Húsin í Reykjavík á 19. öld
Eftirfarandi lýsing á húsum Reykjavíkur birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1949:
„Þegar Reykjavík fekk kaupstaðar-rjettindi, fór fram útmæling á verslunarlóðinni, sem var aðeins „Kvosin“, milli sjávar og tjarnar, milli Grjótahæðarinnar og læksins. Auk þess voru henni lögð tún Hólakots og Melshúsa. En aðrar hjáleigur jarðarinnar Reykjavík: Landakot, Grjóti, Götuhús, Stöðlakot og Skálholtskot urðu utan við í útmælingargerðinni, sem er dagsett 12. febrúar 1787, segir svo um þessa ráðstöfun: — Þessar hjáleigur var ekki talið nauðsynlegt að leggja til kaupstaðarins, því að það sem honum hefur verið lagt virðist kappsamlega nóg. En skyldi svo ólíklega ske einhvern tíma, að Reykjavík þyrfti á meira landrými að halda, þá má bæta við þessum hjáleigum, með leyfi hins hátignar konungsins, sem er eigandi þeirra. —
Fljótlega kom upp óánægja út af því, að þeir, sem áttu heima innan kaupstaðar-lóðarinnar, skyldi ekki hafa neinar nytjar úthaga Víkurjarðar. Varð það til þess að fram fór mat á öllu landi jarðarinnar, og að þvi loknu lagði stiptamtmaður til, að úr því að nokkur hluti af Reykjavík hefði verið út lagður til kaupstaðar, yrði úthagar jarðarinnar að fylgja honum þannig, að íbúar kaupstaðarins hefði sameiginlegan afnotarjett þeirra eftir þörfum á borð við aðra landeigendur. Á þetta felst stjórnin með úrskurði 19. apríl 1788.
Upp úr 1790, þegar innrjettingarnar eru að syngja á sitt síðasta vers, fyrirskipaði Rentukammerið nýja útmælingu. Hún var framkvæmd í maí 1792, og var þá bætt við kaupstaðarlóðina Skálholts og Stöðlakots lóðum.
Með þessu var þá kaupstaðarlóðin endanlega ákveðin, og helst hún þannig óbreytt um heila öld, eða fram til 1892. Þannig var þá afmarkað það svæði, þar sem menn máttu versla. Utan við það mátti engin verslun vera. En þetta var ekki öll Reykjavík. — Eftir sem áður var kölluð Reykjavík öll sú bygð, sem var á landareign jarðanna Víkur, Arnarhóls og Hlíðarhúsa, og þar með talin kirkjujörðin Sel. Nyrst í Kvosinni (við Aðalstræti) voru þá kongsverslunarhúsin, nýlega flutt þangað utan úr Örfirisey. Þau voru öll úr timbri. Syðst við Aðalstræti var kirkjan, og umhverfis hana húsaþyrping innrjettinganna. Af nær 30 húsum og kofum þar voru aðeins sex úr timbri. Hin húsin voru úr torfi og grjóti.
Torfbæir voru á öllum hjáleigunum og eins á Arnarhóli, Hlíðarhúsum og Sel. Þá voru og komnir nokkrir torfbæir tómthúsmanna í Grjótaþorpi, og einn, Þingholt, fyrir ofan læk. ÞESSI var þá stofninn að höfuðborg Íslands: 9 eða 10 timburhús, en allar aðrar byggingar úr torfi og grjóti. Þá voru íbúar Reykjavíkur taldir 167 alls, en í Reykjavíkurkirkjusókn (sem náði einnig yfir Nessókn og Laugarnessókn) voru alls 302 sálir, en íbúar landsins voru þá alls taldir 38.363. Móðuharðindin voru þá nýgengin um garð og árið 1785 höfðu látist 83 í Reykjavíkursókn, 36 í Nessókn og 33 í Laugarnessókn, ..flest úr vesöld, niðurgangi og kreppusótt“ eins og segir í kirkjubókinni. Hjer voru því óglæsilegir tímar er hin nýa borg reis á legg.
Á næstu árum fjölgar þó mjög timburhúsum í kvosinni. Og á næstu áratugum fjölgar einnig mjög þurrabúðar-mönnum. Þeir reistu sjer torfbæi. flestir utan við Kvosina. Tók þá að myndast bygð í Skuggahverfi og Þingholtum og Grjótahverfið að stækka. Reykjavík varð þannig tvöföld í roðinu. Annars vegar voru timburhúsin í Kvosinni, flest eign erlendra kaupsýslumanna, en hins vegar torfbæir Íslendinga. Þegar þessa er gætt má segja að Íslendingar hafi upphaflega bygt höfuðborg sína úr torfi. Og þannig er hún álitum á 50 ára afmæli sinu.
Í Landsbókasafninu er geymt handrit að skrá um torfbæi í Rvík 1830 og bætt við nokkrum, sem bygðust á næstu árum, eða alt fram að 1840. Skrá þessi er samin af Jóni Jónssyni prentari í Stafni. Hefir hann tekið hana saman á gamals aldri (1866) og má því vera að einn og einn bær hafi gleymst, annaðhvort vegna þess. að höfund hafi mint að hann væri rifinn fyrir þennan tíma, eða bygður seinna. En skrá þessi sýnir þó greinilega hvernig Reykjavík hefur verið á svipinn þegar hún hafði náð fimmtugsaldri.
