Hafnir – Vilhjálmur Hinrik Ívarsson
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði örnefnalýsingu fyrir Hafnahrepp. Hann var fæddur 12/8 1899 í Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu, og flytur að Merkinesi í Höfnum 1934. Heimildarmenn Vilhjálms Hinriks voru Guðmundur sál. Jósefsson, Staðarhóli, hreppstjóri og manna kunnugastur meðfram Ósum; Magnús Gunnlaugsson, Garðhúsum; Þorsteinn Árnason, Kirkjuvogi; allir látnir; og Ólafur Ketilsson, Kalmanstjörn, einnig látinn.
Hér verður fjallað um ströndina utan við Hafnir frá Eyjatanga að mörkum Merkiness. Auk þess verður fjallað um húsin í höfnum skv. örnefnalýsingu Hinriks Ívarssonar frá árinu 1978.
„Glöggt má sjá elju manna og tilraunir að hefta landbrot sjávarins, því víða má sjá grjóthleðslur fyrir vikum, en en allt hefur komið fyrir ekki.
Þá kemur breið vík, sem takmarkast af löngum sand- og malartanga og heitir hann Eyjartangi. Svo sem 150 metra frá landi liggur eyja frá austri til vesturs með gróðri. Eyju þessa áttu allir grasbýlismenn í Kirkjuvogshverfi. Þar var talsvert æðarvarp, sem var nytjað. (Eftir að minkurinn flæddi yfir, hefur þetta horfið að mestu.) Milli lands og eyjar þessarar liggur áll, sem fær er smærri skipum inn á Ósana um flóð, en sæta verður föllum, því strangur straumur verður þarna með fullu út- eða innfalli. Eyjan ber ekkert sérheiti – nema ef vera kynni Varpey. (Þannig nefnir Jón Víðis hana á mælingakorti af Ósum 1918.) Yzt á Eyjartanga er sundmerki Kirkjuvogssunds, hátt tré með rauðum þríhyrning. Vestan Eyjartanga er nokkuð breitt bogadregið vik, Stóra-Bót. Vestan hennar gengur löng klöpp þvert út í ósinn. Hún heitir Innri-Langaklöpp. Gegnt henni norðan við ósinn er skerjaklasi, sem fer í kaf um flóð. Er það kallað einu nafni Veggir, (líka Eggjar).
Þá tekur við mjótt vik, Svartaklettsbót, en vestan hennar er stór, nokkuð há sprungin klöpp, sem er umflotin um flóð. Hún heitir Svartaklöpp sumir Svartiklettur. Lítið vestar gengur löng, lág klöpp til norðvesturs. Hún heitir Ytri-Langaklöpp. Eftir þessari klöpp liggur hafnargarður öflugur með skjólvegg á vestari brún (allt sleipt), en beygir svo í horn til norðausturs. Móti enda þeirrar álmu garðsins er einstakt, kúpulagað sker, sem fer í kaf með hálfföllnu að. Á skeri þessu er stöng með rauðu varúðarmerki. Frá garðinum að skeri þessu munu vera um 100 metrar (nánar síðar). Vestan hafnargarðsins er talsvert sandvik nafnlaust, en afmarkast af löngum klapparana að vestan, sem heitir Þvottaklettar, og er þá komið að Kirkjuvogsvör. Þaðan hafa gengið opin skip til fiskveiða frá aldaöðli, en er nú með öllu lögð niður, eftir að aðstaða batnaði við hafnargerðina.
Örnefni með ströndinni frá Kirkjuvogsvör að hreppsmarki í Valahnjúksmöl á Reykjanesi
Þvert fyrir Kirkjuvogsvör liggur hátt sker, umflotið í stórstraumsflóði og fer þá í kaf. Það liggur frá norðaustri til suðvesturs og heitir Kirkjusker. Norður úr því gengur annað sker miklu lægra og heitir Flatasker. Suðvestan við Kotvog skagar stór, nokkuð há klöpp, Háaklöpp, og þar norður af Kotvogsklettar. Þá tekur við sjávarkambur, kallaður Garðhúsmöl. Þar, skammt sunnar, skagar rani fram í sjóinn, sem heitir Snoppa, og dálítið sunnar önnur klöpp, heitir hún Trollaraklöpp. Nafngift þessi gerist eftir síðustu aldamót (líklega 1912-14; vantar nákvæma heimild). Einn morgun, er fólk kom á fætur, sá það ljós fyrir neðan túnið í Réttarhúsum, og er að var gáð, stóð þar togari með öllum ljósum, stóð þar á réttum kili um háflóð. Sjór var frekar kyrr, en dimmviðri. Með útfallinu gengu skipsmenn þurrum fótum í land.
Skömmu síðar gerði mikið hafrót, og brotnaði skipið niður, en sumt var rifið. Skip þetta hét Grænland og var þýzkt – fyrsta ferð þess til veiða.
Þá tekur við lítið malarvik, sem heitir Bás. Næsta örnefni er Haugsendamöl, dálítið breitt malarvik niður undan Haugsendakampi. Svo sem 200 metrum frá ströndinni til suðvesturs er aflangt, nokkuð hátt sker frá austri til vesturs. Það heitir Markasker. Það er landamerki milli Kirkjuvogsjarða og Merkiness. Aðeins suðvestar skagar langur, mjór klapparani til vesturs, ca. 600 m langur, með smáskorum yfir þvert og fer lækkandi allt í sjó fram. Þessi tangi heitir Hlein.
Skömmu eftir síðustu aldamót, 1908, vildi til það hörmulega slys, að togari strandaði í svartabyl að kvöldlagi rétt norðan nefndrar hleinar, en veður var í uppgangi á suðvestan. Um björgun var ekki að ræða, hvorki frá sjó né landi, og fórust þar allir menn. Þegar sá, er þetta ritar, kom fyrst í Hafnir, 1924, sást enn ofan á ketil skipsins um stórstraumsfjöru, og fram á þennan dag ber við, að kolamolar finnast í fjörunni. Sunnan við Hlein er lítið sandvik, Hleinarvik. Dálítið sunnar er vik inn í klappirnar. Það heitir Mönguhola. Munnmæli segja, að einsetukona hafi verið í Merkinesi (samanber síðar Möngusel), sem hélt kindum sínum þar til fjörubeitar.
Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi
Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri. Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri. Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.
Frá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar. Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.
Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á. Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).
Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu. Verður næsta hús Höfn, þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll).
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét Búðabakki. Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.
Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.
Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.
Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús. Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.
Nú eru þrjú hús ótalin á vinstri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð. Lítið eitt fjær veginum Nýlenda og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.
Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson. Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus. Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún. Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir jafnaðar út.
Þar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið. Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“
Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir – Merkinesi í Höfnum,17/4 1978, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson.