Helgusel – Bringur
Hér er Helgusel nefnt á undan Bringum til að geta staðsett selið á undan upprunanum – tölvulega séð. Bringum hefur áður verið lýst í annarri lýsingu. Til að dreifa upplýsingunum sem best um vefsíðuna er Helgusel því haft hér á undan Bringum.
Bringur voru efsti bær í Mosfellsdal. Þekktastar eru þær fyrir mannskaðann á Mosfellsheiði í marsmánuði 1857. Þá urðu sex vermenn úti á heiðinni, en átta komust við illan leik niður í Bringur og fengu þar aðhlynningu.
Enn má sjá miklar mannvistarleifar í Bringum, á stórbrotnum stað. Bæjarhóllinn stendur hátt í hlíðinni, umlukinn hlöðnum túngarði að norðaustanverðu. Ofan hans er fjárhústóft (9×9 m með garði í miðju). Hún er hlaðin á hefðbundin hátt, úr torfi og grjóti, en hefur haft timburgafl mót norðri. Hlaðinn garður er í miðu tóftarinnar. Norðvestan hennar er fallega hlaðinn garður, væntanlega utan um „útivistarsvæði“ ánna. Önnur myndarleg fjárhústóft er suðvestar.
Ætlunin var að mæla upp rústir í Bringum. Að þessu sinni var mælt upp sel og stekkur undir brekku neðan Bringna, ofan Köldukvíslar og Hrafnakletts (Helguhóls), fjárhústóft ofan brekkunnar, bæjarhóllinn sjálfur með öllum sínum dýrindum og loks fjárhústóft ofan bæjarhólsins. Við skoðun á svæðinu komu í ljós nokkrar tóftir, fremur litlar, sem gaumgæfa þarf betur. Þá má sjá brúarhleðslur á lækjum, en Bringnavegurinn lá upp hlíðin að vestanverðu, upp með bæjarhólnum að sunnanverðu og áfram upp með honum til austurs. Enn má sjá götuna vestan bæjarhólsins sem og austan hans, þar sem hún liðast lengra upp á heiðina, yfir gróninga og mýrar uns hún tengist þjóðleiðinni yfir Háamel til Þingvalla.
Seljarústanna er getið í heimildum neðan við Bringur, undir Grímarsfelli, á bökkum Köldukvíslar, svn. Helgusel, en þar er sérstaklega sumarfagurt (Helgufoss).
Á 3. áratugi síðustu aldar knúðu bændur í Mosfellshreppi á um að sveitarfélagið eignaðist Mosfellsheiðarlandið. Var hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir hreppsfélagið. Lagafrumvarp til sölu á Mosfellsheiði var lagt fyrir alþingi árið 1927 og var málið leitt til lykta árið 1933. Samkvæmt afsalinu var undanskilið: a) svonefnt Bringnaland. Þar var stofnað nýbýli úr landi Mosfells um miðja 19. öld en jörðin fór í eyði um 1970. b) veiðiréttindi í Leirvogsvatni. c) nýbýlið Svanastaðir við Leirvogsvatn.
Við norðanverðan túngarðarinn í Bringum er upplýsingaskilti. Á því stendur:
“Búseta hófst í Bringum árið 1856, bærinn var stundum nefndur Gullbringur á fyrri tíð og nafn hans komst á hvers manns varir þegar mannskaðinn á Mosfellsheiði varð í marsmánuði 1857. Þá urðu sex vermenn úti á heiðinni, en átta komust við illan leik niður í Bringur og fengu þar aðhlynningu.
Á æskuárum Halldórs Laxness voru Bringur efsti bærinn í Mosfellsdal og kom hann hér eitt sinn í heimsókn ásamt móður sinni, Sigríði Halldórsdóttur. Hann segir svo frá í endurminningabókinni “Í túninu heima”: Bringnakotið stóð hátt á bersvæði, berskjaldað fyrir vindum. Kálgarðurinn var steingerði utanum ekki neitt; hann hafði ekki einusinni verið stúnginn upp þegar við komum þangað í miðjum sólmánuði, en lá útafyrir sig, án tengsla við kotið. Smáfuglar bjuggu milli steina í garðhleðslunni, dilluðu stéli og súngu ákaft og fagurlega fyrir aungvu káli. Að því ég best vissi voru þá ekki kýr á bænum. Hér var enn eitt moldargólfið. Við sátum þarna óratíma og baðstofan fylltist af móreyk; kannski vorum við að bíða eftir kaffi? Ég er búinn að gleyma því; auk þess var ég of úngur til að drekka kaffi.”
