Hafnarfjörður – Vesturbær, Norðurbær, Víðistaðir og Hleinar
Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I“ árið 2020 fyrir Vesturbæ, Norðurbæ, Víðistaði og Hleina segir m.a.:
„Víðistaðir
Telja má líklegt að Víðistaðir hafi verið beittir allt frá landnámi, fyrst frá Görðum og síðar frá Akurgerði og greina örnefnaskrár frá seli Bjarna riddara að Víðistöðum, ekki er þó vitað hvar selið var.
Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 þá voru Víðistaðir innan bæjarmarkanna. Á svæðinu var einnig vegur út að Garðakirkju sem var sóknarkirkja Hafnfirðinga til 1914.
Vert er að minnast á fiskreit Bookless og Hellyers, sem er að finna á SV verðu útivistarsvæðinu á Víðistöðum en Bookless bræður og síðar Hellyers bræður störfuðu í Hafnarfirði á tímabilinu 1910-1929. Fyrirtækin létu leggja fiskreiti vestan við gamla Garðaveginn. Í námunda við reitinn var einnig fiskgeymslu og pökkunarhús og stóð það fram yfir 1985 en reiturinn eru einar síðustu áþreifanlegu minjar þessara erlendu stórútgerðar.
Fyrstu eiginlegu íbúar á Víðistöðum voru hjónin Bjarni Erlendsson og Margrét Magnúsdóttir en þau fengu útmælt land á svæðinu 1915 og byggðu þar íbúðarhús 1918 en efnið í húsið kom úr strönduðu skipi að nafni „Standard“ sem hafði strandað við Svendborg. Árið 1924 byggðu þau gripahús fyrir fjórar kýr og tvo hesta, ásamt hlöðu.
Hleinar
Svæðið á Hleinum var friðlýst sem fólkvangur árið 2009 og var markmið friðlýsingarinnar að „vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar.“
Ekki kemur á óvart að lang flestar minjar innan skráningarsvæðisins sé að finna á Hleinum en svæðið hefur, vegna friðlýsingarinnar, fengið að vera að mestu ósnert af nútíma framkvæmdum. Hægt er að skipta svæðinu á Hleinum upp í fjögur svæði; Skerseyri, Brúsastaði, Eyrarhraun og Langeyri.
Skerseyri
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var minnst á Skerseyri sem hjáleigu frá Görðum í eigu Garðakirkju, og leigukúkildi var 1.
Ábúandinn, Ásmundur Gissursson, nýtti hagbeitar og sölvafjöru staðarins í heimalandi.
Ekki er til túnakort af Skerseyri.
Árið 1902 var Skerseyri komið í eyði en byggist aftur skömmu seinna af Nikulási Helgasyni og var hann enn búsettur þar árið 1920.
Halla Kristín Magnúsdóttir, sem bjó á Skerseyri, gaf ítarlega lýsingu á bænum og svæðinu í kring19 en þar sagði hún um bæinn:
„Bærinn stóð á balanum upp og austur frá malarvikinu, Skerseyrarvör, eða Skerseyrarmölum. Útveggir bæjarins voru allir af torfi og grjóti, sylla af sama efni var undir glugga, en timburþil þar upp af. Bærinn samanstóð af baðstofu, bæjardyrum og eldhúsi. […] Inn af bæjardyrunum var eldhúsið og var það hringeldhús sem kallað var. […] Veggir eldhússins voru af torfi og grjóti hlaðnir alveg í hring og beinir upp og síðan reft yfir í lágan topp, og þar á var eldhússtrompurinn. Moldarhólf var í eldhúsinu og gamaldagshlóðir hlaðnar úr sæbörðu hraungrýti. […] Þverveggur með dyrum á var innarlega í göngunum, en á vinstri hönd við þverveggin voru dyr og gangur gegnum millivegg í baðstofuna. Og var þá komið í miðja baðstofuna. Hún mun hafa verið um fimm álnir, en afþiljaður var norðurendinn fyrir geymslu. […] Gólfið í baðstofunni var ekkert annað en það, að þremur mjóum borðum var raðað milli rúmanna á gólfið en utan við borðin og undir rúmunum var moldargólf.“
Um svæðið í kring sagði hún að:
„Túnblettur var kringum bæinn og gaf hann af sér um sex hesta af heyi þegar bezt lét, og allt var nýtt, sem hægt var að slá með ljá, en líka skárum við grasið í hraunbollunum með sigð, er til þess var gerð. Þá voru þarna við kotið kálgarðar og voru þeir afgirtir með grjótgörðum. Grjótgarður var um túnið og eins rétt niðurundir sjávarkampinum, en undir garðinum lá Sjávar- eða Kirkjugatan og frá honum vesturkampurinn.“
Halla Kristín flutti frá Skerseyri 1902.
Í fasteignamati frá 1918 var húsakosti og lóðinni lýst svona:
Eigandi: Nikulás Erlendsson, þrbm. notar eignina sjálfur.
