Illaklif – Guðnahellir
Árið 1677 segir í Hestaannál frá ókyrrleika af stuldi og ráni víða um land. „Urðu menn þá varir og vísir, að þjófar lágu á fjöllum uppi, og drápu naut og sauði sér til matar.“ Talið er að útilegumenn hafi m.a. hafst við í helli í Illaklifi á Mosfellsheiði. Hellir þessi hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni (f: 1971) refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga laust eftir miðja 19. öld. Það var laugardaginn, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Brast á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt. Fimm vermannanna urðu úti við hól [hér eftir nefndur Vermannahóll] við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. Rennur lækur þar niður að vatninu, sem sjaldan frýs.
Ætlunin var að skoða hólssvæðið og leita uppi útilegumannahellinn fyrrnefnda. Þá var og ætlunin að skoða Lómatjörn og Mosfellssel austan við Illaklif. Lagt var upp frá Svanastöðum (Leirvogsvatni) við norðurenda Leirvogsvatns og gengið til suðvesturs vestan vatnsins, áleiðis að Illaklifi.
Við norðanvert Leirvogsvatn eru búsetuleifar; grunnur undan húsi, tún og rafstöðvarrenna. Svanastaðir, en svo mun hafa verið nafnið á býlinu (síðar Leirvogsvatn), urðu nýbýli 1930.
Á 3. áratugi síðustu aldar knúðu bændur í Mosfellshreppi á um að sveitarfélagið eignaðist Mosfellsheiðarlandið. Var hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir hreppsfélagið. Lagafrumvarp til sölu á Mosfellsheiði var lagt fyrir alþingi árið 1927 og var málið leitt til lykta árið 1933. Samkvæmt afsalinu var undanskilið: a) svonefnt Bringnaland. Þar var stofnað nýbýli úr landi Mosfells um miðja 19. öld en jörðin fór í eyði um 1970. b) veiðiréttindi í Leirvogsvatni. c) nýbýlið Svanastaðir við Leirvogsvatn. d) svonefnt Jónselssland ofan við Mosfellsdal. Um það leyti, sem heiðin var seld, var stofnað nýbýli á þessum slóðum og nefnt Seljabrekka.
Dómsmálaráðuneytið skrifaði Mosfellspresti bréf 7. mars 1930 þar sem óskað var umsagnar um leigu til Valgerðar Gísladóttur á landi á Mosfellsheiði til nýbýlisstofnunnar. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið leigði Valgerði Gísladóttur og afkomendum hennar, 5. júní 1930, landspildu til nýbýlisstofnunar úr kirkjujörðinni Mosfelli í Mosfellssveit með 50 ára ábúð. Í júlí 1935 fór Valgerður Gísladóttir fram á að leigja syni sínum býlið. Lýsti ráðuneytið yfir í bréfi 12. júlí 1935 að það yrði látið óátalið og vísaði til leigusamningsins 5. júlí 1930. Landbúnaðarráðherra, f.h. ríkissjóðs, afsalaði Mosfellshreppi kirkjujörðinni Svanastöðum 19. febrúar 1945, samkvæmt heimild í lögum nr. 53/1927 um sölu á nokkrum hluta úr kirkjueigninni Mosfellsheiðarlandi, með þeirri kvöð að ekki væri heimilt að selja hið keypta land aftur, hvorki í heild sinni eða hluta af því.
Þegar komið var upp í Illaklif var gengið eftir því frá austri til vesturs. Vörður eru á því með jöfnu millibili, líklega til að marka brún klifsins fyrir ferðamenn á leið um heiðina því veggurinn norðanverður sést ekki ofan af leiðinni. Öruggara hefur þótt að varða þessa leið, einkum fyrir þá er fóru þar um að vetrarlagi.
Hóllinn fyrrnefndi er austast í Illaklifi. Á honum hafa verið settir steinar ofan á steina á nokkrum stöðum. Bautarsteinn stendur efst á hólnum. Þeir hafa reyndar verið tveir og er hinn fallinn á hliðina. Verðugt væri að merkja hólinn til minningar um þá sem þar urðu út árið 1857.
