Hvaleyrarvatn – hringur

Hvaleyrarvatn

Gönguleiðin um og í kringum Hvaleyrarvatn er tiltölulega greiðfær – þéttur malarstígur alla leiðina. Skjólgott umhverfið tekur mið af árstíðunum og því breytilegt frá einum tíma til annars. Vindstigin og birtan hafa einnig áhrif á ásýndina. Hringurinn er um 2.2. km.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Hvaleyrarvatn, sem er 1-2 m á dýpt um mitt vatnið (fer eftir hvernig stendur á vatnsstöðunni hvert sinn) er í dalkvos sem er umvafin grágrýtishryggjum á þrjá vegu og hrauni að einn.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar.

Vatnshlíð er við norðvestanvert vatnið (þar er t.d. skógrækt Hákons Bjarnasonar), Beitarhúsaháls (m.a. beitarhúsatóft og stekkur frá Ófriðarstöðum) og Húshöfði að norðaustanverðu, en Kjóadalsháls og Selhöfði að austan og sunnan (fjárborg og stekkur efst á höfðanum). Fyrir vestan vatnið er Selhraun, sem er hluti Hellnahraunsins eldra (þar er t.d. stekkur frá Hvaleyrarseli og greni í Selhól). Hraunið rann fyrir um 2000 árum og kom frá gígum við Stóra Bolla (Konungsfell) við Grindarskörð.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Þegar Hellnahraunið lokaði dalnum myndaðist Hvaleyrarvatn í þessari kvos þegar grunn- og regnvatn safnaðist þar fyrir. Litlir vorlækir eru úr nálægum hlíðunum en þar er ekkert afrennsli. Hvaleyrarvatn er fremur snautt þótt þar hefur silungi verið sleppt öðru hvoru sem fólki gefst kostur á að veiða, þ.e. börnum og unglingum sem og öldruðum og öryrkjum, þótt veiðimenn í fullum skrúða sjáist stundum við „æfingar“ þarna, einkum á vorin.

Gangan hefst á bílastæði við vesturenda Hvaleyrarvatns. Við vatnið er þjóðsagnastemning, auk þess sem áþreifanlegrar sögu skógræktar landsins á 20. öld gætir þar árið um kring. 

Hvaleyrarvatn

Hólmarnir í Hvaleyrarvatni.

Tóftir Hvaleyrarsels sjást glögglega sunnan við vatnið. Selstaðan er dæmigerð; þrjár tóftir, auk stekks. Hefðbundið vatnsstæðið er Hvaleyrarvatnið sjálft.
Sagt var að nykur hafi verið í Hvaleyrarvatni annað árið, en hitt árið í Kasthúsatjörn á Álftanesi (sumir segja Urriðakotsvatni).
Sagt er, að einu sinni hafi börn úti á Álftanesi, fjögur að tölu, verið að leika sér við Kasthúsatjörn og hafi þá séð dýr eitt, grátt áð lit, sem þau héldu að væri hestur og lá við tjörnina.

Hvaleyrarvatn

Upplýsingaskilti við Hvaleyrarsel.

Þau settust öll á bak nema eitt barnið; það sagðist ekki nenna á bak. Þegar barnið sagðist ekki nenna á bak, hristi dýrið börnin af sér og stökk út í tjörnina. Þóttust menn af þessu sjá, að þarna hefði nykurinn verið.“
Síðast á að hafa sést til hans frostaveturinn mikla árið 1918.
Sagan segir að eitt sinn voru í Hvaleyrarseli karl og kona og gættu búpenings.- Konan fór sem oftar að sækja vatn, en kom ekki aftur. Seinna fannst lík hennar mikið skaddað rekið upp úr vatninu, og þótti líklegt, að nykurinn hafi drekkt konunni.

Höfðaskógur

Jófríðastaðasel.

Eldri menn höfðu oft heyrt mikinn skruðning og hávaða út í Hvaleyrarvatni, einkum þegar ísa leysti, og þótti líklegt, að það hafi stafað af völdum nykursins.
Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en landið er að mestu í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru fyrrefndar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfða er hins vegar svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði.

Seldalur

Seltóft í Seldal.

