Hreindýr – Sólmundur Einarsson

Hreindýr

Í Dýraverndaranum 1972 er stutt grein eftir Sólmund Einarsson, sjávarlíffræðing, um „Hreindýr„:

Sólmundur Einarsson

Sólmundur Einarsson.

„Hreindýr (Rangifer tarandus L.) eru hjartarættar og þau eru einu hjartardýrin þar sem bæði kynin hafa horn. Hjá báðum kynjum byrja hornin að vaxa á fyrsta lífsári og eru fullvaxin er dýrið nær 15 mánaða aldri. Á öðru ári fella kvendýrin hornin að burði loknum, eða frá miðjum apríl til maíloka. Hinir ungu tarfar fella hornin í febrúar—marz, en hinir eldri eigi fyrr en í nóvember. Annars gerist þetta á hverju ári og er ótrúlegt hve fljótt hornin vaxa.
Hreindýrin eru hópdýr og eru saman í misstórum flokkum eftir árstímum. T.d. leita tarfarnir frá hjörðinni á sumrin en sameinast henni svo aftur á haustin um fengitímann. Þá byrja einnig innbyrðis slagsmál milli tarfanna um kvenhyllina og geta þau oft orðið æði ofsafengin og leitt til dauða beggja, ef þeir festast saman á hornunum, sem á þessum tíma eru stór og alsett greinum. Meðan eldri tarfarnir slást þannig, geta þeir yngri komizt að kvígunum og lagt grundvöll að komandi kynslóð.
HreindýrÚtbreiðsla hreindýranna er oftast bundin heimskautahéruðum, en þó hafa þau frá alda öðli fundizt á Hardangervidda í Suður-Noregi, og þar hafa fundizt merkar leifar steinaldarmanna, sem sýna, að hreindýr hafa verið aðalfæða þeirra og allt þeirra líf hefur raunverulega byggzt á þessari þarfaskepnu. Í því sambandi hafa fundizt víða dýragryfjur, sem dýrin voru rekin niður í og þeim síðan slátrað. Staða þessara gryfja sýnir, að jafnvel á þessum tímum hefur mannskepnan kynnt sér háttu dýranna og hagað veiðum sínum þar eftir. Lappar, sem búa í nyrztu héruðum Noregs, Svíþjóðar, Rússlands og Finnlands, fá allt af þessum dýrum, bæði fæði og skæði, þótt nú á tímum sé hreindýrahald á þessum slóðum meira rekið sem aukaatvinnugrein.

Hreindýr

Hreindýr við Miðfell.

Á þeirri forsendu, að hreindýr gætu orðið okkur Íslendingum að sama gagni, voru þau flutt hingað til lands seint á 18. öld eða 1771. Komu þau hingað frá Söröy í Norður-Noregi og var þeim fyrst sleppt hér sunnanlands og síðan á norðausturlandi. Á Reykjanesi þrifust þau vel og döfnuðu og juku kyn sitt og var aðalheimkynni þeirra Bláfjöll. En saga hreindýranna á Íslandi hefur verið raunasaga frá upphafi og er hún glöggt dæmi um skilningsleysi manna á þessum fallegu dýrum og þeirra háttum. Fór svo að lokum, að þeim var hreinlega útrýmt með gegndarlausri veiði alls staðar nema þar, sem menn komust ekki að þeim, eða uppi á öræfum.

Húshellir

Hleðslur í Húshelli. Skjól hreindýraveiðimanna?

Tóku þá nokkrir hagsýnir menn sig til og fengu þau friðuð, þrátt fyrir mikla andstöðu margra alþingismanna, sem vildu þau feig og álitu þau hinn mesta skaðvald. Var það ekki seinna vænna, þar eð stofninn var í lágmarki, en nú er svo komið, að þeim hefur fjölgað aftur og prýða í æ ríkara mæli okkar áður lífssnauðu öræfi. En alltaf koma upp raddir, sem vilja hreindýrin feig, og sí og æ berast háværar kröfur þeirra bænda af austursvæðinu, sem vilja hreindýrin burt úr landi sínu. Bera þeir það fyrir sig, að þau eyði þarlendum gróðri og keppi við sauðkindina um fæðuöflun. Samkvæmt rannsóknum, sem gerðar hafa verið þess efnis bæði hér og erlendis, t.d. í Noregi, hefur reyndin orðið önnur, og er sú fæðusamkeppni fremur lítil.“

Heimild:
-Dýraverndarinn, 3. tbl. 01.09.1972, Hreindýr – Sólmundur Einarsson, bls. 49-51.

Hreindýr

Hreindýr.