Þarna gerðist mikil harmsaga. „Það var laugardagur, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Veður var blítt um morguninn, frostlaust, en þung færð vegna snjóa.
Þegar þeir fóru frá Kárastöðum var slíkt þíðviðri að vatn draup af upsum, en þegar komið var vestur í Vilborgarkeldu brast skyndilega á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt.
Vermennirnir kusu samt að freista þess að halda áfram í þeirri von að finna sæluhúsið vestan við Þrívörður eða ná til bæja í Mosfellsdal. Sæluhúsið fundu þeir ekki og héldu áfram meðan þróttur vannst, þó klæði þeirra, blaut eftir þíðviðrið og ösl í ófærðinni, frysi í stokk. Mennirnir voru flestir orðnir örmagna alllöngu fyrir dagsetur og grófu sig því fönn undir Illaklifi ofan við Leirvogsvatn, nema tveir sem gátu haldið sér uppréttum og vakandi alla næstu nótt. Hinir sofnuðu og féllu í ómegin, fennti í kaf og frusu fastir við snjóinn. Er leið að morgni tókst hinum vakandi að vekja félaga sína, sem enn voru lífs, og rífa þá upp úr snjónum. Voru 12 á lífi er dagaði. Þá herti veðrið enn og létust nú þrír í viðbót í höndum félags inna. Hinir brutust af stað og náðu fimm þeirra til bæjar í Bringum um miðjan morgun. Voru þeir svo þrekaðir að þeir gáðu ekki í fyrst að segja til þeirra sem ókomnir voru eða lágu dauðir uppi á heiðinni. En jafnskjótt og húsráðanda á Bringum varð ljóst hvað hafði gerst, sendi hann eftir hjálp á næstu bæi, en fór sjálfur að leita þeirra sem enn kynnu að vera á lífi. Fann hann tvo þeirra villta er drógu eða hálfbáru tvo örmagna félaga sína með sér. Annar þeirra dó þó í höndum þeirra. Fórust þannig sex af þeim fjórtán, sem lagt höfðu upp í byrjun og þeir sem af komust voru flestir kalnir til stórskemmda og urðu örkulma lengi, sumir ævilangt. Hinir látnu fundust daginn eftir og voru jarðsettir að Mosfelli.“
Eftirfarandi frásögn af atburðinum birtist í Óðni árið 1911: „
Mannskaðinn á Mosfellsheiði veturinn 1857: – Nú eru að eins tveir eftir á lífi þeirra 14 manna, sem úti lágu á Mosfellsheiði hina voðalegu hríðarnótt milli þess 7. og 8. mars veturinn 1857.
Eru það þeir Guðmundur Pálsson á Hjálmsstöðum og Pjetur Einarsson frá Felli. Flytur nú »Óðinn« hjer skýra og greinilegri frásögn atburðarins eftir Guðmundi á Hjálmsstöðum. Mun sú frásögn vera rjett og hlutdrægnislaust sögð, því Guðmundur er maður stálminnugur og óljúgfróður.
Frásögn hans er á þessa leið: »Að morgni hins 6. mars veturinn 1857 lögðum við af stað til sjóróðra átta menn saman úr Laugardalnum. Var þá snjódrífa og lausamjöll mikil, en þó frostlítið. Við hjeldum sem leið liggur út Lyngdalsheiði.
