Herbúðir á Álftanesi og Garðaholti – Friðþór Eydal

Garðabær

Friðþór Eydal hefur tekið saman ritsmíð um „Herbúðir í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi í síðari heimsstyrjöld„. Hér verður gripið niður í umfjöllun hans um herbúðirnar á Álftanesi og á Garðaholti.

Camp Brighton
ÁlftanesÁ holtinu og í slakkanum sunnan þess þar sem nú stendur húsið Jörfi á norðaustanverðu Álftanesi sem ásamt Grund er nýbýli úr Breiðabólsstöðum.
Herbúðirnar voru reistar sumarið 1941 fyrir flokk úr bresku loftvarnabyssusveitinni 203 Heavy Anti Aircraft Battery sem kom til landsins 9. júlí og hafði þar fjórar stórar loftvarnabyssur með 3,7 þumlunga (94 mm) hlaupvídd. Á þessum árum lá leiðin að Breiðabólsstöðum og Grund með ströndinni frá Landakoti en herinn réðst í vegagerð þaðan og upp í herbúðasvæðið. Turnlaga varðskýli, hlaðið úr steinsteypubundnu fjörugrjóti, stendur enn við veginn þar sem hlið var að herbúðunum, og þar skammt frá stóð einnig til skamms tíma stærri varðskúr sem hlaðinn var úr vikursteini.
ÁlftanesHerliðið sem verjast skyldi landgöngu á Álftanesi hafði aðsetur í herskálahverfinu Camp Gardar á innanverðu Garðaholti. Hermenn fóru að sjálfsögðu strax um allt til að kynna sér aðstæður og höfðu varðstöðu víða í fyrstu, t.d. sumarið 1940. Kunna þeir þá að hafa hafst við tímabundið í tjöldum en herbúðirnar að Jörfa voru ekki reistar fyrr en árið eftir.
Sama stórskotaliðsveit hafði tvær samskonar byssur á Garðaholti (Camp Tilloi) og tvær á Kópavogshálsi (Camp Skeleton Hill). Slíkar loftvarnabyssur voru jafnframt settar upp á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi, Laugarásborg og Réttarholti í Reykjavík, Fálkhól í Breiðholti, í Engey og síðar sunnan við Brautarholtsborgir á Kjalarnesi. Höfðu þær það verkefni að verja höfuðborgarsvæðið og einkum Reykjavíkurhöfn og Reykjavíkurflugvöll fyrir loftárásum. Minni loftvarnabyssur gegn lágfleygum flugvélum stóðu einnig á allmörgum stöðum umhverfis flugvöllinn og hafnarsvæðið.
ÁlftanesBretarnir héldu á brott frá Camp Brighton í ágústlok 1942 en við tók Bandaríska stórskotaliðssveitin Battery A, 494th Coast Artillery Battalion (AA). Dvaldi sveitin í búðunum þar til í október 1943 þegar byssurnar voru teknar niður og liðsmenn héldu til Bretlands líkt og meginliðsafli Bandaríkjahers hafði gert um sumarið. Í búðunum voru 39 braggar og 10 hús af öðrum gerðum, og þar bjuggu jafnan um 150 bandarískir hermenn og hartnær eins margir Bretar á undan þeim. Haft hefur verið eftir heimamönnum að liðsaflinn hafi jafnvel talið 500, en um það höfðu þeir engin tök á að vita með vissu og liðsaflaskýrslur herliðsins sjálfs, sem löngu er búið að birta, óyggjandi heimildir. Reyndar gerði herinn í því að villa um svo halda mætti að liðsaflinn væri miklu öflugri en hann í raun var.
ÁlftanesLoftvarnabyssusveitir annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu komu gjarnan með eigin byssur og æfðu skotfimi við Kasthúsatjörn milli Landakots og Breiðabólsstaða sem þeir nefndu Brighton Beach. Skotið var í vesturátt á mörk sem flugvélar drógu á eftir sér undan ströndinni, gjarnan sívala dúkhólkar sem líktust vindpokum við flugbrautir. Sáust skytturnar og flugmennirnir stundum ekki fyrir þannig að skothríðin elti mörkin of langt til suðurs svo sprengjubrot féllu til jarðar á bæjum í grennd við Sviðholt sunnar á Álftanesi. Skotæfingar voru einnig stundaðar með rifflum og vélbyssum á bökkunum norðan við herbúðirnar líkt og í grennd við flest önnur íbúðarhverfi herliðsins.
ÁlftanesLeigusamningar vegna umsvifa hersins í Camp Brighton voru gerðir við þá Erlend Björnsson á Breiðabólsstöðum fyrir afnot af 2,6 ha túni og 3.100 fm óræktuðu landi og Svein Erlendsson á Grund fyrir 2,5 ha tún og garðlendi ásamt 1,3 ha órækt. Grund var nýbýli frá Breiðabólsstöðum en íbúðarhúsið stóð þegar hér var komið áfast gamla steinhúsinu á Breiðabólsstöðum. Einnig var gerður samningur við Sæmund Arngrímsson
í Landakoti um afnot af um 5.000 fm af rýru ræktarlandi fyrir skotæfingarnar við Kasthúsatjörn. Engin mannvirki voru reist á landi hans og var leiguupphæðin 500 krónur um árið. Upphæðir samninga við hina landeigendurna á svæðinu hafa ekki fundist, en algengt leiguverð fyrir sambærilegar spildur var um 1.000 krónur um árið fyrir hvern hektara og má því áætla að árlegar leigugreiðslur til þeirra hvors um sig hafi numið um 3.000 krónum. Bandaríski loftvarnabyssuflokkurinn hélt á brott haustið 1943 eins og fyrr segir og var leigusamningum við þá þremenninga sagt upp 25. maí 1944.
ÁlftanesKaupsamningar vegna mannvirkja í Brighton-herbúðunum hefur ekki fundist en að sögn afkomenda Sveins Erlendssonar á Grund eignaðist hann ýmis mannvirki og tók sum til eigin nota en seldi önnur. Gögn Sölunefndar setuliðseigna tilgreina að braggarnir 39 hafi verið seldir „ýmsum aðilum“ haustið 1944 og hefur Sveinn á Grund verið einn þeirra, og væntanlega Erlendur á Breiðabólsstöðum líka, og greiðsla þá falist í samningi um niðurrif og landlögun, en gögnin benda til að stakir braggar hafi einnig verið seldir öðrum til flutnings úr búðunum.
Eins og um getur hér að framan var hermannafjöldinn í Brighton-búðunum ekki um 500 eins og haldið hefur verið fram, heldur einungis 150 eins og liðsaflaskýrslur herstjórnarinnar sýna, enda hefði þurft miklu stærri búðir fyrir svo fjölmennan liðsafla.
ÁlftanesEinnig er ljóst að landeigendur á Álftanesi fengu bætur fyrir leigu og landlögun líkt og annarsstaðar. Þá var bygging sem enn er notuð að Jörva, og jafnan sögð hafa verið fjarskipta- eða loftvarnabyrgi, í raun stjórnstöð fyrir loftvarnabyssuvígið. Þar var tekið á
móti fyrirmælum frá aðalstöðvum loftvarnanna á höfuðborgarsvæðinu sem stóð í svonefndum Múlakampi í Reykjavík og samræmdi aðgerðir stórskotaliðs og orrustuflugvéla svo vinveittar flugvélar yrðu ekki fyrir skaða. Samskonar steinsteypta og niðurgrafna stjórnstöð er að finna í loftvarnavíginu í Engey þar sem enn sjást nokkuð vel varðveitt ummerki.

