Hveradalir – Gróðrastöð og Baðstofa; Höyer

Hveradalir

Um tíma, á árunum 1927 til 1934, komu Anders Christian Carl Julius Höyer og kona hans, Eriku Höyer, sér fyrir í nýbýli við hverasvæðið í Hveradölum undir vestanverðri Hellisheiði og ræktuðu þar m.a. blóm og aðrar jurtir. Nánast engar leifar eru eftir af býlinu og athafnasvæði þeirra hjóna. Skíðaskálinn í dalnum var síðar byggður þar skammt vestar.

Höyer

Höyershjónin í Hveradölum. Erika Höyer (1900-1982) var húsfreyja í Hveradölum og síðar við Gunnuhver á Reykjanesi. Hún var gift Anders Christian Carl Julius Høyer (1885-1959) og vann ásamt manni sínum að garðyrkju og blómarækt í Hveradölum og síðan að því að herða hveraleir við jarðhita. Endurminningar hennar hafa komið út á íslensku og dönsku.
Erika fæddist í Kúrlandi. Hún flutti á fermingaraldri til Rússlands og að loknu fyrra stríði til Þýskalands. Síðan bjó hún mörg ár sem einyrki á heiðum Íslands. Í seinna stríði urðu Erika og maður hennar innlyksa í Danmörku. Árni Óla þýddi endurminningar hennar á íslensku og komu þær út árið 1942 undir nafninu Anna Iwanowna.

Í Degi árið 1955 mátti lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Ræktaði blóm í Hveradölum – Landnám í Hveradölum og Reykjanesi„:
„Þau byggðu sér bæ við heitar laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bilfarm af fallegum blómum op þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar.“

Í Reykvíkingi árið 1928 segir um „Gróðrastöðina í Hveradölum„:
„Þeir, sem farið hafa um Hellisheiði síðastliðið ár, munu flestir hafa tekið eftir nýbýlinu á heiðinni.
Sú var tíðin að engin bygð var á Hellisheiði, frá því er farið var frá Lækjarbotnum og þar til komið var austur yfir fjall.
Má nærri geta að gangandi mönnum á vetrardag hefur þótt leiðin löng þá. Svo var bygt að Kolviðarhóli, með styrk af opinberu fé. En nú er Kolviðarhóll að verða að sumardvalastað Reykvíkinga, og sennilega verður bráðum reist þar hótel, og allir hafa fyrir löngu gleymt að Kolviðarhóll sé nýbýli.
En svo er þetta nýja nýbýli. Það er í Hveradölum.
Það er Dani einn, Höyer að nafni, er dvalið hefur hér nokkur ár, sem reist hefur þar býli, og mun hann hafa fengið landið að erfðafestu hjá landsstjórninni.
Flutti hann þangað 21. ágúst í fyrra, og hafa þau búið um tvö ein, hann, og kona hans, sem er rússnesk.

Höyer

Höyer undir húsvegg í Hveradölum.

Nýlega var Höyer í kaupstað. Sagði hann að þeim hefði liðið vel þarna í vetur. Hann hefur reist býlið þarna til þess að nota jarðhitann og er búinn að koma sér upp 22 vermireitum. Sagðist hann hafa sáð kartöflum 15. apríl í vor, og að fyrstu hreðkurnar væru að verða fullproska hjá sér.
Hveradalir eru í 300 metra hæð yfir sjávarflöt, og spyr Reykvíkvíkingur Höyer, hvort garðaávextir hans muni ekki, svona hátt yfir sjó, vaxa þeim mun hægar, eftir að hann er búinn að planta peim undir bert loft, sem þeir uxu hraðar meðan þeir voru í vermireitum hans. En hann er ekki hræddur um það. Í haust ætlar hann að byggja gróðrarhús en það er sama — þar sem hverahiti er — og að breyta jafnstóru svæði af landinu í hitabelti, þar sem rækta má suðræn aldini allan ársins hring.

Hveradalir

Hveradalir – bær Höyershjóna.

Gróðrarmoldin er ágæt þarna í Hveradölum, segir Höyer, og það er hægt að nota hveravatnið til annars en að hita vermireiti — það er ágætt í kaffi.
Vonandi verður fólkið í Gróðrarstöðinni í Hveradölum heppið í sumar með garðaávexti sína, því allir nýbýlingar og landnemar þurfa að hafa hepnina með sér.“

Í Litla-Bergþóri árið 2012 er m.a. fjallað um „Hveradala Höyer og konu hans„:
„Aldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk.

Höyer

Anders C. Höyer (1885-1959).

En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.

Hótel ÍslandEftir að Höyershjónin hurfu úr Hveradölum kom Sveinn Steindórsson frá Hveragerði þar upp baðhúsi, eða árið 1938, sem hann rak um skamman tíma, uns hann lést sex árum síðar þegar Hótel Ísland brann til kaldra kola, sbr: „Aðfararnótt 3. febrúar 1944 kom upp eldur í geymslulofti hótelsins sem breiddist hratt út. Hótelið brann til kaldra kola á tveimur tímum og lést ungur maður í brunanum, Sveinn Steindórsson úr Hveragerði“.

Sjá meira um Höyer HÉR.

Heimildir:
-Dagur, 14. tbl. 16.03.1955, Ræktaði blóm í Hveradölum, bls. 5.
-Reykvíkingur, 4. tb. 06.06.1928, Gróðrastöðin í Hveradölum, bls. 127-128.
-Litli-Bergþór, 2. tbl. 01.12.2012, Hveradala Höyer og kona hans, bls. 20-21.
-https://afangar.com/byggdasaga/hotel-island/

Hveradalir

Hveradalir – Bæjarstæði Höyershjóna.