TORFBÆIRNIR í Reykjavík voru yfirleitt ljelegri heldur en sveitarbæir, enda var þeim venjulegast hrófað upp af litlum efnum. Til er lýsing á torfbæunum, er Þorbergur Þórðarson rithöfundur skrifaði eftir frásögn Ólafs Jónssonar fiskimatsmanns, sem fæddur var í Hlíðarhúsum 1856 og segir þar meðal annars svo: — Öll úthverfi Reykjavíkur voru langt fram eftir aldarhelmingnum eintómir torfbæir að heita mátti. Hver bær var tíðast tvö hús, er stóðu hlið við hlið. Annað húsið var til íbúðar, hitt til eldamensku og geymslu. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti, framstafnar sumstaðar úr torfi og grjóti, upp að glugga og þar fyrir ofan gerðir úr timbri, en annars voru þeir allir úr timbri.
Afturstafnar voru ýmist úr torfi og grjóti upp að glugga og efri hlutarnir úr timbri, eða þeir voru úr torfi og grjóti upp úr og þá gluggalqusir. Þá hjetu þeir gaflöð. Framstafnar sneru venjulega til suðurs, stundum til austurs. Sperrur voru að jafnaði krossreistar (mynduðu 90 stiga horn í mæni). Stundum voru þær með kalfa í mæni á sperrunum var skarsúð á íbúðarhúsunum, en refti á eldhúsi og geymslu. Þar ofan á kom torfþekja. Á milli þekjunnar og súðarinnar var hvorki tróð nje hella. Langt fram eftir aldarhelmingnum voru hjer til torfbæir, sem voru með moldargólfi og höfðu refti eitt og torf í stað súðar. Rúmstæðin voru bálkar, hlaðnir úr torfi og grjóti, og þá var dreift heyi undir sængurfötin. — Þrifnaður stóð á þessum tímum í flestum greinum að baki því, sem nú tíðkast, enda voru skilyrði flest til þrifnaðar þá margfalt verri en nú á tímum. Gólf voru venjulega þvegin tvisvar í viku, á miðvikudögum og laugardögum, en aðra daga voru þau oftast sópuð með fuglsvæng. Gólf voru aldrei þvegin úr sápu, heldur aðeins úr vatni og fínum sandi, sem sóttur var niður í fjöru. Eftir þvottinn var stráð á þau hvítum skeljasandi, sem fluttur var í pokum utan úr Örfirisey. Gólfdúkar eða teppi voru þá ekki til. Hvíti skeljasandurinn var því fyrsti vísir til dúka og teppa á gólfum. Honum var einnig stráð í ganga og bæjardyr, þótti það hreinlegra og fallegra.
Sjaldnast voru vanhús við torfbæina. Karlmenn gengu örna sinna út um holt og niður að sjó, en börn og kvenfólk hægði sjer í næturgögn, sem tæmd voru í hlandforir eða á sorphauga, er voru heima við flesta bæi.
Þessu ber saman við lýsingu Mackenzie, sem hjer var á ferðalagi 1810. Hann kom að prestsetrinu Seli. Þar átti þá heima Brynjólfur Sigurðsson dómkirkjuprestur. Segir Mackenzie svo frá: — Presturinn mætti okkur við dyrnar á kofaræfli, og leiddi okkur inn löng, dimm og skítug göng framhjá allskonar drasli, fram hjá manni, sem var að berja harðfisk, og inn í dimt herbergi. Það var svefnherbergi fjölskyldunnar og hið besta á bænum. Þakið var svo lágt, að maður gat varla staðið upprjettur, og þar var tæplega rúm fyrir nokkurn hlut nema húsgögnin, en þau voru: rúm, klukka, lítil kommóða og glerskápur. — Jón Helgason biskup, sem mundi eftir flestum torfbæunum, segir svo á einum stað: —
Fæstir hinnar uppvaxandi kynslóðar vorra tíma gera sjer í hugarlund, hve ljeleg húsakynni voru gömlu reykvísku torfbæirnir í úthverfum bæjarins, eða „kotin“, eins og algengast var að nefna þessa mannabústaði. Torfið á þekjunum reyndist alt annað en góður regnvari, er til lengdar ljet.
Snemma fór vætan að leita á súðina undir torfinu og áður en menn vissu af, var hún orðin svört af sagga undan þekjunni. Og þá leið sjaldnast á löngu áður en lekinn, versti óvinur góðra húsmæðra, færi að gera vart við sig.
Það varð löngum fangaráð húsmæðranna að hengja bjór undir lekann og veita úr honum vatninu þannig, að það færi ekki niður í rúmin. Annars höfðu þessir torfbæir þann stóra kost, að þeir voru hlýir þegar frost og hríðar gengu. Það næðir ekki í gegnum þykka moldarveggi nje þekjur, sem eru máske orðnar alt að þvíhálf alin á þykt vegna þess að altaf var verið að dytta að þeim og bæta torfi ofan á torf. Veðráttan hjer, umhleypingar og votviðri, hamlaði því að þekjur gæti orðið vallgrónar, og þess vegna var lekinn og þess vegna þurfti altaf að vera að bæta nýu torfi utan á hið gamla.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 6. nóv. 1949, bls. 493-495.