Þegar við komum út í svo nefnt Barnaskarð, komu til samfylgdar við okkur sex menn úr Biskupstungum, sem einnig voru á leið til sjávar. Talaðist þá svo til milli okkar, að við yrðum allir samferða, úr því við á annað borð áttum allir samleið. Þess skal getið, að í öllum þessum hóp voru að eins menn á besta aldri, flestir á þrítugsaldrinum, að eins einn fyrir innan tvítugt, og flestir voru mennirnir duglegir og vel frískir. Þennan dag höfðum við upphaflega ætlað okkur að komast að Kárastöðum og Heiðarbæ (ystu bæjum í Þingvallasveit). En vegna ófærðar og dimmveðurs komumst við ekki nema að Vatnskoti og Þingvöllum, og náðum við ekki þangað fyr en um háttatíma. Skiftum við okkur svo niður á þessa tvo bæi til gistingar. Á báðum þessum bæjum var okkur tekið eftir föngum, þurkuð af okkur vosklæði eins og hægt var og eftir föngum einnig veittur beini. Út af gistingu okkar á þessum bæjum spunnust ýmsar sögur, ýktar og ósannar, t. d. það, að ekkert hefði verið hirt um sokka okkar og við hefðum farið í þá jafnblauta að morgni eins og við hefðum skilið þá við okkur kvöldið áður. En þrátt fyrir góðan vilja fólksins, sem við gistum hjá, voru föt okkar stamdeig, og við alt annað en vel við því búnir, að taka móti þeim ósköpum, er við áttum fyrir höndum.
Morguninn 7. mars lögðum við snemma upp frá Þingvöllum. Var veður þá allgott, ljettur á vestur- og útsuður-loftið, en þykkur og dimmur í austrið. Frost var ekki mikið þá um morguninn, en snjór var mikill á jörðu, svo að ófærð var fyllilega í hné; sóttist ferðin þar af leiðandi afar seint. Þegar við komum út í svonefnda Vilborgarkeldu, fór að byrja að hvessa, og herti þá jafnframt mjög frostið, svo fötin stokkgödduðu á okkur og áttum við því enn erfiðara með að komast áfram. Á svonefndum Moldbrekkum, næstum því á miðri Mosfellsheiði, var sæluhúskofanefna, og töluðum við þegar um, er veðrið versnaði, að reyna að finna kofann og láta þar fyrir berast. Þegar við hugðum okkur komna svo langt, dreifðum við okkur til að leita kofans, en gátum með engu móti fundið hann, enda var þá komin blindhríð með feikna frosti og fannburði af hánorðri. Var þá eina lífsvonin úr því sem komið var, að reyna að ná til bæjar í Bringunum,
en þangað var enn löng leið fyrir höndum. Hjeldum við svo áfram skáhalt við veðrið og höfðum nóg með að halda hópinn og tvístrast ekki hver frá öðrum. Í kring um sólarlagið fórum við að halda kyrru fyrir, því flestir voru þá orðnir aðframkomnir af þreytu. Klakahúð var komin fyrir andlit okkar svo augnanna naut ekki heldur við, og föt okkar einnig orðin slálfreðin. Ekki var neitt glæsilegt að hugsa til þess, að láta fyrir berast þarna um nóttina, ekkert afdrep, alt sljett af jökli, og það feikna-veður að ekki var stætt. Við fórum að pjakka með stöfunum niður í snjóinn til að reyna að fá eitthvert skýli, sem við gætum sest í; fyltist það jafnharðan af snjó; urðum við þó fegnir að fleygja okkur þar niður, því þreyta og kuldi gengu mjög nærri okkur. Eftir þetta kom nú dimman og hafði þá hver lítið af öðrum að segja, og mátti svo kalla, að hver einn berðist við dauðann. Jeg get ekki greinilega sagt frá öðrum en sjálfum mjer þessa nótt; átti jeg, eins og flestir hinna, nóg með sjálfan mig og var lítt fær um að rjetta öðrum hjálparhönd. Jeg lá lítið niðri, gerði allar tilraunir til að halda á mjer hita; jeg lagðist á bakið og barði saman fótunum, og hafði yfir höfuð þá hreyfingu, sem jeg frekast gat.
