Hreindýr

Hreindýr

Eftirfarandi frásögn um hreindýrin er úr Öldinni okkar 1771.
Hreindýr“Dýr, sem Íslendingar hafa ekki fyrr augum litið, komu hingað með Vestmannaeyjaskipi í sumar. Voru það þrettán eða fjórtán hreindýr af Finnmörku, sem send voru Thodal stiftamtmanni, og er til þess ætlast, að hann gangi úr skugga um, hvort þau geti þrifist hérlendis. Mosi sá, sem hreindýr fíkjast mest eftir, var fluttur í pokum til fóðurs handa þeim á sjónum.
Það hefur áður komið til orða að reyna hér hreindýrarækt. Níels Fuhrmann vakti máls á því fyrir hálfri öld, og fyrir tuttugu árum var það ákveðið í konungsgarði fyrir tilmæli Hans sýslumanns Wíum og fleiri fyrirmanna austan lands að flytja hingað hreindýr. Það fórst þó fyrir í það skiptið.

Kúluhattshellir

Hreindýrabein í Kúluhattshelli.

Kaupmaður í Eyjum, Hans Klog, veitti hreindýrunum viðtöku, þegar þau komu til landsins í sumar, og gerði sér vonir um, að þau gætu lifað þar. En hann sá brátt, að þeim hrakaði frekar en þau brögguðust, og þess vegna tók hann það ráð að manna bát og láta flytja sjö þeirra til lands. Fygldi þeim maður, er átti að reka þau til Bessastaða og leita úrskurðar stiftamtmanns um það, hversu með þau skyldi farið. Hugðist kaupmaður með þessu firra sig ámæli.
Báturinn tók land við Landeyjasand, en hreindýrin voru þá orðin svo máttfarin, að sendimaðurinn kom þeim fyrir í vörslu bónda það við sjávarsíðuna, á meðan hann færi sjálfur til Bessastaða og sækti fyrirmæli stiftamtmanns.

Hreindýr

Hreindýr við Miðfell.

Stiftamtmaðurinn hafði ætlast til að hreindýrunum yrði sleppt á fjöll í grennd við Þingvallasveit og falin umsjá presta, er heima eiga í næstu sveitum. Þótti honum því miður, að þau skyldu ekki flutt til Þorlákshafnar.
Úr því sem komið var, fól hann Þorsteini Magnússyni, sýslumanni Rangæinga, að hlutast til um, að þeim yrði vikið til fjalla þar eystra, því ekki þótti viðlits að reka þær vestur yfir stórárnar.”
Síðar, eða árið 1777, voru nokkur hreindýr sett í land á Hvaleyri við Hafnarfjörð (30 dýr) og gengu þau um Reykjanesskagann og Hengil. Dýrin runnu til fjalla og tímguðust vel. Hreindýrin voru hins vegar eftirsótt til matar og endaði með því að síðasta hreindýrið var skotið á Skaganum í byrjun 20. aldar. Enn má sjá hreindýrabein í hellum á Reykjanesi, s.s. svonefndum “Kúluhattshellum” í Heiðinni há, í hraununum ofan við Helgafell og í Húshelli við Hrútargjárdyngju ofan við Hafnarfjörð.

-Öldin okkar 1771.

Hreindýr

Hreindýr.