Hagrænt gildi fornleifa
„Fornleifauppgröftur er í eðli sínu eyðileggjandi. Til þess að geta túlkað minjastaðinn verður oft að rífa steinahleðslur í sundur og grafa burt torfveggi og gólf. Enda þótt það bætist við þekkinguna við fornleifauppgröft, þá eru tengslin við söguna rofin með uppgreftinum og menningarlandslagi svæðisins breytt.
Hingað til hefur helst verið stuðst við gildishlaðið mat, eins og tilfinninga gildi eða upplýsinga gildi þegar íslenskar minjar hafa verið metnar. Höfundur þessarar ritgerðar hefur lengi haft hug á að yfirfæra aðferðafræði, sem beitt hefur verið erlendis, til að rannsaka hagrænt gildi fornleifa á Íslandi. Eru það fyrst og fremst aðferðir sem þekkjast úr umhverfishagfræði (e. evironmental economics). Upplýsingar um hagrænt gildi ættu að koma að gagni í allri stefnumörkun um minjavernd. Upplýsingarnar ættu að hjálpa til við ákvarðanatöku um hvaða minjar sé ástæða til að rannsaka með uppgrefti og hverjar væri skynsamlegra að varðveita óraskaðar á vettvangi og nýta þannig í menningarferðaþjónustu. Kostnaður við að halda minjum við, varðveita þær og útbúa upplýsingaefni miðað við þær tekjur sem hugsanlega væri hægt að hafa af minjunum, gætu þannig verið þáttur sem taka ætti hér tillit til við matið. Þá nýtast upplýsingar um hagrænt gildi minja í allri vinnu varðandi mat á umhverfisáhrifum. Erlendis hafa hagrænir útreikningar verið teknir með inn í ákvörðunarferilinn, en hingað til hefur einungis verið stuðst við huglægt gildismat við þá vinnu hérlendis.
Það var ekki fyrr en í upphafi 21. aldarinnar sem menningargeirinn á Íslandi tók við sér og fór að kanna hagrænt gildi menningar. Meðal þess var rannsókn Ágústar Einarssonar á hagrænum áhrifum tónlistar. Í skýrslu norræns verkefnis um gildi minja, er að finna grein eftir Þór Hjaltalín þar sem fjallað er um nýtingu minja og þann hag sem byggðir landsins gætu haft af slíkri nýtingu. Í byrjun desember 2010 var kynnt rannsókn sem mennta- og menningarmálaráðuneytið stóð fyrir á hagnaði af skapandi greinum. Rannsóknin leiddi í ljós að heildarvelta skapandi greina nam 191 milljarði króna árið 2009. Sumt af því sem sem fjallað var um í skýrslunni eru raunverulegar markaðsvörur, sem hægt var að setja verðmiða á, en menningarminjarnar eru annars eðlis og ekki svo einfalt verk að meta gildi þeirra. Fornleifar heyra til svokallaðra almannagæða (e. common resources), eins og náttúran. Á undanförnum árum hefur verið unnið að nokkrum rannsóknum á Íslandi, sem byggja á slíkri aðferðafræði, þar sem fjallað er um hagrænt gildi náttúrunnar.“
Heimild:
-Hagrænt gildi fornleifa. Kristín Huld Sigurðardóttir. HÍ – 2011.
http://hdl.handle.net/1946/7946