Bær
Þegar landnámsmenn á Íslandi byggðu sín langhús úr torfi og grjóti voru svonefnd stokkhús og bindingsverkshús óðum að ryðja sér til rúms í Scandinavíu, en á Skotlandseyjum færðust hlaðin hús úr steini í vöxt. Þannig áttu Íslendingar eftir að skapa sér sína eigin húsagerð, torfbæinn, sem í raun átti sér ekki sinn líka í nágrannalöndunum en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld.

Bær

Torfbær.

Elsta gerð híbýla hér á landi eru langhúsin, sem hafði einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús.
Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Einkenni gangabæja voru göngin sem lágu frá bæjardyrunum, venjulega á miðjum langvegg og gegnum húsin og voru göngin nokkurs konar aðalgangvegur. Gangabæir héldust að mestu óbreyttir til um 1900. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaði.
Torfbæirnir voru misjafnlega stórir en eins og nú fór stærð bæjanna eftir efnahag íbúanna. Þannig var torfbærinn að Skálholti í Biskupstungum um 1271 m² árið 1784.

Torfbær

Torfbær – bæjargöng.

Árið 1920 var um helmingur allra húsa á Íslandi úr torfi og grjóti. Síðan eru einungis liðin 86 ár. Torfbærinn þjónaði þó sínu hlutverki, allt frá upphafi landnáms. Hann tók breytingum og bæði byggingalag og gerðir voru mismunandi eftir landshlutum, einkum er fram liðu stundir.
Helsta vandamálið við torfbæinn var bleytan. Þegar lak inn í göngin þurfti að bera ösku á moldargólfið. Stundum lak þekjan og þá þurfti að ausa upp úr göngunum. Gera þurfti við þekjuna upp og eftir það var hún þétt. Fyrst var sett torf eins og venjulega og svo strengir yfir, það óx svo saman og myndaði eiginlega tvöfalda þekju. Eins voru settir strengir utan á veggina til að þétta. Bæjarþyrpingin var eilíf hringrás. Endurnýja þurfti a.m.k. eitt hús árlega. Hvert hús entist einungis í u.þ.b. tug ára.

Torfbær

Torfbær.

Annað vandamál var kuldinn. Það gat myndast hálka í göngunum þegar kaldast var. Í baðstofunni var kola, en undir það síðasta 20 línu lampi sem gekk fyrir olíu. Hana varð að sækja þegar sleðafæri var. Stærri lampar voru það stórir að þeir voru hengdir upp í loft. Minni lampar voru þannig að hægt var að ganga um með þá og leggja frá sér eða hengja upp. Þegar tréframgaflar komu með burstabænum á 19. og 20. öld voru fínu þiljustofurnar lítið notaðar á veturna því það var svo kalt.
Maturinn var einfaldur. Léleg lending var við flesta bæi og til að fá fisk voru höfð vöruskipti við bóndann þar mest bar úr bítum. Kýr var á bænum og mjólkurmatur unninn í hlóðaeldhúsinu.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – baðstofa.

Rúmin voru hlý og góð. Nokkur æðardúnstekja og önnur hlunnindi var á einstökum svæðum og dúnninn var notaður í yfirsængur. Einnig var notaður dúnn og fiður af sjófugli og rjúpu í kodda og undirsængur.
Klæðnaðurinn var sauðskinnskór og bandsokkar, prjónapils og skyrta úr ull. Yst var kjóll sem var gerður úr lituðum poka utan af hveiti eða haframjöli.
Þau daglegu verk sem sérhver þurfti að vinna var að kveikja upp eldinn, sækja vatn í lind sem í túnfætinum. Vatnið var geymt í fötum í eldhúsinu og þurfti síðan að sækja meira þegar vantaði. Fara þurfti út með skólp, hjálpa til með þvotta, standa og hræra í pottum í hlóðaeldhúsinu og eflaust hafa verkin verið fleiri. Enginn tími var fyrir leiki.

Bær

Í bæjargöngum.

Skólaganga barnanna var ekki löng. Í seinni tíma var stundum farskóli. Börnum var komið fyrir á bænum sem farkennarinn var á. Lexían var skrift, reikningur, lestur og kristin fræði og svolítil íslandssaga. Prófið kom að sunnan. Til var myndabók með biblíusögum. Skólinn var í u.þ.b. þrjá mánuði.
Framhliðin á burstabænum sneri í vestur. Margir sneru í suður því þá naut sólar lengur við. Þegar komið var inn í bæjardyrnar var stofa á hægri hönd og hún var þiljuð og máluð blá. Á stofunni var gluggi með sex rúðum. Glerið kom á 17. öld. Vinstra megin við bæjardyrnar var smíðaskemman þar sem hefilbekkurinn var. Þar inni var stigi upp á loft þar sem var geymsla sem lá yfir allt loftið í stofunni líka, þar var geymdur kornmatur og annað.

Bær

Bæjargöng.

Innar í bænum var komið að skellihurðinni og svo inn dimm þiljuð göng með moldargólfi. Þau lágu í austur-vestur. Fyrir endan á þeim var hlóðaeldhús með þremur hlóðum. Grind af gamalli eldavél var ofan á tveimur hlóðum en sú þriðja var til að baka á. Stór strompur var í eldhúsinu. Hann var gerður úr botnlausri tunnu. Eldhúsið var stórt og gott og þar var reykt kjöt upp í rjáfri. Þar var moldargólf og veggirnir ekki þiljaðir. Önnur göng voru sem lágu norður-suður. Þau voru þiljuð, en með moldargólfi. Þessi göng voru lengri en hin og gluggi á endanum sem lýsti þau aðeins upp.
Fyrst var komið að hlöðunni, þá að fjósinu sem rúmaði tvær kýr, og við endann var svo hesthúsið. Fyrir framan það voru tunnur þar sem hland var geymt í, svokölluð keytuker. Til móts við fjósið var stiginn sem lá upp í baðstofu. Svo var komið að búrinu og í endanum var kokkhúsið. Bæði búr og kokkhús voru frekar lítil. Í búrinu var súrmatur geymdur vegna þess að hann fraus ekki þar, líklega vegna hitans sem kom frá kokkhúsinu. Þar inni var Skandia eldavél sem gaf góðan hita. Öll neðri hæðin var vel manngeng.
Innangengt var allstaðar í bænum, líka í fjósið, hlöðuna og hesthúsið.

