Hlíð – Hlíðarvatn
Hlíð stendur við Hlíðarvatn í Selvogi. Hún mun vera landnámsbær. Þórir haustmyrkur er sagður hafa sest þar að fyrstur manna. Mikið af minjum er við vatnið, en upphaflega mun bærinn hafa verið í Hjallhólma, sem nú er varla svipur hjá sjón eftir að hækkaði í vatninu. Nú vottar einungis fyrir minjum utan í hólmanum.
Gengið var um tóftirnar norðaustan vatnsins, um Hjallhólma, Arnarþúfu og yfir á Réttartanga. Þar skammt sunnar eru Borgirnar þrjár, fjárborgir frá Vogsósum. Gömlu götunni frá Vogsósum áleiðis að Selvogsgötu (Suðurfararvegi) var fylgt til austurs, framhjá Vogsósaseli og upp í Katlabrekkur. Þar var Hlíðarselið og Hlíðarborgin skoðuð áður en haldið var vestur Hlíðargötu, framhjá Borginni undir Borgarskörðum, fjárhústóftum skammt vestar og endað í rústunum ofan við Hlíð (ofan þjóðvegarins).
Gísli Sigurðsson ritaði m.a. um Hlíð. Hann taldi þar hafa verið stórbýli fyrrum. Hafi hún um aldaraðir verið eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hafi verið í eyði um 90 ára skeið. “Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhólnum, lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins.
Hlíðarvatn liggur undan túnfætinum og voru mikil hlunnindi að, enda galt Hlíðarbóndinn þangskurð og reka með silungi til annarra jarða í Selvogi. Vestast voru mörkin milli Hlíðar og Stakkavíkur um vik niður undan Urðarskarði. Innar eða fyrir miðri Urðinni er Bleikjunef; þar var góður veiðistaður. Hlíðarmöl er þar innar, vestan túnsins, sem einnig var aðeins nefnd Mölin. Uppspretta er nálægt miðri Mölinni, heitir Buna.
Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Innarlega á Mölinni er tjörn, kölluð Hvolpatjörn eða Kettlingatjörn, og rennur úr henni vatn um Tjarnarlæmið.
Tangi eða hólmi er úti í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Arnarþúfa er suður af tanganum. Sat þar örninn oft og hlakkaði yfir veiði. Þar fyrir sunnan skerast inn í landið vikin þrjú. Þar er fyrst Kristrúnarvik, og þá Girðingarvik, sem er nýlegt nafn, og þá vik með mörgum nöfnum, Vondavik, Forar-vik og Moldarvik. Í viki þessu var venjulega kafhlaup af for, og því eru nöfnin. Gerð hafði verið brú með grjóti yfir vikið, og var að því nokkur bót. Rakarsker er nýnefni á skeri einu eða hólma fram af vikunum. Nethóll er tangi með hundaþúfu á og er hann einnig nefndur Jónstangi, en fram af honum drekkti sér maður, er Jón hét.
Handan við Vondavik er Réttartangi, og eru þar Selvogsréttir, með safngirðingu, almenningi og dilkum. Í Réttartanga skerst vik, sem sumir kalla Selvik, en suður frá réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. (Þórarinn Snorrason á Vogsósum sagði selið hafa verið frá Vogsósum, enda í landi jarðarinnar). Marknes var þar utar eða um 400 metra frá Selvogsréttum. Úr nesi þessu lá landamerkjalínan milli Hlíðar og Vogsósa. Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni.
Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stór-grýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri.
Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.
Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu. Kirkjugata lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogsósum og áfram suður að Strandarkirkju.”
Í Selbrekkum eru tóftir Vogsósasels. Götunni var fylgt upp Katlabrekkurnar þangað til komið var að Hlíðarseli. Fjárborg er við selið, en norðan þess er Hlíðarborgin undir háum klapparhól. Hlaðin tóft er í borginni. Enn ofar, undir Svörtubjörgum er Strandarsel (Staðarsel). Skammt frá borginni er fjárborgin undir Borgarskörðum. Hún stendur, gróinn, á hól og sést því vel úr nokkurri fjarlægð. Vestan hennar eru tóftir fjárhúsa eða sauðakofa. Við þau liggur Hlíðargatan niður að Hlíð. Á leiðinni var komið við í Ána, stórum skúta í Katlahrauni. Hlaðið hefur verið umhverfis opið, en auk þess er hleðsla sunnan við þá hleðslu.
Tækifærið var notað og minjasvæðið við Hlíðarvatn rissað upp.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.