Hrútafellshraun og fleiri hraun á Reykjanesskaga – Haustráðstefna Jarðfræðifélagsins 2010

Hrútafellshraun

Nýlega barst FERLIR eftirfarandi póstur:
„Sæl og blessuð. Datt í hug að senda þessar myndir sem ég tók í síðustu viku þegar ég fór að finna ratleiksmerki 27 við Búðavatnsstæðið.
Á göngu eftir Hrauntungustíg sá ég hvar slétt Hrútagjárdyngjuhraunið var eins og upprétt eða uppsprengt á talsvert löngum kafla. Getur þú útskýrt fyrir mér hvaða fyrirbæri er þetta sem var þarna í gagni á sínum tíma?
Það er alveg meirihátta að sjá hraunið svona. Hef prufað að ganga yfir það og langar ekki að reyna það aftur.
Með bestu kveðju, Guðmundur Gunnarsson.“

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Svar FERLIRs var: Sæll Guðmundur, þetta er bæði sérstakt og merkilegt hraunhaft í Hrútargjárdyngjuhrauninu, sem rann fyrir ca. 7000 árum. Þegar hraun rann síðar til norðurs frá gígum norðan við Hrútafell náði það að lyfta upp hraunhellunni í jöðrum þess þannig að hraunflekar risu upp og mynduðu þessar stórbrotnu hraunmyndanir.
Eldsumbrotaskeiðið, sem stóð í um 450 ár, hófst um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraunið fyrrnefna. Síðastnefnda hraunið rann niður með Hrútagjárdyngjunni, sem fyrr sagði. Um 1151 rann svo Ögmundarhraun (sem heitir ýmsum nöfnum) á þessum kafla, frá Lat í suðri að Helgafelli í norðri. Það hraun setti einnig svip sitt á landslagið, en þó einkum austan Dyngjunar.“

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Guðmundur svaraði: Sæl, Takk kærlega fyrir greinagóða lýsingu á fyrirbærinu. Það hefur myndast gríðarlegur þrýstingur á hraunið þarna svo það brotnaði „mélinu smærra“ ef svo má að orði komast.
Mér finnst allt umhverfi Hrútagjárdyngunnar alveg einstakt og gaman að horfa á gjárnar miklu sem hafa líklega myndast við jarðsig þegar toppur dyngjunnar brotnar niður. Það er einnig gaman að ganga með henni að „utanverðu“ alveg til móts við Fjallið eina og raunar allan norðurkantinn líka.
Þakka fyrir frábæran vef, Ferlir. Hann er gríðarlega mikil þekkingarbanki um eiginlega allan Reykjanesskagann og þar hef ég leitað að upplýsingum um hitt og þetta um langt skeið. Ég byrjaði óvart í ratleiknum árið 2006 þegar ég rakst á merki við Undirhíðarnar og datt þá inn á þinn frábæra vef og hef margoft notað hann síðan mér til fróðleiks og skemmtunar.“

Á Haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010 var m.a. fjallað um Hrútafellshraun, sem hingað til hefur flestum verið hulið:

Landnámslagið

Landnámslagið (Settlement) í sniði.

„Kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hefur leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – jarðfræðikort af Hrútagjárdyngju og nágrenni.

Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja. Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.
Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr. (Karl Grönvold o.fl. 1995), finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess (Magnús Á. Sigurgeirsson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 2000).

Kristnitökuhraun

Jarðfræðikort.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind (Jón Jónsson 1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu síðustu tvö sumur kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld. Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár.

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).

Sogin

Hraun norðan Soga.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.
Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi.

Hvammahraun

Hvammahraun.

Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn. Bergfræðirannsókn hefur ekki farið fram á hraununum, en samkvæmt athugunum Jóns Jónssonar (1978) er Hvammahraun fremur ólivínríkt.
Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum.“

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennsteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Rannsóknir benda til að þar hafi gosið samtímis eða því sem næst. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun. Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun.

Vörðufellsborgir

Vörðufellsborgir.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin. „Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér: „Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3.000-3.500 árum, 1.900-2.400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir Magnús á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hólósen ([nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfunum á 900-1.100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.
Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 kílómetra langar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.
Síðasta eldsumbrotaskeið stóð í um 450 ár. Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun.
Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/Hellnahraun.
Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í óbrennishólmum.

Stampar

Stampar.

Eftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs. Allgóð vitneskja er fyrir hendi um framgang Reykjaneselda 1210-1240. Eldarnir hófust með gosi í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi (skammt norður af Valahnúk). Eftir þetta færist gosvirknin á land og rann þá Yngra-Stampahraun frá 4 kílómetra langri gígaröð, líklega árið 1211. Samkvæmt rituðum heimildum gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó í Reykjaneseldum. Gjóskulög má merkja frá Reykjaneseldum í Þingvallasveit og í Borgarfirði frá um 1226 og á Álftanesi frá um 1231. Um tuttugu árum eftir Yngra-Stampagosið hófst sprungugos í Svartsengiskerfinu og á tímabilinu 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Eftir það lýkur eldunum og hefur ekki orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan – eða í u.þ.b. 800 ár.“
Sjá þó MYNDIR af gosinu í Geldingadölum árið 2021…“.

Heimildir:
-Tölvupóstar.
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010
-Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson Íslenskar Orkurannsóknir, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.

Brennisteinsfjöll

Eldborg í Brennisteinsfjöllum.