Helgusel – Helgufoss – Helgusteinn
Í örnefnalýsingu Jóns Halldórssonar um Bringur segir m.a.:
„Bærinn stendur í suðvesturenda Bæjarholts. Suður og austur af bænum er hið upphaflega tún. Niður af því austanverðu eru pallar í jarðlagið, sem eru síblautir og nefnast Dýjapallar. Þar hjá er Helluhóll. Niður af honum er Mýrdalur. Í framhaldi af honum er grasflötin Fossvöllur við Helgufoss, er sést frá bænum. Áin heitir Kaldakvísl og er á landamerkjum Hraðastaða og Bringna. Vestan við Mýrdal er Melhryggur. Næst við hann er Lautin. Vestar eru Eystri- og Vestri-Hvammur. Upp í austanverðum Eystri-Hvammi er lítill hvammur, er kallast Sætið. Við ána í Eystri-Hvammi er Hrafnaklettur, sem er standberg ármegin. Milli hvammanna er mjór hryggur, Huldufólksrani“.
Ágúst Ólafur Georgsson kom með svohljóðandi ábendingar við örnefnaskrána: „Klettur sá, sem er neðan við Helgufoss í Köldukvís, á móts við Bringur, sem oft er kallaður Helguklettur (m.a. af Magnúsi Grímssyni), segir Halldór Laxness alltaf hafa verið kallaðan Hrafnaklett af Bringufólkinu. Í Hrafnakletti var álfabyggð. Sagt var, að þar byggi huldukona. Kveðst Halldór hafa þetta eftir Jórunni Halldórsdóttur frá Bringum. Jórunn ku hafa haft einhver samskipti við huldukonu, sem þar bjó, snemma á þessari öld [síðustu öld]. Kveðst HKL hafa heyrt þetta, er hann var krakki, en annars ekki lagt sig neitt eftir slíku, er „óinteressant“ að hans mati.“
Helgusel er niður undan Bringum, á bökkum Köldukvíslar, er rennur með Grímarsfelli. Tilgátur eru um það að örnefnið hafi breyst úr heilagt sel (var frá Mosfelli, kirkjustaðnum) í Helgusel. Gengið var að selinu að norðanverðu. Þá er komið beint niður að Hrafnakletti. Milli hans og hlíðarinnar eru líklegar rústir, þrjár að tölu, hlið við hlið. Sú nyrsta er lengst og virðast langveggir vera sveigðir. Syðri tóftirnar eru ógreinilegri og minni. Allar eru tóftir þessar orðnar nánast jarðlægar, en þó má sjá marka fyrir grjóti í veggjum. Stærsta tóftin virðst hafa verið stekkur.
Tóftir Helgusels, sem eru skammt austar, eru vel greinilegar, einkum fjárborg framan við selið. Norðaustur undir Helguhól (Hrafnakletti) sést móta fyrir hlaðinni kví. Austan hennar eru fyrrefndar þrjár tóftir. Sú nyrsta er lengst og stærst. Efst í henni er þvergarður er bendir til þess að þarna hafi verið stekkur. Hinar tvær virðast hafa verið kvíar og þá í tengslum við selið og stekkinn. Ef svo hefur verið þá styrkir það líkur á að um tvö selstæði hafi verið í Helguseli á sama tíma.
Við Helgusel er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.: „Hér í svonefndum Helguhvammi eru rústir Helgusels. Landssvæðið og selið tilheyrðu prestsetrinu á Mosfelli á fyrri tíð og var selið notað á sumrin til að mjólka lambær og framleiða mjólkurafurðir, t.d. smjör og skyr.
Gömul munnmæli herma að Helgusel sé kennt við Helgu Bárðardóttur, en frá henni segir í Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga yfirgaf mannlegt samfélag og eigraði um landið eins og segir í sögunni: „Litlu síðar hvarf Helga þaðan í burt og fór víða um Ísland og festi hvergi yndi. Var hún og alls staðar með dul, en oftast fjarri mönnum. Fleiri örnefni tengjast Helgu á þessum slóðum, Helgufoss blasir við okkur og hér við ána er grjóthóll, sem heitir Helguhóll (einnig nefndur Hrafnaklettur). Þar á að vera Huldufólksbyggð og segir sagan að Helga Bárðardóttir hafi horfið í hólinn í elli sinni og ekki komið út síðan. Aðrir hafa hafnað þessum nafnaskýringum og telja að Helgusel merki upphaflega hið helga sel. Er sú kenning studd þeim rökum að selið hafi verið í eigu Mosfelsstaðar“.