Álftanes

Minjar í Brighton-kampi.

Um 150 m vestan við skorsteinshleðslu sem enn stendur eftir af svonefndum samkomubragga stendur steinsteypt undirstaða með akstursbraut sem skráð er nr. 824 í ritinu Fornleifaskráning: Deiliskipulag á Norðurnesi sem loftskeytastöð: „Stöðin er steinsteypt, um 19x 5,28 m að utanmáli, og eru tvær skábrautir á henni með dekkjabreidd á milli, líklega til að hægt hafi verið að keyra upp á hana. Við enda skábrautanna er kantaður pallur með gat í miðju.“
Hér er í raun um að ræða stæði fyrir ratsjártæki í vagni sem notað var til að miða loftvarnabyssunum líkt og á þessari mynd sem tekin er í Bretlandi. Ratsjártæknin var nýtilkomin og upplýsingar um notkun hennar varðveitt sem leyndarmál og því ekki að undra að heimilisfólk hafi talið tækið vera ætlað til fjarskipta.
GarðabærÁ myndinni má greina vírnet með 5 cm möskva sem lagt var út í samfelldan nærri eins og hálfs hektara
áttstrendan flekk umhverfis pallinn til þess að mynda kvarðað jarðsvið og minnka þannig truflanir í ratsjánni. Vírnetið hékk í stálvírum sem strengdir voru milli fjölda tréstaura í um 1,5 m hæð frá jörðu. Tækið á pallinum nam og miðaði út endurvarp af skotmarkinu frá ratsjárgeisla sem senditæki á öðrum stað skammt frá beindi að því. Áttstrendingurinn kemur vel fram á gömlum loftmyndum af svæðinu eins fyrr
greinir.