Halldór og móðir hans hafa væntanlega farið svonefndan Bringnaveg í þessari ferð. Sú þjóðleið lá úr Mosfellsdal, framhjá Bringum og tengdist síðan svokölluðum Þingvallavegi hjá Borgarhólum á Mosfellsheiði. Bringnavegur var lagður að undirlagi Guðjóns Helgasonar, föður Halldórs Laxness, árið 1910 og má allvíða sjá leifar vegarins…
Bringur fóru í eyði á 7. áratugi 20. aldar og hét síðasti ábúandinn Hallur Jónsson (1891-1968). Enn mótar fyrir bæjarstæðinu ofarlega í túninu.”
Leið lá um Bringur þar sem heita Lestarófur, sléttar flesjur upp með Köldukvísl. Þær heita svo vegna þess að þar sást síðast til ferðamanna, er þeir fóru austur um Mosfellsheiði. Síðan lá leiðin fyrir norðan Geldingatjörn um Illaklif, sem er suðaustan við Leirvogsvatn og hjá Þrívörðum í Vilborgarkeldu, en Vilborgarkelda er austast á Mofellsheiði ekki langt frá þar sem nýi vegurinn sveigir í norðaustur.
Í örnefnalýsingu Jóns Halldórssonar um Bringur segir m.a.: „Bærinn stendur í suðvesturenda Bæjarholts. Suður og austur af bænum er hið upphaflega tún. Niður af því austanverðu eru pallar í jarðlagið, sem eru síblautir og nefnast Dýjapallar. Þar hjá er Helluhóll. Niður af honum er Mýrdalur. Í framhaldi af honum er grasflötin Fossvöllur við Helgufoss, er sést frá bænum. Áin heitir Kaldakvísl og er á landamerkjum Hraðastaða og Bringna. Vestan við Mýrdal er Melhryggur. Næst við hann er Lautin. Vestar eru Eystri- og Vestri-Hvammur. Upp í austanverðum Eystri-Hvammi er lítill hvammur, er kallast Sætið. Við ána í Eystri-Hvammi er Hrafnaklettur, sem er standberg ármegin. Milli hvammanna er mjór hryggur, Huldufólksrani. Vestri-Melhryggur er vestan beggja hvammanna. Norðvestur af honum er varða, Markavarða, er skilur lönd Laxness og Bringna. Stendur hún á litlu holti, en beggja megin þess eru mýrarteygingar, er kallast Lestarófur. Nefnast þær svo sökum þess, að þar áðu ferðamenn hestum sínum fyrrum. Upp á brún hvammanna er Fjárhúsmýri, sem nú er orðin að túni.
Norðvestur af bænum er lág hæð, er nefnist Enni (flt.). Sunnanvert við þau er Ennamýri, sem er flöt og lágþýfð. Milli Enna og Bæjarholts er Sundið, mýrarsund. Norður af Sundinu er klettur drangalagaður, er nefnist Gægir. Norður af honum er mýrarslakki, Gægismýri. Úr henni rennur Gægismýrarlækur. Norðan mýrarinnar og læksins er Jónsselshæð. Norðan Bæjarholts og austan Gægismýrar er Norðurmýri. Norðvestan Norðurmýrar er mýrarlægð víðáttumikil, sem kallast Jónssel, og er syðsti hluti þess í Bringnalandi. Austur af Norðurmýri er Geldingatjarnarholt, en austan við það er Geldingatjörn. Norðan hennar er lág hæð, Blásteinsbringur, er ná vestur að Jónsseli. Aðeins lítill hluti þeirra eru í Bringnalandi, því að landamerkin eru yfir miðja Geldingatjörn.
