Herdísarvík – gestir
Ólafur Þorvaldsson ritaði m.a. um gestakomur í Herdísarvík, „Gestir af hafi“, í Sjómannablaðið Víking árið 1953:
„Á þeim árum, sem ég bjó í Herdisarvík, vorum við hjónin oft spurð að því, hvort ekki væri ákaflega leiðinlegt að búa þar, hvort ekki væri þar voðalega afskekkt og einangrað, hvort nokkum tíma sæist þar maður. Tveimur fyrri spurningunum svöruðum við, einkum þó ég, á þá leið, að ekki væri leiðinlegt að búa í Herdisarvík, heldur þvert á móti skemmtilegt, þótt nokkuð mætti teljast þar afskekkt og þótt ekki væri hægt að segja, að hún lægi nú lengur í þeirri þjóðbraut, sem áður á árum, þegar menn úr austursveitum og sýslum fóru sínar skreiðar- og lestaferðir út með sjó, svo og meðan vermenn úr þessum sömu sýslum gengu þar um til vers og úr veri, en hvort tveggja þetta mun hafa lagzt niður um svipað leyti, og mun það hafa verið á tveim fyrstu tugum þessarar aldar. Þriðju spurningunni munum við oftast hafa svarað á þá leið, að fleiri gesti bæri að garði í Herdísarvík heldur en við hefðum þorað að gera okkur vonir um í upphafi, enda þótt ég vissi áður nokkuð um, að ekki var alltaf mannlaust þar.
Það er eitt og annað í sambandi við gesti okkar í Herdísarvík, sem æðimargir urðu í þessi sex ár, sem við bjuggum þar, sem ég ætla að rifja upp fyrir sjálfum mér, þar eð flestra gesta okkar þar minnist ég enn með ánægju. Heldur mun ég fara fljótt yfir sögu hvað snertir hina almennu gestakomu, þ.e. þeirra gesta, sem vænta mátti hvenær sem var, þekktra gesta eða óþekktra, sem ýmist dvöldu næturlangt eða allt að viku, og annarra, granna eða langferðamanna, sem með garði fóru, en litu í bæinn, okkur til mikillar ánægju og sjálfum þeim til hvíldar og hressingar.
Svo sem að framan getur, þá var á þessum árum (1928—33) tími skreiðarferða og vermanna liðinn, og var því aldrei þessara manna von. Samt sem áður voru ekki allir hættir að ferðast þessa leið. Þegar kom fram á vorið og sumarið og hagar voru komnir fyrir hesta, fór að lifna yfir umferðinni. Framan af sumri voru það einkum menn utan frá sjó, Grindavík og Suðurnesjum, sem komu til fjárleita og fóru þá oft allt til Selvogs. Oft voru menn þessir nokkrir saman og voru marga daga í þessum ferðum. Alltaf komu þeir við í Herdísarvík og gistu stundum. Um hásumarið komu oft stórir eða smáir hópar fólks. Einkum var þetta fólk frá Hafnarfirði og Reykjavík. Allt var þetta fólk á hestum, því enginn var þá bílvegur kominn um þær slóðir. Oft gistu hópar þessir, og var stundum þröngt á því þingi, þar eð húsakosturinn var ekki mikill, fimm rúm i tvískiptri baðstofu auk gestarúms í frammistofu. Helzt var fólk þetta á ferð um helgar, og var þá flest að fara hringinn, svo sem nú er sagt, þegar farið er um Krýsuvík til Selvogs og Ölfuss, en lengri tíma tók það þá heldur en nú.
Fyrir kom það, að menn kæmu gangandi, einn eða fleiri saman. Ýmist komu menn þessir beint yfir fjallið frá Hafnarfirði, og lá þá leiðin langt austan Kleifarvatns, — eða þeir komu um Krýsuvík. Sumir þessara manna voru vinir okkar og þá í skyndiheimsókn, aðrir okkur lítt eða ekkert þekktir, svo sem bóksölumenn, trúboðar o. fl. Eitt sumarið kom til okkar Árni Óla blaðamaður og gisti hjá okkur. Var hann þá að ganga hringinn og mun hafa verið að safna efni í bókina „Landið er fagurt og frítt“. Höfðum við mikla ánægju af heimsókn hans. Eitt sumarið dvaldist próf. Guðmundur Bárðarson náttúrufræðingur, ásamt þýzkum stúdent, um vikutíma hjá okkur. Voru þeir með fjóra hesta og nokkurn farangur. Mest voru þeir við rannsóknir hrauna og eldgíga uppi á fjalli og komu venjulega ekki heim fyrr en á kvöldin. Þágu þeir þá stundum kvöldmat í bænum. Svona mætti lengi telja gestina. Ég skil nú við sumargestina, en minnist lítillega aðal haustgestanna.
