Hlöðversnes og Halldórsstaðir

Halldórsstaðir

Þegar fyrirliggjandi upplýsingar um Halldórsstaði á Vatnsleysuströnd eru skoðaðar kemur ýmislegt, sem ekki hefur verið svo augljóst, í ljós.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – málverk; hangir uppi í Kaplakrika.

Bærinn er á túnakorti frá 1919 sýndur austan við Narfakot. Þar hefur verið steypt fjós og grunnur undir timburhús.

Á málverki eftir teikningu frá því um aldamótin 1900 er bærinn hins vegar sýndur ofan við sjávarkampinn vestan Narfakots. Þar eru miklar tóftir, gerðar úr torfi og grjóti. Norðan við tóftirnar er nýrra sjóhús, hlaðið úr grjóti líkt og sjá má neðan við Þórustaði og Kálfatjörn. Frá horni bæjartóftanna eru leifar stórgripagirðingar er nær að hlöðnum garði Miðhúss.

Björn Eiríksson

Björn Eiríksson, fyrir miðju, ásamt tveimur öðrum við bautastein sem var bak við hús á Reykjavíkurvegi 22 en er nú á Kaplakrika.

Teikningin er í bók Guðmundar Gísla Hagalíns. „Að duga eða drepast„, saga Björns Eiríkssonar, skipstjóra og bifreiðarstjóra, síðar á Sjónarhóli í Hafnarfirði.  Þar lýsir Guðmundur aðstæðum að frásögn Björns og falla þær vel að lýsingum hans af þessum tóftum.
Eiríkur Jónsson fluttist ásamt eiginkonu sinni Sólveigu G. Benjamínsdóttur að Halldórsstöðum árið 1889. Þau bjuggu þar í 18 ár og eignuðust 11. Eiríkur flutti að Sjónarhóli í Hafnarfirði 1907.
Eiríkur drukknaði þann 18. apríl 1922 í fiskiróðri ásamt Jóni Ágústi syni sínum og Ara B. Magnússyni. Meðan hjónin bjuggu að Halldórsstöðum lifðu þau jafnan við rýrarn kost líkt og segir í framangreindri bók Guðmundar Hagalíns er kom út árið 1962.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á Kampinum.

Ekki er ósennilegt að bærinn Hlöðversnes hafi verið þarna á kampinum, hann hafi síðan verið færður ofar í ofanverða túnræktina og nýtt hús byggt, auk þess fjós hafi síðar verið reist við það úr steinsteypu. Bærinn hefur þá fengið nafnið Halldórskot, en síðan verið fært ofar í landið, líkt og fyrirrennarinn.
Bærinn á kampinum hefur verið notaður sem útihús og sjóhús um tíma, áður en þau féllu endanlega. Steinsjóhúsið var reist þar sem áður var hlaðinn hringlaga steinhjallur.

Í skráðum heimildum má lesa eftirfarandi um bæina við Hlöðversnes:

Hlöðversnes (Hlöðunes)

Hlöðversnes

Hlöðversnes – túnakort 1919.

Bæði nöfnin virðast notuð nokkuð jafnt og má sennilega deila um það hvort réttara sé. Hlöðversnes er ritað þannig í kirkjubókum seinni tíma. Nafnorðið Hlöðver er komið allt frá Landnámu og merking orðsins er „sá sem sigrar, vinnu stríð (orrustu)“.
Klemens Kristmannsson bjó árið 1959 á Hlöðversnesi með sambýliskonu sinni, Guðlaugur Sigríði Sveinsdóttur, en síðan lagðist Hlöðversnes í eyði og eru þar rústir einar eftir.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 127. 9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr.), Hlöðunes (20 hdr.), tvenna Ásláksstaði (40 hdr.), Knarrarnes tvö ( 30 hdr.), Breiðagerði fyrir (10 hdr.). DI IV 707-708.

Halldórsstaðir

Gamla Hlöðversnes (Halldórsstaðir)?

1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
1703: Hlöðuneskot eina hjáleigan. JÁM III, 129.
1847: Hjáleigur í byggð eru Narfakot og Hlöðuneskot. JJ, 90. „Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði.“ Ö-Hlöðunes, 3, 5. Klöpp var einnig afbýli sem fór í eyði fyrir aldamótin 1900. GJ: Mannlíf og mannvirki, 253.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á kampinum – sjóhús.

Jörðin einnig nefnd Hlöðversnes. Þar var tvíbýli og seinni bærinn nefndur Hlöðversneskot, Gilsbakki og Vesturkot.
1703: „Túnin brýtur sjór með sandi og grjóti æ meir og meir. Engjar eru öngvar. Úthagar litlir um sumar, nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 129.
1919: Tún 3,6 teigar, garðar 1500m2 samkvæmt túnakorti.
Bæjarhóll Hlöðuness er á náttúrulegri hæð í miðju túni. Jörðin fór í eyði í kringum 1960 og er nú í eigu Nesbús sem rekur eggjabú á jörðinni suðaustan við gamla heimatúnið, fast norðan við Vatnsleysustrandarveg.