Eignin er:
1. Íbúðarbær stærð : 5.10 x 3.80m, hæð 1.3m. Veggir úr timbri og grjóti, með risi. Þak úr timbri járnvarið. Honum skipt í eitt herbergi og eldhús. Herbergið þiljað panel. Viðbygging stærð 8.15 x 3.50m, hæð 1.20m með risi veggir torf og grjót, þak úr timbri, tyrft.
2. Lóðin, hefur engin einstök réttindi, nema mótak í Garðakirkjulandi; var áður metið sem jörð 1kndr gal á landsnótu. Fylgir grasblettur, gefur af sér c. 7 hluta af töðu, matjurtargarðar gefa af sér 3 tunnur af jarðeplum. Árgjald kr. 10.00“
Brúsastaðir
Halla Magnúsdóttir lýsti einnig bænum á Brúsastöðum:
„Bærinn var byggður af svipaðri stærð og Skerseyrarbærinn, og svipaður byggingarlagi. Ekki get ég fullyrt hvernig hann var innréttaður. Jón heitinn Oddsson, tengdafaðir Sigurgeirs Gíslasonar byggði bæinn, sem ég man eftir. Var hann þá búinn að missa konu sína, en hafði ráðskonu. Annálað var hve þrifin hún var og snyrtileg í umgengni. Hélt húsbænum öllum sópuðum og hreinum og reyndi að fremsta megni að punta hann að innan eftir föngum. Meðal annars safnaði hún punti af túninu, batt það í kross og vafði um kaffirótarbréfi og hengdi upp á vegg, þótti af þessu mikil híbýlaprýði.“
Í fasteignamati frá 1918 var húsakosti og lóð Brúsastaða lýst svona:
Eigandi: Eyjólfur Kristjánsson, þrbm. notar eignina sjálfur.
Eignin er:
1. Íbúðarbær, stærð: 6.80 x 4.60m, hæð 1.4m með risi. Veggir úr grjóti, þak úr timbri, járnvarið. Skipt í eitt herbergi og eldhús, þiljað panel. Inngönguskúr 1.5x2m, hæð 2.10m, með vatnshallaþaki, byggður úr timbri, járnvarinn, þiljaður innan með panel. Viðbygging, stærð: 4.85 x 3.30m, hæð 1m, með vatnshallaþaki, veggir torf og grjót, þak timbur tyrft.
2. Útihús: Hjallur stærð 4,60 x 2.30m, hæð 1.80m, veggir timburrimlar, þak járnvarið. Fjárhús, stærð 4.50 x 3.45m hæð 1.80m með risi, veggir úr torfi og grjóti, þak timbur pappavarið. Heyhlaða stærð 4.50 x 2.10m, hæð 1.20m, veggir torf og grjót, þak úr timbri pappavarið.
3. Lóðin: (: 2 dagsláttar að stærð, girt með grjótgarði, grasi gróin að mestu, grýtt, gefur af sér 6 hesta hey, 5 tunnur jarðávöxt, [ógreinilegt], árlegt gjald kr. 15.00 Virðingin skiptist svo þannig að íbúðarhúsið með viðbyggingum var metið á 1200kr., útihúsin á 400kr. og lóðin á 800 kr.
Í örnefnaskrá var sagt frá hvalstöð sem var til skamms tíma á Rauðsnefstanga skammt vestan við Langeyrarmalir en hvalstöðin lagðist niður vegna slyss sem varð þar. Líklega er þar verið að tala um hvalstöð sem danski hvalfangarinn Otto Christian Hammer stofnaði ásamt Fiskifélagi Hammers árið 1866.
Slysið sem um ræðir er að öllum líkindum það sem sagt var frá í Norðanfarinu 1869: „[…] Um sömu mundir er sagt að einn góðan veðurdag hafi Captainlieutenant Hammer ásamt 2 yfirmönnum af Fyllu og nokkru af heimilisfólki kammerasseros Waywadts, gengið út á háan klett eður hamar, sem var skammt fyrir utan voginn eður höfnina. Þegar þangað var komið, er sagt að Hammer hafi stungið upp á að fara ofan á klettinn og niður í fjöru, sem honum tókst, ætlaði þá annar eður báðir Lieutenantarnir á eftir, en þá annar þeirra kom á ofan í hamarinn, er sagt að hann hafi misst fótana, en um leið gripið um stóran stein, er þar var nærri, en hann losnað; jafnframt er sagt að Hammer hafi sjeð í hvaða hættu Lieutenantinn var kominn og farið upp eptir hamrinum, en þá kom Lieutenantinn og steinninn ofan á Hammer svo hann stórskemmdist á andliti, en steinninn lenti á brjósti Lieutenantins, sem ásamt Hammar varð að bera fram á herskipið.“
Eyrarhraun
Hluti Eyrarhrauns var skráð af þeim Karli Rúnari Þórssyni og Bjarna F. Einarssyni árið 2004 vegna deiliskipulagstillögu Hleina að Langeyramölum, en sú skráning náði einungis til lítils hluta jarðarinnar og búið er að uppfæra fornleifaskráningastaðla
síðan þá.