Á hausti hverju var nokkur gestakoma, einkum var það kringum réttir og oft nokkuð þar fram yfir. Til Selvogs- og Ölfusrétta sóttu menn úr Garðahreppi og Hafnarfirði. Þeir, sem af Suðurnesjum komu, fóru um í Herdísarvik og stöku sinnum Hafnfirðingar. Þótti þeim betri reiðvegur um Krýsuvík heldur en fara austur yfir fjall um Kerlingarskarð. Urðu þeir að nátta sig í Selvogi og ríða svo upp í réttir að morgni, vildu þá eins vel gista í Herdísarvík, enda voru þetta þá oftast gamlir kunningjar okkar og þóttust slá tvær flugur í einu höggi með því að gista hjá okkur. Það var stundum þröngt þessar nætur í bænum í Herdísarvík; gekk heimafólk flest úr rúmum og lá þá í flatsængum í framgöngum. Oft urðu þrír að hafast við í einu rúmi eða ætluðu að gera það, en stundum var einum sparkað út úr hreiðrinu, og vaknaði sá þá stundum liggjandi á gólfinu. Allt fór þetta fram í mesta bróðerni, og var oft glatt á hjalla. Stundum var spilað lengi nætur. Venjulega voru það sömu mennirnir haust eftir haust, sem þessar útréttir sóttu, og voru þvi okkur vel kunnir og velkomnir gestir, sem og allir, sem komu. Þessir menn þekktu vel húsakost okkar, en gerðu sér allt að góðu, sem fyrir þá var gert.
Um og eftir síðustu réttir var stundum fallinn það mikill snjór á Kerlingarskarð og fjallið þar austur af, að bændur úr Selvogi, sem áttu órekinn sauðarekstur og mylkar ær til slátrunar, treystust ekki að reka féð þá leið og urðu í þess stað að reka um Herdísarvík og Krýsuvík, þar eð sú leið gat verið snjólaus með öllu, þótt dyngja væri komin á fjallið. Þegar svona bar undir, fór það eftir því, hve snemmbúnir þeir urðu heiman að, hvort þeir heldur náttuðu sig í Herdísarvík eða Krýsuvík. Þessir sauðarekstrar voru æðifjármargir, þar eð allir bændur úr Selvogi áttu þar sauði og annað síðheimt förgunarfé og Selvogsbændur sauðamargir í þá daga. Margir menn fylgdu þessum rekstrum, og var þá sungið og kveðið fram eftir vökunni, þegar þeir gistu í Herdísarvík, og svo kann víðar að hafa verið.
Ég hef hér að framan nokkuð dvalið við vor- og sumargesti, sem til Herdísarvíkur komu og gátu komið hvenær sem vera vildi. Líka hef ég minnzt á haustgestina, sem margir voru nokkuð tíma- og árvissir, — en það komu fleiri gestir en þeir framan töldu. Við komu þessara gesta mun ég einnig nokkuð dvelja í þessum minningum, svo hugstæðir eru mér margir þeirra. Ekki komu gestir þessir daglega, og aldrei þurfti að vonast eftir þeim i níu til tíu mánuði af árinu. Hvorki komu þeir ríðandi né gangandi. Þeir komu af sjó. Gestir þessir voru Færeyingar.
Þegar kom fram um mánaðamótin febrúar —marz, fórum við að huga að gestakomu á ný.
Ekki þurfti að horfa til austurs né vesturs eftir gestum þeim, sem nú var helzt að vænta. Þeir komu allir af hafi. Þetta voru færeysku fiskimennirnir, sem sóttu á Íslandsmið á skútum sínum. Flestar lögðu þessar skútur úr heimahöfn í febrúar og fyrst í marz. Allar voru þær með handfæri einvörðungu. Flestar munu skútur þessar hafa verið um 150, sem hingað sóttu. Eftir að skúturnar voru komnar vestur með landinu, sást oft heiman frá Herdísarvík, eftir að dimmt var orðið, svo að segja ljós við ljós fyrir allri víkinni.
