Hraunflæði – Daníel Páll Jónasson
Daníel Páll Jónasson skrifaði um „Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða“ í ritgerð sinni við Háskóla Íslands árið 2012. Ritgerðin var hluti af Baccalaureus Scientiarum gráðu í landfræði. Þar skrifar hann m.a. jarðfræði Reykjanesskagans og yfirlit um jarðfræði svæðisins þótt megininntakið felist í titli ritgerðarinnar.
„Vel er hægt að ímynda sér einhvern af forfeðrum Íslendinga, eftir miðja 12. öld, standandi uppi á hæð nærri Hafnarfirði og horfandi hughrifinn á úfið Kapelluhraunið þar sem það skreið í sjó fram hjá Straumsvík. Hefur hann hugsanlega, á svipaðan hátt og Vésteinn Vésteinsson mælti um vatnasvið Dýrafjarðar, muldrað þessi fleygu orð: „Öll hraun renna til Hafnarfjarðar“ enda voru forfeður Íslendinga upp til hópa orðheppnir, að minnsta kosti ef miðað er við Íslendingasögurnar. Sá hefur þó líklega gleymt blekinu og kálfskinninu heima því engin slík fleyg setning hefur varðveist í bókmenntaarfi Íslendinga.
Í staðinn hafa ummerki þessa atburða varðveist og nú byggist stór hluti Vallahverfisins skammt austan þessa úfna hrauns sem í daglegu tali nefnist Kapelluhraun. Örnefnin í vestanverðum Hafnarfirði bera líka enn merki af brennandi áhuga forfeðra Íslendinga af eldsumbrotum en sem dæmi um örnefni sem lýsa vel eldrænu landslagi á svæðisin má nefna „Óbrinnishóla“, Háabruna“, „Hraunhól“ og „Brennu“.
Ef litið er lengra aftur en til þess tíma þegar Kapelluhraun rann, má sjá að hraun hafa runnið alloft um Reykjanes á síðustu öldum og árþúsundum. Eru þessi hraun til marks um að Reykjanesið er virkt svæði þar sem enn má búast við eldsumbrotum.
Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi.
Reykjanes er það svæði þar sem Reykjaneshryggurinn nær yfirborði en fyrir suðvestan skagann er hryggurinn undir sjávarmáli. Jarðfræðileg lega skagans nær frá Reykjanestá í suðvestri og að þrígreiningu plötuskilanna fyrir sunnan Hengilinn en á því svæði mætast Reykjanesgosbeltið, Suðurlandsbrotabeltið og Vesturgosbeltið.
Á skaganum er sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í eldstöðvakerfum sem liggja frá suðvestri til norðausturs. Heildarlengd þessa rekbeltis á skaganum eru um 65 kílómetrar. Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára. Stór hluti yfirborðs Reykjaness er þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum Brunhes. Síðasta jökulskeið, Weichsel, er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið Brunhes, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum.
Sé Ísland skoðað í heild hafa samtals komið upp 369 km3 basalts í 457 hraungosum á nútíma, eða eftir hvarf Ísaldarjökulsins fyrir um 11.000 árum. Eru þessi 457 gos rúmlega 90% þeirra 501 hraungosa sem samtals hafa komið upp á Íslandi á nútíma en 56 þeirra hafa orðið eftir landnám. Komu 111 km3 (30%) upp á síðustu 5.000 árum, eða að meðaltali um 22,2 km3 á hverju árþúsundi, og um 188 km3 fyrir 5.000 til 10.000 árum, eða að meðaltali 37,6 km3 á hverju árþúsundi. Dreifðust rúmmálin nokkuð jafnt á hvort tímabil fyrir sig en þó var mjög lítil eldvirkni á tímabilinu fyrir um 2.000 til 3.000 árum síðan.
Á tímabilinu fyrir 10.000 til 11.000 árum síðan gaus 70 km3 basalts, tvöfalt meira hraunmagn á árþúsundi en árþúsundin á eftir, og hefur basalthraunflæði samkvæmt þessum tölum því að jafnaði minnkað á nútíma á Íslandi.
Talið hefur verið að þetta mikla rúmmál hrauns, sem og annarra gosefna, sé rakið til hraðrar upplyftingar landsins eftir að síðustu ísöld lauk en þá komu upp flestar þær rúmmálsmiklu dyngjur sem til dæmis má sjá á Reykjanesi.
Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi. Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos.
Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi. Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum.“
Sjá meira HÉR.
Í frétt mbl.is árið 2023 er stutt viðtal við Daníel Pál eftir göngu við gosstöðvarnar í Fagradalsfjalli þar sem hann taldi sig hafa funið „minnsta hraun í heimi“:
„Daníel Páll Jónasson landfræðingur fann minnstu hraunbreiðu í heimi við gosstöðvarnar við Litla-Hrút þegar hann gekk umhverfis þær á sunnudag. Daníel, sem vinnur nú að útgáfu bókar um síðustu þrjú eldgos á Reykjanesskaga, var í sinni fertugustu ferð að gosstöðvunum þegar hann kom auga á hraunið litla. Hraunið er norðan við gígana sem gaus úr við Litla-Hrút nú í sumar.
„Ég ákvað að labba hringinn í kringum hraunið og þá tók ég eftir þessari litlu klessu. Ég sá að það voru tvö lítil hraun sem voru ekki tengd við stóra hraunið og svo þessi litla klessa,“ segir Daníel í samtali við mbl.is.
Hann birti mynd af klessunni í Iceland Geologyhópnum á Facebook og stakk upp á því að þetta væri minnsta hraunbreiða í heimi. Fékk hann góðar undirtektir og var húmorinn ekki langt undan hjá öðrum notendum sem spurðu í góðu gamni hvort best væri að fylgja leið A eða B að hrauninu.“
Heimildir:
-Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða, Daníel Páll Jónasson, Háskóli Íslands 2012.
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/08/15/fann_minnsta_hraun_i_heimi/