Suðvestur úr henni rennur Geldingatjarnarlækur í Köldukvísl spölkorn fyrir austan Bringur. Sunnan við tjörnina beggja megin lækjar er flöt mýri, Geldingatjarnarmýri. Uppi á heiðinni er vestanvert við gamla veginn hóll, er nefnist Rauðkuhóll. Hafði rauð hryssa verið dysjuð þar. Talsverðan spöl sunnar á heiðinni eru Borgarhólar, og eru landamörk milli Bringna og Árnessýslu um hinn austasta og hæsta þeirra. Vestur af hólum þessum eru Borgarhólamelar, og liggur gamli Þingvallavegurinn yfir þá. Ég hefi dvalið 16 ár að Bringum,og mun enginn núlifandi betur vita.“
Ágúst Ólafur Georgsson kom með svohljóðandi ábendingar við örnefnaskrána: „Klettur sá, sem er neðan við Helgufoss í Köldukvís, á móts við Bringur, sem oft er kallaður Helguklettur (m.a. af Magnúsi Grímssyni), segir Halldór Laxness alltaf hafa verið kallaðan Hrafnaklett af Bringufólkinu. Í Hrafnakletti var álfabyggð. Sagt var, að þar byggi huldukona. Kveðst Halldór hafa þetta eftir Jórunni Halldórsdóttur frá Bringum. Jórunn ku hafa haft einhver samskipti við huldukonu, sem þar bjó, snemma á þessari öld [síðustu öld]. Kveðst HKL hafa heyrt þetta, er hann var krakki, en annars ekki lagt sig neitt eftir slíku, er „óinteressant“ að hans mati.“
Helgusel er niður undan Bringum, á bökkum Köldukvíslar, er rennur með Grímarsfelli. Tilgátur eru um það að örnefnið hafi breyst úr heilagt sel (var frá Mosfelli, kirkjustaðnum) í Helgusel. Gengið var að selinu að norðanverðu. Þá er komið beint niður að Hrafnakletti. Milli hans og hlíðarinnar eru líklegar rústir, þrjár að tölu, hlið við hlið. Sú nyrsta er lengst og virðast langveggir vera sveigðir. Syðri tóftirnar eru ógreinilegri og minni. Allar eru tóftir þessar orðnar nánast jarðlægar, en þó má sjá marka fyrir grjóti í veggjum. Stærsta tóftin virðst hafa verið stekkur.
Tóftir Helgusels, sem eru skammt austar, eru vel greinilegar, einkum fjárborg framan við selið. Norðaustur undir Helguhól (Hrafnakletti) sést móta fyrir hlaðinni kví. Austan hennar eru fyrrefndar þrjár tóftir. Sú nyrsta er lengst og stærst. Efst í henni er þvergarður er bendir til þess að þarna hafi verið stekkur. Hinar tvær virðast hafa verið kvíar og þá í tengslum við selið og stekkinn. Ef svo hefur verið þá styrkir það líkur á að um tvö selstæði hafi verið í Helguseli á sama tíma.
Við Helgusel er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.: „Hér í svonefndum Helguhvammi eru rústir Helgusels. Landssvæðið og selið tilheyrðu prestsetrinu á Mosfelli á fyrri tíð og var selið notað á sumrin til að mjólka lambær og framleiða mjólkurafurðir, t.d. smjör og skyr.
Gömul munnmæli herma að Helgusel sé kennt við Helgu Bárðardóttur, en frá henni segir í Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga yfirgaf mannlegt samfélag og eigraði um landið eins og segir í sögunni: „Litlu síðar hvarf Helga þaðan í burt og fór víða um Ísland og festi hvergi yndi. var hún og alls staðar með dul, en oftast fjarri mönnum.“
Fleiri örnefni tengjast Helgu á þessum slóðum, Helgufoss blasir við okkur og hér við ána er grjóthóll, sem heitir Helguhóll (einnig nefndur Hrafnaklettur). Þar á að vera Huldufólksbyggð og segir sagan að helga Bárðardóttir hafi horfið í hólinn í elli sinni og ekki komið út síðan. Aðrir hafa hafnað þessum nafnaskýringum og telja að Helgusel merki upphaflega hið helga sel. Er sú kenning studd þeim rökum að selið hafi verið í eigu Mosfelsstaðar“.
