Hreindýr

Í Náttúrufræðingnum árið 1932 er fjallað um hreindýr á Reykjanesskaganum í þremur greinum. Árni Friðriksson skrifar m.a. eftirfarandi grein um “Hreindýrið”:

Hreindýrið
“Rétt fyrir miðja átjándu öld stungu fimm íslenzkir sýslumenn upp á því við stjórnina dönsku, að láta Hreindýrflytja nokkur hreindýr til Íslands. Tillagan var tekin til greina, og 19. janúar 1751 kom út konungleg skipun um, að hingað skyldu flutt hreindýr, sex að tölu, fjögur kvendýr og tvö karldýr, en ekkert varð úr framkvæmdum að sinni. Árið 1771 lét Todal amtmaður flytja 13 hreindýr frá Finnmörku í Noregi til Íslands. Tíu dóu á leiðinni, en þrjú lifðu, og var þeim sleppt í Rangárvallasýslu. Þau virtust tímgazt fremur vel, og eftir fimm ár voru þau orðin 11 að tölu, svo nú var fengin full sönnun fyrir því, að hreindýr gætu hafzt við á íslandi. Árið 1777 voru því flutt 30 hreindýr frá Finnmörku til Islands, þrjú dóu á leiðinni, en hin komust hingað með heilu og höldnu, og var sleppt við Hafnarfjörð. Árið 1786 var þessi nýi stofn orðinn svo mikill, að talsvert var af hreindýrum um Árnes- og Gullbringusýslu, eftir því sem Olavius segir. Árið 1783 var nokkrum hreindýrum sleppt á Vaðlaheiði við Eyjafjörð, og loks var sleppt 30 í Múlasýslunum árið 1787.
Landnámssaga hreindýranna á íslandi hefir því náð yfir 17 ár, eða frá 1771 til 1787, samtals hafa verið flutt 60—70 hreindýr til landsins, í fjögur skipti, tvisvar til Norðurlands og tvisvar til Suðurlands. Þótt aldrei kæmi til framkvæmda, var rætt um að flytja nokkrar Lappa-fjölskyldur til Íslands, til þess að kenna landsmönnum að temja hreindýr og nota þau sem húsdýr.
HreindýrNú var kominn upp dálítill stofn hreindýra, og því var um að gera að vernda hann, unz hann yrði nægilega stór til þess að gefa arð. Þess vegna var það bannað með lögum (21. júlí 1787) að skjóta hreindýr. Dýrunum fjölgaði nú óðum, og talið var, að stofninn á Vaðlaheiði væri 300—400 stk. um 1790, og stórir flokkar höfðu sézt á fjöllunum í Múlasýslunum um líkt leyti. En ríki hreindýranna á Íslandi átti nú ekki góðum tímum að fagna, því eftir því sem fjöldinn óx, fóru menn að verða hræddir um, að þau myndu eyðileggja beitina, ef ekki væru reistar skorður við frekari þróun. Þetta leiddi til þess, að leyft var með lögum að skjóta allt að því 90 hreindýr samtals, í Múlasýslunum og í Eyjafjarðarsýslu (1790), og seinna var leyft að skjóta hreindýr um allt land, en þó aðeins karldýr. En þrátt fyrir þessar ráðstafanir fjölgaði dýrunum stöðugt; hver kvörtunin kom nú á fætur annarri, og niðurstaðan varð sú, að hreindýrunum var sagt stríð á hendur.
HreindýrÞegar hreindýrin stóðu með sem mestum blóma, sáust oft stórir hópar, einkum í hörðum vetrum, alveg niðri í byggð, bæði í Eyjafjarðarsýslu, Þingeyjarsýslu og Múlasýslunum. 12. marz 1817 komu svo út lög, sem heimiluðu öllum að skjóta hreindýr, nema kálfa á fyrsta ári, og 10. júní 1849 var leyft að skjóta hreindýr á öllum aldri, og fram af þessu eyddist stofninn stórum, og hvarf víða með öllu.
Með lögum var hreindýrið gert að borgara meðal íslenzkra dýra, með lögum var því útrýmt, þangað til stofninn stóð á grafarbakkanum, og með lögum hefir stofninn síðan verið endurreistur, með friðun. Fyrsta sporið í áttina var stigið með lögum frá 17. marz 1882, þar sem bannað var að skjóta hreindýr á tímabilinu frá 1. janúar til 1. ágúst.

