Herdísarvíkursel (heimasel)
Leit var gerð að heimaseli Herdísarvíkur í Selvogi. Í Jarðabók Árna og Páls 1703 segir um hjáleigur og selstöður Herdísarvíkur í Selvogi:
„Hjáleiga hefur hjer að fornu verið, ekki var henni nafn gefið nema af bænum; hún hefur undir 30 ár í auðn verið og mikill partur grasnautnar, sem hún hafði, spilltur af sandi, þar er nú stekkur heimabóndans.
Tómthús hefur hjer eitt verið til forna, en í auðn legið undir 50 ár.
Selstöðu eigna menn jörðinni í Krýsuvíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.“
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar segir: „Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu. Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.
En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni.“
Ólafur Þorvaldsson segir í sinni örnefnalýsingu um Herdísarvík: „Nyrzt á Seljabót uppi við háa brunabrún, eru nokkrar gamlar húsarústir, og eru það leifar húsa frá þeim tíma, að haft var þarna í seli frá Herdísarvík.
Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið.
Þá er austarlega kemur á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af sér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann hafa hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið.“
Eftir að Herdísarvíkurhraunið hafði verið gengið fram og til baka og allir hugsanlegir möguleikar sem staðsetning á fyrrnefndri heimaselstöðu var haldið á líklegasta staðinn með framangreint í huga: „hjáleiga þar sem nú er stekkur heimabóndans“. Þegar komið var á vettvang var það nefndur stekkur, nú grasi gróinn, sem bar fyrst fyrir augu. Umhverfið er einnig grasi gróið og í miðju þess hið ágætasta vatnsstæði, bæði kjörnar aðstæður fyrir smákot sem og augsýnilegar leifar þess.
Þessi selstaða Herdísarvíkurbænda var sú þrjúhundraðasta, sem FERLIR hefur skráð á Reykjanesskaganum.
Heimildir:
-Jarðabók Páls og Árna 1703, bls. 467.
-Örnefnalýsingar Gísla Sigurðssonar, I og II (ÖÍ).
-Örnefnalýsing Ólafs Þorvaldssonar (ÖÍ).