Hellishólsskjól – Hrauntunguhellrar

Hellishólsskjól

Í örnefnalýsingu Þorbjarnarstaða er getið um fjárskjól í Hrauntungum – Hrauntunguhellrar. Sá hellir er með heillegri fyrirhleðslu í jarðfalli norðarlega í Tungunum. Stór birkihrísla hindrar leiðina að opinu.
Skjólið innanvertÁ hraunhvelinu er varða. Lýsingin segir hins vegar að „Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhell[r]ar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum.“ Þessi lýsing passar ekki við fyrrgreinda Hrauntunguhellra. Það hlaut því að vera annað skjól í efrigóm Hrauntungukjafts, skammt norðan Fjárborgarinnar.
Þegar nágrenni Fjárborgarinnar var skoðað mjög vandlega var gengið fram á sléttkolla hraunhóla og allnokkur jarðföll. Í einu þeirra reyndist vera mikil hleðsla fyrir skúta. Stór birkihrísla huldi innganginn svo og hleðsluna. Þegar inn var komið sást vel hversu vegleg hleðslan var. Mold var í gólfi og tófugras í því næst opinu. Sléttar hellur hafa verið notaðar fyrir þak. Ein þeirra var enn á sínum stað, en aðrar lágu í gólfinu. Rýmið var svipað og í fjárborginni. Innarlega var gat í gólfinu, að öllum líkindum greni. Kindabein voru utan við opið. Skjólið er vel hulið og ekki er að sjá að þarna hafi maður stigið inn fæti í langan tíma. Skjól þetta er að öllum líkindum svonefnt Hellishólshellir eða Hellishólsskjól, skammt frá Þorbjarnarstaðafjárborginni, eins og örnefnalýsingin segir til um. Ofan við jarðfallið hefur verið hlaðið skjól, nú fallið. Þar hefur smalinn væntanlega haft aðsetur.

Hrauntunguhellrar eru skammt frá Hrauntungustígnum  skömmu áður en hann fór upp á og yfir Brunann. Það er einnig í jarðfalli, sem fyrr segir. Vegghleðslan er enn mjög heilleg og „þakhellur“ enn á sínum stað. Þetta fjárskjól hefur varðveist mjög vel og reyndar mun betur en mörg önnur fjárskjól á Reykjanesskaganum. Birkihríslan hylur opið algerlega að sumarlagi, en að vetrarlagi er auðveldara að finna það eins og gefur að skilja.
HrauntunguhellrarHrauntungur hafa verið hið ágætasta beitarland. Bæði eru þar grasi grónar lægðir og birkið, sem gnægð er af, hefur dugað bæði vel og lengi. Gott skjól er í Tungunum, ekki síst undir Brunabrúninni þar sem gamburmosahraunið frá 1151 er mun hærra en hið u.þ.b. 5000 ára gróna Hrútagjárdyngjuhraun. Það orð hefur verið á þessu svæði að þar væri mikill draugagangur. Fer af því nokkrum sögum, sem ekki verða raktar hér. Þegar FERLIR var á ferðinni á milli skjólanna var farið að rökkva og orðið nær aldimmt þegar göngunni lauk. Það væri karlmannlegt að segja að einskis hefði orðið vart það sinnið, en þó verður að viðurkennast að ekki var allt sem sýndist.

Ljóst er að hraunin geyma marga mannvistarleifina – ef vel er að gáð.
Frábært veður. Gangan og leitin tóku 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði – ÖÍ.Kvöldroði í Hrauntungum