins gáfu til kynna jákvæða áhersluþætti og gerð endurbyggingar á hafnarsvæðum sem hafa tekist vel með tilliti til ábata fyrir samfélagið sem svæðið heyrir til. Einnig voru líkur leiddar að hvaða þættir eru líklegir til að laða að mannlíf og athafnalíf á Flensborgarhöfn. Með niðurstöðunum skapaðist grunnur að stefnu um endurbætur athugunarsvæðisins, sem byggði á fyrri rannsóknum og reynslu, viðtölum og hagnýtri rannsókn á svæðinu.
Í lok verkefnisins voru lagðar til útlínur að stefnu og umbótum á athugunarsvæðinu.
Af verkefninu má draga þær ályktanir að ef vel er að endurnýtingu hafnarsvæða staðið, jafnt hér á landi sem erlendis, virðast þau vel til þess fallin að bjóða upp á umhverfi sem laðar að mannlíf, einkum ef svæðin eru staðsett við eða nálægt miðbæ og að nauðsynlegt sé að undirbyggja skipulagsstefnu fyrir svæði sem á að endurbæta til að ná fram því besta á hverjum stað.“
Í Morgunblaðinu 08.11.2007 segir að „UJF hafna íbúðabyggð á Drafnarsvæði“:
„Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði fór fram 3. nóvember. Í ályktun um skipulagsmál leggja Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði til að stofnuð verði ný óháð þverpólitísk nefnd sem móti framtíðarsýn um uppbyggingu miðbæjarins. Farið verði í heildstæða skipulagsvinnu á miðbænum frá Vesturgötu til Íshúss sem mótist af kjörorði Samfylkingarinnar um samráð og sátt. Öllum framkvæmdum á svæðinu verði frestað þar til sú vinna hefur farið fram.
Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði krefjast þess að staldrað verði við í háhýsavæðingu miðbæjarins. „Við höfnum því að Drafnarsvæðið verði lagt undir íbúðabyggð. Við viljum að haldin verði hugmyndasamkeppni um skipulag þess opna svæðis sem myndast þegar Dvergur verður rifinn.
Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði harma þá skipulagsóreiðu sem einkennt hefur uppbyggingu miðbæjar Hafnarfjarðar svo áratugum skiptir. Núverandi miðbæjarskipulag einkennist af hálfkláruðum hugmyndum og skorti á framtíðarsýn,“ segir í ályktun UJ í Hafnarfirði.“
Þegar nýir þéttingareitir myndast á leifum fyrrum nýtinga eiga fulltrúar bæjarins tilhneigingu til að hunsa skynsamlegustu lausnirnar á kostnað þeirra er kunna að gefa sem mestan arð til hlutaðeigandi.
Hafnfirðingar þurfa þó að hafa dug til að nýta þetta umtalaða dýrmæta svæði í hjarta bæjarins til að endurbyggja helstu byggingar bæjarins, sem nú eru horfnar, s.s. gömlu húsin norðan við Fjörukrána fyrrum, Hótel Björninn á gatnamótum Strandgötu og Reykjavíkurvegar, gamla Flensborgarhúsið, sem þarna var á næstu grösum, sem og önnur fyrrum merkishús bæjarins, t.d. Reykdalshúsið við Brekkugötu 2 er varð eldi að bráð.
Skorað er á Hafnfirðinga að standa sér nær og reyna að varðveita hinu dýrmætu gömlu bæjarmynd – án óþarfa háhýsa og nútíma grænna gímalda á kostnað bæjarbúa.
Heimildir:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, „Breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025; Hafnarsvæði – Þétting byggðar“.
-MS–ritgerð, desember 2014, Endurnýting hafnarsvæða – Mótun aðferðafræði fyrir skipulagsstefnu Flensborgarhafnar og annarra vannýttra hafnarsvæða, Guðrún Guðmundsdóttir.
-Morgunblaðið, 305. tbl. 08.11.2007, UJF hafna íbúðabyggð á Drafnarsvæði, bls. 49.


















