Hóp

Í “Íslandssögu handa börnum”, eftir Jónas Jónsson frá árinu 1915, segir m.a. frá hofum og goðum:
Hofin — Svo nefndust guðahús Ásatrúarmanna. Sum voru aðalhof, sem heilar sveitir áttu sókn að; það voru miklar byggingar. Önnur voru heimilishof, er einstakir menn bygðu á bæjum sínum og höfðu til eigin afnota. Þau voru náttúrlega miklu minni en aðalhofin. Venjulega voru hofin bygð úr grjóti og torfi, með torfþaki, en þiljuð að innan eins og góð bæjarhús. Hverju hofi var skift í tvent: aðalhofið og goðastúkuna. Milli þeirra var þykkur veggur úr grjóti og torfi, og engar dyr á. Líklega hefir þéssi skilveggur ekki náð alveg upp að þaki, og mátt sjá yfir hann milli hofhlutanna. (Eyrbyggja 4-6. Fljótsdæla 110-112),
godatoft-321Goðastúkan — Hún var hið allrahelgasta í hofinu, og lítil i samanburði við aðalhofið. Framan við skilvegginn var dálítill stallur; á honum stóðu goðamyndirnar. Í miðju var það goðið, sem mest var virt, og hin út frá til beggja hliða. Á miðju gólfi var stallur, eins og altari, stundum einn stór steinn, en líklega oftar hlaðinn steinstöpull og hella lögð ofan á. Á stallinum lá helgur hringur, sem eiðar voru unnir við. Þann hring mátti goðinn bera á armlegg sér við hátíðleg tækifæri. Ennfremur stóð á stallinum dálítill bolli úr steini eða málmi. Hann hét hlautbolli. Í bollann var látið nokkuð af blóði fórnardýranna, en mestum hluta þess var helt niður utanhofs.
Goðin — Fornmenn gerðu myndir af guðunum, til að geta betur skilið eðli þeirra og átt skifti við þá. Goðamyndirnar voru gerðar úr tré, oftast á stærð við menska menn. Goðin voru klædd í góð föt, og prýdd með ýmsu skrauti úr gulli og silfri. Goðunum var sýnd hin mesta lotning, eins og þau væru sjálfir guðirnir. Enginn mátti ganga um goðastúkuna nema hofpresturinn, goðinn, eða vildarmenn hans, sem hann leyfði að koma þangað með sér. (Vatnsd. 43).
Veislusalurinn – Aðalhofið var veglegt hús, oft stærra en meðalkirkja, Nýlega hefir verið grafið í gamlar hofrústir á Hofstððum við Mývatn. Það hafði verið 36 m. á lengd og um 7 m. á breidd. Hofin þurftu að vera svona stór, af því að sóknarmenn komu þar saman nokkrum sinnum á ári við einskonar guðsþjónustu. Þá sátu gestirnir að veislu í aðalhofinu, eða veislusalnum. Hann var mjög svipaður stofu á höfðinglegu heimili: Útveggir þiljaðir, og stundum tjaldaðir að innan, pallar meðfram veggjunum, öndvegissúlur við sæti goðans, fastir bekkir til beggja handa; borð sett upp á pallskörina og þar framreiddur ágætur veislukostur. Á gólfinu miðju brunnu langeldar.”

Heimild:
-Íslandssaga handa börnum, Jónas Jónsson 1915, bls. 45-46.

Hof

Hof á Kjalarnesi og nágrenni – loftmynd.