Hvaða erindi áttu svo öll þessi erlendu skip til þessarar afskekktu víkur? Vil ég nú skýra það nokkuð. Flest skipanna komu þangað til þess að afla sér vatns eða íss, annars eða hvors tveggja. Mörg voru þau búin að vera svo vikum skipti í sjó og þessar nauðsynjar ýmist að mestu þrotnar eða svo á þær gengið, að viðbótar var talin þörf. — Herdísarvík var eini staðurinn frá Vestmannaeyjum allt vestur fyrir Reykjanes, þar sem mögulegt var fyrir skip að afla sér þessara nauðsynja. Ég held, að Færeyingar hafi litið á Herdísarvíkina sem nokkurs konar Færeyingahöfn fyrir suðvesturlandinu, og þannig heyrði ég orð falla milli tveggja skipstjóra. Svo mikils virði var þeim að geta fengið þarna ótakmarkað vatn — og venjulega ís eða snjó eftir þörfum — móts við það að þurfa að öðrum kosti að sækja þetta — helzt annaðhvort til Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur og þurfa þar að borga það með peningum.
Svo sem fyrr er sagt, var erindi flestra skipanna það, að fá neyzluvatn, ís eða snjáur, eða eins og sumir sögðu kava, sbr. kava-rok, skafbyl, sem við segjum. Ísinn og snjóinn notuðu þeir að sjálfsögðu í frosthólf skipsins til varðveizlu beitu. Ekki voru öll skipin, sem upp á vikina komu, í framangreindum erindum. Það var á þeim tíma, sem hér um ræðir, ófrávíkjanleg regla Færeyinga að fiska ekki á sunnudögum eða öðrum helgidögum. Þá daga slöguðu skipin fram og aftur eða héldu sér við á vélinni um miðin, þar til aftur var farið að fiska. Þegar Færeyingarnir voru á fiski út af Herdísarvík eða vestur með Krýsuvíkurbergi, sem varað gat svo vikum skipti, komu mörg þessara skipa upp á Víkina og lögðust þar fyrir akkeri og voru þar til sunnudagskvölds. Þetta var þó því aðeins, að stillur væru eða vindur stæði af landi.
Svo sem fyrr segir, þá var erindi flestra skipanna að fá vatn eða ís, og oft sama skipið hvort tveggja. Væri ekki ís á tjörninni, þá tóku þeir snjó, væri hann fyrir hendi. Þegar fram á vertíðina kom og snjór horfinn neðanfjalls, leyndist hann stundum í djúpum kerum í hrauninu. Af þessum stöðum vissi ég, og Færeyingarnir vissu, að ég vissi. Þegar allur snjór var uppurinn neðan fjalls, voru oft skaflar efst í fjallinu. Þá klungruðust þeir eftir honum þangað og báru hann á bakinu og höfðinu til sjávar. Var þetta löng leið og erfið mönnum i sjóstökkum og fullháum vaðstígvélum, en hér var mikið í húfi, beitan lá undir skemmdum, og henni varð að bjarga. Ég sagði áðan, að þeir hefðu borið á bakinu og höfðinu, og vil ég skýra þetta nánar. Þegar komið var i pokann það, sem þeir gátu mest farið með, var bundið fyrir op hans. Síðan var kaðli brugðið um pokann nálægt miðju og bundið að; þó var ekki nær bundið en svo, að maðurinn gat brugðið kaðlinum fram um enni sér, þegar pokinn var kominn á bak hans. Þannig báru þeir oft langa leið og vonda án þess að hafa hendur á bandinu, létu bara hausinn hafa það. Ég lét stundum í ljós undrun yfir, hve sterkir þeir voru í hausnum og þó einkum hálsinum. „Já, svona berum við torfið, blessaður“, var svarið, sem ég fékk, og mun ég víkja lítillega að þessu síðar.
