Hrauntungustígur – Hrauntunga – Almenningur
Ætlunin var að skoða þann hluta Hrauntungustígsins, sem liggur um trjáræktarsvæði Skógræktar ríkisins við Brunntorfur (Brundtorfur/Brunatorfur) norður undir Almenningi. Þarna ofan við hraunrönd hins mosavaxna Nýjahrauns (Kapelluhrauns), í gróður- og kjarrríkt Hrútargjárdyngjuhraunið, hefur verið plantað miklu magni af greni- og furutrjám.
Birkið hefur náð sér vel á strik í skjóli þeirra og er orðið allhátt. Vaxið hefur upp á örfáum áratugum myndarlegur skógur í bollóttum og hólóttum hlíðunum. Þegar trjánum var plantað á sínum tíma var þess, eins og svo víða annars staðar, ekki gætt að hlífa hinum gömlu götum um hraunlænurnar heldur trjám stungið niður hvar sem skjól var að finna. Ekki er víst að skógræktarfólkið hafi haft auga fyrir götunum eða það metið þær nokkurs. Fólk getur engu að síður blindast af litlum trjáplöntum en stórum. Reyndar ætti að vera í lagi að setja niður skóg í lægðum sem þarna eru, en gæta þarf þess vel að halda honum á takmörkuðum svæðum. Ísland er nú svo fallegt land að það er óþarfi að hindra útsýnið til dýrðarinnar. Svæði þessu var úthlutað til áhugasamra einstaklinga um skógrækt á sínum tíma.
Hrauntungustígurinn liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þar hefur stígurinn vikið á löngum kafla fyrir efnisnámum Skógræktarinnar. Bera þær með sér einstakan vitnisburð hins einsleita gildismats. Fallegt nútímahraunið (rann 1151) fékk að fjúka til að hægt væri að ná inn aurum fyrir nokkrum trjáplöntum. Nú eru þarna stór sár, sem aldrei verða söm sem fyrr.
Úr Hrauntungunum liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum. Þá er farið yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnan er síðan á Hrúthólma og farið um nokkuð slétt helluhraun að Hrútafelli. Þá er stutt yfir á Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.
Það var sem sagt leiðin frá Hrauntungunum og upp á milli Fornasels og Gjásels, að Stóra-Steini, sem ætlunin var að rekja að þessu sinni – í gegnum skógræktina og upp fyrir hana, austur fyrir Hafurbjarnarholt.
Gatan sést vel þar sem hún fer í gegnum Hrauntungurnar og undir girðingu Skógræktarinnar. Príla er á girðingunni skammt norðar. Þarna er mosinn ráðandi og hefur hann náð að afmá götuna á körflum. En ef vörðunum er fylgt af nákvæmni má rekja götuna í gegnum og upp grónar hraunkvosir, undir hraunhólahlíðum og áfram áleiðis upp norðurhlíð Almennings.
Í rauninni er hægt að velja um þrjár leiðir þegar komið er spölkorn upp í skóginn. Hér á eftir verða tvær raktar upp eftir (til suðurs) og ein síðan til baka (til norðurs). Gatnamótin eru þar sem lækkunin er hvað mest í skógræktinni, en erfitt er að kom auga á þau vegna trjánna.
Áður en komið er að Fornaseli greinist fyrsta gatan, sú austasta, í tvennt; annars vegar áfram til suðausturs að Fornaseli, og hins vegar upp nokkuð þægilega gróna lægð norðvestan þess. Ef götunni upp í selið er fylgt kemur hún að við vörðu skammt norðvestan við það. Frá vörðunni sést gróið selið og umhverfi þess mjög vel, einkum selsvarðan austan þess. Áfram liggur gatan síðan til suðausturs og beygir síðan til suðurs austan við kúptlagaðan (ávalan) hraunhól.
Ofan hans eru gatamót þeirrar götu og götunnar, sem greindist af henni neðan Fornasels. Ef henni er fylgt upp eftir kemur hún vestan við þennan ávala hól. Sú leið er greiðfærust og þægilegust allra gatnanna, hvergi klöngu, einungis aflíðandi gangur. Báðar leiðirnar eru varðaðar með litlum vörðum. Á þeim báðum koma fram stærri vörður svolítið utan við þær, en þar er um að ræða landamerkjavörður Þorbjarnarstaða. Línan liggur úr vörður á Hafurbjarnarholti til norðausturs yfir hraunhlíðina. Við leiðirnar má sjá a.m.k. þrjár þeirra. Tvær varðanna eru stærri en gengur og gerist með vörður við Hrauntungustíginn.
Þegar komið er upp fyrir ávala hólinn sameinast göturnar á ný. Þá liggur gatan í krókum upp hlíðina uns hún beygir til vesturs og síaðn aftur til suðurs á hábrúninni. Þaðan sést í vörður við Stóra-Stein og aðra ofar. Gatan liggur síðan með hraunhólnunum upp að Fjallsgrensvörðu þar sem hún beygir til austurs, eins og áður hefur verið lýst (Hrauntungustígur – norðan Sauðabrekkugjár).
