Hausastaðaskóli II
Hausastaðaskóli – fyrsti heimavistarskólinn „Einn fyrsti vísir að reglulegu skólahaldi fyrir börn og ungmenni hér á landi var Hausastaðaskóli í Garðahverfi 1791-1812.
Tildrög skólahaldsins voru þau að Jón Þorkelsson, fyrrum skólameistari í Skálholti, mælti svo fyrir í erfðaskrá sinni að eigur hans skyldu renna í sjóð, Thorkilliisjóðinn, og átti hann síðan að standa straum af menntun fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi. Hausastaðir í Garðahverfi urðu fyrir valinu og tók skólinn til starfa árið 1791 (14. mynd) (Ragnar Karlsson & Jón Jónsson, 1992). Börnin voru tekin í skólann sex til átta ára gömul og voru þar fram á 17. aldursár. Meðal kennslugreina var lestur og skrift sem börnin þurftu að læra til undirbúnings fermingar, reikningur og margvísleg hagnýt störf. Drengirnir áttu að kunna öll venjuleg störf við heyskap, jarðrækt og fiskveiðar, en stúlkurnar fengu tilsögn í hefðbundnum vinnukonustörfum, jafnt utan húss sem innan. Eftir að skólinn hafði verið starfsræktur í 20 ár gekk sjóðurinn til þurrðar. Ekki fékkst fjármagn annars staðar frá til skólahaldsins og var starfsemin því lögð niður árið 1812 og munir skólans seldir á uppboði (Ragnar Karlsson & Jón Jónsson, 1992).“
Heimild:
-Garðahverfi í fortíð og nútíð, Tinna Rut Pétursdóttir, BS 2012.
http://skemman.is/stream/get/1946/15582/37597/1/2012_BS_Tinna_Rut_Petursdottir.pdf