Lönguhlíð

Síðan 8. nóvember 1901 hafa þau verið algerlega friðuð, og verða það a. m. k. þangað til 1. jan. 1935. Þó er leyft að veiða þau, með það fyrir augum að temja þau. Um heimkynni og fjölda hreindýranna hér á landi nú vita menn ekki mikið, en þörf væri að kynna sér það nánar. Íslandi er virðing að því að geta talið hreindýrið sem eitt af sínum eigin dýrum, það prýðir þó að minnsta kosti landið, þótt það hafi ekki orðið að miklum notum enn sem komið er. (Í síðasta hefti Náttúrufræðingsins er grein um hreindýrin á Reykjanesskaga eftir G. G. B.).”

Guðmundur. G. Bárðarson skrifaði m.a. eftirfarandi grein:
Hreindýr á Reykjanesskaga
Hreindýr“Það mun hafa verið árið 1771, að hreindýrum var hleypt á land á Reykjanesskaga og sleppt í hraunin fyrir sunnan Hafnarfjörð. Voru hreindýr þessi fengin frá Finnmörku. Hreindýrin munu hafa þrifizt þar vel og talsvert fjölgað. Er þeirra oft getið á skaganum síðan, og hafa stundum veiðst þar til muna. Þorvaldur Thoroddsen hyggur, að þau hafi flest fallið harða veturinn 1880 —1881, en eftir það hafi þeim nokkuð fjölgað aftur. Segir hann, að 1890 hafi sézt 15—20 hreindýr í einum hóp nærri Bláfjöllum. (Lýsing Íslands II, bls. 457—58). Síðar munu eigi hafa komið svo harðir vetur, að hreindýrunum hafi stafað veruleg hætta af. Þó er nú svo komið, að hreindýrin munu vera orðin afar fágæt hér á skaganum, ef ekki alveg horfin. Síðustu sumrin hefi eg farið mjög víða um fjalllendin og hraunin á Reykjanesskaga, gengið upp á flest fjöllin, og notið útsýnis með góðum sjónauka yfir héruðin umhverfis þau; en hvergi hefi eg getað komið auga á hreindýr, og ekki heldur fundið horn eða bein af hreinum.