Litlu eftir dagsetur andaðist drengur 17 ára, Þorsteinn Guðmundsson frá Kjarvalsstöðum, og heyrði jeg til hans hljóð eða andvarp um leið og hann skildi við. Nálægt miðri nóttu heyrði jeg angistaróp til eins; fór jeg að huga frekar að því; var það Egill Jónsson mágur minn, frá Hjálmsstöðum, og var hann fastur í fönninni, berhöfðaður, og berhentur á annari hendinni; hafði hann þá mist höfuðfatið og annan vetlinginn. Eftir mikla erfiðismuni náði jeg honum á fætur og batt tveimur vasaklútum um höfuð hans, en hendinni fór jeg að reyna að koma í buxnavasann; var hún þá stálgödduð og ósveigjanleg og sagðist hann ekkert finna til hennar. Jeg gat ekki yfirgefið Egil svo á sig kominn, enda gat hann furðanlega staðið uppi með því að hafa stuðning af mjer. Nokkru síðar heyrði jeg hrópað nálægt mjer, og fór jeg að gæta að því. Var það Þiðrik Þórðarson frá Útey; var hann einnig fastur í fönninni og sagðist hafa ákafan brjóstkrampa, sem hann áður átti vanda til að fá. Að lokum tókst mjer að ná honum á fætur, og studdi jeg þá svo báða, Egil og Þiðrik, lengi næturinnar. Eftir að jeg hætti að hafa sjálfráðar hreyfingar, fann jeg að mig kól ákaft bæði á höndum og fótum. Fram undir dögun vissi jeg ekkert hvað hinum leið. Þeir voru vitanlega að hjálpa, sem eitthvað gátu, hinum, sem litla eða enga björg gátu veitt sjer. Undir dögunina slotaði veðrinu lítið eitt. Sást þá að eins rofa fyrir tungli, og komust þá allir á fætur, hver með annars hjálp, og voru þá allir lifandi nema áður nefndur drengur; töluðum við þá saman og mælti enginn æðru orð. Þegar var hálfbjart orðið af degi, rauk hann aftur upp með þeim feikna-ofsa, að langt keyrði úr hófi fram yfir það, sem á undan var gengið. Fanst okkur þá sem við stæðum alveg berir fyrir heljarfrostinu og hrökluðumst af stað undan veðrinu; voru þá nokkrir, sem ekkert gátu komist, þar á meðal þeir Egill og Þiðrik, og skildist jeg þar við þá. Þessi hrina stóð á að giska eina klukkustund og er jeg þess alveg viss, að ef hún hefði staðið yfir aðra klukkustundina til, þá hefði enginn okkar komist lífs af. Veðrið dró niður um það leyti að albjart var orðið, og var þó enn hároksbylur. Sáum við þá höggva fyrir topnum á Grímmansfelli. Vorum við þá rjett fyrir neðan Leirvogsvatn, heldur nær Stardal en Bringunum, og höfðum við því lítið sem ekkert vilst.
Nálægt kl. 9 um morguninn komum við fjórir eða fimm niður að Bringunum (efsta bæ í Mosfellssveit); hinir þrír eða fjórir komu nokkuð seinna, höfðu þeir tafist eitthvað lengur við að hjálpa þeim, sem ósjálfbjarga voru. Þá bjó í Bringunum fátækur maður, Jóhannes Lund; voru þar lítilfjörleg húsakynni og knapt um bjargræði og eldivið. Var okkur þó veitt þar hin besta aðhjúkrun, sem hægt var. Fengum við þegar kaffi og nýmjólk, en fórum síðan niður í vatnsílát með hendur og fætur, og vorum þannig niðri í því fram eftir deginum, og var það óskemtilegur dagur.
