Húshólmi
Tiltölulega fáar bæjartóftir hafa verið rannsakaðar á Íslandi og því er erfitt að fullyrða um það hvernig þróun húsagerðar hefur verið. Víst er þó að hún þróaðist frá einföldum húsum til flóknari húsa. Landnámsmenn reistu sér skála með svipuðu lagi og þekktust í Noregi og á Suðureyjum líkt á sjá má á lagi landnámsskálans í Aðalstræti í Reykjavík, sem talinn er að hafi verið reistur um 930. Húsagerðin þróaðist hins vegar öðruvísi hér en annars staðar, einkum vegna byggingarefnisins sem og aðstæðna.
Erfitt hefur verið að halda við einföldum húsum. Við endurnýjun hefur þurft að rífa þau frá grunni og byggja upp á nýtt. Lausnin hefur verið að byggja við þau, flytja í nýbygginguna og endurnýja síðan gamla húsið (skálann). Þannig mynduðust smám saman afhýsi eða hliðarbyggingar út frá upphaflegu byggingunni líkt og sjá má á tóftum Stangar í Þjórsárdal (eyddist í Heklugosi 1104), síðar í Gröf í Öræfum (fór í eyði í gosi úr Öræfajökli 1362) og Fornu-Lá í Eyrarsveit (fór í eyði á tímabilinu 1450-1550). Lokastigið má síðan sjá t.d. á Glaumbæjarbænum, sem er frá fyrri hluta 20. aldar.
Eiríksstaðir í Haukadal er tilgátuhús af elstu gerð húsa hér á landi. Rústirnar í Aðalstræti gefa vel lögun og stærð slíkra húsa til kynna, staðsetningu langelds o.fl. Örfáar skissur eru til í fornum handritum um útlit húsa frá þeirra tíma, s.s. í Skarðsbókarhandritinu. Fljótlega hafa húsin (skálarnir) verið þiljaðir að innan.
Valþjófsstaðahurðin (frá ca. 1200) sýnir útskurð lítillar stafkirkju. Stafverkið þróaðist síðan eins og annað, allt frá því að hornstaurar voru grafnir í jörðu og stafþil milli þeirra og að því að hornstaurar voru lánir standa á grjótundirstöðum.
Síðastnefnda gerðin var notuð allt frá 11. öld og fram að siðaskiptum. Þá tók við svonefnt “bindingsverk”, en á milli þeirra hafði “stokkaverkið” verið notað. Slíkt handbragð má t.d. sjá í bjálkahúsunm. Bindingsverkið var í rauninni grind, sem gerð eftir ákveðnu lagi og klædd, t.d. með torfi og grhóti. Það var allsráðandi eftir siðaskiptin, þótt endurbyggð eldri hús hafi stundum haldið fyrra lagi.

Laufás er ágætt dæmi um þróun húsagerðar frá 16. öld allt til 20. aldar. Fyrst var byggður skáli, síðan nýbygging við stafn. Þá var bætt við húsin eftir þörfum, s.s. skemmu, smiðju og dúnhúsi. Eldri hús voru rifin og ný tóku mið af þágildandi kröfum og aðstæðum. Veðurlag setti mark sitt á húsagerðina.
Árið 1776 kom fram hugmynd frá dönskum arkitekt um íslenskt íbúðarhús, byggt að hætti eyjaskekkja. Það var úr steini og torfi, með torfi á þaki, en arni og hitahólfum inni. Herbergin voru tvö, sitt hvoru megin. Guðlaugur Sveinsson kom fram með hugmynd sína að íslenska burstabænum (1791). Upphitun var ekki í íslenskum bæjum, utan hlóðarhitans. Íslenska tillagan breytti herbergisskipan verulega. Hins vegar voru herbergi næst timburgöflunum lítt nothæf nema að sumarlagi vegna kulda. Glaumbær í Skagafirði er dæmi um stóran burstabæ frá 19. öld og fram á 20 öld.
Gaukstaður í Hróarstungu, byggðir 1900, er annar tveggja kotbæja á Íslandi með fjósbaðstofu. Kýr voru þá hafðar í fjósi undir baðstofunni þar sem fólk hafðist við. Rakinn, lyktin og hávaðinn var þó til vansa. Mun þetta hafa tíðkast á minni bæjum hjá fólki í þokkalegum efnum. Önnur tegund af fjósbaðstofu var til, svonefnd gangfjósbaðstofa. Þá var gangurinn á baðstofuloftinu lægri en pallarnir til hliðar.
Verksummerki á timbri getur gefið til kynna hvernig það var unnið og með hvaða verkfærum. Sagnir voru til hér á landi frá upphafi landnáms, en ekki til stórviðarbrúks. Slíkar sagir komu ekki til sögunnar í Noregi fyrr en á 16. öld. Þangað til var timbur unnið með því að meta hvern stofn, strika hann og afhýða. Loks voru fleygar reknir í jafnþykkan plankann og hann klofinn í þiljur.
Stafkirkjurnar íslensku voru bygðar með þeirri aðferð.
Undir það síðasta vék torfið smám saman fyrir timbrinu, tjörupappanum og bárujárninu. Tjörupappinn kom hingað til lands um 1840 og bárujárnið um 1880. Um þetta leyti varð vakning í að byggja betri híbýli, einkum meðal menntamanna og aðkominna útlendinga. Landsmenn streyttust þó á móti – töldu og vildu viðhalda burstabænum sem megineinkennum íslenskrar húsagerðarlistar. Fyrstu íslensku arkitektarnir (1900-1940), s.s. Rögnvaldur Ólafsson og Guðjón Samúelsson, dreymdi um að finna upp þjóðlegan íslenskan byggingastíl. Slíkan stíl má sjá á Korpúlfsstöðum og á Laugarvatni.
Framhús úr bárujárni voru byggð framan við gömlu torfbæina (1890-1920), en innangengt var úr þeim í gamla hlutann.
Eiríksstaðir í Svartárdal er ágætt dæmi um bæ frá upphafi 20. aldar, byggður upp úr eldri tóftum. Hann er nú að hruni kominn og því kjörið tækifæri fyrir fornleifafræðinga að fylgast með og skrá breytingar á hrunaferli bæjarins þar sem hann er smám saman að verða að rúst.Byggt á kennslustund (HS) í fornleifafræði við HÍ 2006.

Landnámssýning

Landnámssýningin í Aðalstræti – skáli.