Hellisheiði – þjóðsaga
“Það var fyrir löngu síðan, að maður einn úr austursýslunum, … lagði af stað að heiman og ætlaði til sjóróðra suður með Faxaflóa. … Þetta var um vetur, sennilega í febrúar. Var maðurinn fótgangandi og einn á ferð. Segir eigi af ferðum hans, fyrr en hann kemur á Hellisheiði. Var það að hallandi degi. Veður var kalt og fjúkandi, svo að hann treystist naumlega til að rata rétta leið og allt af gerðist hriíðn svartari, eftir því sem lengra leið á daginn. Var þá eigi akvegur kominn yfir heiðina og vörður meðfram veginum mjög af skornum skammti.
Loks tekur maðurinn þá ákvörðun að leita sér skjóls þar á heiðinni og helzt með því að grafa sig í fönn, áður en hann færi mikið afvvega. Fer hann nú að skygnast um eftir stað, er nota megi í þessu augnamiði, og eftir nokkra leit finnur hanns sér fylgsni nokkurt eða skúta og borar sér þar inn. Þá er hann hefir skriðið skammt, finnur hann, að fylgsninu hallar niður á við, og því lengra sem hann kemst, verður ætíð ljósara fyrir augum hans, og getur hann vel greint það, er fyrir augun bar.
Loks kemur hann þar niður á flatlendi, grasi gróið. Var þar fagurt um að litast og hlýtt og bjart, eins og sumar væri. Gengur hann þar um völlu víða og fagra og kemur að vatni einu eða tjörn. Þar á bökkum vatnsins kemur hann auga á stóra lóuhópa, er lágu þar dauðar eða sofandi, og hafði hver þeirra grænt blað í nefinu. Þegar hann hefir virt þetta allt fyrir sér, sezt hann niður og tekur sér hvíld eftir gönguna. Tekur hann síðan nestismal sinn og matast, sem honum líkaði, og að því búnu fær hann sér vænan svaladrykk úr tjörninni. Býst hann nú um þar á hentugum stað að taka á sig náðir. Leggst han nú fyrir til svefns og hagræðir sér eftir föngum og bagaði eigi kuldi. Sofnaði hann þegar og svaf vært um nóttina, og var líðan hans svo góð sem vænta mátti. Næsta morgun vaknar hann hress og glaður eftir næturhvíldina. Fær hann sér nú morgunverð, áður gangan sé hafin, og á eftir góðan svaladrykk úr tjörninni. Lágu lóurnar kyrrar eins og kvöldið áður. Þegar þessu er lokið og hann er ferðbúinn, fer hann að leita upp á yfirborð jarðarinnar. Er eigi annars getið en að honum hafi gengið griðlega útgangan.
En þegar út var komið, var hríðinni af lett og komið viðunanlegt veður. Er hann nú glaður yfir því, að svo vel greiddist úr með náttstað kvöldið áður, svo illa sem á horfðist. Setur hann nú nákvæmlega á sig ýmis kennimerki, svo að honum mætti takast að finna staðinn, þegar vora taki og hann haldi heimleiðis að liðinni vertíðinni. Þegar hann þykist hafa fest þetta í minni sér svo glögglega, að eigi geti skeikað, leggur hann af stað og heldur ferðinni áfram, eins og leið liggur, og ber nú ekkert sögulegt við. Komst hann þangað, er hann hafði ætlað að róa um vertíðina, og gekk það allt skaplega. … Leið nú vertíðina til enda, og að henni lokinni býst hann að halda heimleiðis, … þegar hann kemur á Hellisheiði, ætlar hann að koma við í hinum einkennilega stað, þar sem hann hafði náttstað haft veturinn áður. Gætir hann nú nákvæmlega að merkjum þeim, er hann hafði sett sér að muna. En hvernig sem hann leitaði og gekk aftur og fram, var honum ómögulegt að finna staðinn, og var sem einhver hula legðist þar yfir. Vera má, að þessi maður hafi ferðazt þessa leið oftar, en staðinn fann hann aldrei síðan, og er því líkast, að hann hafi verið numinn í einhverja huliðsheima, þegar honum lá mest á og tvísýnt var, hvort hann fengi lífi haldið næturlangt sakir illviðris og kulda.” Frásögn Sigurðar Árnasonar.
Heimild:
-Íslenskir sagnaþættir XII, 9-12.