Fjós

Fjós.

Þegar gengið var inn í baðstofuna var komið í fremri baðstofu en inn af henni var svo hjónahúsið. Svefnpláss hefur ekki verið mjög mikið sem sést á því að krakkarnir voru látnir sofa í eldhúsinu á meðan mæðgurnar bjuggu þarna enn. Baðstofan var öll þiljuð með hefluðum fjölum úr rekaviði og í hjónahúsinu var skarsúð. Þar var gluggi sem var hægt að opna og einnig var gat í gegnum neðsta karminn og það hallaði út. Í því var korktappi sem hægt var að taka úr og hleypa út vatninu sem hafði myndast þegar hélan á rúðunni bráðnaði. Vatnið safnaðist saman því það var smá dæld næst glugganum og brík fyrir framan. Á fremri baðstofunni voru tveir litlir gluggar.
Bærinn var vel þiljaður enda rak mikinn við á land og einnig kork. Þegar að stóra trjáboli rak á land hjálpuðust mennirnir við að saga þá niður og skiptu þeim á milli sín.
Mikið var um ullarvinnu en ullin var unnin heima alveg frá því að hún var tekin af kindinni. Fyrst var togið tekið af og svo þelið, það var kallað þel það sem var undir toginu og það var kembt og spunnið og prjónað úr því. Þetta var vinnan sem fólkið var að gera á kvöldin. Úr þessu voru prjónuð nærföt og sokkar og illeppar, sem kallaðir voru, með rósum í, átta blaða rósum.
Á kvöldin voru oft kvöldvökur, sem kallaðar voru, og þá var lesinn húslestur og svo var spunnið og prjónað því þá voru nú allir sokkar prjónaðir og allir skór gerðir úr sauðskinni, bryddaðir. Það var bara sauðskinn sem var litað, það var litað svart og sútað, en þá var það lagt á klaka og rifið svo upp og teygt til. Þetta var lagt á klaka til þess að gera þetta mýkra þá fór svona einhver húð af skinninu og þetta var rakað. Þetta voru einu skórnir sem ég man eftir frá því að ég var lítil. Krakkar voru oft blautir í fæturna. Það var mikil vinna við þessa skó því að það þurfti oft að gera við þá.

Stóri-Nýibær

Nýibær í Krýsuvík.

Allir hjálpuðust að. Húsbóndinn las oft sögur fyrir fólkið á kvöldin. Húslesturinn var yfirleitt úr einhverjum helgibókum, en einnig úr fornsögunum. En húsbóndinn las einnig oft bara upp úr skáldsögum fyrir fólkið, bara svona til skemmtunar. Allt var saumað heima og prjónað á kvöldin þegar var búið að gera húsverkin.
Helsti maturinn var fiskur og kjöt og svo náttúrulega slátur og innmatur því að allur innmatur var hirtur þá, og svið. Hangikjötið var hengt upp innst í eldhúsinu, þar hékk það á slá efst upp í mænir í eldhúsinu og þar reyktist það bara með reyknum sem kom frá hlóðunum, þar sem að maturinn var soðinn á.
Einnig var fiskur þarna líka, saltaður fiskur og harðfiskur sem var hertur, en hann var hengdur upp í hjalla. Það var sáð miklum kartöflum, rófum og rabbabara. Í búrinu var geymdur súrmatur og einnig saltkjöt og söltuð svið. Kjötið var saltað og slátrið sett í súrt. Þetta var allt í trétunnum. Tunnurnar stóðu í röð á gólfinu. Í þessu litla búri var trégólf.
Þegar slátrið var tekið á haustin tóku allir þátt, því að það var allt saman tekið heim og unnið úr öllu. Allar garnir voru teknar heim og pilluð utan af þeim mörin og hún brædd. Fólk birgði sig upp á haustin, en ekki af kornmat og ekki hveiti og sykur og svoleiðis en allur svona algengur matur var tekinn í sláturtíðinni.

Torfbær

Torfbær.

Mikið var einnig unnið úr mjólkurafurðum. Úr mjólkinni var unnið skyr, smjör og ostar. Þetta var allt saman unnið heima. Þegar fólk vildi þrífa sig fór það bara í bað í stóra bala, þvottabala og þvoði sér upp úr þeim en þetta voru trébalar. Þegar fólk fór í bað voru trébalarnir bara settir í baðstofuna og hitað vatn og borið í.
Allur þvottur var þveginn upp úr trébölum og á bretti. Nálægt bænum var útikamar.
Þegar þrifið var, var bærinn sópaður eða göngin og þessi smá skot sem lágu út í hin herbergin eða út í fjósið og hlöðuna og geymsluna. Það var sópað með strákústa. Svefnloftið var þvegið upp úr sápuvatni og sandi og skúrað með fínum skelsandi eða fjörusandi. Þetta var gert eftir því sem að þurfti. Fyrir jólin var allt hreinsað og þá var til dæmis farið út með allar sængur og alla kodda og það viðrað.
Það var mikið talað um drauga í þá daga, en ekki draugagang.

Heimildir m.a.:
-idan.is
-khi.is

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.