Ásta f: ´42, skyggn að sögn, hefur haldið því fram að Helga, eða huldukonan í Helgusteini (Hrafnakletti), sé nú horfin úr steininum og hafi tekið sér bólfestu í stuðlabergshamri í fellinu vestan Köldukvíslar ekki langt frá. Með henni væri væri nú hrekkjót stelpa, sem gerði sér að leik að hrinda fólki er ætti þarna leið um (VM).
Þá eru tvær myndir á skiltinu. Annars vegar af brúðhjónum. Þar segir: „Svæðið hér í grennd við Helgusel og Helgufoss er kjörið útivistarsvæði. Þau Helga Rós V. Hannam og Ragnar Bragason teyguðu að sér hið frjálsa fjallaloft um leið og þau voru gefin saman í hjónaband við Helgufoss þann 26. júlí 1997“. Hins vegar er teikning af fossinum. Undir henni stendur: „Helgufoss í Köldukvísl. teikningin er gerð af erlendum ferðamanni sem hér var á ferð seint á 18. öld:“
Við nákvæma skoðun á Helguseli komu í ljós, líkt og fyrr er lýst, þrjú hús og að því er virðist stekkur aftan við þau. Þetta mannvirki sést ekki á uppdrætti Georgs Ágústssonar svo telma má að þarna sé um hluta af selshúsunum að ræða. Eitt rýmið er stærst (íverustaður, en hliðarrýmin eru minni (eldhús og búr).
Sögn tengd Helgu Bárðardóttur er til í örnefnum við Keldur. Þar segir að „á hábungunni vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðadóttir Snæfellsáss og sótt í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi“.
Hraðablettur er ofan og neðan við Helgufoss og Suðurmýrar þar ofan við. Hraðastaðir hafa verið eignarland allt frá landnámi. Jörðin er sérstök og afmörkuð eign og voru landamerki hennar skráð í tilefni landamerkjalaga nr. 5/1882, sbr. landamerkjalýsingar Hraðastaða 1890 (skrá Óbn).
Allar eignarheimildir, þ.á m. fjöldi lögskipta fyrr og síðar, styðja að Hraðastaðir séu og hafi alltaf verið eignarland. Nægir þar að nefna að öll skilyrði eignarhefðar eru fyrir hendi og enginn vafi leikur á því að um eign er að ræða í skilningi eignarréttarákvæðis Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Kröfulína fjármálaráðherra nær inn á austanverða jörðina og er ástæðan fyrir því sú að ráðherra leggur landamerkjabréf Stóra-Mosfells frá 1882 (skrá Óbn) til grundvallar kröfum sínum en landamerkjabréf Hraðastaða frá 1890 er ekki samhljóða eldra landamerkjabréfi fyrir Stóra-Mosfell frá 1882.
Allt land innan sveitarfélagsmarka Mosfellsbæjar er samkvæmt Landnámu í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Þórður skeggi hefur verið kallaður landnámsmaður Mosfellinga. Samkvæmt Landnámu bjó hann á Skeggjastöðum og nam hann land að ráði Ingólfs og náði það á milli Leirvogsár og Úlfarsár sem er ekki fjarri núverandi sveitarfélagsmörkum Mosfellsbæjar. Mosfellsdalur og Mosfellsheiði að hluta voru innan landnáms Þórðar skeggja.
Fljótlega eftir að land byggðist kom hreppaskipanin til sögunnar á Íslandi. Þá hefur Mosfellshreppur orðið til en hann náði niður að Elliðaám allt fram á 20. öld. Hreppurinn lá að Kjalarneshreppi í norðri, Þingvallahreppi, Grafningshreppi og Ölfushreppi í austri og Seltjarnarneshreppi í suðri og vestri.
Snemma í kristnum sið var kirkja reist í Mosfellsdal og var hún í fyrstu í einkaeign (bændakirkja). Ekki hafa varðveist máldagar Mosfellskirkju frá miðöldum en ekki er útilokað að heiðarlandið hafi verið eign Mosfells frá fyrstu tíð eins og örnefnið Mosfellsheiði gefur til kynna.
Líkt og í öðrum sveitum landsins var kvikfjárrækt ríkjandi atvinnugrein í Mosfellssveit. Hér áttu fáar jarðir land að sjó og Mosfellingar höfðu því takmarkaðar nytjar af sjávarfangi. Jarðaskipan tók litlum breytingum í aldanna rás, stærri jarðir voru um 40 talsins og þar við bættust hjáleigur. Þegar líða tók á 20. öld tók að fjara undan landbúnaðinum og samfélagið gjörbreyttist.