Camp Gardar
ÁlftanesÍ austanverðu Garðaholti, austan Garðavegar og sunnan Garðaholtsvegar.
Herbúðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (company) úr breska fótgönguliðsfylkinu 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Durham Light Infantry Regiment við og því næst 1 Tyneside Scottish Regiment í október sama ár. Í desember 1941 tóku undirfylki C og flokkur úr bandarísku fótgönguliðssveitinni 10th Infantry Regiment við búðunum og dvöldu þar fram í júlí 1943
þegar hersveitin hélt til Bretlands. Í búðunum höfðu að jafnaði um 170 bandarískir hermenn aðsetur.

Camp Tilloi

Garðaholt

Camp Tilloi. – leifar…

Í austanverðu Garðaholti, sunnan Garðaholtsvegar á móts við Grænagarð.
Herbúðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir stórskotaliðsflokk (section) úr 4 Heavy Anti Aircraft Battery breska hersins sem hafði tvær 3,7 þumlunga loftvarnabyssur á Garðaholti ofan við veginn og þar sem nú stendur húsið Grænigarður í skógræktarlundi á holtinu.
Herflokkurinn flutti í nýtt loftvarnabyssuvígi á Laugarnesholti í Reykjavík í júlí 1941. Þá tók við byssunum á Garðaholti samskonar flokkur úr 203 Heavy Anti Aircraft Battery, en sú liðsveit hafði einnig byssuvígi við Breiðabólsstaði á Álftanesi og á Kópavogshálsi.
GarðabærBandaríska stórskotaliðssveitin Battery B, 494 Coast Artillery Battalion (AA) tók við í ágúst 1942 og dvaldi í búðunum þar til í október 1943, en þá tók við Battery D, 748th Anti Aircraft Gun Battalion (áður 25th (Separate) Coast Artillery Battalion). Starfrækslu loftvarnabyssanna í Camp Brighton við Breiðabólsstaði var þá hætt en sveitin starfrækti loftvarnabyssuvígið á Garðaholti þar til í febrúar 1944 þegar hún fluttist til Keflavíkurflugvallar. Um 140–170 bandarískir hermenn höfðu jafnan aðsetur í Camp Tilloi.
GarðabærSamtals voru í Gardar- og Tilloi-búðunum 36 braggar og 9 hús af öðrum gerðum þegar báðar höfðu verið yfirgefnar. Einn braggi af breskri Nissen-gerð sem fluttur var þaðan niður að Pálshúsum stendur við bæinn. Annar braggi af bandarískri Quonset-gerð stendur norðan Garðavegar á móts við heimreiðina að Pálshúsum en hann var ekki hluti af herbúðunum og óvíst hvaðan hann er upprunninn.
Landeigendur sem einnig eru tilgreindir í skrám um landleigu á svæðinu:

Slingsby Hill
Ásahverfi í Garðabæ þar sem lengi voru kartöflugarðar sunnanvert í Hraunsholti.
GarðabærBúðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (company) úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Durham Light Infantry Regiment við og því næst undirfylki úr 1 Tyneside Scottish Regiment í október. Í desember 1941 tók undirfylki A úr 10th Infantry Regiment Bandaríkjahers við búðunum og dvaldi þar fram í júlí 1943 þegar hersveitin var leyst af hólmi. Þá tók við undirfylki E úr 29. fótgönguliðssveit, 29th Infantry Regiment, sem hafði þar aðsetur uns sú hersveit hélt einnig af landi brott í apríl 1944.
Í búðunum dvöldu að jafnaði um 170 bandarískir hermenn og þar voru 30 braggar og 6 hús af öðrum gerðum.

Mercury Depot – Camp Russel
GarðabærÚtibirgðageymslusvæði fyrir eldsneyti þar sem nú er Lundahverfi og Lundaból norðan Vífilsstaðavegar í Garðabæ. Í búðunum voru
þrír og hálfur braggi.
Búðirnar voru reistar af Bandaríkjaher haustið 1942 þegar „Flóttamannvegurinn“ sem svo hefur verið nefndur, eða Back Road/Tactical Road eins og hann nefndist í raun, var lagður frá Elliðavatni til Hafnarfjarðar svo tryggja mætti hindrunarlausar samgöngur herliðs frá Vesturlandsvegi til Hafnarfjarðar og Suðurnesja án þess að til sæist frá sjó og umferð flóttamanna tefði fyrir.

