Hvassahraunssel

Hvassahraunssel

Gengið var upp frá Óttarsstaðafjárborginni að Alfaraleið, henni fylgt til vesturs, að mótum Lónakotsselsstígs (tvær vörður), honum fylgt spölkorn til suðurs uns komið var að gamalli sauðfjárveikigirðingu á landamörkunum, en þegar varðan á Skorás ofan við Lónakotsselið blasti við í suðaustri var stefnan tekin til suðurs á Hvassahraunssel undir Selásnum.

Hvassahraunssel

Selsvarðan ofan við Hvassahraunssel.

Tvær vörður á honum austanverðum gefa selsstöðuna til kynna. Hún er vestan þeirra. Gangan upp í selið tekur u.þ.b. 40 mín.
Fallegar hleðslur eru víða undir sauðfjárveikigirðingunni. Þótt hún sé fallin sjást enn einstaka staurar, auk þess sem landamerkin eru vörðuð svo til á hverjum hraunhól. Birkikjarrið hefur víða tekið vel við sér og óvíða má sjá reyniviðarhríslur skjóta upp kollinum. Nokkur lóuhreiður urðu sýnileg á leiðinni. Væntanlega er stutt í ungana.
Selsstæðið í Hvassahraunsseli er nokkuð stórt og vel gróið. Það er norðvestan undir Selásnum eða Selhæðunum, eins og þær eru stundum nefndar. Tvennar tóftir eru þar með stuttu millibili. Kvíar eru bæði norðan undir hraunhól í vestanverðu seltúninu og austar undir Selásnum. Vörðurnar stóru gefa til kynna brú yfir langa hraunsprungu í ásnum. Um brúna og ofan við hana mótar vel fyrir mikið genginni fjárgötu. Líklega er hér um svonefnda Skógargötu að ræða, en hún stefnir upp í ætluðu vatnsstæði, sem á að vera þarna í jarðfalli skammt austar.
Jón Helgason frá Litlabæ á Vatnsleysuströnd (1895-1986) segir í sendibréfi árið 1984: „Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráskona þegar hún var ung að árum en hún lifði líklega fram á annan tug þessarar aldar“.

Hvassahraunssel

Tóftir í Hvassahraunsseli.

Sé þetta rétt hafa a.m.k. tveir bæir í hreppnum haft í seli vel frá á 19. öld; þ.e. Hvassahraun og Flekkuvík.
Einnig er líklegt að ámóta lengi hafi verið selsbúskapur í Arahnúkaseli og Gjáseli því tóftir þar eru nokkuð núlegar. Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans árið 1856, en þá var allt fé skorið niður á Vatnsleysuströnd.
Hvassahraunsselsstígur liggur frá Hvassahrauni og upp í selið og er nokkuð greinilegur á köflum þó erfitt geti reynst að finna hann næst Reykjanessbrautinni. Selstígurinn liggur áfram langt upp úr austan við Selásana og fellur þar inn í Skógargötuna sem liggur frá Hafnarfirði um Óttarsstaðasel og upp að fjallgarði. Gata þessi ber mismunandi nöfn. Í Hafnarfjarðarlandi heitir hún Rauðamelsstígur eða Óttarsstaðaselsstígur, fyrir ofan Hvassahraun heitir hún Skógargata og þegar ofar kemur heitir hún Mosastígur.
Heimildir um vatnsból við Hvassahraunssel og þá „undir skúta, eiginlega beint austur af selinu, og er erfitt að finna það.“

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – stekkur.

Til baka var gengið til norðausturs inn í gróið hraunið og stefnan síðan tekin til norðurs, áleiðis að upphafsstað.
Hraunið er víða stórbrotið á köflum. Bláklukka og ljónslappi léku sér við fífla og blóðberg í sólskininu. Rjúpan var söm við sig.
Þegar gengið er um hraunið, sem rann úr Hrútargjárdyngju fyrir rúmlega 5000 árum, er óhjákvæmilegt að hugurinn reiki aftur til þess tíma er gangandi fór þar um sinna erinda á fornfálegri skóbúnaði en nú er notaður. Mosinn, grasið og lyngið hefur löngum verið þægilegra ágöngu en hraunið, sem víða hefur rifið illilega í leðrið og sært iljarnar. Eflaust hefur fólk er þarna hefur þurft að eltast við fé eða fiðurfénað, haft með sér varaskóbúnað, því skólaus maður (eða kona) langleiðis uppi í hrauninu hefur væntanlega verið í slæmum málum. Mosinn hefur síður slitið skautauinu, þótt hann hafi verið fótalýjandi, en það sem harðara var undir. Harkan hefur verið slitsamari og ennþá erfiðari í þá daga. Ef óvanur nútímamaðurinn missti frá sér skó á þessu svæði var óvíst hvort hann kæmist aftur til byggða.
Hvassahraunsmenn voru iðnir við rjúnaveiðar fyrrum og eru til sagnir af harðfylgi þeirra í þeim efnum. Fótabúnaður, fé og fingurfimar konur komu þar mjög við sögu.

Heimildir m.a.:
-Örnfefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.