Sunnan undir Selhöfða, á gróinni torfu, er tóft, væntanlega heimasel. Selsrústin hefur löngum verið talið beitarhús, en við nánari skoðun virðst hún fremur vera leifar selstöðu, sem fyrr segir. Rýmið er tvískipt; baðstofa og búr, en ekki mótar með góðu móti fyrir eldhúsi og því eru tóftirnar sem slíkar ekki dæmigerðar selsminjar á Reykjanesskaganum. 2)

Á meðal tófta Hvaleyrarsels má skammt austar við Hvaleyrarvatn sjá tóftir selstöðu frá Ási. Selstaðan virðist hafa verið snemmbær í tíma. Hún er líkari takmörkuðu nytjaseli, s.s. kola eða tímabundinni veiðistöð en t.d. fjárseli eða húaseli. 3)

Hvaleyrarvatn

Kvöld við Hvaleyrarvatn.

Gildisskátar Hraunbúa í Hafnarfirði eiga bláþaksmálaðan skála í Skátalundi, í hlíðinni milli Selhöfða og Húshöfða. Skálinn, sem var reistur árið 1967, hefur nýst skátunum vel í gegnum tíðina, en hefur því miður ósjaldan orðið fyrir skemmdarverkum ódælla.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað í ársbyrjum 1947. Staðreyndin var sú að ekki höfðu allir bæjarbúar trú á að skógræktaráhuginn ætti eftir að endast lengi. Það blés ekki byrlega til að byrja með og reyndi verulega á þrautsegju og þolgæði þeirra sem stýrðu málum af hálfu Skógræktarfélagsins. Þar munaði miklu um þekkingu og dugnað frumkvöðlanna sem létu ekki deigan síga þó svo að á móti blési.

Gunnlaugur Kristmundsson

Gunnlaugur Kristmundsson.

Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri átti sæti í stjórn félagsins fyrstu fjögur árin. Hann var kunnur af störfum sínum við uppgræðslu landsins og þekkti betur til en flestir aðrir. Að ráði hans var leitað til bæjaryfirvalda og óskað eftir landi til ræktunar við Hvaleyrarvatn, í svonefndum Vatnsenda neðan við Beitarhúsaháls og Húshöfða. Þegar til átti að taka vorið 1947 var mikil kuldatíð og útlitið við Hvaleyrarvatn alls ekki nógu gott. Gunnlaugur stakk þá upp á því að reynt yrði að fá leyfi til að girða af nokkra hektara nyrst í Gráhelluhrauni, skammt frá Lækjarbotnum. Hann taldi að þar yrði vænlegt að planta út trjám, þrátt fyrir kuldann, og hann hafði rétt fyrir sér.
Árið 1956 gat félagið ráðið til sín sumarstarfsmann á launum. Um sumarið voru sumarmennirnir tveir og veitti ekki af enda ætlunin að hefja girðingavinnu við Hvaleyrarvatn árið eftir. Þegar 32 ha spilda við Hvaleyrarvatn hafði verið girt vorið 1958 hófst gróðursetning með aðstoð félagsmanna Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, sem gróðursettu 7000 plöntur. Almennir félagsmenn gróðursettu annað eins þetta sumar og starfið var blómlegt. 

Hval-5Þegar staldrað er við og svæðið er skoðað meðfram Hvaleyrarvatni má sjá þar nokkra nafngreinda höfða að austanverðu; Húshöfða, Selhöfða, Miðhöfða (Þormóðshöfða) og Efstahöfða (Fremstahöfða), auk Stórhöfða að suðaustanverðu. Auk þess eru þarna tveir hálsar; Kjóadalaháls og annar ónafngreindur í vestur frá Fremstahöfða (Efstahöfða). Alla þessa höfða og hálsa prýða vörður, hér nefndar Höfðavörður, reyndar tvær á Húshöfða er virðast greinast í Húshöfðavörðu (vestar) og Kjóadalsvörðu (austar). Sumar eru landamerkjavörður. Kjóadalsháls er einnig nefndur Langholt. 

Bleiksteinar

Bleiksteinar á Bleiksteinshálsi.

Skoðum fyrst skráðar heimildir um svæðið. Í örnefnalýsingu AG fyrir Ás segir m.a.: „Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.
Sunnan við Vatnshlíðarhnúkinn fyrrnefnda er hlíð með giljum og skógarbörðum, sem hallar niður að Hvaleyrarvatni, og heitir hlíð þessi Vatnshlíð. Að norðan eru merki Jófríðarstaða svo nærri vatninu, að þegar hátt er í vatninu, getur Jófríðarstaðabóndinn vatnað hesti sínum í því.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – skilti.