Skörðin

Ýmsa kunnuga menn, sem fengizt hafa við smalamennsku, hefi eg líka spurt um hreindýrin, og kváðust þeir ekki hafa séð þau síðustu árin.
Guðmundur Jónsson, frá Setbergi í Hafnarfirði, er manna kunnugastur í hraununum og f jöllunum suður og austur frá Kaldárseli. Hann hefir sagt mér, að hann hafi séð 35 hreindýr í hóp uppi á Lönguhlíðarfjöllum fyrir vestan Brennisteinsfjöll. Það var um haustið í réttum, árið 1880. Um aldamótin síðustu sá hann 2 hreindýr seint í maímánuði; var það bæði kýr og tarfur, og fylgdi þeim kálfur. Það var fyrir neðan Skörðin, fyrir vestan Þrívörðuhnúk. Smalahundur HreindýrGuðmundar hljóp á eftir hreinunum, og flýðu dýrin upp brekkuna; varð þar brattur skafl á leið þeirra.
Runnu þau upp skaflinn, en þar varð kálfurinn seinfærari og hrataði niður skaflinn aftur. Sótti þá hundurinn að honum. Snéru þá fullorðnu dýrin í skyndi aftur. Réðist tarfurinn móti hundinum með miklum ofsa og reyndi að stanga hann. En kýrin lagði af stað með kálfinn upp skaflinn á meðan; lét hún hann ganga við hlið sér, brekkumegin, svo að hann hefði stuðning af sér, meðan þau sneiddu fönnina. Loks tókst Guðmundi að aftra hundinum. Tók þá tarfurinn á rás eftir hinum dýrunum. — Guðmundur kveðst sjálfur ekki hafa séð hreindýrin hér á skaganum eftir þetta.
Á árunum 1885—’90 voru tvö hreindýr skotin hjá Sandfelli, fyrir vestan Vífilsfell; hafði veiðimaðurinn hitt þau í Kristjánsdölum og elt þau þvert yfir brunahraunin unz hann náði færi á þeim við Sandfell. Síðla vetrar um 1890 komu 9 hreindýr í hóp, niður undir Smalaskála hjá Kaldárseli. Þá var heldur harður vetur og knappt um haga. Hreinar þessir urðu fyrir styggð af hundum og flýðu norður fyrir Búrfell.
MarardalurÓlafur Þorvaldsson, sem nú er bóndi í Herdísarvík, kveðst hafa séð 4 hreindýr í október 1910. Lágu þau á hæð upp á Lönguhlíðarfjöllum norðaustur af Vörðufelli, er hann sá þau fyrst. Komst hann mjög nærri þeim og gat um stund athugað þau í næði. Loks urðu þau vör við hann og tóku á rás. Hlupu þau stóran hring umhverfis hann og fóru á brokki, en stukku eigi; en við og við stönzuðu þau til að athuga hvað manninum liði. Síðan héldu þau áfram í enn stærri hring, unz þau hurfu austur fyrir Brennisteinsfjöll.
Dr. Bjarni Sæmundsson hefir sagt mér, eitt hreindýr hafi sézt nærri sjó, skammt fyrir vestan Grindavík, að vorlagi um 1877. Þótti það nýlunda, því að þau voru víst mjög fágæt svo utarlega á skaganum.
KaldárselGuðmundur Einarsson, listamaður, frá Miðdal, kveðst hafa séð tvö hreindýr í maí 1918 eða 1919. Voru þau suður hjá Bláfjöllum. Í september 1926 sá hann eitt ungt hreindýr nálægt Lyklafelli. Er það síðasta hreindýr, sem eg veit til að hafi sézt hér nærlendis. Hann kveðst og hafa séð spor eftir hreindýr að vetrarlagi upp á Heiðinni-há, fyrir 3—4 árum síðan.
Þórður Eyjólfsson frá Vindheimum hefir sagt mér að allmikið hafði verið af hreindýrum á austur hluta skagans, einkum kringum Bláfjöll og á Heiðinni-há, þegar hann var drengur, rétt fyrir 1880. Sáu menn stundum 50 dýr saman í hóp. HreindýrVoru þau þá talsvert veidd. Vorið 1908 sá hann 9 í hóp sunnan við Grindaskörð, og á þeim árum kom það fyrir að nokkur hreindýr komu niður að sjó í Selvognum. Var þá fannþungt og hagleysur til fjalla. Meðan hreindýrin voru algengari, var það oft að menn fundu hreinahorn í smalamennskum og fjallleitum þar efra.
Guðmundur Hannesson, sem eitt sinn bjó á Vigdísarvöllum, hafði oft veitt hreindýr hér á f jöllunum. Mér hefir líka verið sagt, að skotmaður nokkur hafi komið að hreindýrahóp í Marardal, vestan vert við Hengilinn. Er dalurinn girtur klettum á allar hliðar, nema einstígi út úr honum að vestan. Maðurinn komst í einstigið og sat fyrir dýrunum. Þau leituðu fast á að komast út, en hann skaut þau niður hvert af öðru. Hann hafði afturhlaðna byssu, og var það mesta þrekraun fyrir hann, að verja dýrunum útgöngu, meðan hann hlóð byssuna.

Hreindýr

Segja sumir, að hann hafi að lokum orðið að gefa upp vörnina, og sleppa miklu af hópnum, en hafði þó fengið góða veiði. Aðrir segja að hann hafi fellt öll dýrin. Eigi hefi eg getað grafið upp hvaða ár þetta var eða hver þessi skotmaður var. Þætti mér vænt um, ef einhver gæti frætt mig um það. Af þessum strjálu upplýsingum má ráða það, að aðalheimkynni hreindýranna hafi verið í f jöllunum á austanverðum Reykjanesskaga. Þó hefi eg heyrt þess getið, að þau hafi stundum sézt á Mosfellsheiði og Strandaheiði. Þau munu hafa verið mjög algeng eftir miðja síðustu öld, fram til 1880, en hafa víst týnt mjög tölunni harða veturinn 1880—’81, eins og Þorv. Thoroddsen skýrir frá. Þau hafa líka verið mikið veidd árin þar á undan. Ef til vill hefir þeim fjölgað nokkuð aftur. En síðustu tvo áratugi hefir þeim farið sí fækkandi og eru nú að mestu eða öllu leyti horfin héðan af skaganum. Ástæðan til þessarar síðustu fækkunar hreinanna hér um slóðir geta margar verið, t. d. aukin veiði, að stofninn hafi verið genginn úr sér og orðinn ver fær til þess að bjarga sér, eða það að þau hafi flutt sig af skaganum lengra til norðausturs upp í hálendið, vegna sí-vaxandi umferðar og ónæðis á hinum fornu stöðvum sínum. 