Eyrarhraun var byggt árið 1904 af Engilráð Kristjánsdóttur og Sigurjóni Sigurðarsyni, en íbúðarhúsið brann vegna íkveikju árið 2005, en hafði staðið mannlaust í ár fyrir það.
Í fasteignamati frá 1918 var húsakosti og jörð Eyrarhrauns lýst svona:
Eigandi: Sigurjón Sigurðsson, þrbm. notar eignin sjálfur.
Eignin er:
1. Íbúðarbær, stærð 6 x 3.90m hæð 1.45m með risi, byggður úr timbri, varinn pappa að veggjum, járn á þaki, skipt i eitt og eldhús, þiljaður panel. Inngönguskúr, stærð 2 x 1.40m, hæð 1.80m, með vatnshallaþaki, byggður úr sama og bærinn.
2. Útihús: Fjárhús, stærð 6 x 3.50m, hæð 1.45m með risi, veggir að mestu úr torfi og grjóti, þak úr járni á langböndum. Heyhlaða, stærð 8.35 x 3.25m, hæð 1.45m með risi, veggir úr grjóti, þak járnvarið á langböndum. Eldhús, stærð 4.40m x 3.35m, hæð 1m, m. risi, veggir úr grjóti, þak úr járni á langböndum.
3. Lóðin er réttindalaus, óræktuð og ógirt, er býlið hefur grasblett og matjurtagarða á lóð þeirri á Langeyrarmölum er Aug. Flygering á. [ógreinlinegt] árlega kr. 10.00.
Virðing Eyrarhrauns var að íbúðarhúsið með viðbyggingum var virði 800kr., útihúsin það sama, og lóðin 200kr. virði.
Langeyri
Langeyri var hjáleiga frá Görðum og í Garðakirkjueign. Þar var rekin verslun á síðari hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar, en þar á undan hafði verið þar þurrabúð, en ekki er vitað hve lengi.
Langeyri hafði verið í hvað stöðugastri byggð af þeim þurrabúðum sem voru á svæðinu, frá 18. öld og fram á þá 20.35 Langeyri var stundum nefnd Skóbót en það gæti verið afbökun eða stytting af nafninu Skómakarahús.
Ekki er minnst á jörðina Langeyri í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 en þar segir frá 7 þurrabúðum og er Langeyrarbúð þar á meðal. Þegar jarðabókin var skrifuð voru sumar þessara þurrabúða orðnar um 50 ára gamlar. Fiskveiði í Hafnarfirði hafði eitthvað minnkað árin áður en jarðabókin var gerð og voru flestar þurrabúðirnar niðurfallnar.
Í bréfi frá 1776 bauð Thodal stiftamtmaður Guðmundi Runólfssyni sýslumanni að finna hentuga staði til þess að reisa geymsluhús og íbúðarhús handa verkafólki vegna húkkorta og jaktfiskveiða í Hafnarfirði. Það varð úr að Hvaleyri var valið til þess að byggja vetrarbústað fyrir stýrimenn og háseta á jöktunum en á Langeyri átti að byggja hús fyrir eftirlegumenn en Langeyri varð fyrir valinu vegna þess að þar var nógu víðáttumikil möl til salfiskverkunnar.
Ýmis starfsemi hefur átt sér stað í gegnum tíðina á Langeyrarmölum en þar var um tíma starfrækt fiskverkunarstöð sem August Flygenring lét reisa um aldamótin 1900 en hann var lengi vel einn stórtækasti athafnamaður í Hafnarfirði. Seinna voru Malirnar í eigu hlutafélagsins Höfrungs sem gerði þaðan út togara og verkaði þar fisk.
Fiskverkunarstöðvarnar á Mölunum veittu því fólkinu í hraunkotunum vinnu við fiskverkun eftir því sem aðstæður leyfðu.
Í brunabótavirðingu frá 1916 var sagt að á Langeyri séu fimm hús: Íbúðarhús úr timbri, skúr úr grjóti og timbri, eldhús úr grjóti og timbri og tvö fjárhús, annað úr torfi, grjóti og timbri, og hitt úr torfi og grjóti.
Í fjörunni við Herjólfsbraut, rétt NV við Gönguhólfsklif er að finna leifar Grútarstöðarinnar og Grútarbryggjunnar, lifrabræðslu sem reist var á bæjarrústum 1903. Þar má enn sjá hleðslur, undirstöður fyrir bræðsluker og einna greinilegast er bólverkið, sem er hlaðið hafnarmannvirki og í skýrslu sinni frá 2005 sagði Karl Rúnar Þórsson að þetta séu fágætar minjar.“
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I; Vesturbær, Norðurbær, Víðistaðir og Hleinar, 2020; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-I-Vesturbaer-Nordurbaer-Vidistadir-og-Hleinar-2020.pdf (byggdasafnid.is)