Norðan við Hvaleyrarvatn, við svonefnda „Sandvík“ er upplýsingaskilti um örnefni í næsta nágrenni. Fólk má þó ekki taka það mjög bókstaflega. Á því er t.d. getið um „Hundraðmannahelli“ í Helgadal, en á auðvitað að vera „Hundraðmetrahellir“.
Um miðjan sjötta áratuginn var Vatnshlíð vart annað en berangurslegir grágrýtismelar með einstaka, ofbeittum rofabörðum, þegar Hákon Bjarnason, skógræktarstjóri, fékk úthlutað gróðursetningarlandi þar árið 1955, sem er rétt um 8 ha að stærð. Hvergi var skjól að finna og í leysingum á vorin beljaði vatn niður hlíðina, og settu djúpar vatnsrásir sterkan svip á landið.
hvaleyrar-21Þegar Hákon sýndi konu sinni, Guðrúnu, landið í fyrsta skipti, féllust henni hendur, leit á mann sinn og spurði: »Hvað ætlar þú að gera hér?«
Landið var girt undir haust 1955, því að allmargt fé væri þá þar í haga. Árið 1968 var girðingin stækkuð til vesturs. Bústaðurinn var reistur sumarið 1958 en stækkaður rúmum áratug síðar. Lítið gróðurhús var reist 1975 norðvestur af bústaðnum og hafa þar einkum verið ræktuð jarðarber þau ár, sem það hefur fengið að standa í friði fyrir skemmdarvörgum.
Hval-21Fyrstu trén voru gróðursett vorið 1956, bæði á hólnum ofan við bústaðinn og austan við hann. Allar götur síðan hefur einhverju verið plantað á hverju ári. Langmest hefur verið gróðursett af sitkagreni, stafafuru, bergfuru og alaskaösp.

Að auki er hér að finna allmargar aðrar tegundir af ýmsum barr- og lauftrjám, svo og nokkrum runnum, og má nefna blágreni, hvítgreni, lindifuru, eini, hegg og blæösp sem fáein dæmi.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn 2023.

Allnokkur efniviður frá Alaska fór forgörðum í bruna 1962, en af plöntum þaðan, sem hér vaxa má nefna elri, laxaber, stikilsberjarunna, eitt rauðblóma rósayrki, sigurskúf og hálmgresistegund.
Vatnsrof eru nú algjörlega liðin tíð eftir að melarnir klæddust gróðri. Þegar elstu trén voru komin nokkuð á legg var kveikt í gróðri á landinu 1962 og má segja, að allt hafi brunnið sem brunnið gat austur að girðingu.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel- tilgáta; ÓSÁ.

Öðru sinni var kveikt í 1972 og brunnu þá allmörg tré austan við bústaðinn.En þrátt fyrir öll vandkvæðin, bæði af náttúrunnar og mannanna völdum, hefur tekist, með góðum ásetningi hlutaðeigandi, að sýna fram á að vel er hægt að græða upp landið okkar. 

Vinalundur

Vixla Vinalunduar í Vatnshlíð.

Þrír grónir hólar er í norðvestanverðu Hvaleyrarvatni, manngerðir árið 2010. Tilgangurinn með þeim var að gera fuglum auðveldara að koma upp vorvarpi. Staðreyndin hefur hins vegar orðið sú, hingað til a.m.k., að ein gæs kom þar upp þremur ungum árið 2015, en þeir urðu fljótlega fæða fyrir mávagerið, sem tekið hefur sér aðstöðu á vatninu (sennilega er um að ræða útstöð þeirra frá nálægum fiskhjöllunum við Krýsuvíkurveg).

Vinalundur nefnist skógræktarreitur í sunnanverðri Vatnshlíð vestan við Vatnshlíðargil og sumarbústað sem Hákon Bjarnason byggði sér. Reiturinn er tileinkaður Cuxhaven, vinabæ Hafnarfjarðar í Þýskalandi og þar hafa erlendir vinir bæjarbúa plantað út trjám í opinberum heimsóknum sínum til bæjarins.

Heimildir:
-Mánudagsblaðið, 13. árg. 1960, 22. tbl. bls. 2.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar. 14. árg. 1955, 2. tbl., bls. 8.
-Örnefnalýsing fyrir Hvaleyri – Ari Gíslason – ÖÍ.
-Gísli Sigurðsson skráð í handriti sínu um “Líf og þjóðhættir í Hafnarfirði frá 14. öld” um nykurinn í Hvaleyrarvatni.
http://www.skoghf.is/greinar/84-minningarskjoeldur-4-brautryejenda-a-grahellufloet.
-Minning: Hákon Bjarnason skógræktarstjóri, fæddur 13. júlí 1907 – dáinn 16. apríl.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.