Þegar þykkur ís var á tjörninni, brutu þeir hann upp með járnum eða öxum og roguðust svo með jakann í fanginu, á bakinu eða á milli sín ofan í bátinn, sem alltaf varð að halda á floti, vegna þess að oftast var einhver lá í Bótinni. Stundum tók hvert skip ís í 2—3 báta, einkum þau stærri, sem stórar ísgeymslur höfðu. Einhverju sinni — það mun hafa verið komið fram í apríl og allan snjó löngu tekið upp neðanfjalls — var barið á stafnglugga baðstofunnar og það allharkalega; þeir hafa víst haldið, að fast væri sofið. Þegar ég leit út, sá ég að hópur manna stóð fyrir utan, voru sumir með stór vasaljós í höndum, en aðrir báru ljósker. Ég bjóst við, að hér væru komnir strandmenn, en svo var nú ekki. Einn hefur strax orð fyrir og segir: „Veiztu nokkurs staðar af snjáur, blessaður?“ Ég klæddist í skyndi og gekk út. Þarna var kominn skipstjóri með sína vakt af kútter „Harry“, einu hinna gömlu Reykjavíkurskipa. Skip þetta hafði fengið síld senda að heiman til Vestmannaeyja daginn áður, og þar sem þeir gátu þá ekki fengið ís í Vestmannaeyjum, lá síldin undir skemmdum. Hann sagðist þá hafa sett til öll segl og vélina á fulla ferð og stefnt vestur til Herdísarvíkur í von um, að þar væri snjó að fá. Ég sagði skipstjóranum, að allur snjór væri þorrinn ofanjarðar, en snjór mundi vera í djúpum kerum uppi við fjall, en óvíst, hvort ég hitti á þau nú í myrkrinu, og þótt svo yrði, þá þyrfti að síga ofan í kerin og hala snjóinn upp. Ekki setti skipstjóri neitt af þessu fyrir sig, enda mun mörgum Færeyingnum hafa boðizt brattara sig heldur en hér gat orðið um að gera.
Var svo lagt af stað og stefnt til fjalls. Lestuðu menn sig um hraunið, og vildi sumum verða hnotgjarnt í myrkrinu, enda heldur stirt búnir til gangs. Ljósin báru þeir, sem á eftir gengu, því að ég treysti mér betur til að finna kerin í myrkri heldur en við ljós, því að það gerði dimmra út frá sér. Kerin fundum við, og ofan var sigið með ljós. „Já, já, nógur snjóur, gamli“, var kallað upp af þeim, sem fyrstur fór niður. Þarna var tekinn snjór í tvo báta.
Þegar Færeyingar tóku vatn eða ís fyrsta sinni, vildu flestir skipstjórarnir borga eða buðu borgun fyrir. Ég sagði öllum það sama, að ég seldi hvorki vatn né ís og væri þeim heimil taka þessara nauðsynja hvenær sem væri. Þeir vildu borga samt, þótt ég vildi ekki við peningum taka, — og gerðu það líka.
Það var föst venja okkar hjóna að ná sem flestum heim og gera þeim eitthvað gott. Urðu þeir venjulega að skiptast á um að koma heim, þar eð bátar máttu ekki mannlausir vera, væri verið að taka vatn eða ís. Flestum þótti skyr mjög gott, svo var það mjólk eða kaffi, eftir því sem þeir æsktu. Oft var fata með mjólk í send út á skip til þeirra, sem ekki gátu í land komið. Fyrir þessa smáaðhlynningu — svo og vatnið og ísinn — virtust allir mjög þakklátir. Oft höfðu þeir með í land í fyrstu ferðinni ýmislegt, sem þeir vissu, að hvert heimili hafði not fyrir. Bar þar mest á kexi. Voru það heldur smáar kökur, ýmist sætt eða ósætt. Voru sumir skipstjórar þar svo stórtækir, að fyrir kom, að þeir komu með eða sendu í land óuppteknar kextunnur eða kassa, sem í var frá 25—40 kg. Náðu þessar kexbirgðir stundum saman hjá okkur. Þess utan komu þeir með kaffi, sykur, smjörlíki, kartöflur, fiskilínur, blýlóð og öngla. Þeim þótti lína sú, sem ég notaði i handfæri, — en það var 4 lbs lína, — of sver, og sagði einn skipstjóri, sem sá hana, við mig: „Þetta er ófiskilegt, gamli; ég skal senda þér betri línu“, — og var það 2 lbs lína. Salt mátti ég fá hjá þeim, meira en ég hafði not fyrir. Oft komu þeir í land með nýjan fisk, svo og stóra slatta af nýjum þorskhausum, sem ég svo herti. Eitt er ótalið enn, sem sízt var við neglur skorið, en það var reyktóbak. Ekki var tóbak þeirra að sama skapi gott, en vel var ég farinn að sætta mig við það. Þetta tóbak reyktu þeir jafnt og tuggðu.“
Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 15. árg. 1953, bls. 295-302 og 317-318.