Jóhannes bóndi í Bringunum fór þegar til næstu bæja og fjekk menn með sjer til að leita þeirra 6, sem vantaði. Er þeir komu upp í heiðina, þar sem við vísuðum þeim til, fundu þeir þá þegar; voru þeir allir dauðir, aðeins lífsmark með einum; var hann fluttur að Stardal og dó að vörmu spori. Lík hinna voru flutt að Mosfelli. Voru þau lögð í snjó og vakað yfir þeim nokkur dægur og voru engin lífsmörk sjáanleg. Hinir átta, sem eftir lifðu, voru allflestir mikið kalnir. Einn var þó mjög lítið eða ekkert skemdur, Sveinn heitinn á Vífilsstöðum. Vorum við svo fluttir til Reykjavíkur og gátum aðeins riðið í söðlum. Þar lá jeg rúmfastur í 18 vikur, misti allar tær af báðum fótum og kól einnig mikið á úlnliðum og höndum«. – 15/11 1910. M. G.“
Mennirnir fimm urðu úti við hól við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. Rennur lækur þar niður að vatninu, sem sjaldan frýs. Fylgdi frásögn eftirlifanda að óneining hefði komið upp í hópnum hvert halda skyldi. Sá sem hraustastur var, þekkti vel til og best slapp úr hrakningunum iðraðist þess jafnan að hafa ekki yfirgefið hópinn strax up kvöldið og reynt að brjótast til bæja eftir hjálp. Þessi atburður sýnir vel hversu alvarlegar afleiðingar vondur útbúnaður og fáfræði á ferðalögum gat haft í för með sér þegar í harðbakkan slær. En hann getur líka verið þörf áminning um að ferðalög, um ekki lengri veg, geta verið varasöm ef ekki er allrar varúðar gætt og ferðabúnaður í góðu lagi. Auk þess má vel læra af honum þá lexíu að þegar allir vilja ráða för getur villan orðið þess meiri. Nauðsynlegt er að að láta þann ráða, sem mesta reynslu og besta þekkingu hefur á staðháttum.
Mennirnir, sem létust, eru grafnir í einni röð í ómerktum gröfum undir kirkjuveggnum í Mosfellskirkju.“
Þegar komið var að hólnum settist hundur, sem var með í för, niður og neitaði að fara lengra. Lagðist hann síðan niður og dinglaði skotinu, en hreyfði sig ekki meðan aðrir ferðalangar skoðuðu hólinn.
Í Sögu Mosfellsbæjar er m.a. fjallað um útilegumenn í Mosfellssveit. Þar segir m.a. frá Guðnahelli í Illaklifi.
„Þess voru dæmi að fólk yfirgaf mannlegt samfélag og varð útilegumenn sem héldu sig gjarnan nærri mannbyggð. Árið 1677 segir í Hestaannál frá ókyrrleika af stuldi og ráni víða um land. „Urðu menn þá varir og vísir, að þjófar lágu á fjöllum uppi, og drápu naut og sauði sér til matar.“ Ári síðar fundust Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir „við helli í Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit og lifðu við kvikfjárstuld, “ segir í Setbergsannál.
Í Alþingisbókum segir að þau hafi fundist í einum helli suður undir Örfiriseyjarseli í Kjalarnesþingi og tekin þar með þýfi af nautakjöti og öðrum hlutum. Ekki er vitað hvar bólstaður þeirra var nákvæmlega en lítið er um hella í Mosfellsheiði sem nýta mátti sem mannabústaði. Helst hafa menn getið sér þess til að útlagaranir hafi búið í hellisskúta undir Illaklifi sunnan við Leirvogsvatn. Hellirinn er um sjö metrar að lengd, fimm á breidd og lofthæð er víða um tveir metrar. Hann hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Þegar komið var að hellinum þessu sinni var hann pakkaður snjó svo ekki reyndist unt að komast inn í hann. Ný hnit voru tekin á hellinn því skv. eldri hnitum skeikaði um 300 metrum á réttri staðsetningu.
Á bakaleiðinni var komið við í Mosfellsseli sunnan við Leirvogsvatn. Seltóftirnar voru á kafi í snjó, en þó stóð hluti stekkjarins upp úr snjónum. Hvít tófa skaust hjá.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild m.a.:
-Óðinn, 6. árg. 1910-1911, 9. tbl. bls. 69-71.