Lagafrumvarp til sölu á Mosfellsheiði var lagt fyrir alþingi árið 1927 og var málið leitt til lykta árið 1933. Samkvæmt afsalinu var undanskilið: a) svonefnt Bringnaland. Þar var stofnað nýbýli úr landi Mosfells um miðja 19. öld en jörðin fór í eyði um 1970. b) veiðiréttindi í Leirvogsvatni. c) nýbýlið Svanastaðir við Leirvogsvatn. d) svonefnt Jónselssland ofan við Mosfellsdal. Um það leyti, sem heiðin var seld, var stofnað nýbýli á þessum slóðum og nefnt Seljabrekka. Hún er þó ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var. Jónsselið er t.a.m. alls ekki örugglega staðsett í nútímanum.
Og þá aftur að tilgangnum – uppmælingunni. Helgusel var mælt 22 m á lengdina). Um er að ræða magflóknar tóft(ir). Ágúst Georgsson teiknaði selið árið 1980 og skv. teikningunni virðist húsaskipan nokkuð ljós. Skv. uppdrættinum virðast hafa verið þrjú hús, ekki endilega samtímis. Þannig eru rýmin sunnan og norðan við miðtóftina nokkuð álíka varðandi skipan, en miðtóftin virðist af annarri og líkari eldri húsagerð. Regluleg skipan rýma eru að sjá í endahúsunum, en óreglulegri og einfaldari í miðið. Svo virðist sem seltóftirnar tvær til endanna hafi haft hvor um sig fullnægjandi selsmynd á þessu svæði, þ.e. trjú rými. Því gæti þarna hafa verið stvær selstöður um tíma, eða þá að annað húsið hafi verið byggt síðar, þá væntanlega sú syðri. Miðtóftin er torráðnari. Þarna gæti verið um að ræða nýtingarhús eftir að selið lagðist af og þá verið nýtt til annarra nota, s.s. sem brennisel til hrístöku eða sem skjól fyrir ferðalanga. Hún virðist byggð utan í hinar tóftirnar tvær og jafnvel úr þeim að hluta. Hin háabarma borg vestan þess gæti skýrt tilvist hennar. Hún er líklega, af ástandinu að dæma, nýjasta mannvirkið á svæðinu og hluta af efni hennar mögulega tekið úr selstóftunum. Þarna var jafnan töluverð umferð ferðamanna.
Það hefur sennilega verið ferkantað, en rúnast af með tímanum og gróið upp. Ástand þess er ágætt enda ágangur orðinn lítill eftir að sauðféð varð lokað af í afmörkuðum beitarhólfum. Líklega hefur þarna verið um rétt að ræða í þessum grasvæna og skjólsæla stað með hinn fagurmyndaða foss sem útsýni. Þar gætu ferðalangar um Bringnaveg hafa áð um skamma hríð, enda skjóllendið hvergi betra við leiðir Mosfellsheiðarinnar.
Sá, sem kom að Bringum úr vestri, hafa varla getað gleymt „heimaálitinu“. Bæjarhúsið hefur staðið hátt í hlíðinni, ofan (austan) við kálgarðinn. Enn má sjá móta fyrir „fótstykkinu“ að vestanverðu. Innan hennar er hola í bæjarhólinn (sem er um 25×29 m). Í henni má enn sjá stofuofninn í kjallaranum og leislu honum tengda. Norðvestan hennar er bein og regluleg hleðsla.
Í norðaustanverðum aflíðandi bæjarhólnum mótar fyrir húsi eða tóft. Þar gæti hafa verið skemma eða geymsla úr timbri. Norðaustan þess er hlaðið bogadregið gerði. Það liggur í reglulegan sveig til norðust og síðan áleiðis til norðurs. Við norðanverðan bæjarhólinn er hlið það sem garðurinn mætir hleðslum um kálgarðinn norðan bæjarhólsins. Þarna munu „smáfuglarnir búið milli steina í garðhleðslunni, dillað stéli og súngið ákaft og fagurlega fyrir aungvu káli“.