Hlöðversnes

Hlöðversnes.

Á bæjarhólnum sjást nokkrir grunnar, m.a. líklega síðasta íbúðarhússins. Engar vísbendingar eru um annað en að bærinn í Hlöðunesi hafi staðið á þessum stað um aldir. Í túninu eru grónar hæðir og suðaustan við bæinn hefur verið tjörn eða mýrlendi en það var þurrt þegar skráningarmaður var á ferð í júní 2012.
Sem fyrr segir er bæjarhóll Hlöðuness á náttúrulegri hæð og er bæjarhóllinn sjálfur ekki afgerandi. Hann virðist vera um 30×25 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Hann er um 1 m á hæð.

Hlöðversnes

Hlöðversnes.

Á bæjarhólnum er hlaðinn grunnur íbúðarhúss og ummerki um tengd hús. Húsgrunnurinn (kjallarinn) A snýr orðvestur-suðaustur. Hann er um 7×5 m að stærð. Op er á honum á miðri suðvesturhlið. Þar eru þrep ofan í kjallarann. Í veggjum er sementslím milli steina og eru þeir múraðir að utan að hluta. Kjallarahleðslurnar standa um 0,6 m upp úr jörðu. Kjallarinn er um 1,2 m á dýpt og sjást 8 umför í hleðslum. Veggir eru 1-1,5 á þykkt. Hlaðinn skorsteinn er í kjallaranum.

Hlöðuneskot

Hlöðuneskot

Hlöðuneskot / Miðhús.

Hjáleiga Hlöðuness 1703 og 1847. JJ, 90. Jarðardýrleiki óviss 1703. JÁM III, 129.
Ekki er vitað hvar Hlöðuneskot var og ekki reyndist því unnt að staðsetja það með innan við 50 m skekkju. Ekki er ósennilegt að þetta býli hafi verið á sama stað og eitthvert þeirra býla sem nú eru þekkt undir öðrum nöfnum s.s. Halldórsstaðir 137:021 eða Miðhús 137:022 en hvorki fundust heimildir né heimildamenn sem gátu varpað ljósi á það.

Miðhús

Hlöðuneskot

Miðhús / Hlöðuneskot.

Miðhús var eignarland með lítilsháttar grasnyt og var í Hlöðversneslandi. Þar bjó m.a. Ólafur Þorleifsson er týndist í Vogaheiði við fjárleitir rétt fyrir jólin árið 1900. Bein hans fundust í gjá í heiðinni um 30 árum síðar.
Miðhús varð eign „Narfakotsbræðra“.

„Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,“ segir í örnefnaskrá. Þar segir einnig: „Miðhús er álitið að sé 10 álnir, að fornu mati úr Hlöðuneshverfi. Lóð sú er býli því fylgir, sem er upphaflega Matjurtagarður og Stakksstæði, er öll afgirt með Grjótgörðum og liggur við sjóinn …“.

Hlöðuneshverfi

Hlöðuneshverfi – mynd í bók Guðmundar Björgvins; Mannlíf og mannvirki í vatnsleysustrandarhreppi.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Miðhús var eignarland með lítilsháttar grasnyt og var í Hlöðversneslandi.“ Miðhús fóru í eyði upp úr aldamótunum 1900 og lagðist býlið undir Narfakot. Minjar um Miðhús eru um 200 m norðan við bæ.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var tún Miðhúsa afmarkað með túngarði B og innan hans voru tvö mannvirki; bæjarhús.
Minjarnar eru í suðausturhorni lítils túns niður við sjó sem afmarkað er með grjótgörðum. Sjórinn hefur mjög gengið á land á þessum stað og brotið af túninu. Meint bæjartóft er á hól í túninu.
Minjar um Miðhús sjást á svæði sem er um 50×30 m að stærð og snýr austur-vestur.

Nýlenda
Nýlenda var í landi Höðversness. Bærinn lagðist í eyði um 1900.

Hlöðversnes

Hlöðversnes á ofanverðu túninu.

„Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Nýlenda var í landi Hlöðversness. … Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur um 1900 og þá lagðist Nýlenda í eyði.“ Ekki fengust neinar upplýsingar um það hvar Nýlenda var og því var ekki unnt að staðsetja býlið.

Holt

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir austan Narfakots.

Holt var í Hlöðversneslandi. Bærinn fóri í eyði skömmu eftir 1900.