Stöldrum við og skoðum framangreint aðeins nánar, ekki síst út frá Gunnlaugs sögu ormstungu. Nefndur Gunnlaugur var sonur Illuga, svarta, sonar Egils Skallagrímssonar. Helga var dóttir Þorsteins, hvíta, sonar Egils Skallagrímssonar, bróður Illuga. Þorsteinn bjó með föður sínum að Borg í Borgarfirði. Egill átti þá einnig Mosfell í Mosfellsdal, auk fleiri jarða. Egill var mikils metinn; enda þá bæði „mesta skáld Íslendinga“ og sá „Íslendingur, sem flesta útlendinga hafði drepið hér á landi“. Draumur hafði opinberast konu Egils. Hann var reyndar í svart/hvítu og á þessa leið: Svanur hafð tillt sér á bæjarburstina. Tveir ernir mættust þá yfir bænum, þeir börðust og svo fór að báðir féllu dauðir til jarðar. Að því búnu flaug svanurinn á brott með val er bar þar að.
Gunnlaugur festi sér Helgu á næstu dægrum til kvonfangs í þrjá vetur meðan hann fór utan til að læra til skálds og víkings. Þetta var árið 993. Gunnlaugur ferðaðist m.a. til Noregs, Svíþjóðar og Englands; öðlaðist frægð og frama, auk gersema að launum. Hann hitti m.a. Hrafn Önundarson, sjálflært skáld. Tókust þeir á um athygli konungs Svíþjóðar – og tapaði Hrafn þeirri orrahríð. Fór hann heim til Íslands og bað Þorstein um að fá að „kaupa“ Helgu. Þorsteinn færðist undan og bað hann um að koma aftur að ári þar sem þriggja vetra biðtíma Gunnlaugs væri ekki enn lokið, sem og Hrafn gerði. Gunnlaugur tafðist í Englandi um ve
Eftir umleitan Hrafns að framangreindum tíma loknum fékk hann loks samþykki Þorsteins fyrir „kaup“ ástmögursins á Helgu, sem þá var talin fegursta kona Íslands – „og þótt víða væri leitað“.
Þau Hrafn og Helga fluttust, að loknu vetrarbrúðhlaupi þeirra, að Mosfelli. Helga réði öllum ráðum sínum af ráðdeild að Mosfelli – og nýtti m.a. hið fagra umhverfi til eigin ánægju sumarlangt til hins ýtrasta. Fór svo þó um veturinn á eftir að Helga ákvað að fara aftur ein að Borg í Borgarfirði til langdvalar, en Hrafn sat eftir að Mosfelli. Ástæðan var einfaldlega sú að Helga hafði enn ást á þeim er hafði unað henni í „hvamminum“ fyrrum. Margir þekkja síðan framhaldið; einvígi Hrafns og Gunnlaugs, síðasta „löglega“ einvíginu hér á landi, einvígi þeirra í framhaldi af því á landamærum Noregs og Svíþjóðar þar sem báðir létu lífið fyrir hvors annars falsatlögur. Í kjölfarið fylgdi giftusamband Helgu og Þorkels með fimm barna auðn og samstöðu um langa framtíð.
Af framangreindu er alls ekki svo ólíklegt að örnefnin „Helgufoss“, „Helgusel“ og „Helguhóll“ hafi verið nefnd miklu mun fremur til heiðurs framangreindri Helgu Þorsteinsdóttur, barnabarni Egils Skallagrímssonar, en sá hinn sami eyddi síðustu æviárum sínum á landaeign sinni að Mosfelli í Mosfellsdal (þar sem hann gróf að lokum silfursjóð þann er Egilssaga grundvallast á (og nú er táknmerki Mosfellsbæjar)).