Vestan bæjarhólsins sést hvar kastað hefur verið úr götunni. Hún lá upp fyrir bæjarhúsið og þaðan áfram upp á heiðina.
Fjárhústóft er austan bæjarhúsanna. Hleðslur standa enn vel og sjá má útlínur hennar glögglega. Hleðslurnar eru um 12o cm á hæð. Hlaðinn garður er í miðjunni. Tóftin snýr til norðvesturs og hefur gafl verið á þeirri hlið. Grjóthleðslur eru í annars grónu veggjunum.
Í örnefnalýsingu Jóns Halldórssonar segir að: „bærinn stendur í suðvesturenda Bæjarholts. Suður og austur af bænum er hið upphaflega tún. Niður af því austanverðu eru pallar í jarðlagið, sem eru síblautir og nefnast Dýjapallar. Þar hjá er Helluhóll. Niður af honum er Mýrdalur. Í framhaldi af honum er grasflötin Fossvöllur við Helgufoss, er sést frá bænum. Áin heitir Kaldakvísl og er á landamerkjum Hraðastaða og Bringna. Vestan við Mýrdal er Melhryggur. Næst við hann er Lautin. Vestar eru Eystri- og Vestri-Hvammur. Upp í austanverðum Eystri-Hvammi er lítill hvammur, er kallast Sætið. Við ána í Eystri-Hvammi er Hrafnaklettur, sem er standberg ármegin. Milli hvammanna er mjór hryggur, Huldufólksrani. Vestri-Melhryggur er vestan beggja hvammanna. Norðvestur af honum er varða, Markavarða, er skilur lönd Laxness og Bringna.“ Þegar staðið er efst í brekkunni ofan Við Helgusel má vel virða fyrir sér framangreind örnefni.
Suðvestan við fjárhústóftina er ferkantaður hlaðinn steingarður. Efsti hluti hans, næst tóftinni nær tveimur metrum austar. Hleðslur standa enn vel, en eru þó bæði orðnar signar og hafa fallið út frá uppruna sínum að hluta. Líklega hefur gerðið verið notað sem nátthagi og/eða rétt. Það er nú grasi gróið, líkt og umhverfið.
Brunnurinn er nokkuð sunnan við bæjarhólinn.
Önnur myndarleg fjárhústóft er nokkru vestar, ofan brekku þeirrar er umlykur Helguselið. Hún er dæmigerð fyrir 19. aldar fjárhús; hlaða innanvert og gripahúsið lengra utanvert. Hlaðinn garður er í miðju. Op er vestast á suðurhlið. Veggir eru heillegir og hafa haldið sér vel. Grjót má sjá í veggjum að innanverðu, en gróið á millum. Sést það best við op og í hlöðu. Að utanverðu er veggir grasi grónir. Þeir eru um 150 cm háir. Ástand þeirra er gott, enda lítið verið um átroðning í seinni tíð. Gras, óslegið, er allt um kring, líkt og á allri Bringnaheimajörðinni þar sem ekki eru lækir, dýjamosa eða mýrarvelpur.
Ef svæðið í heild væri gaumgæft með fránum augum mætti eflaust finna á því fleiri tóftir og minjar, s.s. smærri útihús, hlaðnar brýr yfir læki, úrkast úr túnum, garða og götur – allt minjar um athafnasemi fólks og fyrrum búsetu í Bringum.
Í örnefnaskráningu Sigríðar Jóhannsdóttur frá 1974 vegna athugasemda kemur fram að „gamall maður sagði Jórunni fyrir nokkrum árum, að staðurinn, þar sem bærinn var fyrst reistur, hefði heitið Gullbringur, frá ómunatíð. Gullbringurnar eru vestan í hæð, sem er norðan undir Grímansfelli.
Það eru vinsamleg tilmæli Jórunnar, að jörðin sé nefnd sínu upphaflega nafni, þ.e. Gullbringur, eins og sr. Magnús Grímsson nefndi hana. Það er hið eina, sem hún getur gert fyrir jörðina, að stuðla að því, að hún sé nefnd fullu nafni.“
Frábært veður – útsýnið yfir Mosfellsdalinn…
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Jóns Halldórssonar – Örnefnastofnun Íslands.
-Ásta (VM).