Bjarghóll
Bjarghóll í landi Hlöðversness fór í eyði fyrir aldamótin 1900.

„Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,“ segir í örnefnaskrá.

Gerðisviti

Gerðisviti og Gerði.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Jörðin fór í eyði fyrir aldamótin 1900.“ Á túnakorti frá 1919 er staðsetning býlisins Bjarghóls sýnd en þar stendur einnig að öll ummerki um býlið séu horfin. Býlið var um 60 m norðan við Halldórsstaði og um 185 m norðaustan við Hlöðunes. Bjarghóll var á fremur litlum og lágum hól í flatlendu og sléttlendu túnstykki norðaustan við veg heim að Narfakoti. Í norðausturhorni túnsins er allhár hóll sem er að hluta innan túns og að hluta utan þess. Hlaðinn garður er meðfram túni og tengist Narfakotstúngarði.

Hlöðversnes

Tóft í vesturtúni Hlöðversness.

Engar minjar um býlið Bjarghól sjást á vettvangi og hefur það líklega allt verið rifið og sléttað út við túnrækt. Ekkier hægt að útiloka að einhverjar leifar af því leynist enn undir sverði.

Klöpp
Farin í eyði fyrir aldamótin 1900, en var í landi Hlöðversness.

Narfakot
Narfakot var grasbýli. Narfakotsbræður, Sigurður og Páll. Þeir höfðu vitavörslu á Gerðistangavita (Áður atlagerðisviti). Árið 1886 var þar byggð varða og upp úr henni var staur allhár og var olíuljósker halað upp og niður, eftir því hvað við átti. Ljóskersstaurinn var látinn duga þar til viti, sá sem enn stendur, var byggður árið 1918.

Narfakot

Narfakot.

Eftir lát þeirra bræðra lagðist búskapur niður í Narfakoti að mestu um miðja 20. öld.

Hjáleiga Hlöðuness 1847. JJ, 90.
1919: Tún 1,7 teigar, garðar 700 m2 samkvæmt túnakorti.
Gamli bærinn í Narfakoti stóð á sama stað og núverandi íbúðarhús, á fremur lágum hól í miðju Narfakotstúni. Heilsársbúseta er í Narfakoti.
Umhverfis núverandi íbúðarhús eru kálgarðar 004 og 012 til norðvesturs og suðvesturs. Suðaustan við húsið er sléttuð flöt sem er að hluta grasi gróin og að hluta hellulögð.
Engar minjar um gamla bæinn sjást og ekki virðist um uppsöfnun mannvistarlaga að ræða á bæjarstæðinu svo að hægt sé að tala um bæjarhól. Ekki virðist vera kjallari undir íbúðarhúsinu en ætla má að eitthvert rask hafi orðið á bæjarstæðinu við byggingu þess.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Halldórsstaðir voru 1/4 úr Hlöðunestorfunni. Búið var á bænum fram yfir 1960.

„Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, og Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,“ segir í örnefnaskrá. Utan um Halldórsstaðatún er túngarður. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Jörðin var byggð úr 1/4 af torfunni. Búið að slétta allt.“ Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru Halldórsstaðir um 150 m norðaustan við bæ.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Jörðin fór í eyði á síðari hluta 20. aldar. Á túnakortinu eru sýnd 5 útihús, einn brunnur, ein þró og þrír kálgarðar. Fyrir utan bæjarstæðið sáust þrjár tóftir (ein þeirra er ekki sýnd á túnakorti), leifar af brunni og leifar af tveimur kálgörðum. Á túnakorti er afgirt tún NNA við tún Halldórsstaða og stendur þar að það sé útgræðsla og að þar hafi þurrabúðin Bjarghóll staðið en búið sé að slétta úr minjum um það. Ekki er ljóst hvort að útræktin hafi tilheyrt Halldórsstöðum eða Narfakoti á fyrri hluta 20. aldar þegar túnakortið var gert. Í dag (2012) tilheyrir það hins vegar ábúendum í Narfakoti.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Túnið á Halldórsstöðum er nokkuð flatlent nema meðfram austurjaðri þess en þar eru grónar klappir. Vegur heim að Narfakoti liggur austan og norðaustan við túnið og hefur valdið raski á þeim kálgarði sem er næstur bæjarstæðinu.
1919: Tún 1,9 teigar, garðar 1300m2. Hér eru þær minjar sem tilheyra býlinu skráðar saman undir einu númeri en hverju mannvirki gefinn bókstafur til aðgreiningar. Minjasvæðið er um 145×50 m að stærð og snýr norður-suður.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II – Fornleifastofnun Íslands, 2014.
-Guðmundur Gíslason Hagalín. Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðarstjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum, bls. 157-158. Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1962.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – mynd á málverkinu felld í afstöðumynd árið 2024.