Þá var gatan rakin til baka, að gatnamótum þess stígs sem vestast liggur niður í Hrauntungur. Farið var að halla að ljósakiptum. Ljósir sveppirnir urðu skyndilega áberandi í landslaginu. Lyngið og kjarrið runnu saman í eitt.
Gatan liggur til norður vestan við ávala hraunhólinn og er augljós í gróningunum. Vörður eru á stangli. Þegar komið var niður á holtið austan Gjásels fór gatan yfir hina augljósu götu milli seljanna, Gjásels og Fornasels. Nútímamenn hafa gengið til nýrri götu suðvestan skógræktargirðingarinnar, en ef gömlu götunni er fylgt á milli seljanna þarf að fara inn fyrir girðinguna og í lægð á milli hraunhóla. Þaðan liðast hún um hvylftir milli hraunhóla. Litlar vörður eru á þeim. Trén hindra að vísu eðlilega leið, en þó óverulega.
Þegar gatan fyrrnefnda er rakin áfram niður að Hrauntungum þarf að hafa augu vel opin. Á kafla virðast tré hafa vaxið yfir leiðina, en hægt er að feta sig framhjá og meðfram þeim inn á götuna að nýju. Með góðu móti er þannig hægt að rekja hana alla leið niður að fyrstnefndu gatnamótunum þar sem jafnsléttan er hvað mest undir hlíðunum. Í rauninni þyrfti bæði að merkja þau gatnamót sem og þau efri. Fyrir þá sem vilja ganga styttri götu en allan liðlangan Hrauntungustíginn væri kjörið að ganga vestustu götuna upp fyrir ávala hólinn (réttast væri að nefna hann Vegamótahól) og síðan til baka um austustu götuna með viðkomu í Fornaseli. Um er að ræða bæði fallega og fjölbreytilega leið, ca. 1 1/2 – 2 km).
Skógræktarfélag Íslands hefur nú gefið út leiðbeiningar hvernig og hvað skógræktarfólks þurfi að varast þegar fornminjar eru annars vegar. Þar segir m.a.: „Skógrækt í nágrenni fornleifa þarf að skipuleggja þannig að þær spillist ekki. Slikum minjum á að reyna að gera hátt undir höfði á ræktunarsvæðunum, enda eykur vitneskja um þær fjölbreytileika svæðanna. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.
Hér á eftir eru listaðar helstu tegundir fornleifa, sem búast má við að finna á Íslandi en ekki má þó líta á þennan lista sem tæmandi upptalningu allra fornleifa: Búsetuminjar, vinnustaðir, samgöngumannvirki (Gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingarmerki ásamt kennileitum þeirra), varnarmannvirki, áletranir og fleira.
Eftirtalin atriði þarf að varast þegar skógrækt er undirbúin nærri fornleifum:
1. Mikilvægt er skógræktin sé skipulögð þannig að hún falli sem best að slíkum minjum í landinu. Ekki síst á það við um skógarjaðarinn næst minjunum. Einnig fer oft betur að hafa meira en 20 m radíus í kringum minjarnar. Fornminjasvæði auka mjög á útivistargildi viðkomandi skógræktarsvæða og gera þau áhugaverðari.
2. Ekki skal jarðvinna með vélum á svæðum þar sem talið er að fornminjar séu í jörðu.
3. Oft eru fleiri einstakar fornminjar nálægar og mynda heild. Þá skal opið, skóglaust svæði vera nægjanlega stórt umhverfis þær allar.
4. Þess skal gætt að girðingar, vegir og slóðar liggi ekki þvert yfir fornminjarnar.“
Að öllu jöfnu eiga allir að forðast að skemma verðmæti sem fyrir eru s.s. fornminjar og útsýni. Hafa ber í huga að hinar gömlu götur eru fornminjar. Í rauninni er sárgrætilegt að sjá nýlega gróðursettar plöntur í fornum tóftum, t.a.m. seljum – nú þegar skilningurinn ætti að vera miklu mun meiri en raun ber vitni.
Hvað um það – Hrauntungustígurinn er ekki einn. Hann liggur um Almenning á fleiri en einum stað, enda má ætla að kunnugir hafi farið þar sínar eigin götur, allt eftir því á hvaða leið þeir voru og hverra erinda.
Víða eru litlar vörður við hraunker og klofninga. Þær hafa leitarmenn hlaðið til að auðvelda þeim sín verk. Vörður við leiðir hafa ferðamenn hlaðið til að gera þeim kleift að fara auðveldustu, og jafnvel stystu leiðina á langri leið – og svona mætti halda lengi áfram.
Sameiginlegt með þessum leiðum er að þær liggja um tilkomumikið, fjölbreytilegt og gróið hraunsvæði, sem nútímamanninum ætti að vera kærkomið tækifæri til útivistar.
Sjá MYNDIR.
Frábært veður.