GarðabærCamp Russel var aðsetur bandarísks herfylkis sem annaðist lagningu símalína og uppsetningu fjarskiptakerfa, 26th Signal Construction Battalion (Headquarters og Hedquarters Company, Medical Detachment, Company A og Company B). Vorið 1943 bjuggu í búðunum alls um 500 liðsmenn herfylkisins, en þær nefndust eftir Edgar A. Russel hershöfðingja sem farið hafði fyrir fjarskiptasveitum bandaríska hersins í
Frakklandi í fyrri heimsstyrjöldinni. Herfylkið kom til landsins í maí 1942 og hafði fyrst aðsetur í herbúðum á Reykjamelum í Mosfellssveit en fluttist í Camp Russel um haustið.
Störfuðu liðsmenn m.a. við lagningu símalína á Suður- og Vesturlandi vegna fyrirhugaðs símakerfis sem nefndist Project Latitude 65° og ná skyldi umhverfis landið til þess að tengja ratsjárstöðvar og herbúðir á landsbyggðinni við aðalstöðvarnar suðvestanlands. Hætt var við framkvæmdir sumarið 1943 þegar meginliðsafli Bandaríkjahers var fluttur til Bretlands, en þá var lokið við að leggja símann austur í Vík í Mýrdal.
GarðabærLiðsmenn herfylkisins héldu af landi brott í ágúst sama ár og flutti þá í búðirnar 400 manna liðsafli úr stórskotaliðssveitinni 115th Field Artillery Battalion (Headquarters Battery, Battery B, Service Battery og Medical Detachment) sem starfað hafði á Seyðisfirði og Reyðarfirði um veturinn. Sú hersveit hélt einnig af landi brott í október 1943. Virðast búðirnar ekki hafa verið í mikilli notkun eftir það, enda þá úr nógum auðum herbúðum að velja nærri byggð. Báðar þessar liðsveitir tóku síðar þátt í sókn bandamanna á meginlandi Evrópu árið 1944–1945.
Camp Russel samanstóð af nærri 100 byggingum sem flestar voru braggar af bandarískri Quonset-gerð. Eftir að notkun lauk munu margir hafa verið fluttir á brott, væntanlega til Keflavíkurflugvallar þar sem uppbyggingu var að ljúka. Einungis 8 braggar og 5 steinhús ásamt vatnsgeyminum efst á holtinu stóðu eftir þegar hverfið var afhent Nefnd setuliðsviðskipta til ráðstöfunar árið 1944.

Frekar um „Flóttamannaveginn“
GarðabærRangt er að um flóttaleið hafi verið að ræða og einnig er það misskilningur að Bretar hafi lagt veginn. Vegurinn var lagður á vegum bandaríska herliðsins árið 1942. Bretar og síðar Bandaríkjamenn höfðu miklar herbúðir í Mosfellssveit og við Suðurlandsveg með færanlegum liðsafla sem mæta skyldi sókn óvinaherliðs hvar sem það bæri að landi. Létu Bretar því leggja veg árið 1941 frá Mosfellssveit, norður með Hafravatni og að gamla þjóðveginum til Þingvalla sem tengdist Suðurlandsvegi við Geitháls. Héldu þeir vegagerðinni áfram frá Rauðavatni og suður á Vatnsenda en árið eftir létu Bandaríkjamenn leggja veg þaðan og suður að Kaldárselsvegi í Hafnarfirði.
Í skjölum Bandaríkjahers er vegurinn ýmist nefndur Back Road eða Tactical Road, enda hafi herliðið austan Reykjavíkur átt að sækja um hann ef til átaka kæmi í Hafnarfirði eða á Reykjanesi fremur en Hafnarfjarðarveg sem var hin eiginlega flóttaleið íbúanna og því ófær fyrir herliðið.
GarðabærVegurinn var lengi nefndur Setuliðsvegur og er það heiti t.d. að finna í dagblaðinu Þjóðviljanum í október 1957 þar sem sagt er frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur fái til skógræktar hluta úr Vífilsstaðalandi. Sömuleiðis er heitið að finna í ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1975. Heitið „Flóttamannavegur“ er reyndar að finna
á prenti í frétt Alþýðublaðsins þegar í janúar 1959 en ekki ólíkleg skýring er að leiðin hafi hlotið þetta heiti með vísan til þess „þegar ökumenn sem höfðu kannski fengið sér aðeins of mikið neðan í því, notuðu hana til að komast fram hjá eftirliti lögreglunnar eða undan henni á flótta,“ eins og Ómar Ragnarsson hefur lýst í bloggi sínu.

Heimild:
-Friðþór Eydal, „Herbúðir í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi í síðari heimsstyrjöld“, 2025.
Garðabær

Garðabær

Bíóbraginn á Urriðaholti 2010.