Hreindýr

Eigum vér að láta hér við sitja og gera eigi neitt til að koma upp hreindýrastofni á Reykjanesskaga aftur? Í Norður-Ameríku hefir Vilhjálmur Stefánsson landkönnunarmaður beitt sér fyrir því, að hin köldu og óræktanlegu haglendi nyrzt í Ameríku, yrðu gerð að arðbæru landi, með því að koma upp hreinahjörðum, er gengu þar sjálfala, en hefðu aðhald af girðingum, svo að smala mætti þeim saman, reka í kvíar, og velja úr hópunum dýr til slátrunar.
— Þetta er þegar að nokkru komið í framkvæmd, og þykir bera ákjósanlegan árangur. Austurfjöllin á Reykjanesskaga virðast ágætiega fallin fyrir hreindýr. Á Lönguhlíðarfjöllum, Heiðinni-há og hálendinu þar í grennd, er gnægð af fléttugróðri (skófir, hreindýramosi o. fl.) og allmikið af öðrum kjarngróðri, sem góður ætti að vera til beitar handa hreindýrum. Nú er komin fjárgirðing úr Selvogi alla leið norðaustur á Hellisheiði. Með lítilli endurbót ætti hún að nægja til að hindra það, að hreindýr af skaganum reikuðu austur. Til viðbótar vantaði girðingu, er stæði fyrir þeim að norðan, svo eigi töpuðust þau þá leið af skaganum. — Ef til vilHreindýrl gætu og hreindýrin þrifist í þrengri girðingum, þar sem hægra væri við þau að ráða, gefa þeim í harðindum og velja úr þeim til slátrunar. Hreindýrahjarðir hér á skaganum ættu að geta veitt nokkurn arð, ef að svo væri frá girðingum gengið að hafa mætti hemil á þeim, og reka þau saman á haustin til að velja úr þeim slátursdýr. Verði byrjað á slíku, væri öruggast að fá nýjan og hraustan stofn frá Finnmörku, ala hann fyrst í girðingu, svo hafa mætti eftirlit með dýrunum fyrstu árin. Hagagirðingin á Straumi fyrir sunnan Hafnarfjörð væri hafandi til slíks. Þar er víðlendi nokkuð mikið innan girðingar, og góður gróður, sem hreindýr mundi geta þrifist á, og girðingin sögð traust. Ef til vill mundi og hagagirðing Hafnarfjarðarkaupstaðar, með lítilli viðbót, geta orðið hentug handa slíkum hreindýrum.”

Guðmundur. G. Bárðarson skrifaði eftirfarandi grein:
Hafnfirðingar á hreinaveiðum
“Síra Ólafur Ólafsson frá Hjarðarholti segir svo frá: „Það var um haustið,, að mig minnir 1867, þegar ég var drengur hjá foreldrum mínum í Hafnarfirði, að menn þaðan fóru í fjárleitir suður í Lönguhlíðar. Sáu menn þá hreindýrahóp í fjöllunum, nálægt Fagradal í Lönguhlíðum. Eftir leitina tóku nokkrir Hafnfirðingar sig saman og fóru á veiðar eftir dýrunum. Voru þeir tvo daga í burtu og komu heim aftur með 35 hreindýr, sem þeir höfðu lagt að velli. Þótti þetta mikil veiði. Gekk tregt að selja svo mikinn feng í Hafnarfirði. Var nokkuð af dýrunum sent til Reykjavíkur og reynt að selja þau þar”.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 2. árg., 1.-2. tbl. 1932, Hreindýr á Reykjanesskaga, Guðmundur. G. Bárðarson, bls. 7-11.
-Náttúrufræðingurinn, 2. árg., 3.-4. tbl. 1932. Hreindýrið, Árni Friðriksson, bls. 33-35.
-Náttúrfræðingurinn. 2. árg., 5.-6. tbl., 1932, Hafnfirðingar á hreinaveiðum, Guðmundur B. Bárðason, bls. 96.

Hreindýr

Hreindýr.