Í Gálgahrauni – Árni Óla

Gálgaklettar

Maður var hengdur í Gálgaklettum „í Garðahrauni“ árið 1664 skv. heimildum. Sennilega er þetta elsta heimildin um örnefnið „Garðahraun“, sem síðar, þ.e. nyrsti hluti þess, var nefnt „Gálgahraun„. Gefum Árna Óla orðið:

Galgaklettar-141

„Í þessu trjálausa landi var ekki hægt að hengja menn upp hvar sem var. En hér hafði þó náttúran látið hugvitsömum réttvísinnar þjónum annað í té, sem var jafn gagnlegt. Hún hafði gert stóra steindranga með stuttu millibili, eða þá djúpar klettasprungur og gjár, þar sem ekki þurfti annað en leggja ás yfir á milli klettanna og koma þar snörunni fyrir. Eru enn til sagnir um að á sumum stöðum hafi verið svo rúmt á milli klettanna, að marga þjófa mátti festa þar upp í einu. Þegar af tökunni svo var lokið og böðullinn hafði fengið sitt, var líkið eða líkin urðuð, annaðhvort í sömu klettasprungunni, eða rétt þar hjá.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Slíkir aftökustaðir voru mjög víða, og sumir eru enn kendir við þjófa og gálga. Og það bregst varla að hægt er að benda þar á grjóthrúgu, sem á að vera dys sakamanna. Einn þessi hengingarstaður er hér í nánd við Reykjavík og heitir Gálgaklettar. Þeir eru á Álftanesi, sunnan Lambhústjarnar, gegnt Bessastöðum.
Hér eru langir klettaröðlar sprungnir sundur að endlöngu, hér eru háir klettar með sprungum og hellum, og hér eru djúpar hvosir.

Gálgahraun

Gálgahraun – herslugarðar.

Við höfðum haldið að Gálgahraun væri hinn ömurlegasti staður. En það er nú eitthvað annað. Þetta er allra skemmtilegasti staður, þegar maður fer að skoða hann og kynnist honum. Víða er brunagrjót, ómjúkt undir fæti og skófrekt, en yfir það verður að klöngrast til þess að geta skoðað einkennilegustu klettana.
Og hér kemur maður svo í grasi gróna klettasprungu og gengur eftir henni. Allt í Galgaklettar - AOeinu kemur maður að gloppu á þessum gróðurfeldi og sér þá niður í botnlausa gjá undir fótum sér.
Hér eru margir sundur sprungnir klettar, þar sem mjög hentugt hefði verið að koma fyrir gálgatré. En það eru þó ekki hinir réttu Gálgaklettar. Þessir klettar eru of langt inni í hrauninu. Menn voru ekki að leggja á sig það ómak að drasla dauðadæmdum mönnum til aftökustaðar, sem illt var að komast að. Það er því ekki fyrr en við erum staddir beint á móti Bessastöðum, að við komum að Gálgaklettum. Og við sjáum þegar að þeir bera svo af öðrum klettum, að þeir hafa hlotið að vera sjálfkjörnir „til síns brúks“.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Þeir eru hærri en flestir aðrir klettarnir, brattir og sprungnir sundur sitt á hvað, sprungurnar djúpar og beinir klettaveggir sitt hvorum megin við þær. Hér fram undan er líka allvíð klettakvos með sléttum og grónum botni, þar sem margt manna hefir getað staðið til að horfa á. Og rétt fram undan er dálítil vík eða vogur, þar sem hægt hefir verið að lenda báti. Er þangað stuttur sjóvegur frá Bessastöðum yfir Lambhúsatjörn.
Ekki hefir mér auðnast að grafa upp hve margir menn hafa verið hengdir hér. En í annálum er þess getið, að hinn 26. janúar 1664 hafi maður verið hengdur „suður frá Bessastöðum í Garðahrauni“. Hann hét Þórður Þs. (líklega Þórðarson) og honum var gefið að sök að hafa stolið „úr búðum danskra í Hólminum“.

Gálgahraun

Fornar götur um Gálgahraun.

Samkvæmt þessu verður ekki um vilst, að þessi maður hefir látið lífið í Gálgaklettum. Og líklegt er að fleiri hafi verið teknir af þar og að þetta hafi verið opinber aftökustaður, líkt og Sjávarkvíar á Kjalarnesi. Kjósarannáll segir frá því, að 1634 hafi verið hengdur þjófur á Bessastöðum. Skarðsárannáll segir að 1635 hafi 2 menn verið hengdir í Gullbringusýslu fyrir stuld, sinn í hvorn tíma. Setbergsannáll segir að 1702 hafi tveir þjófar verið hengdir í Gullbringusýslu, en í Mælifellsannál segir að það ár hafi þrír þjófar verið hengdir á Suðurnesjum.
Sennilega hafa allir þessir menn verið hengdir í Gálgaklettum, því að þegar þeir voru gripnir, munu þeir hafa verið fluttir í Bramshúsið á Bessastöðum. Þetta var sérstakt hús og fyrsta og eina fangelsi hér á landi þangað til hegningarhúsið á Arnarhóli var byggt. Alþýða kallaði þetta hús „Þjófakistu“ og er það kunnast undir því nafni.
Galgaklettar-140Í klettaskoru austan í Gálgaklettum er grjóthröngl allmikið og var talið að þetta væri dys, þar sem sakamennirnir hefði verið urðaðir. Hafa gengið sagnir um að þar hafi sézt mannabein. Auðséð er, að einhver hefir ætlað að rannsaka þessa dys, því að nokkuð af grjótinu hefir verið rifið upp, en ekki sjást þar nú nein bein, nema eitt rif úr hrossi, hvernig svo sem á því stendur að það er þangað komið. En þarna hefir verið djúp glufa út undir bergið og má vera að þar sé eitthvað af mannabeinum og þá djúpt á þeim. Við skulum ekkert forvitnast um það. Ef þetta er dys sakamannanna, eins eða fleiri, þá hafa þeir nú legið þarna í 250—318 ár og það er bezt að lofa þeim að vera þarna í friði.“

Heimild:
-Í Gálgahrauni – Árni Óla – Lesbók Morgunblaðsins 24. ágúst 1952, bls. 405-409.

Gálgahraun

Gálgahraun og Garðahraun – minjar.