Réttartangi

Eftirfarandi frásögn um drauginn Tanga-Hvíting eða Hvíting má finna í Skruddu.
Draugurinn var Rettartangi-21erlendur að uppruna, gekk með hvíta húfu, en ekki mórauða og var því nefndur Tanga-Hvítingur. Hvítingur var háseti sem rak nakinn við Vogastapa og var grafinn á Kálfatjörn en gekk þegar aftur og sést víða um Vatnsleysuströnd.
“Þegar ég var 24 ára gamall reri ég suður í Höfnum, ásamt sveitunga mínum Þorláki Oddssyni frá Króki á Kjalarnesi.
Daginn fyrir lokadaginn héldum við Þorlákur af stað „suður” gangandi. Við komum við í Keflavík og töfðumst við þar, og það var orðið skuggsýnt þegar við fórum þaðan. Það var slagveðurs rigning, og við vorum orðnir hundrennandi votir þegar við fórum um í Njarðvíkum, en við lögðum nú samt á Vogastapa, því við vorum frískir og ungir, og tveir aðrir vermenn höfðu slegizt í förina með í Keflavík.
Rettartangi-22Fyrir neðan Stapann er tangi, sem heitir Réttartangi, og þar var þá sjóbúð og salthús, sem einhverjir útgerðarmenn syðra höfðu látið byggja í því skyni að sitja fyrir fiskkaupum þar. Við vorum nú farnir að lýjast, og þá segir einhver okkar:
„Eigum við ekki að fá okkur skjól hér í búðinni?” „Hér er nú ekkert skip,” segi ég, en samt gengum við að búðinni, og var járnslá og hengilás fyrir hurðinni. En lásinn var opinn, og því gekk okkur greiðlega að komast inn. Þar voru öll rúm auð og ekkert nema þangrusl í þeim. Sjóbúð þessi var byggð líkt og fjárhús, garði í miðju og rúmin þrísett, sjö rúm við hverja hlið, en sex í miðju og hvert rúm ætlað fyrir fjóra menn. Við lögðumst nú allir fjórir fyrir í sama bælinu og hugðumst hvíla okkur eftir gönguna – en þegar við erum nýlega lagztir út af, þá dynur voða högg á húsinu og annað og þriðja rétt á eftir. 

Rettartangi-23

Ég þaut upp og út í snarhasti, til að sjá hvað um væri að vera, fór í kringum sjóbúðina, en sá engin ummerki og ekkert kvikt þar á ferli. Fór ég því inn og lagðist fyrir á ný. En höggin héldu áfram, og við heyrðum þau allir, og einu sinni þutum við allir út, en enginn okkar varð neins var, því þessi fjandi var ekki einleikinn. Og ekki kom okkur dúr á auga um nóttina. Ekki gátum við fundið aðra skýringu á þessari ókyrrð í sjóbúðinni en að nýlega hafði farizt þaðan bátur með allri áhöfn, sex eða sjö mönnum. Aðeins eitt lík rak af þessum báti, og var það allsnakið, og var jarðað á Kálfatjörn. Ekki lá sá háseti kyrr, því hann sást víða þar á ströndinni og gekk undir nafninu Hvítingur. En ekki sáum við félagar hann í þetta sinn. Þegar birta fór – á fimmta tímanum – héldum við af stað, og höfðum við þá staðið við í fimm stundir og haft lítið næði.”

Heimild:
-Skrudda, sögur, sagnir og kveðskapur, Ragnar Ásgeirsson skráði, gefin út á árunum 1957, 1958 og 1959 af Búnaðarfélagi Íslands.